Á jólanótt í fyrra flutti Karl biskup ræðu í Dómkirkjunni. Ræðuna kallaði hann En það bar til um þessar mundir ... Til eru menn sem ganga á heitum kolum til að sanna heilagleika sinn og hægt er að segja að Karl biskup stundi þessa iðju á sinn einstaka hátt. Það er eiginlega alltaf áhugaverðast hvað Karl segir ekki og hvernig hann dansar á heitum kolum sannleikans. Biskup þjóðkirkjunnar ákvað að fjalla um sannleiksgildi jólaguðspjallsins í ræðu sinni.
Kýreníus landsstjóri er vel þekktur og tilvist hans og stjórnkænska vel vottfest. Eins er um manntalið.
...
Hann [guðspjallamaðurinn Lúkas] setur fram skýrt og skorinort þá staðhæfing að "það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara" ...þegar Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi" fór þá einnig Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu til borgar Davíðs sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs...".
Takið eftir því að Karl sleppir því að minnast á að til þess að tímasetja fæðingu Jesú þá er líka hægt að notast við Heródes konung sem minnst er á bæði í Lúkasarguðspjalli og Matteusarguðspjalli. Í raun minnist biskupinn ekkert á Heródes í þessari ræðu sinni þó sá konungur sé mjög áberandi í goðsögninni um fæðingu Jesú. Hvers vegna þegir Karl um konunginn? Gæti það verið vegna þess að Heródes var dáinn þegar manntalið var gert? Gæti það verið vegna þess að Kýreníus og Heródes voru ekki samtíða?
Heródus konungur dó fjórum árum fyrir upphaf hins kristna tímatals en Kýreníus varð ekki landstjóri fyrren tíu árum síðar. Sama ár og Kýreníus tók við völdum þá var gert manntal á þessum slóðum. Þegar við tökum Heródes inn í reikningin þá er ljóst að það er margt skrýtið við þessa sögu. Heródes konungur á að hafa látið drepa öll sveinbörn yngri en tveggja ára í Betlehem. Það er ekkert sem bendir til þess að þetta hafi gerst. Annálaritarinn Jósefus sem lýsti grimmd Heródesar í smáatriðum minnist ekkert á þetta grimmdarverk. Það er nokkuð ljóst að ungbarnamorðin eru uppspuni og væntanlega komin til vegna þess að til voru eldri sögur um svipuð óhæfuverk.
Það er líka eitthvað undarlegt við manntalið sem minnst er á í þessari fæðingarsögu. Í fyrsta lagi átti að skrásetja allan heiminn sem er bara fáránlegt, ég veit ekki hvaða Karl hefur heimildir um slíkt manntal. Árið 6 var hins vegar gert manntal á þessu svæði og það er hugsanlega manntalið sem vísað er í. Samkvæmt sögunni átti Jósef að skrá sig í ættborg sinni Betlehem. Hvers vegna í ósköpunum var ekki hægt að skrá Jósef þar sem hann átti heima í Nasaret? Það þarf ekki mikið hugmyndarflug til að sjá að manntal sem færi svona fram myndi riðla öllu samfélaginu, fjöldi manns þyrfti að ferðast langa vegu bara til að láta skrá sig.
Það er líka skrýtið að Jósef var að draga konu sína kasólétta alla þessa leið, konur þurftu ekki að láta skrá sig enda borguðu þær enga skatta. Það eru um 150 kílómetrar á milli Nasaret og Betlehem. Það er ljóst að þessi langa ferð hefði ekki verið þægileg. Þau hefðu þurft að ferðast á asna, hesti, kameldýri eða bara tveimur jafnfljótum.
Er þessi saga ekki frekar ótrúverðug?
"Fæðing frelsarans er söguleg staðreynd, en ekki goðsögulegt tákn." segir Karl biskup. Hvítt er þá væntanlega svart og svart er hvítt? Goðsagan um Jesú er ekki merkilegri en aðrar slíkar sögur nema kannski fyrir það að það trúa henni svo margir. Ástæðan fyrir því að það trúa svo margir á Jesú er líklega af því að menn einsog Karl biskup Sigurbjörnsson hafa atvinnu af því að snúa heiminum á haus.
Heimildir
Journey to Bethlehem must have been grueling
The Christmas Story: When/Where/Prophecy of Jesus' Birth?
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Hrafnkell Stefánsson - 09/12/04 10:24 #
Sjá einnig vandaða grein í nýjasta tölublaði Free Inquiry eftir Tom Flynn sem nefnist: Matthew vs. Luke.
http://www.secularhumanism.org/library/fi/flynn251.htm