Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúboð Þjóðkirkjunnar

Fyrir nokkru sá ég þáttinn Fólk með Sirrý á Skjá einum. Eitt atriðið var að börn, ca. 5-8 ára, voru látin rifja upp jólaguðspjallið. Sætt og krúttlegt. En ekkert barnanna efaðist um sannleiksgildi sögunnar. Er þó margt í henni með þvílíkum ólíkindablæ að hún stenst engan veginn gagnrýna hugsun.

Þjóðkirkjan hefur í auknum mæli snúið sér að börnum. Trúboð Þjóðkirkjunnar gagnvart þeim hefur þrjú einkenni:

  1. Blinda trú. Prestar passa það að opna enga möguleika á nokkrum vafa. Þeir passa það vel að lesa bara valda kafla úr Biblíunni fyrir börnin. Börnunum er sagt frá Jesú og fæðingu hans, en engu því sem gæti fengið þau til að efast. Þeim er sagt frá Nóa og flóðinu, en steinþagað er yfir ódæðisverkum sem Gamla-Testamentið segir að Guð Íraels hafi átt þátt í og jafnvel frumkvæði að. Börnum er ekki sagt frá hinum smásmugulegu bönnum Guðs gegn áti tiltekinna fæðutegunda og gegn tilteknum klæðaburði. Þeim er ekki sagt frá hinum hefnigjarna Guði sem lætur fólk deyja fyrir það að gera ekki það sem hann vill.

  2. Mútur. Þar horfi ég meðal annars til þess gjafaæðis sem einkennir jólin. Og fermingin er orðin að kennslu í mútuþægni. Trúin er orðin föl fyrir Playstation 2 og iPod. Og prestarnir taka þátt í þessu og kynda undir.

  3. Félagslegan þrýsting. Frá skyldfólki, kennurum og öðrum sem barnið virðir. Hvað á 5-8 ára barn að segja ef það er spurt; “Ætlarðu að eyðileggja jólin fyrir henni ömmu þinni með því að afneita Jesúbarninu?”. Halda menn að það geti varið sig með því að benda á innbyrðis ósamræmi í Biblíunni? Að það geti bent á þann ólíkindablæ sem er víða í frásögn bæði í Gamla og Nýja Testamenti? Að það geti bent á tiltekna staði í Gamla-Testamentinu þar sem segir frá margvíslegum illvirkjum sem Guð er sagður hafa framið? Eða bent á að fæstir Íslendingar, hvort sem þeir segjast vera trúaðir eða ekki, fara eftir hinum smásmugulegum fyrirmælum Guðs í klæðaburði, fæðuvali eða öðrum lífsháttum? Nei, þetta getur 5-8 ára barn ekki. Það hefur ekki þroska og kunnáttu til þess.

Á vefsíðu Þjóðkirkjunnar má finna predikun sem var flutt í Hallgrímskirkju þann 2. janúar s.l. merkt Átök. Þar líkir presturinn, séra Sigurður Pálsson, öllum þeim sem efast um framgöngu Þjóðkirkjunnar við barnamorðingja. En eru þeir betri sem, í krafti trúar á yfirnáttúrulegar verur sem ósannað er að séu til, neyða skoðanir upp á ung börn sem hafa engar forsendur til að vega þær og meta sjálf? Er ekki nær að líta svo á að þeir sem taka gagnrýna hugsun og upplýst val í trúmálum frá börnunum séu sekir? Að prestar Þjóðkirkjunnar séu hinir eiginlegu „barnamorðingjar“ samtímans?

Jón Einarsson 22.01.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Solgar - 22/01/05 16:43 #

Góð grein. Það má benda á að í aðalnámskrá grunnskóla stendur

"Almenn menntun á að efla gagnrýna, sjálfstæða hugsun hjá einstaklingum"

samt er þessari órökstuddu dómadagsþvælu um Krissa & co. troðið ofan í kokið á ungum börnum (á þeim aldri sem er einmitt tilbúinn að trúa ýmsu sem við sem eldri erum vitum að er tilbúningur) í öllum grunnskólum landsins og hampað sem sannleik, gagnrýnislaust. Þarna er greinilega e-ð að. Verst að skólayfirvöld virðast ekki sjá það.

P.S. hvernig væri að fá umræðuþátt um þetta í sjónvarpi, með Vantrúarmönnum, guðsmönnum og skólamönnum. Ég myndi horfa.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 22/01/05 21:08 #

Góð hugmynd. Það er kannski hægt að plata Kastljós í að velja saman einhverja?


Solgar - 22/01/05 21:34 #

Já. Ég sting upp á Birgi og frelsaranum vs. Karli biskupi og Sigurði Páls. Bara uppástunga.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/01/05 00:47 #

Ég er hræddur um að Frelsarinn komi ekki svo glatt út úr skápnum, en það mun ekki standa á mér, ef fjölmiðlar kjósa að gefa okkur breik.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.