Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bæn vikunnar

Eftir að elsta stelpan byrjaði í grunnskóla, hefur hún fengið svona A4 blað með sér heim í hverri viku sem inniheldur áætlun kennslukonunnar fyrir næst viku. Það er örugglega sniðugt fyrirkomulag, gefur manni tækifæri á því að vera með á nótunum hvað varðar hennar nám og svona.

Það sem hinsvegar kemur mér undarlega fyrir sjónir er sú staðreynd, að um 15% af þessu A4 blaði skuli vera lagt undir lið sem kallast bæn vikunnar.

Nú er stelpan ekki byrjuð að læra kristinfræði eða neitt svoleiðis, og þó svo væri, þá sé ég ekki tilganginn í því að hafa þennan áróður á blaði sem á að tengjast hennar námi. Ef hún væri í kristinfræði, þá mundi ég skilja það ef á blaðinu væru upplýsingar um hvaða blaðsíður ætti að lesa og jafnvel að nánari lýsing væri á því um hvaða fáránleika kristninnar ætti að lesa sér til um þessa vikuna, en eins og staðan er í dag, þá tengist þessi bæn vikunnar hennar námi ekki nokkurn skapaðan hlut.

Þessi bæn er því áróður með það að markmiði að innræta þá skoðun í börn að tilvera guðs sé jafn sjálfsögð staðreynd og þeirra eigin. Það er verið að sýna fram á að það sé eðlilegasti hlutur í heimi að trúa því að guð sé til. Þörfin fyrir þennan áróður er sprottin af þeirri staðreynd að til þess að trúa á guð, verður þú að læra það, það verður að innræta þér trú og það verður að gera það strax því skynsemin segir öllum nema uppgjafarölkum að guð sé ekki til þegar fólk er komið af bernskuskeiðinu.

Ég hef aldrei getað skilið hvað er svona rangt við það að foreldrar fái að ákveða hvort börn þeirra séu alin upp við kristni, búddisma, trúleysi, álfatrú eða hvað þetta heitir nú alltsaman og ég hef heldur aldrei skilið af hverju það er álitið gott mál þegar öfgatrúuð manneskja treður sinni trú upp á börn annarra. Það væri örugglega eitthvað sagt ef Vottur Jehóva væri að dinglast með sínar öfgar utaní börnum fólks í skólanum og mig minnir að uppi hafi orðið fótur og fit þegar Gunnar í krossinum var að heimsækja fermingarbörn og múta þeim með pizzum og kóki hér um árið. Samt sér enginn neitt athugavert við það þegar kennari dúndrar kristnum áróðri í 6 ára gömul börn...líklega af því að um ríkisáróðurinn er að ræða.

Rök þeirra sem finnst þetta allt í lagi eru í fullkomnu samræmi við það sem þeim hefur hingað til verið innrætt af hagsmunaaðilum. Þar sem þetta er bæði skoðun fjöldans og sérstaklega skoðun þess sem ver þennan áróður, þá er þetta í besta lagi. Eigingirnishugmyndafræði kristninnar kristallast í þeirri almennu viðurkenningu hinna kristnu á gegndarlausum áróðri sam-trúaðra, áróðri sem er farinn að beinast að börnum allt niður í tveggja ára, á sama tíma og áróður annarra er litinn hornauga. Það er merkilegt þegar maður pælir í því, að til þess að húkka einhvern á trú, þarf að velja fólk sem er veikt fyrir og getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Þannig ráðast sértrúarsöfnuðurnir að fólki sem á við erfiðleika að stríða, þess vegna er guðsríki hvítasunnumanna útvalið fyrir fyrrverandi alkahólista og álíka lið. Ríkistrúin ræðst hinsvegar að börnum í leik- og grunnskólum til að hala inn sína meðlimi.

Eina ástæðan fyrir því að ríkistrú á guð er til á Íslandi í dag er sú að fjögurra milljarða króna maskína fær óheftan aðgang að börnum í grunnskólum. Þessi sama maskína mútar og kúgar börn til að samþykkja sinn áróður. Margir segja að rík ástæða sé fyrir tilveru ríkiskirkjunnar, hún hjálpi svo mörgum og svo margir leiti til hennar, en sannleikurinn er sá að kirkjan hefur sjálf búið það fólk til sem leitar til hennar. Ef enginn væri trúin, þá færi fólk varla til prests til að leita sér hjálpar, ekki frekar en það fer til shaolin munks í dag. Þannig að meðalið helgar tilganginn í þessu tilviki. Áróðurinn er til þess að viðhalda meðlimum til að réttlæta tilveru starfa sem hafa engan raunverulegan tilgang, starfa sem í raun ættu að vera ólögleg þar sem þau ganga inn á verksvið fagstétta.

Nú veit ég ekki hvort bæn vikunnar sé skylda eða eitthvað sem kennaranum datt í hug. Ef kennari ákvað þetta með sjálfri sér, þá átta ég mig ekki alveg á af hvaða hvötum hún gerir þetta. Ég spyr mig að því hvort hún sé eitthvað að undirstrika hvað hún sé góð manneskja, hvort hún sé trúarnöttari sem líti á það sem heilaga skyldu að boða fagnaðarerindið eða hvað... en það breytir því ekki að slíkt trúboð sem beinist að börnum er einfaldlega rangt. Það vita það allir að börn líta upp til síns kennara og treysta því að það sem hann segir sé satt. Það er ekki nógu gott þegar kennari ákveður að misnota aðstöðu sína á þennan hátt sjálfri sér eða sinni hugsjón til framdráttar. Í mínum huga má kennari hafa hvaða trú sem hann vill, en hann á að hafa hana fyrir sjálfan sig og ekki að vera að troða sínum skoðunum inn á heimili fólks sem vill kannski ekkert með slíkt hafa að gera. Í þessu tilviki er kennari kominn út fyrir sitt verksvið, sem er í stórum dráttum að kenna sex ára krökkum að lesa, reikna og skrifa. Þetta er svipað, ef ekki verra, en ef ég splæsti sígarettum á unglingana í frímínútum, það er bara ekki eitthvað sem ég á að vera að gera og skiptir ekki máli hvort mér prívat og persónulega finnst sígarettureykingar vera eitthvað töff.

Fólk má alveg hafa sína ósiði fyrir mér, en það á ekki að troða þeim ofan í kokið á börnum sem skortir þroska og þekkingu til að greina rétt frá röngu.

Það hefur bara sýnt sig að trúboð ber árangur því hér á landi er fjöldi fólks sem er með þá hugmynd í höfðinu að eitthvað yfirnáttúrulegt hljóti að vera til. Því finnst það bara svo eðlilegt. En það er ekki eðlilegt, það er góður árangur skipulegs heilaþvottar milljarðabatterís.

Björn 05.02.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Carlos - 05/02/05 09:30 #

"Nú veit ég ekki hvort bæn vikunnar sé skylda eða eitthvað sem kennaranum datt í hug. Ef kennari ákvað þetta með sjálfri sér, þá átta ég mig ekki alveg á af hvaða hvötum hún gerir þetta. Ég spyr mig ..."

Er ekki eðlilegast að spurja kennara barnsins hvað hún eigi við og benda henni á að þér þyki þetta óviðeigandi?

"Fólk má alveg hafa sína ósiði fyrir mér, en það á ekki að troða þeim ofan í kokið á börnum sem skortir þroska og þekkingu til að greina rétt frá röngu."

Sammála. En það hefur reynst erfitt að sveipa börnin í bómullarhjúp og vernda þau frá því sem manni þykir óæskilegt. Því er nauðsyn á að maður fylgist með heima, standi fyrir opnum umræðum og kenni börnum sínum að hugsa sjálfstætt.

"Það hefur bara sýnt sig að trúboð ber árangur því hér á landi er fjöldi fólks sem er með þá hugmynd í höfðinu að eitthvað yfirnáttúrulegt hljóti að vera til. Því finnst það bara svo eðlilegt. En það er ekki eðlilegt, það er góður árangur skipulegs heilaþvottar milljarðabatterís."

Með öðrum orðum, fólk er forheimskað. Ég held þú ofmetir völd okkar, prestanna og milljarðabatterísins. En meðan þú býrð þér til hentungan óvin úr eigin fordómum, nærðu aldrei að slátra neinu nema strákörlum og missir marks. Þér væri nær að safna lögmætum umkvörtunarefnum og koma þeim frá þér á siðmenntaðan hátt. Sjá nánar á vef Siðmenntar:

Bréf til fræðsluráðs etc. og eyðublað og reynslusögur. Bendi jafnframt á að þar sem kirkjuheimsóknir skóla og leikskóla eru fyrirhugaðar eða heimsóknir presta og djákna eru fyrirhugaðar í skóla, þar er yfirleitt leitað heimildar hjá foreldrum viðkomandi barna, sbr. þessi færsla Matta Á.

Ég fyrir mitt leiti sé ekki hvernig svona mál ættu að verða óleysanleg, ef fólk umgegnst hvað annað af virðingu og kurteisi.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 05/02/05 10:54 #

Bendi jafnframt á að þar sem kirkjuheimsóknir skóla og leikskóla eru fyrirhugaðar eða heimsóknir presta og djákna eru fyrirhugaðar í skóla, þar er yfirleitt leitað heimildar hjá foreldrum viðkomandi barna
En staðreyndin er sú að í flestum tilvikum er ekkert val. Fólk getur valið hvort börn þeirra taka þátt í "hefðbundnu" starfi eða eru tekin út úr hópnum og látin gera eitthvað annað en "allir hinir". Sem foreldri veistu væntanlega að það er erfitt, ef ekki ómögulegt, að setja foreldra í slíka aðstöðu. Enda gafst ég upp. Hafði ég val?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/02/05 11:33 #

Ég held þú ofmetir völd okkar, prestanna og milljarðabatterísins.

Heldurðu það virkilega, Carlos? Þessi stofnun er allsstaðar inni á gafli með áróður sinn og afleiðingarnar eru þær að yfir 90% Íslendinga telja sig kristna,flestir þó án þess að vera það, því játningar kirkjunnar hugnast þeim ekki.

En yfirnáttúruna hafa menn keypt. Þetta fólk fer með Faðirvorið og aðrar bænir. Lífsskoðunarlöppin var á barnsaldri brotin.


Carlos - 05/02/05 16:14 #

"Hafði ég val?" spyr MattiÁ hér fyrir ofan.

Svar mitt er afdráttarlaust JÁ. Fólk á ekki að gefast upp, heldur eins og segir í sögu landsins, safna liði. Þú safnar þér ekki vinum með upphrópunum og sorakjafti, eins og þú gerir á bloggi þínu um leikskólaprestinn Bolla Pétur.

Já þú hefur meira val en þú heldur. Í stað þess að kalla dóttur þína tólf ára trúarnöttara (eins og þú gerir um daginn) gætirðu reynt að brjóta odd af oflæti þínu og stutt hana þangað til að hún áttar sig í hvorn fótinn hún vill stíga. Og styðja hana áfram þótt hún ákveði að verða ekki eins og pabbi sinn.

Þú hefur enn meira val. Með því að setjast niður með velviljuðu fólki (þótt það sé þér ekki sammála í trúmálum) má meira en vel vera að fundin verði lausn sem allir geta sætt sig við. En til þess þarf að vilja samræður - ekki battl af því tagi sem þú lætur frá þér fara á bloggi þínu og stundum hér.

Það sem ég sé á vantru.net er djúpstæð fyrirlitning á trúmanninum sem ekki lætur af trú sinni - sjálfsmiðaða löngun til að keyra andstæðinginn í svaðið. Með því dæmið þið ykkur rangstæða í hvaða alvarlegri samræðu sem er.


Bjoddn - 05/02/05 16:17 #

Carlos... þetta er akkúrat það sem ég er að tala um. Af hverju er kerfið þannig að ég þurfi að hafa fyrir því að halda trúboði frá mínum börnum? Af hverju er kerfið þannig að ég þarf að hafa fyrir því að skrá mín börn úr þjóðkirkjunni? Af hverju er kerfið þannig að kirkjan gerir það sem hún vill og sá sem er ekki sáttur þarf að hafa fyrir því að vernda sig og sína frá mannskemmandi áhrifum hennar?

Finnst þér eðlilegt að ég stofni tóbaksklúbb og hann síðan fari í herferð fyrir auknum reykingum grunnskólanema og ef þér líkar það ei, þá er það þitt mál að halda þínum börnum frá mér og mínum klúbb? Slíkur klúbbur væri bannaður hið snarasta, enda ekkert óeðlilegt við það, nema kannski að ég límdi mynd af Jesú á alla sígrarettupakkana, ég veit ekki sko...

Ég hef ekkert á móti því að beina mínum börnum á réttan veg og reyna að halda þeim frá óæskilegum hlutum. Maður hefði nú samt haldið að maður þyrfti ekki að passa þau fyrir ríkisstarfsmönnum, ég hélt að áhyggjurnar yrðu af völdum dópsala, níðinga og álíka ómennum, en staðreyndin er samt að fólk, sem annars er í þokkalegum tengslum við veruleikann, umturnast gjörsamlega þegar að guðadæminu kemur og sér ekkert að því að troða sínu bulli á mig og mína, án þess að svo mikið sem að láta sér detta í hug að spyrjast fyrir um hvort ég sé eitthvað sáttur við það eður ei.

Ef þú vilt vera trúaður, þá bara þú um það. Ef þú vilt að fólk geti leitað til þín, þá bara þú um það, ég get ekki sett út á þinn lífsstíl svo lengi sem hann hefur ekki slæm áhrif á mig og mína. Ég skil samt ekki af hverju viðhorf kirkjunnar manna og þeirra fygjenda er alltaf á þann veginn að þeir eigi að fá að vaða uppi með það sem þeir vilja og það sé síðan mitt hlutverk að vera á sífelldu varðbergi, að láta skrá úr þessu og hinu, passa upp á þetta og hitt.

Gargandi dæmi um það er skráning mín og minna barna í þjóðkirkjuna. Af hverju er það málið að ég þurfi að skrá mig úr þeim klúbbi?... það er ekki eins og ég hafi haft fyrir því að skrá mig í hann að fyrra bragði.

Af hverju hefur þú ekki bara miðstöð þar sem fólk getur komið ef það vill?... jú, þú hefur svoleiðis miðstöð... það er bara ekki nóg fyrir þig því orð mín eru rétt, fólk leitar ekki eftir guði að fyrra bragði, það veist þú og vilt þess vegna réttlæta áróður þinn til barna. Það er lífsspursmál fyrir þig og þína stétt að koma þeirri hugmynd inn í sem flesta að guð sé til, a.m.k. eitthvað yfirnáttúrulegt, því án slíkrar trúar hefur þú ekkert djobb. Það missir því marks að blaðra um andlega heill og sálnabjörg eða hvað þið viljið kalla þetta, þegar augljóst er að án áróðurs og án ríkisstyrkja, missir þú vinnuna. En kannski er gríðarleg eftirspurn eftir guðfræðimenntuðum á hinum almenna vinnumarkaði... ég veit það ekki. Þú kannski getur unnið við stjórnun eða eitthvað svoleiðis. Mér skilst að einn guðfræðimenntaður hafi náð ágætis árangri í blaðaútgáfu...

Það er óeðlilegt samfélag í mínum huga þar sem rútur eru greiddar fyrir leikskólabörn svo þau komist í kirkjur um jólin, en foreldrafélag borgi rúturnar í sveitaferðir fyrir sömu börn, svo þau geti komist í tengsl við eitthvað uppbyggjandi, hollt og gott. Ríkið borgar fyrir lygaáróðurin en foreldrar fyrir uppbyggilegheitin. Það er óeðlilegt að foreldrar standi stoltir þegar sömu leikskólabörn ganga um í laki og með kerti og syngi einhvern sankta lúsíusöng einu sinni á ári af því að leikskólastjóri átti einhverntíman heima í Svíþjóð eða eitthvað.

Mér finnst ég ekki vera að fara fram á mikið. Í mínum huga mátt þú alveg hafa þína vinnu við að gera ekki neitt með tónun og fagurgala, fólk má alveg leita til þín ef það vill og það má alveg vera í stuði með guði á hverjum sunnudegi ef það svo kýs. En láttu mig, mitt fólk og mína buddu í friði maður... er það til of mikils mælst?

Það að ég skuli þurfa að vera að kljást við átroðning þinna líka er eitthvað svo... 18. aldar eitthvað....


Bjoddn - 05/02/05 16:36 #

p.s. Er það ekki áróður að fylla auglýsingatöfluna í Rimaskóla af plaggötum frá kirkjunni? Af hverju má kirkjan auglýsa en ekki Vífilfell? Er það af því að "fagnaðarerindið" um fjöldamorð hinna trúlausu í náinni framtíð er svo uppbyggilegt eða eitthvað þannig?

Eða er það kannski málið að svoleiðis hlutum er haldið frá börnum á þessum aldri því það er betra að húkka þau fyrst áður en þeim eru settar reglurnar?

Er það ekki óeðlilegt að leikskólabörnum sé mútað til að hlusta á áróður kirkjunnar manna með Bárði og Birtu?

Þetta er bara svo skrítið alltsaman... ég sé ekki tengslin við kærleikann þarna sko...

Af hverju er það mitt að vernda mitt fólk fyrir heilaþvotti en svo er Vífilfelli bannað að auglýsa sínar vörur í skólanum af því að ríkið vill vernda mín börn fyrir þeim áróðri?

Eru skemmdar tennur svona mikið verra mál en bæld hugsun og heiladauð hlýðni við verur sem eru ekki til? Nei... þetta er bara enn eitt dæmið um árangur heilaþvottaaðgerða kirkjunnar manna.

Staðreyndin er sú að hvorugur aðilinn ætti að vera að auglýsa þarna.

Vífilfell fær væntanlega ekki að auglýsa af því að fólk veit að börn eru áhrifagjörn. Þið vitið það líka og þess vegna er ykkur annt um að fá að dæla áróðrinum óáreittir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.