Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að selja sig

Það eru að koma jól og því vertíð fyrir þá hópa sem treysta á þessa hátíð til að rétta fjárhaginn. Til þess að vekja athygli á sér þá eru farnar ýmsar leiðir hvort sem verið er að selja jólaseríur eða konfektkassa. Rithöfundar treysta á þennan árstíma og þá er alltaf gott að vera í fjölmiðlum, gera kannski eitthvað krassandi til að fá umtal. Í dag er pistill frá Þránni Bertelssyni á baksíðu Fréttablaðsins þar sem hann kemur með aumingjalega afsökunnarbeiðni til handa "hörundssárum trúleysingjum".

Frá því að svívirðingapistill Þráins birtist fyrir um einni og hálfri viku þá hef ég velt því fyrir mér hvað lægi á bak við þetta hjá manninum. Ástæðan sem hann nefnir sjálfur - "að benda yfirlýstum trúleysingjum á að varast þá fanatík og ofstopa sem felst í því að álasa trúuðu fólki fyrir trú sína" - er í algjöru ósamræmi við pistilinn sem innihélt endalausar alhæfingar og svívirðingar um trúleysingja. Væntanlega er þetta eftir-á-skýring sem hann vonast til að fólk gleypi hráa.

Nokkru áður en Þráinn birti árás sína í Fréttablaðinu var hann með uppistand á bloggsíðu rithöfundarins Ágústs Borgþórs varðandi gagnrýni sem var skrifuð um bókina hans Þráins Dauðans óvissu tími. Þetta nöldur Þráins vakti nokkurt umtal og kom í fjölmiðlum. Segja þeir ekki að öll auglýsing sé góð auglýsing?

Síðan birti Þráinn pistilinn um trúleysingja og það er ekki laust við að þeirri hugsun slái niður hjá manni að ástæðurnar sem liggja að baki greinarskrifum Þráins séu ekki alveg heiðarlegar. Gæti verið að Þráinn hafi ekki í raun nokkurn hag af því að skapa smá umtal um sjálfan sig á meðan hann er að reyna að selja bók sína? Þessi greinarskrif Þráins urðu til þess að trúleysingjar skrifuðu pistla í blöð og losuðu um reiði sína á netmiðlum. Nafnið hans Þráins útum allt. Síðan er það þannig að flestum er nú alveg sama þá það sé aðeins verið að níðast á trúleysingjum. Við erum bara minnihlutahópur sem hefur ekki mikla samúð meðal almennings.

Jæja, hér er nafnið hans Þráins aftur á síðum Vantrúar. Ég plöggaði meira að segja bókina hans (sem ég veit reyndar ekkert hvort er góð, léleg eða bara meðalmennska einsog Ágúst Borgþór heldur fram). Er það þetta sem þú vildir Þráinn? Nú er lag að koma með grein um þennan pistil minn til að blóðmjólka umtalið.

Óli Gneisti Sóleyjarson 06.12.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


urta (meðlimur í Vantrú) - 06/12/04 13:47 #

Ég sé að þið eruð enn reiðir Þráni - ég tek skýringar hans góðar og gildar og tel hann mann að meiri að biðja afsökunar. Hann hljóp verulega á sig með bakþönkunum um trúleysingjana.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 06/12/04 13:51 #

Ég á erfitt með að sjá afsökunarbeiðni í nýjustu skrifum Þráins. Held hann sjái sjálfur ekkert athugavert við fyrri skrif sín en hafi verið skipað að draga orð sín til baka, sem hann gerði í raun ekki.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 06/12/04 13:56 #

Jamm, þetta var gerviafsökunarbeiðni og í raun einskis virði.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/12/04 15:06 #

Þráinn segist hafa verið að verið að biðja trúlausa að varast þá „fanatík“ að álasa trúuðu fólki fyrir trú sína. Ég spyr: Er eitthvað að því að gera það, ef maður telur þess trú fólks ranga og beinlínis hættulega? Af hverju í ósköpunum á fólk að fá að halda slíkum skoðunum fyrir sig ef þær tengjast yfirnáttúru? Skoðanir fólks eru ekkert einkamál þess, heldur káfa upp á allt samfélagið.

Þráinn gagnrýnir stjórmálaskoðanir annarra hægri vinstri, sér í lagi þær sem hann telur hættulegar. Væri ekki heiðarlegra hjá honum að velta fyrir sér hvort við getum hugsanlega haft eitthvað til okkar máls, fremur en að strá yfir okkur uppnefnum og svívirðingum?


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 06/12/04 15:29 #

Þetta var óttaleg dauðans óvissu afsökun hjá honum. Segi ekki meir.


Steindór J. Erlingsson - 06/12/04 17:09 #

Sá einhver greinina eftir mig, Skilaboð til "séra" Þráins, sem birtist í Féttablaðinu gær?


Músi (meðlimur í Vantrú) - 06/12/04 17:22 #

Jæja, gott að þú ert hérna. Bara fá útskýringu á einu í greininni hjá þér. Hvað meinar þú nákvæmlega með þessari setningu? Og þá sérstaklega "leiðrétta "ranghugmyndir""? Bara svo ég sé ekkert að misskilja eða fara leggja þér orð í munn.

"Raunar ætti hann að taka skrifum þeirra opnum örmum því þau gefa þeim sem annt er um kristna trú, og gildin sem hún boðar, tækifæri á því að leiðrétta „ranghugmyndir“ trúleysingjanna opinberlega og stuðla þannig að upplýstri umræðu um trúamál."


Steindór J. Erlingsson - 06/12/04 17:30 #

Þar sem trúaðir einstaklingar telja þá sem ekki trúa aðhyllast ranghugmyndir, þá hafði ég hugtakið innan gæsalappa til þess sýna fram á afstæði þess, nokkuð sem er altíða í fræðilegri umræðu.


Músi (meðlimur í Vantrú) - 06/12/04 17:33 #

Gott, þá skildi ég þig rétt :)


urta (meðlimur í Vantrú) - 07/12/04 08:21 #

Jú - ég las greinina þína, Steindór. Fín grein. Þið viljið afsökunarbeiðni frá Þráni ÁN SKILYRÐA og ekki með neinum gildishlöðnum orðum hengdum við - skilst mér. Það eiga margir erfitt með það. En auðvitað er það ekki "fanatík" að ræða ólíkar skoðanir í trú- og trúleysismálum - þar er ég fullkomlega sammála þér Birgir. Mér sýnist bæði hann og við hin trúlausu vera ansi hörundssár...


Daníel - 07/12/04 11:55 #

Mér finnst nú saklaust það sem hann sagði um trúleysingja miðað við hvað hann sagði um kennara í verkfallinu, þ.e.a.s. að þeir væru hryðjuverkamenn og sá varla muninn á aðgerðum þeirra og hryðjuverkunum í Rússlandi. Enginn kennari hefur farið fram á afsökunarbeiðni vegna þeirra ummæla þó þau séu vægast sagt ótrúleg. Í raun bæri að dæma manninn í sektir vegna þeirra. Þess vegna er mér sama þó engin afsökunarbeiðni berist frá Þráni, það er álíka mikið að marka hana og skrif hans.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 07/12/04 15:43 #

Af hverju er þessi maður að skrifa í fréttablaðið eiginlega?!! Ég hélt að menn með svona yfirlýsingar/fordóma fengu ekki mikið að skrifa í blöðin.

Allavega finnst mér að þessir ágætu herrar þarna á ritstjórninni ættu að fara lesa þessa pistla hans yfir áður en þeir birta þá því það mætti halda að þeir gerðu það ekki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.