Í nýlegri grein séra Arnar Bárðar Jónssonar vitnar hann í predikun sjálfs sín og segir að guðleysi sé lífsafstaða, en lífsafstaða sé trúarafstaða og því sé efnishyggja kommúnista í rauninni eins konar trú. Ekki séu til trúlausir menn því allir menn hafi lífsafstöðu og því trúarafstöðu. Örn segist líta svo á að „trúin sé fólgin í trausti á að tilveran sé með tilteknum hætti ... Þeir voru ófáir sem treystu kommúnismanum og létu hugmyndafræði hans og forsendur móta lífssýn sína, m.a. þá trú að enginn Guð væri til.“ Enn fremur segir Örn: „Kommúnisminn er trú skv. skilgreiningu minni og guðleysi sömuleiðis þar sem um er að ræða lífssýn, hugmyndafræði eða kerfi sem útskýrir tilveruna eða skilgreinir hana.“
Ekki veit ég hvort séra Örn heldur að hann sé sniðugur að endurtaka þessa gömlu tuggu, eða hvort hann telur að nú, að Sovétríkjunum föllnum, sé hægt að bera kommúnistum hvað sem er á brýn, því þeir séu ekki lengur til og geti því ekki varið sig, eða altént geti þeir ekki komið vörnum við sökum gjaldþrots síns. Það samþykki ég ekki. Ég ætla að reyna að svara nokkrum spurningum: Eru kommúnistar trúmenn eða er kommúnismi trú? Eru Vantrúarmenn kommúnistar? Er barátta Vantrúar gegn hindurvitnum kommúnísk? Eru ógæfuverk í Sovétríkjunum tengd því að þeim var stjórnað af trúleysingjum?
~~~~~~~*~
Það „kerfi sem útskýrir tilveruna eða skilgreinir hana“ hjá marxistum nefnist díalektísk efnishyggja. Í stuttu máli sagt er kjarni hennar þessi: Efnislegur veruleiki er skýrður á efnislegum forsendum og breytingar og þróun verða vegna átaka, vegna ytri áhrifa á hluti og vegna innra eðlis þeirra sjálfra. Rökrétt, ekki satt? Efnisheimurinn er ekki tilviljanakennd hrúga af ótengdum þáttum, heldur tengist hver þáttur öðrum og hver hefur áhrif á aðra. Efnisheimurinn er í stöðugri mótun og tekur stöðugum breytingum og þessar breytingar verða vegna átaka eða togstreitu andstæðra afla. Allir hlutir hafa að geyma innri andstæður og breytingar á þeim eru háðar því hvort andstæður þessar eru í jafnvægi eður ei. Megindlegar (kvantítatífar) breytingar eru tiltölulega hraðar en þegar þær hafa orðið ákveðið miklar verða eigindlegar (kvalítatífar) breytingar, sem eðli málsins samkvæmt eru gisnari.
Skyldi vera hægt að stofna trúfélag í kring um þessa lífsskoðun?
Ég leyfi mér að efast um það. Þessi lífsskoðun er ekkert annað en raunsæ og yfirveguð nálgun á efnisheiminn. Í henni gætir hvergi neins konar yfirnáttúru eða óútskýranleika; ástæðulausri dulúð er ekki fyrir að fara. Afneitar díalektísk efnishyggja guði, alheimsorku skyggnigáfu eða lífi eftir dauðann? Nei, í sjálfu sér ekki. Díalektísk efnishyggja gengur ekki út á að afneita yfirnáttúru í sjálfu sér. Jafnvel er vafasamt að kalla megi hana trúleysi (þótt hún sé það svosem frá sjónarmiði trúaðra); trúleysi felur í sér afneitun á trú og gengur að sumu leyti út þá afneitun. Díalektíska efnishyggjan byrjar hins vegar á byrjuninni, raunveruleikanum, sem sagt að maðurinn og náttúran séu einfaldlega til. Það var ekki forgangsatriði, hjá karli þeim er Marx hét, að afneita guði frekar en það er forgangsatriði fyrir fullorðið fólk að afneita tannálfum eða galdravélmennum úr geimnum.
Hverju sætir það þá að fólk skuli trúa á guð (eða guði eða yfirnáttúru)? Fólk skapar sér guði í sinni eigin mynd, það flýr á náðir trúarbragða meðan þau bjóða upp á ásættanlegri heimsmynd en raunveruleg lífskjör fólks gera, og þegar fólk firrist af kapítalískri launavinnu, og líður eins og það vanti eitthvað í það, þá verður viðleitni þess til að fylla þetta skarð að þeim jarðvegi sem trúin sprettur úr. Ef þar að kemur, að kapítalísk launavinna og firring heyra sögunni til, og brauðstrit fólks hættir að vera firrt, þá rennur og upp sá dagur að „skarðið í sálinni“ lokist og þörfin fyrir guð hverfi. Um leið og trú er trúmanni „smyrsl á sárin“ er efnishyggja efnishyggjumanninum hvöt til að taka örlög sín í eigin hendur og bæta það sem úrskeiðis er í lífi hans. Í stað þess að skoða himnaríki, trú og guðfræði í gagnrýnu ljósi eru vígstöðvar díalektískrar efnishyggju fyrst og fremst þær, að beina gagnrýninni að jörðinni, lögunum og stjórnmálunum.
Marx gagnrýnir þannig trúarbrögð, en ekki sem orsök vandans, heldur sem einkenni hans. Sá vandi, sem öðrum fremur er orsökin, er kapítalisminn, sem með sínum firrtu framleiðsluháttum og valdboði setur mark sitt á sálarlíf fólks og gerir það móttækilegt fyrir trú. Sársauki lífsins býður heim ópíumi sálarinnar. Ópíum fólksins, trúin, slævir það fyrir hlutskipti sínu og dregur úr reisn þess. Trúin er stuna í píndu dýri.
Fólk gleymir takmörkunum sínum og ófullnægðum lifnaðarháttum með því að ímynda sér að í einhverjum óútskýranlegum skilningi hafi það fá takmörk og geti öðlast eilífa fullnægju. Þetta er að ýmsu leyti sambærilegt við hverja aðra vímu.
Til að eiga auðveldara með að fróa mönnum með tilhugsuninni um dýrð annars heims og um dásemdir guðs og himnaríkis, hefur kirkjan ýtt undir þá heimssýn að maðurinn sé bersyndugur og jarðlífið táradalur. Hún hefur lagt manninum kross á herðar og krýnt hann þyrnum til þess að láta gylliboð sín hljóma girnilega.
Marx fer mörgum orðum um kirkju, presta, ofsóknir og rannsóknarrétti og fleira sem gjarnan er talið til jarðneskra birtingarmynda trúarinnar, en þetta eru jarðnesk fyrirbæri, jarðneskar stofnanir og mennskir menn með mennska hagsmuni, þótt trúin sé afsökun þeirra eða vopn. Hvað er það annað en hræsni, að tala um kærleika, en taka afstöðu með kúgurum, eins og kirkjan gerir með samvinnu sinni við ríkisvaldið? Að tala um fátækrahjálp, en spyrja ekki hvers vegna þeir fátæku séu fátækir til að byrja með? Starfsbróðir séra Arnar, brasilíski erkibiskupinn Helder Camara, sagði „Þegar ég gef fátækum mat kalla þeir mig dýrling. Þegar ég spyr hvers vegna þeir fátæku eigi engan mat kalla þeir mig kommúnista.“ Það er umhugsunarefni. Hvað er það annað en hræsni, að tala um auðmýkt, standandi frammi fyrir íburðarmiklu altari í háreistri höll, sem heitir kirkja? Ef út í það er farið, hvaða dæmi er til betra um mannlega firringu, en að til að byrja með sé reist höll handa þjóðsagnaskepnu?
Það var ekki vilji Marx að frelsa manninn undan guði. Hann vildi frelsa manninn undan sjálfum sér og losa hann úr þeirri sjálfskipuðu ánauð sem trú hans á guð er. Það sem þarf að missa sín er m.ö.o. ekki guð heldur sú ímyndun mannsins að guð sé til. Menn skapa trú; trú skapar ekki menn. Marx, eins og fleiri, gerði greinarmun á lönguninni í að guð sé til og því að hann hljóti að vera til.
Eru kommúnistar trúaðir? Eða, eru díalektískir efnishyggjumenn trúaðir? Ég held að það liggi í augum uppi að það eru þeir ekki. Eru þeir trúlausir? Þeir eru einfaldlega efnishyggjumenn.
~~~~~~~*~
Sovétríkin
Voru ógæfuverk í Sovétríkjunum tengd því að þeim var stjórnað af trúleysingjum? Í stuttu máli sagt: Nei. Það mun vera satt, að leiðtogar Sovétríkjanna voru trúleysingjar. Að vísu er sagt að Stalín hafi látið blessa sovéska hermenn áður en þeir héldu á vígvöll, og eins má velta fyrir sér hvort sú gagnrýnislausa og dogmatíska persónudýrkun, sem óneitanlega hefur sést meðal sumra kommúnista, geti flokkast undir eins konar yfirfærða bókstafstrú á óskeikula menn, þótt hún feli ekki í sér neins konar yfirnáttúru.
En hvað með Sovétríkin? Hvað með Stalín? Eins og áður var vikið að, er kommúnismi ekki trú. Í Sovétríkjunum var opinbert trúleysi. Gerir það menn grimma eða ófyrirleitna? Nei, ekki frekar en trúleysi á jólasveina lætur fólk stela sælgæti af börnum.
Það er satt, að bolsévíkar hvöttu til trúleysis og lokuðu sumum kirkjum og rændu sumar. Látum liggja á milli hluta spurninguna, hvers vegna þær voru svona ríkar til að byrja með, en rússneska rétttrúnaðarkirkjan tók ótvíræða afstöðu með gerspilltri keisarastjórninni, með kúgurunum gegn fólkinu. Svosem ekkert nýtt þar á ferð, fyrir þá sem muna eftir Lúther og bændauppreisnunum eða kaþólsku kirkjunni og helförinni.
Þótt Stalín væri trúleysingi voru hagsmunir hans og valdaklíku Sovétríkjanna ofar á forgangslistanum en trúleysi.
Leysti trúleysið grimmdaræði og blóðþorsta úr læðingi í sovéskum kommúnistum? Þegar þessarar spurningar er spurt eru a.m.k. þrjár rökvillur á ferðinni. Ein er sú að gera ráð fyrir því að eðli mannsins sé að vera fjöldamorðingi, ef það er ekki í viðjum trúar og kirkju. Vægast sagt kaldranaleg afstaða. Önnur er að horfa framhjá því hvernig alræðislegir valdstjórnarhættir og vænisjúkur harðstjóri fara saman. Þriðja er að líta framhjá því að kristnir menn hafa líka staðið fyrir óafsakanlegum grimmdarverkum, þrátt fyrir þessa æðislegu trú sína. Jafnvel í nafni hennar. Er þá ekki nærtækara að leita skýringanna í aðstæðum þeim sem voru ríkjandi, frekar en trú eða trúleysi?
En hlutskipti trúarbragða í Sovétríkjunum? Öfugt við það sem margir halda voru trúarbrögð ekki bönnuð. Ríki og kirkja voru aðskilin og börnum voru ekki innrætt trúarbrögð í skólum, en engu að síður fjöruðu trúarbrögðin ekki út. Hvers vegna ekki? Af sömu ástæðu og ríkisvaldið gerði það ekki. Byltingin var aldrei til lykta leidd og gagnbyltingin keyrði hana út af sporinu frekar snemma. Firring var áfram til, og lengi eimdi eftir af gömlum siðum.
En hvað sem glæpaverkum og mistökum Stalíns líður, þá var opinbert trúleysi og afhelgun ríkisvaldsins með betri verkum Sovétmanna.
~~~~~~~*~
Síðustu tvær spurningarnar voru: Eru Vantrúarmenn kommúnistar? Er barátta Vantrúar gegn hindurvitnum kommúnísk? Svarið við þeim báðum er skýrt: Nei. Vantrúarmenn sem slíkir eru ekki kommúnistar og Vantrú er ekki kommúnistasíða. Barátta Vantrúar gegn guðum, miðlum, draugabönum og öðrum hindurvitnum er ekki kommúnísk heldur. Þema Vantrúar er ekki díalektísk efnishyggja heldur það, að sýna fram á veikleika og fáránleika í málflutningi þeirra sem halda fram firru og hindurvitnum, hvort sem þeir eru vísvitandi loddarar eða bara velviljað fólk sem veit því miður ekki betur.
Gott að við skulum nú komnir með útskýringu á tengslum milli lífsskoðanna, trúar og trúleysis, sem nýtir sér orðaforða Venn-mynda. Væri ekki bara sniðugt að teikna eina upp?
Jú, en hann var ekki vígður til prests. Eftir því sem ég best veit flosnaði hann upp úr guðfræðinámi vegna tengsla við róttæka pólítíska starfsemi.
Leiða mætti rök að því að allir stjórnmálahópar eða flokkar beri merki sértrúarsafnaða og væru kommúnistar þar ekki undanskildir. Sammerkt slíkum hópum virðist vera að líta á sig sem handhafa og einkaleyfishafa stórasannleiks. Félagarnir eru hinir hólpnu og sigursælu - aðrir eru fordæmdir og verðskulda útskúfun. Það er þetta „við og hinir“ viðhorf sem Betel-Snorri, Kross-Gunnar og þeirra nótar nota sér til framdráttar. Sama gerði Stalín og sama gerði Lenín og sama gera Bush og Osama ástmögur hans. Og sama gera Dabbi og Dóri. Breski heimspekingurinn Bertrand Russell útlistaði á sínum tíma ágætlega hvernig hugmyndin um sameiginlegan óvin væri notuð til að fylkja heilu þjóðunum á bak við vafasaman málstað. Þann leik leika líka sértrúarhópar, frjálshyggjugaurar, framsóknarmenn og kommúnistar. Sjá: Bertrand Russell ÞJÓÐFÉLAGIÐ OG EINSTAKLINGURINN Bókaútgáfan Dagur - MCMLI
Við höfum áður vitnað í Bertrand Russel varðandi kristni og kommúnisma hér á Vantrú.
Bigir segir:
"Trúarskoðanir eru mengi í mengi lífsskoðana en ekki öfugt."
Sammála þessu!
Ég er líka 100% sammála því sem Manni segir.
Annað dæmi um hóp mekanista (fólk sem trúir ekki á guði eða álfa) sem má auðveldlega flokka sem trúarnöttara: Kríonistar
Vel skrifuð grein hjá þér, Vésteinn! Einn augljósan veikan hlekk fann ég þó í röksemdakeðju þinni. Þú segir m.a.eftirfarandi: 'Fólk skapar sér guði í sinni eigin mynd, það flýr á náðir trúarbragða meðan þau bjóða upp á ásættanlegri heimsmynd en raunveruleg lífskjör fólks gera, og þegar fólk firrist af kapítalískri launavinnu, og líður eins og það vanti eitthvað í það, þá verður viðleitni þess til að fylla þetta skarð að þeim jarðvegi sem trúin sprettur úr. Ef þar að kemur, að kapítalísk launavinna og firring heyra sögunni til, og brauðstrit fólks hættir að vera firrt, þá rennur og upp sá dagur að „skarðið í sálinni“ lokist og þörfin fyrir guð hverfi. Um leið og trú er trúmanni „smyrsl á sárin“ er efnishyggja efnishyggjumanninum hvöt til að taka örlög sín í eigin hendur og bæta það sem úrskeiðis er í lífi hans.sem sé þann að trú er að finna í þjóðfélögum sem ekki er hægt að kenna við kapítalisma.' Þarna finnst mér þú vera á algjörum villigötum,því trú hefur fylgt mönnunum lengur en kapitalismi og trú má finna hjá háum jafnt sem lágum,sjálfstæðum og ósjálfstæðum, fátækum og ríkum,í öllum heimsálfum og öldum saman. Gæti það verið af því að maðurinn sé í þörf fyrir eitthvað sér æðra, ekki sízt þegar honum líður illa eða þarfnast huggunar? Sú líðan er ekki tengd kapítalísku launakerfi. Líðan manna og sálarlíf fer eftir mun flóknari leiðum en hægt sé að miða eingöngu við ytri aðstæður.Mér sýnist þú þurfa rökstyðja mál þitt út frá víðara sjónarhorni! Kveðja, KF
Már. Er ekki eitthvað athugavert við að kalla hufmyndakerfi sem að hefur engar trúarskoðanir trúarbrögð (og þá fólk sem að aðhyllist þetta á öfgafullan hátt trúarnöttara)? Væri ekki nær að tala um hugmyndakerfi eða eitthvað í þá áttina?
Efnisheimurinn er ekki tilviljanakennd hrúga af ótengdum þáttum, heldur tengist hver þáttur öðrum og hver hefur áhrif á aðra. Efnisheimurinn er í stöðugri mótun og tekur stöðugum breytingum og þessar breytingar verða vegna átaka eða togstreitu andstæðra afla. Allir hlutir hafa að geyma innri andstæður og breytingar á þeim eru háðar því hvort andstæður þessar eru í jafnvægi eður ei. Megindlegar (kvantítatífar) breytingar eru tiltölulega hraðar en þegar þær hafa orðið ákveðið miklar verða eigindlegar (kvalítatífar) breytingar, sem eðli málsins samkvæmt eru gisnari. Skyldi vera hægt að stofna trúfélag í kring um þessa lífsskoðun?
Já, og raunar var það gert fyrir nokkuð löngu síðan. Trúfélagið kallast Taoismi.
Manni: Satt er það, að andstæðan "við-gegn-þeim" er afar oft notuð sem átylla, til að fylkja fólki að baki valdamönnum gegn ímynduðum og/eða raunverulegum óvinum. Og/eða raunverulegum. Eins og það eru til plat-óvinir, þá eru einnig til ekta óvinir.
KF: (Mitt nafn er þarna í misgripum..) Ég kann að hafa tekið óskýrt til orða. Það sem ég vildi sagt hafa er að út af fyrir sig er það ekki kapítalisminn sem skapar trúarþörf. Það sem skapar trúarþörf eru firrtir framleiðslu- og lifnaðarhættir. Þar við bætist að vanþekking fólks á gangverki efnisheimsins, saman við löngun til að skilja það, gerir það oft að verkum að fólk skáldar í eyðurnar eða sættist á uppdigtaða eyðufyllingu. Nú eru þessar eyður færri og smærri en þær voru til forna, en á hinn bóginn eru framleiðslu- og lifnaðarhættir okkar mikið firrtir. Þannig að þótt við getum að miklu leyti svalað þekkingarþorstanum með vísindum og fræðum, þá gildir ekki það sama um hitt; líf okkar er ennþá firrt og því er trúarþörfin enn til staðar. Það mætti kannski umorða þetta: Ef daglegt líf okkar er á lágu plani, þá höfum við þörf fyrir að lyfta okkur upp með einhvers konar æðri menningu, helgidómi, eða þvíumlíku ... að við fullnægjum þörf okkar til að vera á háu plani með því að lyfta okkur annað slagið upp af lága planinu sem við erum annars á.
Þannig að þegar þú spyrð:
Gæti það verið af því að maðurinn sé í þörf fyrir eitthvað sér æðra, ekki sízt þegar honum líður illa eða þarfnast huggunar?
...þá held ég að þú hittir beint í mark. Ég held að maðurinn hafi þörf fyrir eitthvað æðra vegna þess að hans daglega amstur er, í einhvejrum skilningi "óæðra". Hvers vegna er það óæðra og óæðra en hvað? Óæðra en ídeal, ófirrt líf, óæðra vegna þess að það er rænt gildi sínu.
Síðan segirðu:
Sú líðan er ekki tengd kapítalísku launakerfi. Líðan manna og sálarlíf fer eftir mun flóknari leiðum en hægt sé að miða eingöngu við ytri aðstæður.
Líðanin er tengd fleiru en launakerfi kapítalismans, en tengd er hún því engu að síður. Kapítalískt launakerfi er ein breyta af nokkrum, breyta sem vegur þungt. En vitanlega spilar fleira inn í, og vitanlega á sama við um önnur efnahagskerfi sem hafa þennan innbyggða galla, firringuna.
Smá viðbót: Það er ekki hægt að kalla fólk trúarnöttara sem ekki aðhyllist trúarbrögð. Hins vegar má vel kalla nöttara nöttara, fanatíkera fanatíkera, ofstækismenn ofstækismenn o.s.frv. Þannig að í tilfelli kommúnismans, sem hér er til umræðu, er ekki hægt að tala um trúarnöttara. Í yfirfærðri merkingu orðsins má kalla dogmatíska persónudýrkendur hálfgerða bókstafstrúarmenn, en, sem ég segi, aðeins í yfirfærðri merkingu orðsins. Ég held hins vegar að enginn neiti því, að meðal kommúnista er til ofgnótt af kredduföstum ofstækismönnum. Þeir geta verið kreddufastir, þeir geta verið nöttarar, og margt fleira.
Ég dumpaði guðstrúnni á táningsaldri og gerðist efasemdarmaður. Efinn færði mig nær díalektískri efnishyggju og reyndar þá freistaði ég þess að stofna félag um slíka lífsskoðun og fá það skráð hjá Dóms- og Kirkjumálaráðuneytinu sem trúfélag. Ég fékk synjun sem að vísu var greinilega ekki byggð á lögunum sjálfum heldur skoðunum guðfræðingsins sem yfirfór umsóknina. En í kjölfarið var lögunum breytt og í dag er nánast ógerlegt að fá slíkt trúfélag viðurkennt (sorrý).
En þegar ég fór að dýpka pælingar mínar fór mig að gruna að efnishyggja almennt bæri nokkurn keim af nokkuð lúmskri trúarafstöðu. Það fór svo að lokum að ég dömpaði efnishyggjunni, alveg eins og guðstrúnni.
Ég fór eiginlega að sjá efnishyggjuna sem trú án helgihalda og að því leiti mjög ólíka hinum hefðbundnu trúarbrögðum. Í efnishyggjunni er lagt traust á ýmsar forsendur og heimsmynd sem grundvallast á efnisheiminum sem hinum eiginlega veruleika. Einnig er lítið gert úr hinu dulræna og dularfulla. Fullyrt er að furðufyrirbæri eigi sér “rökréttar” og “vísindalegar” skýringar. Þ.e.a.s. rík tilhneiging til þess að útiloka hið dulræna. Trú á tilviljanir virðist vera nokkuð sterk hjá efnishyggjumönnum í stað þess að opna fyrir möguleika á hugsanlegu orskasamhengi.
Hvort sem að efnishyggjumenn neiti því að þeir trúi einhverju eða jafnvel trúi á eitthvað, þá virðast þeir engu að síður vera að verja eigin heimsmynd í rökræðum sínum við t.d. trúað fólk. En varla er til sú heimsmynd sem styðst ekki við einhverjar trúarlegar forsendur. Er ekki hinn sanni efasemdarmaður þannig að hann ræðst á allar heimsmyndir með efasemdum sínum?
Minna má á að forsendur eru aldrei sannaðar. Sannanir eru byggðar á forsendum. Er það ekki einhverskonar trú sem felst í því að samþykkja einhverjar forsendur?
Í leitinni að sannleikanum held ég að það sé afar farsælt að forðast sem mest að samþykkja einhverjar forsendur og jafnframt ætti að forðast það að útiloka neitt, jafnvel þótt það þyki langsótt eða fáránlegt. Það er einfaldlega óþarft að gera það.
Það eru miklar takmarkanir faldar í því að binda sig við eina heimsmynd. En kannski að efnishyggjan sé síðasti viðkomustaður þess sem efast um allt og útilokar ekkert.
Trú á tilviljanir virðist vera nokkuð sterk hjá efnishyggjumönnum í stað þess að opna fyrir möguleika á hugsanlegu orskasamhengi.
Kjaftæði. Skoðaðu þetta.
Forsendan sem ég gef mér er sú að alheimurinn sé rökréttur.
Býrð þú kannski í órökréttum alheimi?
Þess má geta að móðir Stalíns,háöldruð,sagði eftirfarandi:"Slæmt að hann skyldi lenda í þessari bévítans pólitík,hann sem hefði orðið svo góður prestur".
Darri: Ég get ekki séð að greinin um vítalisma og mekanisma sýni fram á það að ummæli mín um tilviljanir og orsakasamhengi séu kjaftæði. Reyndar, þá mætti kannski bæta því við að efnishyggjumenn hafi stundum tilhneigingu til þess að dæma það sem þeir eru ósammála sem ‘kjaftæði’. Slíkur málflutningur finnst mér oft bera vott um fordómafulla afstöðu.
En til þess að skýra þetta aðeins nánar má e.t.v. segja að þegar vítalistar dreyma fyrir atburði sem svo rætist, þá telji þeir vera einhverskonar orsakatengsl eða samhengi þar á milli á meðan mekanistar myndu fremur útskýra slík tilfelli sem tilviljun.
Og þótt að forsendan um að alheimurinn sé rökréttur sé e.t.v. álitleg og praktísk, þá er það engu að síður forsenda sem útilokar að heimurinn sé ekki fyllilega rökréttur. Mér þykir engin þörf á því að taka það sem sjálfgefið. Ef alheimurinn sem ég bý í er í raun ekki rökréttur þá verður bara að hafa það, betra þó að hann væri rökréttur.
Mér þykir engin þörf á því að taka það sem sjálfgefið. Ef alheimurinn sem ég bý í er í raun ekki rökréttur þá verður bara að hafa það, betra þó að hann væri rökréttur.Það að heimurinn sé rökréttur er forsenda vísinda. Ef heimurinn er ekki rökréttur eru vísindi ekki möguleg.
Vísindi eru möguleg, skila gríðarlegum árangri.
Heimurinn er rökréttur.
Eru þetta hringrök?
Mér sýnist þetta bara vera forsenda: "rökréttur heimur er forsenda þess að vísindi virki". Athugun: "vísindi virka" og niðurstaða: "ergo, heimurinn er rökréttur".
En ég er svosem ekki yfir það hafinn að rökræða í hringi :-)
Er ekki dáldið hæpið að draga þá ályktun að forsendur vísindanna séu réttar einungis vegna þess að þau virki. Forsendur geta líka falist í því að vera nálganir á veruleikann, eða praktískar einfaldanir. Vísindin hafa virkað ágætlega og fært mannkyninu ýmislegt gott (og slæmt) en þau ættu nú alveg að þola það að menn setji smá fyrirvara á þau.
Kannski er það hæpið. Um að gera að setja fyrirvara á vísindi (en hvaða fyrirvara?).
Það þarf varla að deila um að forsenda vísinda er rökréttur heimur. Til að hægt sé að endurtaka tilraunir þarf heimurinn að virka eins í dag og í gær, það þarf að vera
Ef heimurinn er ekki rökréttur getum við bara pakkað saman, hætt þessu vísindavafstri og notað einhverja allt aðra aðferð til að afla okkur þekkingar á heiminum - sem væri reyndar ekki hægt þar sem þekking á heiminum krefst þess að heimurinn sé rökréttur.
Þannig að líklega er það ekkert hæpið eftir allt saman.
Já, spurning að pakka saman bara og prófa eitthvað nýtt.
En ég ætla a.m.k. ekki að gera þá kröfu um að heimurinn sé rökréttur í minni þekkingarleit, þótt mig gruni það sterklega.
“Leysti trúleysið grimmdaræði og blóðþorsta úr læðingi í sovéskum kommúnistum?” spyr Vésteinn Valgarðsson í greininni hér í upphafi. Það var kannski ekki á öðru von en að svar hans við þeirri spurningu yrði eindregið “nei”, og enginn Vantrúarmaður hefur svo orðið til þess að leiðrétta það viðhorf hans. En ekki gengur skilningur ykkar djúpt, þegar hugsað er til þess, hvernig Lenín mótaði hugmyndafræði sína um markmið og leiðir bolsévismans. Skrifin hér á undan um þetta efni byggja raunar ekki á neinum athugunum á bókum hans, sem þó eru jafnvel til á íslenzku sumar hverjar eins og Ríki og bylting og Hvað ber að gera? – fróðlegar mjög um afstöðu hans til tilgangsins og meðalanna. Ætli grein Vésteins sé ekki tekin saman á grunni einhverra útlendra vefsíðna vantrúarmanna (eins og fleira efni hér á vefsetrinu), auk hans eigin bollalegginga og viðbragða við [að sumu leyti illa undirbyggðum] skrifum séra Arnar Bárðar frænda míns? En af því að heimavinna Vésteins í þessu máli virðist ekki nógu vel unnin, er full þörf á að benda á það hér. Einnig er tilefni til að vísa hér um leið á veftexta frá sjálfum mér, stuttan, þó allþungvægan í þessu efni sem hér um ræðir, þ.e.a.s. sem andmæli gegn meginthesum Vésteins hér ofar (1: að trúleysi og efnishyggja bolsévika hafi ekki stuðlað á neinn hátt að ógnarstjórn í Sovetríkjunum, 2: að “hvað sem glæpaverkum og mistökum Stalíns [hafi liðið], þá [hafi] opinbert trúleysi og afhelgun ríkisvaldsins [verið] með betri verkum Sovétmanna”). Sá texti minn, sem ég er að benda hér á, er í tveimur innleggjum mínum þann 14/12/04, kl. 22:25 og 22:28, á vefsíðunni (sem þið smellið hérna á) ‘Þráinn Bertelsson lýgur’.
En þetta er vissulega efni, sem verðskuldar miklu dýpri úrvinnslu en þá sem birtist í þessum stuttu athugasemdum. Lesandanum finnst kannski að ‘einhver einfaldur kaþólskur guðfræðingur’ ætti ekki að vera að gjamma hér um þetta mál, sem hann hafi varla nokkra þekkingu á nema yfirborðslega, en þá er því til að svara, að ég er fyrrverandi marxisti, fylgdi þeirri stefnu í 4-5 ár, eftir að ég hafnaði anarkisma Bakúníns u.þ.b. 18 ára gamall, og allt þangað til ég hafnaði Marx-Lenínismanum líka. Hafði ég þá lengi legið í fræðilegum ritum hans, ekki hvað sízt hinum heimspekilegu (ólíkt mörgum skoðanabræðrum mínum á þeim dögum, kommúnistum af 68-kynslóðinni), og aðeins reynt mig við að skrifa um þau efni. Þannig að því fer fjarri, að ég komi af fjöllum í þessu máli. Þar að auki hef ég eftir viðskilnað minn við Marx-Lenínismann í árslok 1971 lagt mig eftir krítískri greiningu á þeirri stjórnmálastefnu allri og áhrifum hennar á það grimmdarkerfi sem tekið var upp í kommúnistaríkjunum.
Vésteinn víkur í fáum orðum að hlutskipti trúarbragða í Sovétríkjunum, en telur greinilega ekki ástæðu til að hafa mörg orð um harðræði kristinna manna þar (einnig um það mál hef ég áður legið í rannsóknum í fjölda bóka á löngu árabili og fjallað um það í a.m.k. þremur blaðagreinum í Mbl. á árum áður). Vésteinn segir (og endar þarna í furðulegri vegleysu, órökstuddri auðvitað): “Öfugt við það sem margir halda voru trúarbrögð ekki bönnuð [í Sovétríkjunum]. Ríki og kirkja voru aðskilin og börnum voru ekki innrætt trúarbrögð í skólum, en engu að síður fjöruðu trúarbrögðin ekki út. Hvers vegna ekki? Af sömu ástæðu og ríkisvaldið gerði það ekki.” Þetta síðastnefnda er gersamlega út í hött. Kerfi bolsévismans, sem Lenín lagði grunninn að, miðaðist allt við alræði flokksvélarinnar (undir lýðskrums-vígorði um ”demókratískan centralisma”; allt það fyrirbæri verðskuldar ýtarlega úttekt, sem ekki gefst tími til að fara út í hér). En sjálfsréttlæting og valda-viðhald flokkseigendafélags Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna vann að sjálfsögðu af járnafli gegn öllum útópískum hugmyndum um að ríkisvaldið ‘visnaði burt’, þegar skeið sósíalisks efnahagslífs rynni á enda og við tæki dýrðarríki kommúnismans, eins og Marx og Engels höfðu ímyndað sér. Stöðugt viðhald harðstjórnarmaskínunnar (sem hélt líka áfram að mola fleiri þjóðir undir járnhæl sovétvaldsins) var gersamlega eðlisólíkt viðhaldi eða ‘survival’ kristinnar trúar í Sovétríkjunum, sem lifði áfram með þjóðinni þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður hjá virkum, trúuðum mönnum (þeir voru gerðir að undirmálsborgurum í ýmsu tilliti, þeim meinaður aðgangur að framhaldsmenntun o.fl.). Að skýra lífsþrótt og langlífi kristinnar trúar í Sovétríkjunum annars vegar og hins vegar sjálfsviðhald ríkisvaldsins þar með sömu orsökinni er allsendis fráleitt.
Kúgunarsaga kristinna manna í Ráðstjórnarríkjunum, fjöldadráp presta og munka, eignaupptaka kirkju- og klausturmuna, -jarða og -húsa, óheyrileg fjöldalokun kirkna, ófrelsi og ofsóknir leikmanna – allt er þetta gígantísk þjáningarsaga sem enginn ætti að gera lítið úr. Því verður ekki látið ómótmælt, ef því heldur hér áfram, jafnvel þótt með penu sniði sé, mátulega grunnristu til að það geti þó höfðað til nýrra og óupplýstra kynslóða um þessi mál.
En ef lesendur vilja kynnast raunveruleikanum í þessu efni, geta þeir t.d. lesið frásögn af því, hvernig bolsévikar vanvirtu helgimynd af heilagri Guðsmóður, og þegar þorpsbúar söfnuðust saman til að heimta myndina úr höndum þeirra, með konur börn og gamalmenni í fararbroddi, var fólkið malað niður með vélbyssuskothríð, “en þeir, sem uppi stóðu, gengu áfram yfir lík hinna föllnu og hrópuðu i sífellu: Heilaga Guðsmóðir, miskunna þú oss, í þínu nafni föllum við” (í riti dr. Arnórs Hannibalssonar: Moskvulínan, Nýja bókafélagið 1999, bls. 188; mig minnir að einnig sé sagt frá þessu í þýdda greinasafninu Frelsisbaráttan í Ráðstjórnarríkjunum).
Hér verð ég að bæta við þessari ábendingu: Það er ótæk yfirsjón hjá Vésteini að einblína á þá formlegu staðreynd, að trúarbrögð hafi ekki verið bönnuð í Sovétríkjunum. Kúgunin fór fram allt öðruvísi, þótt það væri reyndar líka gert með banni vissra trúarsamfélaga (sjá neðar) og útrýmingarherferðum á vissum tímum (1922 voru 2.691 prestar, 1.962 munkar og 3.447 nunnur drepin í því landi, skv. The Black Book of Communism, ensk þýð., Cambridge, Mass., og Lond. 1999, bls. 126; og hrikalegt siðleysi Leníns í þessum efnum birtist skýrt í bréfi hans til Politburo 19. marz 1922, sem birt er í sama riti á bls. 124-6; en siðleysisaðferðir hans voru þó ekki nýtilkomnar úr borgarastríðinu, heldur orðnar svæsnar og ófyrirleitnar strax um aldamótin, sjá Robert Conquest: Lenin, Fontana/Collins 1972/1981, s. 40-42).
Sovétherrarnir voru samt góðir í því að hafa stjórnarskrána áferðarfallega, það vantaði ekki, enda var hún kölluð "lýðræðislegasta stjórnarskrá heimsins" á dögum Stalíns, en ekkert hald var almenningi í því, þetta var ekki réttarríki í eiginlegri merkingu, og ‘lög’ eða reglugerðir gátu skyndilega birzt mönnum í nauð sem gerðu að engu vonir þeirra um réttarvernd eða lágmarksmannréttindi. Allt þetta ætti Vésteinn að kynna sér betur, áður en hann fer að mæla bót stjórnarháttum í Sovétríkjunum eða hlutskipti trúaðra manna þar. Er honum annars ekki full alvara í því að vilja standa með samvizkufrelsi manna?
Kaþólska kirkjan, baptistar, vottar Jehóva og úníats-kirkjurnar í Austur-Evrópu voru ofsóttar, þær síðastnefndu (með milljónir meðlima) lagðar niður til að kúga þær undir orþódoxu kirkjuna, en allar sviptar eignum sínum í stórum stíl, klaustrum almennt lokað og leiðtogarnir (þ.m.t. allnokkrir biskupar) dæmdir til dauða eða langrar fangavistar í sýndarréttarhöldum. Þið ættuð t.a.m. að kynna ykkur meðferð kirknanna í Ungverjalandi og Rúmeníu í þessum dúr eftir valdatöku kommúnista, auk Tékkóslóvakíu (sjá t.d. The Black Book of Communism, bls. 409/10-413), að ekki sé talað um Albaníu, þar sem Hoxa lýsti því yfir árið 1967, að landið væri fyrsta opinberlega guðlausa (aþeiska) land heimsins; þá hafði hann látið loka öllum kirkjum og moskum í landinu, 2.169 talsins (sama rit, bls. 409). En öll met slær örugglega kommúnistastjórnin í Kambódíu, þar sem a.m.k. 48,6% kaþólikka í landinu hurfu og t.d. hinn múslimski Cham-þjóðflokkur (fjórðungur milljónar manna) varð fyrir óhugnanlegum ofsóknum, moskum þeirra eytt, bænir bannaðar, kórönum brennt og þeir knúnir til að eta svínakjöt eða verða skotnir ella, en loks hafin þjóðernishreinsun gegn þeim 1978; samtals fórust milli 40,6-50% allra Cham-manna (sama rit, s. 593-5).
Og ég spyr: Haldið þið í alvöru, að vottur af kristilegu siðferði og trú á Guð, sem dæmir menn í öðru lífi fyrir verk þeirra, hefði ekki orðið eitthvert taumhald á þá kommúnista, sem þarna fóru með völd?
Ég vil alls ekki fella neinn áfellisdóm yfir ykkur, ungu menn, og heldur ekki taka hann Véstein út úr til að sverta hann í augum manna. Hann og þið berið auðvitað enga ábyrgð á þessari ófrýnilegu fortíð og glæpum komúnismans. En það er alltaf hvimleitt að horfa upp á áberandi vanþekkingu um þessi mál. Ef þið aftur á móti kynnið ykkur þau sem vert er, er ég sannfærður um, að þið munuð aldrei geta fengið ykkur til að mæla þessari kúgun bót á nokkurn hátt.
Efnishyggja samrýmanleg Guðstrú? Annað, sem kemur mér undarlega fyrir sjónir í upphafsgrein Vésteins, eru orð hans um díalektíska efnishyggju: “Afneitar díalektísk efnishyggja guði, alheimsorku skyggnigáfu eða lífi eftir dauðann? Nei, í sjálfu sér ekki. Díalektísk efnishyggja gengur ekki út á að afneita yfirnáttúru í sjálfu sér. Jafnvel er vafasamt að kalla megi hana trúleysi [...]; trúleysi felur í sér afneitun á trú og gengur að sumu leyti út þá afneitun. Díalektíska efnishyggjan byrjar hins vegar á byrjuninni, raunveruleikanum, sem sagt að maðurinn og náttúran séu einfaldlega til. Það var ekki forgangsatriði, hjá karli þeim er Marx hét, að afneita guði ...”
Er ekki eitthvað ruglað í þessari grundvallarhugsun, þegar maður í leit að skilningi telur sér trú um, að heimspekileg efnishyggja geti samrýmzt Guðstrú eða viðurkenningu á tilvist Guðs? Guð er ekki efni, hvorki að skilningi trúarinnar né heimspekinnar (náttúrlegrar guðfræði, sem svo kallast, ennfremur theodicé upp á frönsku, sem merkir skynsemisvörn eða réttlætingu fyrir Guðshugmyndinni, þ.m.t. með siðrænum snertiflötum hennar). Guð er andleg verund, ekki efnisleg, og Vésteinn mun hvorki hjá Engels (í Anti-Dühring) né Lenín (í riti hans Efnishyggja og empirio-criticismi eða í skrifum hans ýmsum um trúarbrögðin, t.d. þýdda greinasafninu On Religion, Moskvu 1975) finna afsökun eða átyllu fyrir þeirri theoríu sinni, að tilvist Guðs geti samrýmzt efnishyggju Marxismans, enda var Marx sjálfur guðleysingi – tók yfir guðleysi Ludwigs Feuerbachs í vanhugsaðri átorítetstrú! En þó var hann alltjent ekki eins siðvilltur og Lenín (sbr. Rob. Conquest; Lenin, bls. 41).
Jón, þú segir að „lesandanum” finnist þú kannski vera „einfaldur kaþólskur guðfræðingur“, en ég hef það á tilfinningunni að þú eigir við mig, umfram aðra lesendur. Hvort mér finnst þú einfaldur eða ekki kemur málinu ekki við, og þótt þér finnist það kannski merkilegt, þá er það líka aukaatriði hvor okkar er með lengri háskólamenntun eða hvað. Þetta eru bara útúrsnúningar, eins og það eru útúrsnúningar að grípa til persónuárása eða gera lítið út viðmælanda sínum með fullyrðingum um að ekki gangi skilningur minn nú djúpt, að mín heimavinna sé nú ekki nógu vel unnin o.s.frv. Að þú „gjammir hér um þetta mál“ eru þín orð, ekki mín. Ekki nóg með að þú byrjir á að reyna að gefa [mögulegum] lesanda þá hugmynd að ég hafi ráðist á þig með slíkum málflutningi, heldur ræðst þú sjálfur á mig með sams konar aðferð! Kallast á við skrif þín til Matta, sem virðast vera á sömu bókina lærð (“Hver kenndi þér þetta, Matti?”). Ég frábið mér persónuárásir, takk fyrir.
Vésteinn víkur í fáum orðum að hlutskipti trúarbragða í Sovétríkjunum, en telur greinilega ekki ástæðu til að hafa mörg orð um harðræði kristinna manna þar
Hvers vegna tel ég „greinilega“ ekki ástæðu til þess, að þínu mati? Til að leiðrétta þennan misskilning, þá tel ég reyndar ríka ástæðu til þess að hafa mörg orð um það, er fólk sætir harðræði, hver sem ástæðan er. Eins tel ég mig hafa útskýrt, þá voru Sovétríkin hvorki fyrsta né síðasta harðstjórnarríkið sem beitt hefur fólk sitt harðræði, og að opinbert trúleysi Sovétríkjanna var ekki ástæðan fyrir þessu harðræði.
engu að síður fjöruðu trúarbrögðin ekki út. Hvers vegna ekki? Af sömu ástæðu og ríkisvaldið gerði það ekki.Þetta síðastnefnda er gersamlega út í hött. Kerfi bolsévismans, sem Lenín lagði grunninn að, miðaðist allt við alræði flokksvélarinnar
Ekki skrítið að þú skulir telja þetta út í hött ef þú tekur það svona úr samhengi og misskilur (viljandi?) orð mín. Næst skrifaði ég nefnilega:
Byltingin var aldrei til lykta leidd og gagnbyltingin keyrði hana út af sporinu frekar snemma. Firring var áfram til, og lengi eimdi eftir af gömlum siðum.
Samkvæmt sögulegri efnishyggju Marx eiga mörg valdatæki núverandi kerfis eftir að hverfa í fyllingu tímans þegar byltingin er leidd til lykta, tímabili sósíalismans lýkur og tímabil kommúnismans rennur upp. Meðal þessara valdatækja eru skipulögð trúarbrögð og ríkisvald. Hvorugt gerðist í Sovétríkjunum. Skipulögð trúarbrögð hurfu ekki á braut, og það gerði ríkisvaldið ekki heldur. Ástæðan var sú að rússneska byltingin var aldrei til lykta leidd, öfugt við það sem stalínistar bæði á hægri og vinstri kanti stjórnmálanna virðast stundum halda.
sjálfsréttlæting og valda-viðhald flokkseigendafélags Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna vann að sjálfsögðu af járnafli gegn öllum útópískum hugmyndum um að ríkisvaldið ‘visnaði burt’, þegar skeið sósíalisks efnahagslífs rynni á enda og við tæki dýrðarríki kommúnismans
Já, það er einmitt það sem gerðist. Gagnbyltingin keyrði byltinguna út af sporinu. Byltingin var sigruð innanfrá.
gersamlega eðlisólíkt viðhaldi eða ‘survival’ kristinnar trúar í Sovétríkjunum
Það fer eftir því, á hvaða hlið þú lítur. Stökkið frá bændaánauðar-lénsveldi afturhalds og kreddufestu til stéttlauss og stjórnvaldslauss, ófirrts „dýrðarríkis“ var ekki fullkomnað, það er ástæðan. Byltingin sem átti að frelsa alþýðuna undan stéttaskiptingu gerði það ekki í alvörunni. Byltingin sem átti að leysa manninn undan sinni eigin ranghugmynd um guð gerði það ekki heldur.
Kúgunarsaga kristinna manna í Ráðstjórnarríkjunum, fjöldadráp presta og munka, eignaupptaka kirkju- og klausturmuna, -jarða og -húsa, óheyrileg fjöldalokun kirkna, ófrelsi og ofsóknir leikmanna – allt er þetta gígantísk þjáningarsaga sem enginn ætti að gera lítið úr.
Nei, enginn ætti að gera lítið úr því, enda var ég ekki að gera það, þótt þú gefir það í skyn.
Vésteinn mun hvorki hjá Engels … né Lenín … finna afsökun eða átyllu fyrir þeirri theoríu sinni, að tilvist Guðs geti samrýmzt efnishyggju Marxismans, enda var Marx sjálfur guðleysingi – tók yfir guðleysi Ludwigs Feuerbachs í vanhugsaðri átorítetstrú
Ég sagði ekki að tilvist þessa guðs (eða guða, eða álfa, eða drauga) gæti samrýmst þráttarefnishyggju, það ert þú sem segir að ég hafi sagt það. Þú ert að rífast við sjálfan þig, Jón Valur! Það er ekki „vanhugsuð átorítetstrú“ að fallast á kenningu sem manni finnst vel rökstudd. Jón, maður með þína háskólagöngu (fyrst þér finnst hún skipta máli í þessu samhengi) á ekki að falla í þá gryfju að reyna að láta lesandann hafna efnishyggju Marx með því að slengja því fram að hún hafi nú verið „vanhugsuð átorítetstrú“. Hvað er þín eigin trú annað en „vanhugsuð átorítetstrú“? Nei, ég bara spyr.
Díalektísk efnishyggja gengur ekki út á að afneita yfirnáttúru. Hún gerir einfaldlega ekki ráð fyrir henni, enda engin ástæða til þess. Efnisheiminn útskýrir maður með efnisheiminum í stað þess að skálda upp óskiljanlegar og undursamlegar skýringar og sveipa tilgangslausri dulúð. Díalektísk efnishyggja afneitar ekki guðum vegna þess að hún þarf þess ekki. Sönnunarbyrðin er hjá þeim sem heldur því fram að eitthvað sé til sem við skynjum ekki eða vísindin geta ekki rannsakað (t.d. guðir, álfar eða loftandar).
Jacques Maritain, franski heimspekingurinn snjalli, benti á, að með því að hafna Guði, föður okkar allra, til þess í staðinn að gera mennskuna og bræðralagið að játningu og nánast trúaratriði í hugsýn kommúnismans, þá hafi Marx og Lenín verið að fara á mis við einmitt það, sem bezt og sterkast tengir menn í bræðralagsvitund og sönnu bræðralagi, þ.e. föðureðli Guðs, hans sem á og vill gera okkur öll að börnum sínum
Það getur vel verið að Maritain þessi hafi verið snjall, en þessi ábending hans er ekki sérlega snjöll. Föðureðli hvaða guðs? Ég veit ekki um neinn guð, hvað þá að ég fari að láta hann ættleiða mig. Heppileg tilviljun, samt, fyrir Maritain, að það sé einmitt guðinn hans sem er þetta sameiningartákn. Ætli aðrir guðir gætu ekki gert það alveg eins vel? Ætli Óðinn eða Míþra séu t.d. nokkuð verri sameiningartákn heldur en Éhóvi? Sú fullyrðing að „föðureðli“ Éhóva (er hann ekki annars að tala um Éhóva?) sé „ einmitt það, sem bezt og sterkast tengir menn í bræðralagsvitund og sönnu bræðralagi“ er annars áhugaverð. Kannski að þú vildir leggja nánar út af þessari fullyrðingu? Ég er nefnilega ekki reiðubúinn að fallast á hana hráa.
“sá, sem var að hrósa Sovétríkjunum á nýrri vefsíðu hér um kommúnistana”
Jón, láttu ekki svona. Ég efast um að aðrir en hægri-stalínistar sjái þessa grein sem sérstakt hrós um Sovétríkin.
Lenín ritaði: “Til þess að ná markmiðum byltingarinnar ... er allt leyfilegt” [og] “Óhjákvæmilegt er að ... efna til miskunnarlausrar ógnaraldar og loka þá, sem vafi leikur á um, inni í fangabúðum utan við borgina.” Þetta var orðrétt fyrirskipun Leníns … til yfirvalda í borginni Pénza í ágúst 1918.
Hvað ertu að segja orðrétt? Gettu hvað, ég er ekki bókstafstrúarmaður, og þótt eitthvað sé haft orðrétt eftir Lenín, þá er ekki þar með sagt að þar með sé kominn stórisannleikur og innsta eðli marxismans. Ég veit ekki með þig, en ég tel Lenín ekki hafa verið óskeikulan. Ég trúi ekki á óskeikula menn. Það er sagt að Lenín hafi verið gjarn á að taka of djúpt í árinni; að grípa til sterkari orða en ástæða var til. Því sé auðvelt að sýna fram á hinar fjölbreytilegustu niðurstöður, ef rit hans eru lesin af mátulega mikilli bókstafstrú og í mátulega litlu samhengi.
Nei, sigur guðleysisins í Moskvu og Pétursborg 1917 varð ekki til þess að bjóða heim mennskari og göfugri lífsháttum, ekki bræðralagi og bróðurelsku, heldur svívirðilegum fjöldamorðum milljóna manna og þrælkun þjóða undir harðstjórnarvald Leníns og Stalíns.
Þetta er nú bara útúrsnúningur. Ófarir Sovétríkjanna voru ekki guðleysi ráðamannanna að kenna, þær áttu sér aðrar ástæður. Sættu þig við það, þótt margt hafi farið aflaga í Sovétríkjunum, þá er ekki sanngjarnt að telja allt sem þar fór fram runnið undan rifjum Kölska sjálfs.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/12/04 02:07 #
Já, hún er alveg merkileg þessi fullyrðing Arnar Bárðar að segja allar lífsskoðanir flokkast undir trúarskoðanir. Þarna er hlutunum gersamlega snúið á haus og stórfurðulegt að hann sjái það ekki sjálfur.
Trúarskoðanir eru mengi í mengi lífsskoðana en ekki öfugt.