Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þjóðkirkjan - Veisluþjónusta Ríkisins

Það er ákveðin þversögn fólgin í því að meirihluti landsmanna vill aðskilnað ríkis og kirkju, en á sama tíma eru flestir skráðir í þjóðkirkjuna og greiða til hennar sóknargjöld. Þetta stafar augljóslega ekki af trúrækni eða fylgispekt við kenningu kirkjunnar því sé hinn almenni borgari þýfgaður um trúmál verður fátt um svör. Flestir koma með margtuggnar klisjur á borð við 'ég hef mína barnatrú' eða 'ég trúi á eitthvað gott/æðra', en játa jafnframt að kirkjan sem stofnun sé þeim lítt að skapi. Hér má eflaust kenna um sinnuleysi fólks, stöðugum áróðri kirkjunnar og fastheldni á hefðir, hversu kjánalegar sem þær eru. En hér kemur fleira til.

Í hugum margra er greinilegt að kirkjan ekkert annað en hluti af 'pakkanum' þegar gera þarf sér dagamun. Hægt er að taka sem dæmi flestar kirkjulegar athafnir þessu til stuðnings, aðrar en hinar þreyttu messur sem enginn nennir að sækja. Þegar kemur að nafngjöf eru flestir sem láta skíra börnin sín vegna þess að það þykir tilhlýðilegt sem hluti af því að halda upp á nafngjöfina með vinum og vandamönnum.

Trú kemur þarna lítt við sögu, heldur er hér um að ræða venju til að fá n.k. ástæðu eða jafnvel leyfi til að halda veislu. Sama með brúðkaup. Fyrst er farið í kirkju og síðan veisla. Brúðurin í hvítu að jafnaði, en það á víst að tákna sakleysi og mun vera merki um óspjallaðan meydóm, brúðguminn í kjól og hvítu og allir ægilega hátíðlegir í framan. Dytti einhverjum í hug að fara til sýslumanns í svona múnderingu til að láta splæsa sig saman? Fermingar þarf ekki að ræða, allir sjá í gegnum þann skrípaleik sem vilja.

Neskirkja hefur nú gengið skrefinu lengra í veisluþjónustunni og hefur nýverið reist safnaðarheimili (sic), sem mun án efa hafa viðskipti af sjálfstæðum veislusölum og kaffihúsum sem ekki eru rekin og byggð fyrir skattfé almennings. Það fer e.t.v. að verða tímabært að mennta presta landsins í bakstri og matargerð til sinna þessari köllun og kröfum samtímans um almennileg partý.

Guðmundur Guðmundsson 18.01.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 18/01/05 00:19 #

Neskaffi, hmm?


Jóhanna - 18/01/05 15:14 #

Mikið til í miklu af þessu, Guðmundur. Niðurstöður þínar eru líka í sama dúr og niðurstöður trúarlífskönnunnar Íslendinga sem var gerð um 1990. Margt fólk fer í kirkju - ekki af trúarþörf, heldur aðeins við tækifærin sem þú telur upp og af vana.

Sum brúðkaup ættu betur heima á Broadway, miðað við "showið" sem sett er upp.

Fermingarnar eru hálfgert fiaskó, því miður. Farnar úr böndum af ýmsum orsökum. Ekki er hægt að fermast nema fara í ljós, strípur o.s.frv. Foreldrarnir kvíða fyrir stórum veislum og útgjöldum.

Trúin er hornreka. Guð gleymist.

Það eru til þreyttar messur og frískar messur, hef prófað bæði.

Hef ekkert komment um Neskirkju, er ekki búin að lesa Moggann.

Var annars búin að kveðja þennan (vantrúar)heim :) Góðar stundir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.