Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Erdogan, ESB og kristni

Erdogan Tyrkjavaldur varar Evrópusambandið við því að útiloka þá sem ekki eru kristnir. Það er full ástæða til að taka undir með honum. Þvílík firra að útiloka ó-kristna frá því að geta talist Evrópumenn. Er ég þá ekki Evrópumaður? Ég afþakka pent að flokkast til kristinna manna. Fell ég þá utan skilgreiningar á Evrópumanni?

Það er kominn tími til að ESB hysji upp um sig buxurnar. Í umræðunni um stjórnarskrá Evrópusambandsins er eins og eitt hafi ekki farið hátt: Aðskilnaður ríkis og kirkju. Þar er atriði sem ætti að vera stjórnarskrárbundið. Ef það þykir ástæða til að stjórnarskrárbinda kapítalisma, þá hlýtur að vera ástæða til að stjórnarskrárbinda sekúlarisma ríkisvaldsins.

Hvað sem Erdogan líður að öðru leyti, þá er þarna réttmæt krafa á ferðinni. ESB getur ekki leyft sér að skilgreina Evrópubúa sem kristna. Með því væri tekið skref afturábak. Bæði innflytjendum og innfæddum væri mismunað, trúfrelsi ógnað og fólki stíað sundur algerlega að óþörfu. Ástæðurnar fyrir því að ESB vill ekki helypa Tyrkjum inn eru að Evrópubúar eru margir hverjir lítið hrifnir af fólki sem er skuggalegt á litinn og að Tyrkland er að sumu leyti ennþá aftur á miðöldum.

Það sama má segja um Evrópusambandið. Ef trúarbrögðin eiga að heita ástæðan fyrir því að halda þeim úti, þá er Evrópusambandið komið stóru stökki nær miðöldum.

Vésteinn Valgarðsson 17.12.2004
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


urta (meðlimur í Vantrú) - 17/12/04 14:30 #

Já - það er spurningin hvort við sem "afþökkum pent" fyrir að teljast til kristinna manna, erum þá "utan Evrópu"? Gott sjónarhorn!


Karl Birkir - 17/12/04 18:57 #

Auk þess sem kristni er austur-evrópsk að uppruna (Var það ekki annars?) á meðan upprunalegu vestur-evrópsku trúarbrögðin eru svo gott sem útdauð.


Snæbjörn - 17/12/04 23:29 #

Eru annars ekki bæði Albanir og Bosníumenn að stórum hluta múslimar?


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 17/12/04 23:58 #

Albanir hérumbil allir og Bosníumenn að miklu leyti. Ætli Kýpur-Tyrkir teljist til Evrópubúa? Telst Kýpur til Evrópu? Og hvað með moriscos á Spáni, niðja spænskra mára á 15. öld, ætli þeir séu ekki að einhverju leyti múhameðstrúar líka? Síðan má ekki gleyma einum hópi: Gyðingum. Í eVrópu hafa búið gyðingar í margar aldir, og eiga fullt tilkall til þess að teljast til Evrópubúa. Freud, Einstein, Schopin, Disraeli, Marx, Spinoza og Herzl, voru þetta ekki allt saman þvottekta Evrópumenn?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 18/12/04 00:20 #

Nú ertu farinn að rugla saman "kynþáttum" og trúarbrögðum. Eða voru Marx, Freud og Spinoza gyðingatrúar?


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 18/12/04 00:44 #

Nei, ég held að enginn þeirra hafi verið það. En þeir sem eru gyðingaættar og eru á annað borð trúaðir eru býsna oft gyðingatrúar.


Árni Árnason - 21/12/04 12:29 #

Ég held að spurningin um inntöku tyrkja í Evrópusambandið snúist alls ekki um trúarbrögð. Það hentar e.t.v baráttu tyrkja að gera málið að trúarlegu deiluefni, því að það aflar þeim eflaust samúðar allra þeirra sem ekki þola trúarlega mismunun. Næðu tyrkir að sannfæra heiminn um að innganga þeirra í ESB velti á trúarbrögðum væri því stór sigur unninn fyrir þá.

Svo lengi sem menn muna hafa geisað svokölluð "trúarbragðastríð", en a.m.k. verulegur hluti þeirra hefur trúarbrögðin aðeins að yfirskini. Það vill nefnilega þannig til að það er nánast alltaf fleira en trúarbrögð sem skifta löndum milli fólks. Sumt tengist trúnni beint og óbeint, en efnahags og stjórnmálaástand, sem og hreinlega lífsgæði af náttúrulegum orsökum eiga þar stóran hlut. Mannréttindi og almenn réttlætiskennd ( þar sem trúarhefðir skifta oft verulegu máli) ráða oft úrslitum um það hvort þjóðir geta aðlagast hver annarri.

Tyrkir eiga ekkert erindi í Evrópusambandið. Það kæmi þeim sjálfsagt vel að komast inn, en það yrði hinum sem þar eru fyrir alls ekki til góðs. Tyrkir standa stærstum hluta Evrópu langt að baki á nær öllum sviðum, og myndu einasta opna gátt araba inn í ESB með tilheyrandi kostnaði og hnignun efnahags og mannréttinda.

Það er og verður alltaf erfitt að draga línu milli þess í fari þjóða sem er bein eða óbein afleiðing trúarbragða, og hins sem þeim óháð. Það er hinsvegar fjarri öllu sanni, að höfnun á inntöku tyrkja í ESB sé beinlínis af trúarlegum ástæðum.

Ef það er trú þeirra sem veldur almennu ástandi í Tyrklandi, lágum lífsstandard, skorti á mannréttindum o.s.frv. , þá er trúin í besta falli óbein ástæða fyrir því að ESB vill þá ekki inn.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 22/12/04 09:03 #

Ég held reyndar líka að trúarbrögð séu bara fyrirsláttur til að þurfa ekki að fá inn í sambandið milljónir fátæks og illa menntaðs fólks sem er skuggalegt á litinn. Ég veit ekki hver byrjaði að blanda trúarbrögðunum inn í þetta, en Kristilegir demókratar í Þýskalandi hafa alla vega ekki látið sitt eftir liggja.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.