Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að liðnum jólum

Nú hafa jólin liðið sitt skeið með tilheyrandi veisluhöldum, messum og gjöfum. Vonandi hafa sem flestir notið þessara hátíðahalda sem best og enginn hafi þurft að horfa á eftir börnum sínum eða ættmönnum í gin jólaköttsins. Um leið og ég óska Kertasníki góðrar heimferðar í hellinn til Grýlu þá langar mig til að vekja athygli á nokkru sem hefur verið að angra mig undanfarin ár í sambandi við þessa hátíð.

Allt frá því ég man eftir mér hef ég haft afar litla trú á Jesú Kristi og hans mönnum. Þó hélt ég lengi vel að líklega hafði verið til einhver maður í Palestínu í kringum upphaf tímatals okkar sem hafi fæðst um það leiti sem jólin eru haldin. Mér fannst það því skondið, en kom mér svosem ekki á óvart, þegar ég komst að því fyrir nokkrum árum að jólahátíðin er ein allsherjar uppsuða úr heiðinni sólstöðuhátíð, rómverskri sólguðadýrkun ásamt hinni kristnu hátíð. Í kjölfar þessara uppgötvana vöknuðu hjá mér þó nokkrar spurningar.

Nú skulum við láta tilvist Jesú Jósefsssonar frá Nasaret liggja á milli hluta en hún er ekki til umræðu hér. Hvort sem menn telja það líklegt að Jesú hafi raunverulega verið til eða uppdiktaður af öðrum, þá eru tæpast nokkrir sem hafa kynnt sér kristna trú sem halda því fram að sagan um fæðingu frelsarans eigi við rök að styðjast. Hún er augljóslega tilbúningur með minnum teknum úr öðrum trúarbrögðum eins og meyfæðingin, fátæklegar aðstæður við fæðingu, sonur guðs og svona mætti lengi telja.

Í sjálfu sér væri lítið athugavert við það ef þessi hátíð væri einungis táknræn. Fyrir kristnum mönnum er Jesús ljós heimsins og því kannski viðeigandi að fagna því á dimmum vetrardögum. Hins vegar er því ekki að heilsa hjá kirkjunnar mönnum heldur láta þeir þannig sem það sé staðreynd að Jesús Guðsson hafi fæðst aðfaranótt 25. desember árið 1 í fjárhúsi í úthverfi borgarinnar Betlehem í því landi sem nú kallast Palestína. Mörg okkar jólalög byggja einnig á þessari sögu eins og Bjart er yfir Betlehem, Ó helga nótt, Heims um ból og þar fram eftir götunum.

Ég hef velt því fyrir mér afhverju prestar og fleiri menn sem vita sem er að þessi saga er hreinn skáldskapur þrjóskist sífellt við og kenna hana sem sannleik. Það er hálf nöturlegt að hlusta á blessuð börnin sem halda því fram að á jólunum eigi Jesúbarnið afmæli. Greyin vita hreinlega ekki betur því þeim er jú kennt það í skólum og einnig halda fjölmiðlar þessari sögu ákaft að þeim hver jól eins og til dæmis jóladagatal Stöðvar 2 nú í desember. Sjálfur þurfti ég sem krakki að leika einn vitringanna þriggja í jólahelgileik grunnskólans míns. Þá fannst mér ekkert athugavert við það en nú finnst mér tilhugsunin nokkuð hlægileg.

Áttundu og níundu boðorð kristinna manna kenna þeim að ekki skuli maður stela né ljúga. Samt sem áður stálu þeir afmælisdegi Míþrasar og ljúga því árlega hver jól að verið sé að halda upp á fæðingu frelsarans. Tímabært er að hætta þessari vitleysu og að raunverulegur uppruni jólanna verði virtur fyrir það sem hann er. Jólin eru sigurhátíð sólarinnar yfir myrkrinu og óþarfi er að spilla þessum góðu tímum með lygum kirkjunnar.

Greinar um skylt efni:
Vantrú: Jóla hvað?
Múrinn: Hin ósigrandi sól
Skoðun: Fæðingu sólarinnar fagnað

Lárus Viðar 06.01.2005
Flokkað undir: ( Jólin )

Viðbrögð


Gudjon - 06/01/05 08:59 #

Þessu hafa Vottar Jehóva lengi haldið fram. Jólin er dæmi um frábærlega vel heppnaða aðlögun. Kristnum hefur tekist að gera jólin að sinni hátíð. Hér á íslandi er algjörlega óhugsandi að breyta þessu.


Svanur Sigurbjörnsson - 06/01/05 09:42 #

Ég er sammála greinarhöfundi. Líkt og fleiri ævintýri biblunnar er jólasagan tómt bull. Talið er að María "Mey" hafi verið um 15 ára þegar hún varð þunguð af Jesú. Fyrstu óléttu á slíkum unga aldri er oft erfitt að kyngja og því þykir mér ekki líklegt að María hafi tilkynnt að Guð hafi átt þátt í því þó að hinn sé möguleikinn líka að aðrir menn hafi fundið þessa skýringu eins og t.d. höfundur/höfundar þessa kafla í Nýja Testamentinu. Annars finnst mér deilur um sögustaðreyndir eða tilurð atburða í biblíunni nánast eins og deila um keisarans skegg og gegna aukahlutverki í rökunum gegn guðstrú.
Jólin gegna menningarlegu, félagslegu og viðskiptalegu hlutverki í dag. Þó að trú á guð eða önnur hindurvitni leggist af (sem að ég vona)tel ég að skaðlaust sé að halda jólunum áfram og gott sé að lyfta sér upp með góðum mat og gjöfum innan fjölskyldna. Líkt og með trúnna á Jólasveininn ættu allt fullorðið fólk að láta af guðstrú þegar það þroskast og kemst til ára. Hvort sem að menn munu í framtíðinni segja "Gleðileg Jól" eða "Gleðilega hækkandi sól" finnst mér aukaatriði svo framarlega sem menn taki ekki helgibullið inná sig. Takk fyrir góða grein.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 06/01/05 10:20 #

Mér finnst nú í fínu lagi að segja "Gleðileg jól" þar sem "Orðið jól kemur þegar fyrir í heiðnum sið og var þá notað um miðsvetrarblót, sólhvarfahátíð. Síðar þegar kristni barst til Norðurlanda og fæðingar Krists var minnst á svipuðum tíma færðist heitið á heiðnu hátíðinni yfir á þá kristnu." (tekið af vísindavefnum).

Ég er mjög sáttur við að orðið "jól" hélt sér og kristnum mönnum tókst ekki að setja orðið "Kristmessa" inn í staðinn eins og í mörgum löndum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.