Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúleysi - stutt kynning á lífsviðhorfi trúlausra

Þú fæddist trúlaus

Öll fæðumst við trúlaus. Trúleysi er hin eðlilega og meðfædda afstaða okkar. Að vera trúaður er því áunnið ástand. Við þurfum að læra að verða trúuð. Flestir verða trúaðir vegna áhrifa frá foreldrum, skóla og umhverfi.

Mennirnir hafa um aldir búið sér til hundruðir guða og það sem ræður hvaða tegund trúar við aðhyllumst ræðst af því á hvaða svæði og á hvaða tíma við erum uppi. Fæðist maður í íslömsku landi eru allar líkur á því að maður taki íslamstrú og fæðist maður t.d. í kristnu landi verða flestir kristnir. Þegar ásatrú var alls ráðandi á Íslandi tóku flestir ásatrú en nú þegar kristnir eru í meirihluta taka flestir kristna trú. Þannig er ljóst að fólk verður ekki trúað eftir nákvæma rannsókn á þeim trúarbrögðum sem í boði eru og að vel ígrunduðu máli heldur ræðst það einfaldlega af trú foreldranna og þess þjóðfélags sem við lifum í á hverjum tíma. Þannig myndi maður ætla að hugsandi trúfólk hlyti að íhuga hvort það hafi nú óvart hitt á hina "einu og sönnu" trú eða hvort nauðsynlegt sé að skoða fleiri valmöguleika. Trúleysi er einn þeirra valmöguleika.


Að velja trúleysi

Trúleysi er ekki vinsælt lífsviðhorf. Þegar við búum í þjóðfélagi þar sem meira en 90% þjóðarinnar telst kristinnar trúar er ekki auðvelt að standa gegn straumnum og lýsa því yfir að við séum trúlaus. Þó er ekki hægt að ímynda sér eðlilegra og skynsamlegra viðhorf. Öll rök styðja trúleysi. Örfáir sterkir og sjálfstæðir einstaklingar ná að viðhalda meðfæddu trúleysi gegnum barndómsárin og til fullorðinsára en flest okkar þurfum hreinlega að læra að verða trúlaus á ný. Það getur verið mjög sársaukafullt ferli þegar við köstum af okkur klafa trúarinnar og þurfa margir að berjast við tilfinningar eins og sektarkennd, ótta og reiði. Sumum er það í raun ofviða og hverfa aftur til draumalands trúarinnar. Taka verður tillit til þess að hinir sálrænu hlekkir sem við erum að brjóta eiga sér rætur allt aftur í bernsku okkar og það getur verið ótrúlega erfitt og sársaukafullt. Þess vegna getur verið gott að leita stuðnings t.d. hjá fólkinu í Vantrú, þar sem þú færð fullan skilning á vangaveltum þínum, einnig samúð og hugreystingu ef illa gengur.


Hvað er trúleysi?

Að vera trúlaus þýðir einfaldlega að maður er laus við trú, þ.e. laus við trú á guð eða guði.

Í raun er það ekkert flóknara en það. Öfugt við hinn trúaða sem fullyrðir að til sé guð þá hefur sá trúlausi bara enga trú á yfirnáttúrulegar verur eins og guði. Í þeirri afstöðu þarf ekkert endilega að vera fólgin yfirlýsing um að slíkar verur séu ekki til. Þó eru til trúleysingjar sem fullyrða að ekki séu til guðir en slíkt er ekki algilt um trúlausa.

Engin sönnun er til fyrir tilveru guða. Þótt trúaðir fullyrði að til sé guð er sú fullyrðing ekki byggð á rökum eða þekkingu. Hún er aðeins byggð á "trú" sem er þá eins konar óskhyggja um eitthvað sem þeir vildu að væri satt.

Trúlausir geta sýnt fram á það með góðum rökum að það að "trúa" einhverju án nokkurra sannana getur verið afar skaðlegt því þá skiptir sannleikurinn ekki neinu máli. Vegna fullkomins sönnunarskorts hvetja trúarbrögðin til þess að við trúum án þess að krefjast raka eða sannana. Skynsemi er hent út um gluggann og fær á sig slæmt orð. Þegar manneskja hafnar viljandi að nota skynsemi, raunsæi og rök en ákveður frekar að trúa í blindni er ljóst að mikil hætta er á ferð. Trú færir okkur enga þekkingu heldur einfaldlega blekkir okkur til þess að halda að við vitum meira en raunin er.

Eins og felst í orðunum eru trúlausir lausir við trú og því ekki þeirra að sanna eða afsanna neitt í trúmálum. Trúlausir varpa allri ábyrgð á trúarhugmyndum yfir á hina trúuðu. Þeir sem halda því fram að til sé "guð" eða "guðir" (eða álfar eða draugar) skulu sanna sitt mál, það er ekki hins trúlausa að afsanna eitt né neitt. Geti trúaðir ekki lagt fram sönnun fyrir tilveru guðs mun skynsamlegt fólk einfaldlega hafna slíkri trú sem staðlausum staf. Enda má spyrja, hvert er eðli guðs? Á hverju þekkjum við að eitthvað sé "guð"? Einhverjir eiginleikar þessarar veru verða að vera til staðar ef við ætlum að reyna að finna grundvöll fyrir tilveru hennar. Einhverskonar lýsing á guði er því nauðsynleg annars er leit að sönnun fyrir tilvist guðs rökfræðilegur kjánaskapur þ.e. ef við vitum ekki hverju við leitum að. Þannig getum við sagt að ef trúmanneskja er ekki tilbúin að útskýra fyrir okkur hvað hún á við með orðinu guð heldur segir bara "guð er til" að þá er það eins og að hafa ekki sagt neitt!


Hvers vegna trúir fólk á guði?

Guðshugtakið á sér uppruna langt aftur í forneskju. Væntanlega er það jafngamalt sjálfsmeðvitund mannsins. Þegar maðurinn fór að verða meðvitaður um sig sjálfan fór hann einnig að gefa gaum náttúrunni og duttlungum hennar. Flóð, þurrkar, plágur og dauði voru meðal þeirra dularfullu fyrirbæra sem fyrstu mennirnir reyndu að finna á skýringu. Vegna lítillar þekkingar sinnar bjuggu þeir því til guð, sem var dularfull yfirnáttúruleg vera, sem stjórnaði hinni litlu veröld þeirra og öllu sem í henni bjó.

Þessu fólki fannst guðshugmyndin skýra svo margt.

Guð var sannarlega máttugur. Hann gat bæði látið rigna eða haldið aftur af regninu. Hann gat tryggt mikla uppskeru eða látið hana bregðast algjörlega. Ef tókst að vinna orrustur þá var það vegna þess að guð var með þér. Ósigrar, þurrkar, flóð, plágur og aðrar hörmungar voru hins vegar refsingar guðs. Þeir sem lentu í þessu höfðu einhvernvegin móðgað eða óhlýðnast guði.

Gegnum aldirnar var guðshugtakið stækkað, endurskilgreint og fínstillt. Á endanum var þetta orðið hið ríkjandi afl þjóðfélagsins. Ekki var hægt að nálgast guð nema í gegnum heilaga menn eða opinberað orð guðs. Hjá kristnum voru það prestar og Biblían.


En það stendur í Biblíunni að guð sé til

Jú, í augum kristinna var Biblían ekki nein venjuleg bók. Hún var skrifuð fyrir 2 - 3 þúsund árum af útvöldum mönnum sem, að þeirra sögn, var opinberað innihald hennar beint frá Guði. Í Biblíunni eru útlistuð þau lög og reglur sem verður að hlýða í einu og öllu vilji maður ekki móðga Guð. Fyrir hinn trúaða verða Biblíulög því að vera æðri öllu öðru, líka borgarlegum lögum. Í Biblíunni er okkur sagt að þetta líf okkar sé ekki annað en eins konar biðsalur inn í næsta líf. Þeir sem hlýða Guði og tilbiðja hann á tilhlýðilegan hátt munu hljóta vist í Himnaríki þar sem þeir munu um alla eilífð lofa og prísa Guð og lifa dyggðugu lífi. En allt önnur örlög bíða þeirra sem hafa pirrað Guð. Þeirra bíður að eyða eilífðinni í Helvíti við pyntingar og skelfingu. Fleiri upplýsingar fá kristnir úr Biblíunni eins og t.d. þær að jörðin sé um 6000 ára gömul, flöt, hreyfingarlaus og í miðjunni á þriggja laga alheimi þar sem Himnaríki er fyrir ofan en Helvíti fyrir neðan. Karlmaðurinn er höfuðskart guðlegrar sköpunar en aðrar lífverur og konan er þar meðtalin, eru ekki annað en eins konar eftirþankar eða uppfylling.

En Guð hefur ekki alltaf verið nógu ánægður með mennina og því ætlar hann að birtast einhvern daginn til að dæma lifendur og dauða.

Nú þegar 21. öldin er hafin er auðvitað aðeins lítill hópur sérvitringa sem raunverulega trúir Biblíunni en það sem trúlausir eiga erfitt með að skilja er afhverju meirihluti fólks í kristnum löndum kennir sig enn við kristni og Biblíu eftir að hafa hafnað nánast öllu sem þar stendur sem gömlum goðsögnum. Erfitt er að sjá hvers vegna menn eru að knýta sig við kristni þegar þeir eru farnir að segja að "guð er kærleikur" eða að "guð er í öllu", eða "guð er tilveran". Við þessa endurskilgreiningu á hugtakinu guð hættir það að hafa merkingu. Að segja t.d. að guð sé kærleikur er bara eins og að segja að Boddi sé kærleikur. Í slíku samhengi hefur "Boddi" enga merkingu nema sem nýtt orð yfir kærleik.


Hvað er þá átt við með orðinu "guð"?

Hverjar eru hinar sögulegu skýringar trúfólks? Sumir guðir eru almáttugir, alvitrir og algóðir, á meðan aðrir eru það ekki. Sumir eiga samskipti við mannfólkið en aðrir ekki. Vegna þessa er ómögulegt að koma með góða skýringu á hugtakinu guð sem gæti náð yfir öll hin mismunandi trúarbrögð sem menn hafa fundið upp og sem allir gætu sætt sig við sem grundvöll umræðna. Þó er flest trúfólk á því að guð sé "yfirnáttúruleg vera" eða einhvernvegin "yfirskilvitleg". Við skulum því miða við þá staðhæfingu að guð sé "yfirnáttúrulegur". En hvað segir það okkur um guð? Í raun ekkert því það segir okkur bara hvað guð er ekki, þ.e. að hann sé ekki bundinn af hinni náttúrulegu tilveru heldur sé einhvern vegin ofan hennar og óháður henni. Við búum í efnisheimi, við erum sjálf úr efni, skynfæri okkar sem taka á móti skilaboðum um hina efnislegu tilveru eru úr efni, allt sem við vitum um tilveruna byggist á efni, raunverulegu, áþreifanlegu og mælanlegu efni. Öll þekking okkar er því grundvölluð af efni. Það er eina þekkingin sem við höfum enda getum við ekki tjáð okkur um neitt án tengingar við efni. Sjáðu bara hvernig við hugsum okkur guð eða draug. Manstu þegar þú varst barn þá var guð gamall skeggjaður karl sem átti heima í skýjunum. Gamlir karlar eru til og ský eru til, bingó!, kominn guð með bústað. Og þeir sem þykjast sjá drauga, álfa eða huldufólk, alltaf skulu það vera verur í mannsmynd, með mannslíkama. Þetta er einfaldlega vegna þess að efnisheimurinn er eini heimurinn sem við upplifum, og getum upplifað, því sjálft hugtakið "yfirnáttúrulegt" eða "andaheimur" eru mótsagnir sem eiga sér enga vitræna eða rökræna stoð.


Alvitur, almáttugur og algóður

Kristnir menn lýsa guði sínum sem hinum algóða, alvitra og almáttuga. Þetta er ótrúlega mótsagnakennd lýsing ef betur er að gáð. Að vera alvitur þýðir að viðkomandi veit "allt" í fortíð sem framtíð. Að vera almáttugur er það að geta gert "allt". Ef guð væri til þá myndi hann sem alvitur vita allt sem á eftir að gerast í framtíðinni þannig hefur guð sjálfur ekki frjálsan vilja, hann getur ekki ráðið hvað hann gerir því hann veit fyrirfram hvað hann mun gera og getur ekki breytt því, því ef hann myndi breyta og gera eitthvað sem honum datt bara sí svona í hug, þá vissi hann ekki af því og er því ekki alvitur! Að vera alvitur er því mótsögn við það að vera almáttugur.

Það er líka í mótsögn við það að vera algóður sem væntanlega þýðir að viðkomandi er t.d. siðferðilega fullkominn. Ánægjan sem geðsjúkur barnanauðgari og morðingi fær út úr því að nauðga og drepa er þekkingarupplifun sem "alvitur" vera hlýtur að þekkja en umleið getur hún ekki verið siðferðilega fullkomin því þá gæti hún ekki vitað hvað er að upplifa ánægju af morðum og nauðgunum barna. Trúmenn geta heldur ekki bjargað algóðum guði undan öllu hinu illa sem til er í heiminum með skírskotun í að það sé allt Satan að kenna. Því algóður guð hefði þá ekki skapað t.d. dýr sem njóta þess að kvelja önnur dýr til dauða er þau veiða sér til matar, eða leyft sem alvitur og almáttugur hræðilega hluti eins og styrjaldir og örkumlandi barnasjúkdóma því ef hann væri algóður hefði hann að sjálfsögðu séð til þess að slíkt væri ekki til. Þess vegna ,annað hvort, vill guð ekki bjarga okkur frá hinu illa (þá er hann ekki algóður) eða hann getur það ekki (þá er hann ekki almáttugur). Ef hann er að "kenna okkur lexíu" með öllu þessu illa þá er það ekki í samræmi við að hann sé algóður og ef hann er almáttugur þá ætti hann á sekúndubroti að geta gert okkur öll góð og hann þyrfti þá ekki lengur að láta lítið barn kremjast til bana í fangi móður sinnar í jarðskjálfta til að "kenna því lexíu".


Hefur fólk ekki þörf fyrir að trúa?

Nei, fólk hefur fyrst og fremst þörf fyrir sannleikann, því það er sannleikurinn sem hjálpar okkur við að lifa og starfa í hinum raunverulega heimi. Að halda því fram að fólk hafi þörf fyrir að trúa á órökrétta óskadrauma er uppskrift að vandamálum. Lífið getur haft merkingu og tilgang án guðs. Það er undir okkur hverju og einu komið að taka sjálf ábyrgð á lífi okkar. Að velta ábyrgðinni yfir á dularfullan guð er flótti en ekki lausn.


Eru trúlausir á móti guði?

Margir virðast halda að trúlausir hati guð, séu djöfladýrkendur eða trúi á "eitthvað annað". Auðvitað hata trúlausir ekki guð þar sem þeir hafa ekki guðstrú og ekki hægt að hata eitthvað sem er ekki til! Trúlausir eru svo á sama hátt lausir við alla trú á djöfla, álfa, drauga, huldufólk, púka og aðra íbúa "andaheims". Trúleysingi lifir í hinum raunverulega efnisheimi. Upplýsingar um alheiminn og tilveruna fá trúlausir frá nútímavísindum en ekki úr þjóðsagnabókum fornaldar. Trúleysingi notar skynsemi og rökhyggju til þess að leysa vandamál sín og til þess að stuðla að hamingjusömu lífi. Gagnslausum bænum og áköllum til ósýnilegra ofurmenna er algerlega hafnað.

Aiwaz 01.01.2005
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Guðmundur I. Markússon - 04/01/05 10:08 #

Aiwaz,

Það eru engin rök gegn trúarbrögðum í sjálfu sér að við fæðumst trúlaus.

Öll fæðumst við án þess að geta skrifað. Skrift kemur til afar seint í sögu mannsins, og hefur hann því enga meðfædda, genetíska "skriftareiginleika".

Sömu sögu er að segja um nútíma stærðfræði, sem, eins og allir vita, er einn helsti grundvöllur vísinda og tækni.

Allt eru þetta "ónáttúrulegir" hlutir í þeim skilningi að við fæðumst án þeirra og verðum að tileinka okkur þá seinna á lífsleiðinni. Það þýðir ekki nauðsynlega að slíkir hlutir séu óæskilegir. Ef svo væri, yrði sennilega að afskrifa megnið að menningu nútímans sem vafasama ónáttúru.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/01/05 14:06 #

ÉG býst við að þetta hjá Aiwaz sé svar við langvarandi klerkalygi þess efnis að trúin sé okkur meðfædd. En hún er semsagt áunnið ástand og þú verður að gæta þess að ekki er allt sem við ávinnum okkur á lífsleiðinni sjálfkrafa gott og gagnlegt. Lestur og skrift er það að sjálfsögðu, en eins og þessi vefur gengur meira og minna út á að sýna fram á þá er guðstrúin fremur til skaða en hitt.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 04/01/05 16:15 #

Guðmundur,

Þetta var ekki beint hugsað sem rök gegn trúarbrögðum sem slíkum heldur meira eins og Birgir segir, svar við lyginni að "allir trúi á eitthvað" og að "trú er okkur meðfædd". En kannski ekki síst eru þetta orð sem beint er að þeim sem eru að kynna sér trúleysi og eru kannski sjálfir að stíga skrefin frá hálfvolgri "barnatrú" yfir í trúleysi og þurfa stuðning. Þá er gott að átta sig á því að maður fæðist ekki t.d. með jólasveinatrú heldur þurfa foreldrar, skólinn, fjölmiðlar o.s.frv. að vinna markvisst að því að innræta okkur trú á jólasveina. Það eru margir sem skammast sín og fyllast samviskubiti þegar þeir kasta trúnni og því gott að vita að trúleysi sé hin eðlilega og náttúrulega afstaða.

93


Guðmundur I. Markússon - 04/01/05 18:23 #

Ég var lagt því frá að segja að allt áunnið væri gott. Aðeins að það ætti að forðast of miklar einfaldanir, eins og þá sem ég taldi mig sjá í grein Aiwaz. En það kann vel að vera að ég hafi ekki skoðað samhengið sem ykkur var augljóst.

Það er auðsjáanlega rangt að einhver ákveðin trú (eins og kristni) sé meðfædd. Hins vegar, hvort einhver almenn trúarþörf sé meðfædd er opið spursmál. Hugfræðingar (cognitive scientists) telja sumir (t.d. Pascal Boyer) að trúarhugsun og tilhneygingin til að taka túarhugmyndir alvarlega sé náttúruleg. En eins og ég benti á í grein í Fréttablaðinu nýlega, þýðir það ekki að trúarbrögð séu nauðsynlega af hinu góða.

Það er rétt að allir trúa einhverju í þeim skilningi að þegar kafað er nógu djúpt eru alltaf einhverjar forsendur sem fólk gefur sér, og á það við um kenningar vísinda sem og trúarhugmyndir. Ég er hins vegar alveg sammála ykkur um það að vísindin, svona idealt séð a.m.k., eru mun agaðri og nákvæmari en flest önnur form hugsunar.

Hvernig er það aftur Aiwaz, 93 93/93?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/01/05 18:52 #

Ég hef haldið því fram að ekki sé um trúarþörf að ræða heldur þörfina fyrir að vita.

Dawkins hefur talað um að trúgirni sé börnum meðfædd, enda til framdráttar að taka leiðsögn sér eldri og vitrari. Í því samhengi komi trúin eins og tölvuvírus sem nýtir sér þetta völlnerabillití mannshugans og planti þessum forritsbút sem lætur fólk lúta prestum og rífa upp veskið.

Þessi hugmynd Dawkins um ranghugmyndavírus er ekki par verri en önnur og hefur stuðning út frá þróunarlegum sjónarmiðum.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 04/01/05 20:47 #

Guðmundur 93,

Ég kann ekki skil á kognatívum vísindakenningum en hef þann skilning á manneskjunni sem spendýri að hún sé nú bara svona eins og tja...... óvenju gáfuð belja :o)

Kannski beljum sé það meðfætt að trúa á hana Skjöldu Miklu á himnum? Bara djók.

93 93/93


Guð - 18/01/05 18:51 #

Að trúa á guð þarf ekki að tengjast trúarbrögðum það er nóg að vita að guð er til! afhverju er guð til jú við erum til efnið er til í einum manns líkama eru um 100 billjónir frumna og hver skapaði lífið á jörðinni eða stjörnurnar er ekki einhver sköpun á bak við þetta allt ég bara spyr


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 18/01/05 21:21 #

Að trúa á guð þarf ekki að tengjast trúarbrögðum

Hvernig getur það annað en tengst trúarbrögðum?

er ekki einhver sköpun á bak við þetta allt

Laukrétt: Það er ekki einhver sköpun á bak við þetta allt. Í það minnsta hefur hún ekkert með neinn guð að gera (þótt það megi mín vegna alveg kalla Miklahvell "sköpun" ef það gleður einhvern).


anna k - 12/03/05 01:12 #

til að trúa þessu sem aiwaz heldur þurfum við að ganga svo langt að hafna endurholdgunarkenningunum, en það væri hættuleg arfavitleysa því það hefur allt verið sannað í dásvefnum edgar cayce og óþarfi að fara nánar útí það hér

hinsvegar þá langar mig að koma inná það að´ég sé ekki endilega sannfærð um það að við fæðumst trúlaus, miðað við mínar upplifanir fær það ekki staðist. Ég var komin með mjög heitar trúartilfinningar þegar ég var alls ekki meira en eins og hálfs árs og þær voru mjög framandi og á skjön við allt sem boðað er í okkar samfélagi og líka það sem við gekkst á mínu heimili. Ég var mjög öðruvísi að þessu leiti en annað fólk, mér fannst það algerlega hörmulegt að fólk dræpi dýr og sá það ekki öðruvísi en að fólk væri drepið, sama hvaða sál átti í hlut. Mér fannst verknaðurinn að drepa eitthvað það alversta sem gat skeð fyrir fólkið sem hann framdi. Núna er ég sannfærð um að hafa verið einhverskonar jainisti í fyrra lífi (strangtrúaður þessvegna), ef ekki það þá eitthvað svona suðaustrænt. Ég kom með leifar af þessu með mér hingað og það hefur mótað mig meira en allt sem tengist kristilegri uppfræðslu en af henni fékk ég nóg. ég fékk hvergi stuðning annarra í viðhorfum þegar ég var að alast upp og aldrei alvöru samþykki fyrir neinu sem mér fannst frá fjölskyldunni svo ég skil ekki hvaðan allar þessar öfga ofur rosa hugmyndir gátu komið þegar ég var svona ung, þær voru samt þarna og ég man það betur en flest frá æskunni. Ég hef hugsað mikið um þetta og finnst þessi skýring skynsamlegust og líklegust (já í alvöru)

Mig dreymdi líka um að gerast nunna og búa sem einstæðingur, þetta fannst öllum svo asnalegt að það var hæðst að mér þangað til ég varð normal (samt í rauninni aldrei of seint að snúa sér aftur til gamalla drauma sem betur fer)

mér finnst bara ekkert of rökrétt að það eigi að vera eitthvað á eftir ef það er ekkert á undan (en það er auðvitað alltaf eitthvað þarsem við erum í lúppunni ógurlegu, karmavélinni)

það var ekki auðvelt að fæðast hindúi í kristilegan heim, ég get bara sagt ykkur það og þeir sem nota skynsemina hljóta að sjá sannleikann í því :)

athugið að ég er ekki trúarlega sannfærð um fyrra líf mitt sem jainisti þótt ég sé sannfærð um endurholdgunarkenninguna, hitt er bara svona ályktun því mér finnst gaman að reyna að hugsa rökrétt um hluti sem gætu talist fáheyrilegir og illa til þess fallnir að falla undir slíkan dóm, samkvæmt áliti margra hópa


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 12/03/05 01:19 #

til að trúa þessu sem aiwaz heldur þurfum við að ganga svo langt að hafna endurholdgunarkenningunum, en það væri hættuleg arfavitleysa því það hefur allt verið sannað í dásvefnum edgar cayce
rangt #

Það hefur ekkert verið sannað í þessum efnum.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 12/03/05 01:20 #

Ég var komin með mjög heitar trúartilfinningar þegar ég var alls ekki meira en eins og hálfs árs
Hvað veist þú um það?

Hefur þú umgengist börn á þessum aldri nýlega?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.