Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jón Gnarr og tilgangurinn

Á baksíðu Fréttablaðsins á fimmtudag birtist ágæt hugleiðing Jóns Gnarr um tilgang lífsins. Eins og við er að búast reynir trúmaðurinn Jón að fóta sig í trúarlegum hugmyndum í þessa átt og fær útkomu sem er í litlu samræmi við niðurstöðu þeirra sem tamið hafa sér gagnrýna hugsun á öllum sviðum.

Jón kemst að þeirri niðurstöðu að þetta líkist helst fótbolta. Gefum honum orðið:

Lífið er eins og fótbolti. Tilgangur fótboltaleiks er ekki að vinna, eins og gæti virst við fyrstu sýn, heldur að læra og samhæfa sig öðrum og umfram allt að hafa gaman af því að spila fótbolta. Árangur næst með æfingu, erfiði og aga.

Knattspyrnumaður nær ekki árangri fyrr en hann hættir að reyna að ná árangri upp á eigin spýtur, hættir eigingirni sinni og finnur sér samhljóm með öðrum. Með því að láta af eigingirni nær hann árangri. Og með árangrinum fær hann viðurkenningu frá áhorfandanum sem gefur honum orku til að ná enn lengra. Kannski erum við mennirnir eins og íþróttamenn og Guð eins og áhorfendurnir.

Þetta er alveg glettilega góð líking hjá Jóni og samræmist fullkomlega hugmyndum mínum um umbunarsiðferði sem ég reifa í nýlegri grein. Foringi Jóns, Jesús Kristur boðaði einmitt þetta umbunarsiðferði og því er Jón fastur í þeim pakka að haga sér eins og fótboltamaður á velli, eða öllu heldur barn fyrir framan foreldra sína: „Sjáðu mig pabbi, sjáðu hvað ég er klár, hvað ég spila vel, hafðu mig í náðinni hjá þér, viðurkenndu mig, hrósaðu mér!“

Siðferði trúmanna, í það minnsta hinna kristnu, er þarna algerlega rétt lýst. Og frá sjónarhóli okkar, sem í krafti húmanískra gilda og/eða fagurhyggju höfum gengið skrefi lengra í siðferðislegum efnum, eru þeir ósköp aftarlega á merinni.

Umhyggjusiðferði er siðferði dagsins.

Birgir Baldursson 12.12.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


urta (meðlimur í Vantrú) - 14/12/04 16:54 #

Seint mun Jón Gnarr teljast djúpvitur. Annað eins þunnildi og bakþanka hans eru vandfundið. En góð samlíking við guðdóminn og umbunina - þótt hann hafi nú örugglega ekki hugsað þetta þannig.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.