Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvers vegna Betlehem?

Í fyrra þurfti fólk sem vildi upplifa jólastemminguna í Dómkirkjunni í Reykjavík á jólanóttu að hlusta á Karl Biskup flytja prédikun. Eins og oft vill verða með prédikanir þá var lítið sagt af viti en því meira af bulli. Því miður get ég ekki rakið allt bullið í þessari prédikun (... og yrði það hvað eina upp skrifað, ætla ég, að öll veröldin mundi ekki rúma þær bækur, sem þá yrðu ritaðar. Jóh 21:25).

Eins og flestir vita þá er Jesús kallaður Jesús frá Nazaret en ekki Jesús frá Betlehem. Aldrei þessu vant eru öll fjögur guðspjöllin sammála. Hvers vegna í ósköpunum var þá Jesús látinn fæðast í Betlehem? Svarið við því er að finna í svari vitringanna við spurningu Heródesar um fæðingarstað konung Gyðinga:

Þeir svöruðu honum: Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum: Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ertu síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma, sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels. (Matteusarguðspjall 2:5-6)

Höfundur Matteusarguðspjalls var af einhverjum ástæðum mikið fyrir að láta “spádóma” úr gamla testamentinu “rætast”. Þegar að hann las Míka 5:2...:

Og þú, Betlehem Efrata, þótt þú sért einna minnst af héraðsborgunum í Júda, þá skal þó frá þér koma sá, er vera skal drottnari í Ísrael, og ætterni hans vera frá umliðinni öld, frá fortíðar dögum.

...hefur honum fundist viðeigandi að láta Jesú fæðast í Betlehem. En því miður fyrir Matteus greyið, þá fjallar þessi spádómur alls ekki um borgina Betlehem. Hebreska orðið, sem að er villandi þýtt sem héraðsborgir í íslensku Biblíunni hefur grunnmerkinguna þúsund, en þýðir oft ættleggur en aldrei borg, hvað þá héraðsborg:

Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð....( Jesaja 60:22)

Gídeon svaraði honum: ...Sjá, minn ættleggur er aumasti ættleggurinn í Manasse, og ég er lítilmótlegastur í minni ætt. (Dómarabók 6:15)

Þessir voru tilnefndir af söfnuðinum, höfðingjar yfir ættkvíslum feðra sinna. Voru þeir höfuð Ísraels þúsunda. (4. Mósebók 1:16)

Einnig er vert að taka eftir því að talað um ætterni í spádómnum. Þá hlýtur að vera augljóst að Betlehem Efrata er ættleggur einhvers manns. Ef maður tekur sér tíma í að leita í Biblíunni þá kemur í ljós að sá maður sem getið er í Míka var til; herra Betlehem Efratason (1 kron 4:4).

Hvers vegna Matteus leit á þetta sem spádóm um borgina Betlehem er ekki víst. Kannski laug hann viljandi, kannski misskildi hann grísku þýðinguna á gamla testamentinu og var viss um að Jesús hefði verið Messías og hlyti því að hafa fæðst þarna. Hugsanlega notaðist hann við einhvers konar “andlegt innsæi” til þess að komast að því. Hvað sem því líður þá er þessi spádómur ástæðan fyrir því að Mattheus lætur Jesús fæðast í Betlehem.

Höfundur Lúkasarguðspjalls hefur viljað gefa lesendum einhverja ástæðu fyrir því að Jesús fæddist langt frá heimaslóðum sínum í Galíleu, með smá sögulegum skáldskap og góðu ímyndunarafli tekst honum að koma Jósef og Maríu á áfangastað; manntal Kýreníusar bætist við goðsögu jólaguðspjallsins.

Biskupinn má gjarnan lifa í þeirri blekkingu að ástæðan fyrir því Jesús fæddist í Betlehem sé eitthvað manntal sem að átti sér stað á allt öðrum tíma, en við hin skulum halda okkur við raunveruleikann og reyna að hafa bara gaman af jólunum og ævintýrinu um fæðingu Jesús alveg eins og við höfum gaman af ævintýrunum um Þór og Mjallhvíti. Hættum að hlusta á gasprið í biskupnum og að taka mark á ævintýrum sem samkvæmt Karli “...engum heilvita manni detti í hug að tengja ... yfir höfuð raunverulegum aðstæðum í raunverulegum heimi.”.

Hjalti Rúnar Ómarsson 27.12.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Árni - 27/12/04 23:01 #

Þú gleymir að taka fram að bærinn Nasaret var ekki til á tímum Jesú.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 09/06/05 01:48 #

Vitleysingurinn þinn!

Betlehem Efrata í 1 kron 4:4 er ætt en ekki einstaklingur!

:)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.