Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Læknar á röngu róli

Á baksíðu Moggans í fyrradag getur að líta frétt um setningarathöfn Læknadaga. Fram kemur að tveir menn hafi haft þarna framsögu, þeir Snorri Ingimarsson læknir og Sigurbjörn Einarsson biskup.

Ég spyr mig í fúlustu alvöru. Hvað í ósköpunum var verið að draga biskupinn þarna upp á svið? Síðan hvenær hefur ástundun kristinnar trúar átt eitthvert erindi við framfarir og þekkingu?

Þegar kirkjan hafði veraldlegt vald stóð hún endalaust í vegi fyrir framförum í læknavísindum, en tefldi í staðinn fram brjálæðislegum aðferðum sem áttu meira skylt við pyntingar en lækningar. Aðallega voru menn í því að reka út illa anda í stíl við Jesú frá Nasaret. Ég held að Níels Dungal hafi orðað þetta hvað best þegar hann segir í Blekkingu og þekkingu:

Hver einasti læknir, sem hefir augun opin, gerir sér ljóst hve fyrirhafnarsamt það er að öðlast þekkingu um starfsemi mannslíkamans. Og hver einasti menntaður læknir veit, að engin framför hefir nokkurntíma orðið á því sviði nema fyrir einbeitingu á athugun, gagnrýni, vinnu og þolinmæði. En að öll afskipti trúarbragða af heilbrigðismálum, sem í gegn um aldirnar hafa verið mjög mikil, hafa, eins og allt annað sem er byggt á fáfræði og blekkingum, reynst lítilsvirði og ekki komið að gagni við lækningu á nokkrum sjúkdómi.

Kirkjan stóð í vegi fyrir krufningum, svæfingum og deyfingu, bólusetningum og flestu öðru sem fleygt hefur þekkingu okkar og velferð fram á veg. Það var ekki fyrr en hún tapaði hinu veraldlega valdi að hún lét sér segjast, einbeitti sér að yfirráðum yfir hugum manna í staðinn.

Þetta eiga læknar að vita og muna. En nú, árið 2005, er það staðreynd að biskup Þjóðkirkjunnar er sóttur til að standa í pontu og fjasa um sálarlífið eins og sá sem vit hefur. Hvað á hann annars við þegar hann talar um að sinna sálarlífinu? Er hann að tala um sálina, eins og kristnir menn skilja hugtakið? Er hann þá að tala um bænagjörð og iðrunarkjökur sál þessari til handa? Þessa skammvinnu friðþægingu sem trúgjarnir sækja stöðugt í eins og dóp? Eða er hann að tala um sálarlífið í sálfræðilegum/geðlæknisfræðilegum skilningi? Hvor merkingin sem uppi er breytir ekki því að hann á ekki nokkurt erindi þarna upp á dekk. Sé hann að tala klínískt er hann að troða sér inn á svið sem hann hefur ekki vit á og ætti ekki að skipta sér af. Ef hann er að tala um yfirnáttúrlegu sálina hans Guðs ætti hann að gera það annarsstaðar en inni á þingi vísindamanna.

Það er sorglegt til þess að vita að læknavísindin séu með þessum hætti að binda trúss sitt á ný við tilbeiðslu hindurvitna og annars óráðshjals. En þetta er víst tískan í dag.

Birgir Baldursson 20.01.2005
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


G2 (meðlimur í Vantrú) - 20/01/05 10:26 #

Það er etv. ekki eins undarlegt og virðast má að biskup skuli blaðra yfir læknum á ráðstefnu hinna síðar nefndu. Sumir læknar eru nefninlega með þeim ósköpum gerðir að líta á sig sem almáttuga og jafnvel í guðatölu. Þeim er líkt farið og kirkjunar þjónum að allri gagnrýni eða efasemdum um ágæti þeirra er mætt af fullkomnum hroka.

Auðvitað ætti biskup aldrei að koma nálægt nokkru sem tengist heilbrigðri hugsun, þar sem hann hefur ítrekað sýnt og sannað að um slíkt er hann allsendis ófær. En hann er seigur kallinn að mylja undir sig og sína.


marco - 20/01/05 10:28 #

Þvílíkur öfgaþvættingur.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 20/01/05 10:36 #

Hverjar eru öfgarnar???


Jón Ómar - 20/01/05 11:25 #

Hvers vegna eru menn að skirfa undir einhverjum dulnefnum í athugasemdir? Hver er G2? Og hver er Marco?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 20/01/05 12:02 #

Jón Ómar, þú þarft að vera duglegri að lesa, G2 kynnti sig hér.


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 20/01/05 13:26 #

Kirkjan er einfaldlega að reyna sitt besta að koma sér á framfæri. Þetta hörmulega læknaþingsklúður og Mogga pr. er bara enn eitt gott dæmi slíkt. Samhryggist öllum læknum sem þurftu að hlusta á þessa þvælu og á síðu Moggans hafi verið byrt mynd af gömlum presti en ekki lækni. Þetta snérist úr því að vera læknaþing í þjóðkirkju sýningu.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 20/01/05 14:27 #

Þvílíkur öfgaþvættingur.

Svei mér innihaldsríkt innlegg og vel rökstutt.

Annars tek ég undir að það sé gagnrýni vert hvernig læknar eru stundum hafnir upp á stall, ýmist af sjálfum sér eða leikmönnum. Læknisfræði er vísindagrein, ekki trúarbrögð, og læknar eru mennskir og mismunandi eftir því.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/01/05 15:05 #

Mennskir já. Það sýnir sig best í því hve ófaglegir þeir geta orðið þegar velja skal ræðumenn á opnun Læknadaga.


Svanur Sigurbjörnsson - 20/01/05 17:37 #

Ég er sammála fyrsta ræðumanni. Ég er læknir og tel að fulltrúi þjóðkirkjunnar eigi ekkert erindi á fræðsluþing burt séð frá því hvað hann hafi að segja. Afstaða manna í trúmálum almennt er mjög lin og "vinir" okkar í Þjóðkirkjunni virðast víða velkomnir. Mér brá nokkuð þegar ég var á kandidatsári 1995 að það var sjúkrahúsprestur sem að hafði "viðrunar" fund með unglæknum mánaðarlega. Mér leist satt að segja ekkert á það en svo kom í ljós að presturinn minntist ekki einu orði á trú eða heilaga þrenningu alla þá fundi (líklega 4-5) sem að ég sat. Til hvers fara ekki svona prestar hreinlega bara í sálfræði í HÍ? Til hvers að halda í einhvern veikan trúþráð þegar búið er að viðurkenna í verki að "sáluhjálp" og boðun "bæna" er ekki lengur boðlegt? Ég skora á þessa ágætu presta að henda hempunni og gerast borgaralegir leiðbeinendur.

Það sló mig einnig að í þessari baksíðugrein Mbl skyldi ekki vera mynd af þeim ágæta geðlækni og krabbameinssérfræðing Snorra Ingimarssyni enda fjallaði nær allt í greininni um ræðu hans. Þess í stað var óvenjuleg viðvera biskups látin bera meiri athygli með mynd af manni sem að við öll höfum séð hundruðum skipta.

Það er sorglegt að læknar láti fulltrúa trúarbragða hola sér inn í stofnanir sínar og fræðsluþing. Hafa menn virkilega ekki fengið nóg af trúarbrögðum eftir 9/11/2001?


Snær - 20/01/05 23:41 #

Svanur Sigurbjörnsson skrifaði: "Hafa menn virkilega ekki fengið nóg af trúarbrögðum eftir 9/11/2001?"

Úff, nei, því miður.

Það er þá helst að fólk álíti að það öfgatrúaða fólk sem gerir svona séu svartir sauðir, þegar kemur að trúarástundun.

Sem er reyndar ekkert svo rangt álit, að mínu mati.

Svanur Sigurbjörnsson skrifaði: "Það er sorglegt að læknar láti fulltrúa trúarbragða hola sér inn í stofnanir sínar og fræðsluþing."

Þetta er þessi leiðinlega tilhneiging til þess að leyfa fulltrúum þjóðtrúar hvers staðar fyrir sig að komast greitt inn í bæði fréttaflutning og svo ýmisskonar umræðuvettvanga, jafnvel bjóða þeim sérstaklega, þrátt fyrir að þeir hafi lítið eða ekkert gert til þess að verðskulda athyglina sem þeim er gefin.

Hvað kemur næst? Hómópatar í ræðustóla á læknaþingum? Stjörnuspekingar að gefa fyrirlestra á stjarnfræðiráðstefnum?

Mér þykir þessi tvö dæmi álíka viðeigandi og vera þessara prests sem sérstakra gesta í þessari setningarathöfn. En lukkulega fyrir alla sem láta sig málið varða virðist það ólíklegt, enn sem komið er.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 21/01/05 01:12 #

Það væri líka hægt að bjóða presti á ráðstefnu stjörnufræðinga. Ef hann er fulltrúi gaursins sem skapaði þetta allt saman, þá hlýtur hann að geta svarað nokkrum vel völdum spurningum sem vísindamenn hafa ekki fundið svör við ennþá.


Sævar (meðlimur í Vantrú) - 21/01/05 12:11 #

Það væri líka hægt að bjóða presti á ráðstefnu stjörnufræðinga.

Það fór eitt sinn fram ráðstefna stjarneðlisfræðinga um tilurð og þróun alheimsins, sem væri ef til vill ekkert sérstaklega merkilegt nema fyrir þær sakir að hún fór fram í Vatikaninu. Páfinn skildi ekkert í því sem þar var rætt um, sem betur fer sögðu sumir stjörnufræðingar, enda var verið að benda á guðlausan alheim í sumum fyrirlestrum.


Svanur Sigurbjörnsson - 21/01/05 17:01 #

He he, já líkingin um að þetta væri líkt og að bjóða presti á þing stjörnufræðinga er góð. T.d. einhverjum ayatolla því að muslimar hafa 7 hæðir á himnum (sbr. að vera í sjöunda himni). Það ætti að vera sjöföld ástæða eða hvað???


Lárus Páll Birgisson - 22/01/05 04:17 #

Birgir, rosaleg fortíðaþrá er þetta hjá þér. Ég verð nú að viðurkenna að ég hef ekki mikið orðið var við pyntingar í kópavogskirkju..... allavega ekki síðustu árhundruðin.

Það er svo merkilegt við málfluttning vantrúarseggja að tala alltaf um kirkjuna eins og hún var fornöld, þegar menntun og almenn þekking voru ekki uppá marga fiska. Að vera að tala um Sigurbjörn Einarsson í sömu andrá og talað er um pyntingar.... eins og málefnin tengist eitthvað.. er út í hött.

Flestir skynsamir menn mundu nú taka því fagnandi þegar hin "grimma pyntingarkirkja" geti nú loksins tekið höndum saman með læknisfræðinni..... en ekki Birgir, til þess hann of bitur.

til að undirstrika má mitt skal ég koma með samsvarandi málfluttning: Bitur maður: "Hvað eru Íslendingar að þykjast vera með því að kaupa auglýsingu í NYT til að mótmæla stríði? Ég veit ekki betur en að það voru einmitt Íslendingar sem börðust í Örlygstaðarbardaganum?"

Þannig að þú skilur Birgir að týna til einhverja forneskju virkar bara ekki þegar við ræðum um málefni dagsins í dag.

annað dæmi:

"Birgir er nú meiri pervertinn. Hann sýgur brjóstin á mömmu sinni."

Hér er fortíðin fléttuð saman við nútímann og útkoman er ekkert sérstaklega rökræn eða skynsamleg, ég held þú getir verið sammála um það.

Lalli


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/01/05 05:07 #

Lalli minn, þú ert voða duglegur að misskilja málflutning minn, viljandi eða óviljandi. Taktu nú eftir:

Ég er að gagnrýna að læknasamkunda kalli til presta og biskupa. Af hverju? Jú, vegna þess að prestar og biskupar hafa ekkert þar til málanna að leggja af viti. Þetta er sú stétt sem, þegar kemur að heilbrigðismálum, hefur einungis boðið upp á óhugnað og staðið í vegi fyrir framförum. Það að kirkjan sé í dag hætt afskiptum af heilbrigðismálum gerir þjóna hennar ekki par hæfari til að fjölyrða um þau mál, þótt þú reynir að láta að því liggja.

Lestu aftur yfir tilvitnunina í Dungal hér að ofan. Og aftur. Og aftur. Og reyndu nú að skilja hvað ég er að fara.


Lárus Páll Birgisson - 22/01/05 05:53 #

Birgir, kannski er Dungal kallinn ekki eins klár og þú heldur.... eða þá að hann sé að tala um allt aðra hluti en þú.

Nú spyr ég: Var Sigurbjörn Einarsson að reyna að lækna einhvern á þessari samkundu?

Var Sigurbjörn kannski að fá lækna ofan af aðferðum sínum í skiptum við eitthvað annað?

Var Sigurbjörn á einhvern hátt að gera lítið úr læknavísindunum eða vísindum almennt?

Það að Prestur tali við lækna er bara ekki eins skelfilegt og þú virðist trúa. Ekki frekar en að það sé óæskilegt að tölvunarfræðingur tali við smiði.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/01/05 07:31 #

Sigurbjörn var þarna, í fullkomnum amatörisma, að fjasa um sálarlífið eins og hann ætti eitthvað með það, frammi fyrir mönnum sem sumir hverjir eru sérmenntaðir í hinu mentala.

Sérðu ekki að maðurinn átti ekkert erindi þarna. Þú nefnir smiði og tölvunarfræðinga. Af hverju ætti Þjóðkirkjumaður frekar að koma fram á þessari opnun en t.d. smiður eða tölvunarfræðingur? Af hverju Þjóðkirkjumaður fremur en tónlistarmaður eða trúleysingi? Svaraðu því.


Lárus Páll Birgisson - 24/01/05 06:10 #

Kannski vegna þeirrar staðreyndar að 90% af skjólstæðingum sjúkrahúsanna er þjóðkirkjufólk!

Annars þykir mér nokkuð skondið að sjá þig, Birgir, tala um sálarlífið. Ég var farinn að hallast að því að þú tryðir ekki á svoleiðis vitleysu. Vekur óneitanlega upp spurningar um stöðu "sál"fræðinga í þínum hugarheimi.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 24/01/05 11:09 #

Kannski vegna þeirrar staðreyndar að 90% af skjólstæðingum sjúkrahúsanna er þjóðkirkjufólk!
Hvað í ósköpunum hefur það með málið að gera?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/01/05 14:06 #

Það vill svo til, Lárus Páll, að orðið sál hefur í íslensku fleiri merkingar en þessa einu sem þú einblínir á. Það er rétt að ég trúi ekki á tilvist hinnar vítalísku sálar, en þegar orðið er notað um andlega þætti mannskepnunar, eins og t.d. í samsetningunni sálarlíf, eru efasemdir mínar varla nokkrar.

Í fyrsta sálfræðitímanum sem ég mætti í í MH, þá 16 ára gamall, var byrjað á að tala um hugtakið sálfræði og þeirri retórísku spurningu varpað fram hvort þetta væri fræðigrein um sálina í trúarlegum skilningi. Því var svo strax svarað með þeim orðum að fæstir sálfræðingar gerðu ráð fyrir því að maðurinn hefði sál, heldur væri hér átt við hina hugrænu þætti mannsheilans.

Dálítið sjokk fyrir mig þá, því ég hélt að sálfræði væri dularsálfræði og þarna væri ég mættur til að læra um esp, ósjálfráða skrift, miðla og þar fram eftir götum. En ég komst svo strax að því að þessi fræði voru ekki síður merkileg fyrir það sem þau voru.

Taktu eftir því að ég spyr í greininni hvort biskup hafi átt við hina vítalísku sál, eða þessa hugrænu þætti. Hvort heldur sem er þá á þessi fúskari á lendum sálarlífsins ekkert erindi inn á þetta þing, haldandi að maðurinn hafi vítalíska sál og kannski með þær hugmyndir að sálfræðingar séu útlærðir í sálinni hans Guðs.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.