Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Töframenn

Það kemur kannski einhverjum á óvart en við hér á Vantrú lítum á töframenn sem einhverja helstu bandamenn okkar í baráttunni gegn hindurvitnum. Töframenn starfa við að blekkja fólk en þeir eru heiðarlegir, þeir eru einfaldlega skemmtikraftar og þykjast ekki vera meira en það.

Það eru hugsanlega einhverjir sem hugsa um sviðstöframenn og síðan “alvöru” töframenn eins og það sé til eitthvað sem heitir töfrar og síðan eitthvað sem eru gervitöfrar, töfrar eru í raun bara blekkingarleikur. Það eru til nokkrar tegundir af töframönnum, sjónhverfingamenn þekkja allir en síðan eru líka til þeir sem ég hef kosið að kalla hughverfingamenn. Hughverfingamenn spila með hugi fólks, þeir nota háttlestur og fleiri aðferðir til að plata fólk. Íslendingar ættu að kannast við hughverfingamanninn Derren Brown og þætti hans sem sýndir hafa verið á Stöð 2. Í raun eru skilin á milli þessara tegunda töframanna afar óskýr og margir þeirra nota bæði aðferðir sem heyra undir sjónhverfingar og hughverfingar.

Það mætti segja að miðlar séu í raun hughverfingamenn sem segjast hafa dulræna hæfileika. Miðlar geta bæði verið einlægir og óheiðarlegir en ekkert bendir til þess að þeir hafi nokkra yfirnáttúrulega hæfileika, þeir sem eru einlægir blekkja einfaldlega sjálfa sig líka. Til eru hughverfingamenn sem hafa snúið baki við heiðarlegum blekkingum og gerst miðlar (farið yfir til myrkrahliðarinnar eins og það er kallað), það er líka þannig að yfirleitt þarf minni hæfileika til að komast áfram í miðlabransanum heldur en töframennskunni.

Í gegnum tíðina hafa töframenn verið duglegir við að afhjúpa svik miðla. Á fyrri hluta síðustu aldar þegar miðlar ferðuðust um og komu fram á sýningum þá var ekki óalgengt að töframenn af svæðinu settust í fremstu röð til að koma auga á blekkingarnar (þá notuðu miðlar líka meira af sjónhverfingum). Harry Houdini er líklega frægasti töframaður allra tíma en hann var líka frægur fyrir að afhjúpa blekkingar miðla og bauð peningaverðlaun til að lokka miðlana til sín.

Í seinni tíð hefur töframaðurinn James “The Amzing” Randi verið frægur fyrir verðlaun sem hann hefur boðið hverjum þeim sem geta gert eitthvað sem telst yfirnáttúrulegt við “stýrðar aðstæður”, verðlaunin er nú ein milljón dollara og eru alveg örugg þó ótal manns hafi reynt við þau. Derren Brown hefur líka sviðsett miðilisfund í því skyni að sýna fólki fram á hve auðvelt er að plata fólk. Síðan má nefna félagana Penn & Teller sem hafa tekið fyrir ýmsa loddara í sjónvarpsþáttum sínum

James Randi hefur líka eytt töluverðum kröftum til að sýna fram á blekkingar skeiðabeygjarans Uri Geller sem var mjög frægur hér árum áður. Töframenn hafa líka beint sjónum sínum að indverska “guðinum” Sai Baba og bent á að kraftaverk hans séu í raun ekkert nema sjónhverfingar.

Töframennirnir veita okkur ekki einungis innsýn inn í svikahrappa nútímans heldur gefa þeir okkur hugmynd um það hvernig trúarbrögð hafa orðið til, það hefur ekki þurft meira en hæfileikaríkan sjón- eða hughverfingamann til að gera þau kraftaverk sem Jesú á að hafa framkvæmt (þó líklegra sé að kraftaverkasögurnar séu uppspuni).

Á morgun verður sýndur fyrirlestur James Randi þar sem hann lýsir skiptum sínum við svikahrappa.

Á næstunni muna nokkrir töframenn að sýna listir sínar á Íslandi. Þeir sem kíkja þangað ættu að spyrja sig hvort þessi sjónhverfingamenn gætu ekki blekkt pening úr saklausum borgurum ef þeir kysu að starfa á óheiðarlegan máta.

Óli Gneisti Sóleyjarson 24.01.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.