Einn af undarlegri gjörningum stjórnvalda í seinni tíð er setning laga nr. 78/1997 (Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar). Það, útaf fyrir sig, að til eru sérstök lög um ákveðinn trúarsöfnuð, er náttúrulega afbrigðilegt, en grundvöllur þessara laga og sagan þar á bak við er hraksmánarleg. Því er þetta rifjað upp nú að prelátar þjóðkirkjunnar þykjast ærið vanhaldnir af samningum við ríkið um uppihald og vísa gjarnan til auðæfa kirkjunnar, sem voru "afhent" ríkinu til að halda úti prestum landsmönnum til sáluhjálpar.
Á heimasíðu biskups má lesa hvernig kirkjan sölsaði undir sig eignir íslenskra bænda á 13. öld með því sem nefnt er "sáttagjörðin" í Ögvaldsnesi í Noregi 1297. Mikil sátt það. Næstu aldir þar á eftir hélt kirkjan áfram ránskap sínum í góðri sátt, væntanlega, við guð og menn. Enn af síðum biskups:
Árið 1907 eru sett lög um sölu kirkjujarða þar sem samkomulag var gert við ríkið um að afhenda kirkjujarðirnar. Í staðinn skyldi ríkið greiða laun presta og þannig verður ríkið vörsluaðili eigna fyrir kirkjuna. Á þeim tíma átti kirkjan verulegar fasteignir
Hér er talað bæði um sölu og afhendingu kirkjujarða. En hvort var það? Það fer auðvitað eftir því hvern þú spyrð, en af lögunum verður ekki annað ráðið en að ríkið kaupir jarðirnar með því loforði að borga laun presta þjóðkirkjunnar um aldur og ævi! Ekki voru kirkjunnar menn samt meiri spámenn en svo að nokkrum árum eftir þetta var prestlaunasjóður farinn á hausinn. Við svo búið mátti auðvitað ekki standa og því jörmuðu prestarnir sig enn á ný inn á ríkið og fóru beint á ríkisspenann.
Nú kemur þetta hraksmánarlega. Níutíu árum eftir sölu númer eitt, eru sömu eignir seldar aftur sama kaupanda!?! Enn skal vitnað í óþrjótandi viskubrunn biskups:
Í janúar 1997 var gert samkomulag milli Þjóðkirkjunnar og íslenska ríkisins um að “kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frá töldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, væru eign íslenska ríkisins” á móti þeirri skuldbindingu að íslenska ríkið greiddi “laun presta þjóðkirkjunnar og starfsmanna biskupsembættisins”
Því er spurt, hver borgar prestunum laun? Þeir sjálfir í skjóli ríkisins, sem tók svo vinsamlega í að ávaxta eignir kirkjunnar, en fór svo á rassgatið með allt saman? Ekki aldeilis. Launin prestanna, eins og auðvitað allt það fé sem fer til reksturs kirkjunnar, kemur beina leið úr vasa allra skattgreiðenda. Sóknargjöldin eru á gráu svæði, enda sparar ríkissjóður kirkjunni tugi eða hundruð milljóna í innheimtukostnað á hverju ári.
Ég eggja biskup lögeggjan að heimta nú aftur meintar eignir kirkjunnar úr faðmi ríkisvaldsins og stofna um þær eignarhaldsfélag á frjálsum markaði, auðvitað með hinum allra kristilegustu formerkjum. Þá verða nú prestarnir ekki á flæðiskeri staddir né þurfa að sitja undir ámæli af þessu tagi.
Um tíu þúsund krónur á ári. Þar af borgar Ríkið 0 krónur.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
jeremía - 06/01/05 08:11 #
hvað kostar að reka þessa síðu?