Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvers vegna ég er ekki lengur kristinn

Ég skil að þau sem aldrei hafa verið kristin veltist um af hlátri þegar auðtrúa prestar og biskup reyna að standa í fæturna við að réttlæta trú sína á Biblíuguðinn Yahweh. Í raun er engin vegur að skilja hvers vegna fólk er yfir höfuð kristið. Satt best að segja er mín reynsla sú að kristin trú sé lærð hegðun. Maður verður kristinn með því að taka þátt í ákveðnu leikriti frá barnæsku, þaulskipulögðu, meira en þúsund ára gömlu og miklu kerfi sem viðheldur sjálfu sér með því að halda utan um líf hvers manns. Sem þátttakanda finnst manni ekkert ljótt við þetta kerfi, enda telur það manni trú um að það sé heiðursvörður mannasiða í landinu. Það boðar frið og kærleik, umverndar allt og alla á erfiðum tímum jafnt sem gleðistundum lífsins. Í bónus lofar trúin eilífu lífi. Hvað er svona slæmt við það?

Þannig var frá upphafi hugmynd mín að Yahweh, ásamt syni hans Jesú Kristi, væru boðberar friðar, kærleika og réttlætis. Hvaða maður getur hafnað slíkum náðarkrafti? Sem kristinn skyldi ég ekki hvernig annað væri yfirleitt hægt og frá upphafi var ég alveg sáttur við mína guðstrú. Það var enda margt virkilega gott að finna og kristið fólk hafði kennt marga góða hluti. Á þeim tíma höfðaði sá Kristur sem ég trúði á til minnar sterkustu réttlætiskenndar.

Það skemmtilega við réttlætiskenndina er að hún gerði mig á endanum trúlausan. Því ef í huga þínum er samúð og réttlæti áttu enga samleið með kristinni Yahweh-trú. Hjá mér voru þetta smáar uppgötvanir og rökræður við eigin samvisku sem brutu niður mitt kristna bjarg. Örlög bjargsins er að molna niður í sand og þar byggði ég mitt hús. Nokkrum árum eftir fermingu fór ég að velta fyrir mér nokkrum klassískum sunnudagaskóla- og biblíusögufræðum sem ég hafði numið í barnæsku minni.

Mig minnir að eftir að hafa horft á Mósebíómynd, þar sem plágurnar sjö frá Guði sóttu á huga minn, að ég gat varla talið réttlætanlegt að drepa sveinbörn og óteljandi manns með slíkum hryðjuverkum. Mér fannst hvert mannslíf of dýrmætt til réttlæta ógeðsleg morð. Ég fór að spyrja mig spurninga. Ef minn kæri Guð gat með kraftaverki opnað heilt haf sem flóttaleið fyrir þjóð Móse, hvers vegna í ósköpunum þurfti þá hann af hefndarhug að drekkja öllum hermönnum farós. Honum var í lófa lagið að svæfa þá rétt á meðan Móses og félagar gátu læðst í burtu. Í raun þurfti minn kæri Guð aldrei að drepa neinn. Ég eiginlega skammaðist mín að hugsa af meiri kærleik en minn algóði Guð. Hvers vegna sjá prestarnir sem segja þessa sögu blygðunarlaust ekki þessa grimmd?

Á sama tíma mundi ég eftir fleiri sögum úr skólanum og Nóaflóðið kom upp í huga minn. Jú, Guð drekkti öllum börnum þessa heims nema afkomendum Nóa til að hreinsa jörðina. Í mínum huga var þetta grimmdarverk sem aldrei gat samræmst réttlætiskennd minni. Þessar aðfarir minntu mig frekar á hvernig nasistar höguðu sér gagnvart Gyðingum en aðfarir míns kæra Guðs sem gaf okkur frænda Móse, hann Jesú Krist. Þetta var afar óþægilegt, en ég ákvað samt að loka á Gamla testamentið og líta á það sem gamlar þjóðsögur. Þar var engin leið að halda í Jesú með Móseslögmál og fjöldamorð á bakinu, enda leyfði samviska mín ekki slíkan hrottaskap. (Engu að síður eru sögurnar af Móse og Nóa áfram kenndar sem heilagur sannleikur í sunnudagaskólanum, biblíufræðum í grunnskólanum og almennt í kirkjunni. Ég sé presta hamra á þeim sem heilögum sannleik þó þeir reyni að víkjast undan á opinberum vettvangi með allskonar grænsápuguðfræði. Fyrir stuttu spurði ónefndur þáttastjórnandi prest hvort að Guð gamla testamentisins væri ekki Guð valdboðs og hefnda, en presturinn varð hneykslaður og talaði fögrum orðum um hans hátign Yahweh).

Nú liðu nokkur ár áður en næsta skref var tekið, en þá ákvað ég að lesa betur Nýja testamentið enda kominn yfir tvítugt. Mig langaði bara að fræðast meira um Jesú en lofaði samt sjálfum mér að lesa textann í þetta sinn ekki eins og páfagaukur. Í huga mínum fannst mér auðveldara að gera meiri kröfur til Jesú en frænda hans Móse. Allur grundvöllur trúar minnar byggðist á kærleika Krists og þeim tíma var trúleysi ekki til í minni orðabók. Satt best að segja runnu fljótlega á mig tvær grímur. Í huga minn sprungu út óteljandi áleitnar spurningar. Kannski sú áleitnasta hvort að nokkur prestur hafi í raun lesið Nýja testamentið með augun opin. Mér leið beinlíns illa af öllu ruglinu og mannvonskunni í Nýja testamentinu sem stóðst enga gagnrýna hugsun um réttlæti og kærleika.

Trú hafði beðið hnekki og eina lausnin með allar mínar efasemdir var að leggja við hlustir. Prestar þjóðkirkjunnar hlutu að segja eitthvað af viti um minn fyrrum kæra Krist. Mér fannst að það hlyti að vera hægt að rétta skútuna við með því að hlusta á mér lærðari menn. En í þær kistur var fátt að sækja og prestarnir gerðu bara illt verra. Ég tók sérstaklega eftir því hvernig prestar slepptu viljandi slæmum textum og völdu ávallt þá fáu sem litu vel út. Gamlar sunnudagaskólatuggur voru matreiddar fyrir eldra fólk sem heilagur sannleikur. Í raun var þessi framsetning móðgun við fullorðið fólk. Algengt var að textinn væri slitinn úr samhengi og hann kokkaður til sem djúpvitur sannleikur aftan úr fornöld allt til að svæfa heilabú kirkjugesta. Í sumum tilvikum fannst mér prestar tala sér þvert um geð og innst inni finn ég að þeir vita betur. Um tíma var ég eiginlega farinn að vorkenna þeim. Ég efast alls ekki um góðan hug langflestra presta gagnvart réttlæti og mannréttindum. Í stólræðum fara þeir oft mikinn í tjáningu sinni um mannréttindi, samvisku, kærleik og réttlæti. Reyndar er það réttlæti hvergi að finna hjá einvaldinum Yahweh.

Það sem læra má af sögunni um Jesú Krist eru varnaðarorð um dæmigert költsamfélag sem byggir á foringjaræði og skilyrðislausri trú. Saga um mann sem telur sig guð og fær feður til að yfirgefa börn sín til að lifa eins og engisprettur. Þeir éta uppskeru þeirra sem sá fyrir daglegu brauði. Lærisveinarnir keppast við að skilja lærimeistarann til að komast í hásæti himnaríkis við hlið foringjans. Sá sem er ekki með Jesú er á móti honum samkvæmt ritningunni. Vissulega ætlar Jesú að elska meinta óvini sína en hann ætlar engu að síður að brenna þá í eldsofni á efsta degi. Rökvillurnar, mótsagnirnar og allt ruglið hrúgast upp í hrikalegan sorphaug. Svo mikinn að viðvörunarljós hjá heilbrigðu fólki ættu að blikka skært.

Þannig jörðuðu kröfur mínar um kærleik og réttlæti trú mína á Jesú Krist. Ef öll spil eru lögð á borðið með lágmarks rökhugsun þá standast ekki gjörðir Yahweh og svo síðar Jesú á plánetunni jörð nokkra skoðun. Eiginlega eru athafnir þeirra feðga svo arfavitlausar og óguðlegar að engu tali tekur. Það þarf ekki mikla greind til að sjá hversu illa upplýstur Yahweh er þegar hann kemur skilaboðum sínum til jarðarbúa. Ekki síst hvernig hann daðrar við örfáa útvalda á takmörkuðu landsvæði á örstuttum jarðsögulegum tíma á plánetunni Jörð. Skilaboð hans til jarðarbúa í gegnum Móse og svo með komu Jesúköltsins með fyrstu bækistöðvar sínar á Vatikanhæðinni í Róm eru ekkert annað döpur hrollvekja . Aldrei virðast dætur né konur skipta máli hjá Yahweh og félögum, sem stimpla sig inn sem herfilegustu karlrembusvín allra tíma. Svo mikil svín eru þeir að konur eru ennþá að berjast fyrir rétti sínum í kristnum samfélögum.

Hinn Kristni heimur hrundi eins og spilaborg í huga mínum. Já, ef Guð væri Yahweh þá var hann með analog-mannsheila og þekkingu á við skrælingja. Hvernig má það vera? Ef til er Guð væri hann eitthvað miklu meira og stærra. Við það sat hjá mér enda alveg nóg að kveðja Jesú Krist Biblíunnar. Á þeim tímapunkti gerðist fátt í trúarlífi mínu en að endingu var ákveðið uppgjör óhjákvæmilegt. Auðvitað viðurkenndi ég þróunarkenninguna um tilurð lífsins en samt áleit ég að æðri máttur hlyti að vera þar að baki. Dag einn sat ég fyrir framan sjónvarpið og horfði á þátt um þróun lífs á jörðinni. Á þeirri stundu áttaði ég mig á mestu rökvillu lífs míns. Ef lífið á jörðinni er orsök þróunar þá er ekkert pláss fyrir skapara. Í sannleika sagt var Guðinn ekki dauður, hann hafði aldrei verið til.

Guðshugmyndin var frá þeim degi í raun kjánaleg hugmynd. Um leið ég fjarlægði Guð úr lífsjöfnunni fóru dæmin að ganga upp. Ég skildi loksins lífið á plánetunni Jörð og hvers vegna ég var til. Slæmir og góðir hlutir eru ekki örlög eða ánauð heldur orsök og afleiðing. Satt best að segja var mikill léttir að losna við Guðshugmyndina á erfiðum stundum, því ekki þarf ég lengur að reiðast mínum algóða og alvitra Guði. Þannig eignast maður ákveðið æðruleysi til að taka því sem höndum ber og um leið að taka ábyrgð á eigin lífi. Ekki verður lengur þörf á að kenna Guði um hitt eða þetta. Ekki lengur þörf leggjast á hné og biðja bænir til Jesú um að laga hitt eða þetta. Skyndilega var ég orðinn trúlaus. Æðri máttarvöld höfðu algjörlega vikið úr huga mínum í allsherjar samviskuhreingerningu.

Ég átti erfitt fyrstu daganna sem trúleysingi enda þekkti ég enga slíka á þeim tíma. Það var undarleg tilfinning að hugsa sér að enginn Guð væri að fylgjast með. Saga Orwell, 1984, var liðin hjá í lífi mínu. Ég var í raun frjáls maður sem gat hugsað sjálfstætt, dregið eigin ályktanir án þess að takmarka mig við þrönga heimsmynd kristninnar. Eftir situr samt sú ótrúlega tilhugsun að hér á landi sé kristin trú ríkistrúarbrögð. Að fjöldi manna hafi fulla atvinnu af Biblíusögum aftan úr forneskju. Ennþá er verið að eyða hundruðum milljóna í hof til blíðka einvald á himni. Er ekki tími til að bola síðasta einvaldinum út úr lífi íslendinga, honum Yahweh og syni hans?

Þegar horft er úr fjarlægð á allar þessar múnderingar og allt bruðlið í kringum þessa lygi þá særir það aftur réttlætiskennd mína. Hvað eruð þið að hugsa, getur maður spurt. Svarið er einfalt, ég var sjálfur eitt sinn kristinn og staðreyndin var sú að ég var þá ekkert að hugsa. Ég var þjónn og þræll hugmyndafræði sem krefst að allir taki þátt án raunverulegrar gagnrýni. Auðvitað sárnar fólki ef einhver hættir að taka þátt í leiknum og benda á að keisarinn er nakinn. Eflaust er það ástæðan fyrir því að höfðingjar kristni á Íslandi vilja hafa ríkiskirkju. Þannig er hægt að tryggja að sem flestir taki þátt í leiknum um alla framtíð.

Kristni er einfaldlega gríðarlegt farg sem lagt hefur verið á þjóðina og tákn hennar eru brennimerkt í hvern hól. Vonandi fara fleiri að leyfa sér hugsa og vonandi kemur sá dagur að góður prestur yfirgefi leikvöllinn vegna samvisku sinnar. Hefji upp rausn sína til gagnrýna forneskju og einvaldatrú. Sá dagur kemur að þetta kerfi mun á endanum brotna innanfrá. Vissulega verða alltaf fáeinir landsmenn tilbúnir að fylgja költsöfnuðum samanber tólf lærisveina forðum, en það er sorglegt að sjá að 86% þjóðarinnar er skráð í slíkt költ, fullu af lygi og ljótum fornsögum. Það er tími til kominn að vakna.

Frelsarinn 20.12.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 20/12/04 09:34 #

Það eina sem guð hefur sér til afsökunar, er að hann er ekki til, hmm?


Erik - 20/12/04 09:37 #

Heyr, Heyr. Frábær grein.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 20/12/04 10:23 #

Jæja kallinn, - hvað ef Krosslafur er nú til og er bara heimskt illmenni eftir allt saman, þá meikar þetta allt sens og þú kominn í bigg trobbúl! En sumsé, takk fyrir, þetta var mjög athyglisverður "vitnisburður", he,he, praise the Lord! Við sem erum svo óheppin að hafa ekki fæðst trúlaus og höfum þurft að ganga í gegnum aftrúun þekkjum þessa erfiðu tíma sem þú talar um en umleið er það auðvitað gríðarleg frelsistilfinning að kasta af sér hlekkjum guðstrúar. Í mínu tilfelli voru það viðbrögð samfélagsins sem voru erfiðust því trúmenn eru svo viðkvæmir fyrir gagnrýni á trúna, og þeim finnst óþolandi að einhver pjakkur hrópi að keisarinn sé alsber, maður var skammaður í bak og fyrir og fékk endalaust að heyra frasann "aðgát skal höfð í nærveru sálar", en öllum er skítsama um "sál" hins trúlausa, hann er bara "hrokagikkur" ofl. þú þekkir rútínuna...............

93


Finnur - 20/12/04 10:44 #

vel skrifað frelsari


Árný Leifsdóttir - 20/12/04 12:52 #

Afar góð grein.


urta (meðlimur í Vantrú) - 20/12/04 14:34 #

Afar góð grein. Það er mjög gaman - og fróðlegt - að heyra um hinar ýmsu leiðir sem mismunandi einstaklingar fara til þess að losa sig undan fargi trúarinnar.


Snær - 20/12/04 16:23 #

Það er alltaf skemmtilegt að lesa enn eina frelsunarsöguna.

Allir að vakna og fara réttu megin fram úr...!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.