Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Biskup ætlar í mál við þig

Biskup ætlar í mál við íslensku þjóðina. Í hans munni heitir það reyndar að fara í mál við „ríkið“. Við skuldum honum, að sögn, umtalsverðar fjárhæðir, sem nú skulu sóttar með dómsvaldi. Ætli biskup og kirkjan hans, þessi biðjandi, boðandi, telji sig ekki hluta þjóðarinnar? Nú er hann búinn að biðja Björn aðstoðarbiskup Bjarnason um offjár, en bíður nú ekki lengur boðanna að heimta það, sem þjóðin á, með valdi. Á þennan hátt ætlar biskup að tryggja tilverugrundvöll kirkju sinnar um ókomna tíð. Er það sama kirkjan og tveir þriðju hlutar þjóðarinnar vilja lögskilnað frá? Ekki bara að borði og sæng eins og biskup komst svo hnyttilega að orði eitt sinn. Er það sama kirkjan og bregður ætíð um sig helgiljóma og heilagleika, svo enginn dirfist að benda á þverstæðurnar í boðskap og breytni? Er það sama kirkjan er virðir meira háreist musteri og landareignir, helgileikrit og prjál, en lætur sig engu varða raunveruleikan sem hún lifir í? Biskupi rennur sennilega til rifja að Þingvellir eru nú utan seilingar--en eina leiðin til að bjarga þeim undan hrammi kirkjunnar var að fá liðsinni Sameinuðu Þjóðanna. Biskup ætlar ekki að láta þann leik endurtaka sig og hefur í atganginum skilið margboðað kristilegt siðferði eftir á blótsteini ágirndarinnar. Nú skal látið sverfa til stáls.

Rangnefnd Þjóðkirkjan er auðvitað ekkert annað en stofnun, sem afrekar það helst að vera á móti umbótum og mannréttindum hvar sem hún grefur um sig. Öðruvísi lifir hún ekki af. Konur eiga t.d. að vera ektamönnum sínum undirlátar, hrækt er í andlit samkynhneigðra og púki spillingarinnar fitnar ört sitjandi á feysknum fjósbitum betri vitundar. Til allrar hamingju virðist þetta almennt vera að renna upp fyrir fólki og nýlegar hótanir biskups ættu að opna augu fleiri. Biskup mærir löngum nauðsyn kristilegs uppeldis þjóðarinnar; kirkjan hafi gegnt stóru og farsælu hlutverki í sögu hennar allt frá tímum þjóðveldisaldar og verði þessu þjóðþrifaverki ekki fram haldið sé stefnt í voða hagsæld og heilbrigði voru. Látum vera, en biskup getur ekki þakkað kirkju sinni allt gott á Íslandi og látið sem allt slæmt sé einhverju öðru um að kenna. Þúsund ára kristni hefur því einnig fært okkur spillingu, Kárahnjúkavirkjun og kennaraverkfall, ásamt annarri þraut og vesöld gegnum tíðina. Þetta eru líka kristilegu kærleiksblómin sem spretta í garði biskups.

Það er orðið ljóst að á þúsund árum sem ríkisstofnun hefur kirkjunni lítt miðað áleiðis og ekki von á afrekum í framtíðinni. Kirkjan breytist ekki og breytir engu héðan af. Þær breytingar sem orðið hafa í framfaraátt innan kirkjunnar hafa aldrei átt uppruna sinn innan kirkjunnar, heldur komið utanfrá og kirkjan þá lengi vel streist á móti. Af hverju vill kirkjan ekki lúta vilja þjóðarinnar, sem legið hefur ljós fyrir undanfarin tíu ár? Er það ekki nokkuð augljóst að biskup hefur afgerandi meirihluta þjóðarinnar á bak við sig til að taka einarða afstöðu með aðskilnaði og á móti forréttindum kirkju sinnar. Ef biskup skirrist við ber Alþingi og lýðræðislega kjörnum fulltrúum þjóðarinnar, sem biskup er ekki, að virða vilja umbjóðenda sinna.

Ef biskup vill ekki sætta sig við vilja þjóðarinnar, eins og liggur fyrir, þá er það ekkert annað en siðlaust af honum að vilja ganga í berhögg við þann vilja. Með því móti þakkar biskup umburðarlyndi þjóðarinnar við kirkju hans í þúsund ár, enda dylst engum að það er ekki hagur þjóðarinnar, sem biskup hefur í huga. Hvað stendur um græðgina í einu Bókinni, sem biskup hefur lesið til enda, að því er virðist, og sækir í allan sinn fróðleik? Biskup á ekki erindi við þjóðina með boðskap sinn heldur þjóðin við biskup. Með þann boðskap að nú sé nóg komið af undirferli, hræsni og skinhelgi. Nóg er boðað, biskup.

Guðmundur Guðmundsson 10.01.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 10/01/05 02:27 #

Mér finnst það einkennilega djarflega mælt -- og ég efast um að það sé mikil innistæða fyrir því ef grannt er skoðað -- að þjóðkirkjan hafi verið þjóðinni til mikillar blessunar undanfarnar aldir. Sko: Það ehfur ýmislegt gott gerst undanfarnar aldir og ýmislegt slæmt. Kirkjan hefur lengi verið ansi fyrirferðarmikil í þjóðlífinu. Ef hún ætlar að gangast við hlutverki sínu undanfarnar aldir, þá getur hún ekki látið eins og hún viti ekkert af öllu því slæma sem hefur gerst. Er þetta ekki bara eins og með þessa guðs-ómynd hennar, allt gott sem gerist á að vera honum að þakka en allt slæmt sem gerist er ýmist óheppni eða kölska að kenna? Þvílíkur tvískinnungur. Ef kirkjan gengst við því að hafa látið mjög mikið slæmt af sér leiða í gegn um tíðina, þá skal ég gangast við því að hún hafi látið sumt gott af sér leiða líka. Á heildina litið held ég samt að afleiðingar gjörða hennar séu ansi mikið meira slæmar en góðar.


Óskar - 10/01/05 11:37 #

Segðu þig úr þjóðkirkjunni. Þá hefur "hún " ekkert með þig að gera lengur. Og þar með einu áhyggjuefninu minna fyrir þig.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 10/01/05 11:40 #

Óskar, ég get fullvissað þig um að enginn Vantrúarpenna er skráður í Þjóðkirkjuna.

Þrátt fyrir það berum við allir hluta af kostnaðinum við rekstur þessa bákns.


cappel - 10/01/05 12:47 #

Þetta hefur nú ekki mikið með greinina að gera en mig langar að spyrja að einu: Af hverju segja menn að kristni sé eingyðistrúarbrögð? Er ekki alltaf verið að tala um heilögu þrenninguna, Jesú, Guð og heilagan anda, sem hver um sig er æðri mannfólkinu og með einhverja spes ofurkrafta. Og ekki má gleyma að kristnir menn trúa því heitt að djöfullinn sé mjög svo máttugur og getur meira að segja stjórnað hugsunum og gerðum manna! Þetta myndi ég nú kalla fjölgyðistrú, hvað segja trúmenn?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/01/05 12:59 #

Það er ekki spurning að þetta er fjölgyðistrú. Og fyrst að Kristsmenn sjálfir halda því fram að því færri sem guðirnir eru því fullkomnari trúarbrögð hljóta þeir að fallast á að Múslimsdómur séu fullkomnari trúarbrögð en kristni.

En förum með þetta á spjallborðið, ef við ætlum að halda þessu áfram.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/01/05 13:04 #

Kominn þráður um þetta áhugaverða málefni.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 10/01/05 13:42 #

Einþrígyðistrú? Éinþrígyðistvíhyggjutrú?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.