Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tilgangslausi tilgangurinn

Hver er tilangur lífsins? Að fjölga sér segir náttúran og það er eina svarið sem við höfum fyrir manninn sem tegund. Er lífið gersneytt öllu sem við getum kallað (í hálftrúarlegum skilningi) æðri tilgang? Já. Enginn æðri tilgangur. Og hvað með það? Er lífið eitthvað verra án þessa tilgangs?

Hvers vegna er það hræðileg tilhugsun að það sé enginn æðri tilgangur með lífi manna? Hvaðan kemur þessi árátta manna að halda það sé nauðsynlegt að hafa einhvern tilgang? Úr trúarbrögðunum. Æðri tilgangur er lygi trúarbragðanna. En hver er tilgangur lífsins samkvæmt trúarbrögðunum? "Eitthvað"? Frá trúarbrögðunum fáum við semsagt bara þessa hugmynd um að það sé einhver tilgangur en við fáum ekki að vita hver þessi tilgangur er. Hver er í raun munurinn að lifa í heimi þar sem það er "einhver" æðri tilgangur og enginn æðri tilgangur? Hvaða máli skiptir það einstaklinginn sem aldrei fær að vita neitt um þennan tilgang?

Þessi æðri tilgangur er svipaður hugmyndinni um að það sé líf eftir dauðann. Fyrst er þér lofað eilífu lífi og síðan skoðarðu málið og sérð að þetta er ekki vitræn hugmynd. Hverju hefurðu tapað í raun? Engu. Lottómiði getur verið milljónavirði eða einskis virði, það er óþarfi að gráta þegar niðurstaðan kemur í ljós. Það hefur aldrei verið neinn æðri tilgangur með lífinu og við ættum bara að fagna þessu tækifæri sem við höfum til að lifa lífinu án þessarar tálsýnar. Það er ágætt að hætta að spila í Lottóinu, þá geturðu eytt peningunum þínum í eitthvað gáfulegra. Til dæmis í að styrkja góðgerðarmál milliliðalaust.

Hvað gerir maður í tilgangslausum heimi? Finnur sér eitthvað að gera. Reynir að gera eitthvað merkilegt eða bara einbeitir þér að því að vera bara þú. Þú getur eytt tíma þínum í að bæta heiminn, þú bjargar ekki heiminum en það er virðingarvert að reyna. En þar sem þú ert á annað borð að lesa þessa grein þá ertu væntanlega ágætlega settur í lífinu. Þú hefur nettengingu sem þú notar greinilega til að fræðast um lífið og tilveruna. Til hamingju, það hafa nefnilega ekki allir tíma til að sóa í leit að tilgangi lífsins.

Heimurinn hefur sitt gildi þó hann hafi engann æðri tilgang. Það er bara þannig að mörgum finnst það svo hræðilegt að hafa glatað þessum tilgangi að þeim sést yfir það að heimurinn er í raun stórkostlegur. Það eru forréttindi að geta horft upp í stjörnubjartan himinn eða eytt kvöldinu með ástvinum sínum.

Lífið hefur engann æðri tilgang, sættu þig við það og hættu að eyða tíma þínum í að syrgja það sem þú áttir aldrei.

Óli Gneisti Sóleyjarson 05.12.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Bóas - 05/12/04 20:29 #

Hvað ef ástundun trúarbragða eykur fjölgunarhæfnina?

Og hvað ef fólki líður betur með hinn "æðri tilgang" en lífsýn tómhyggjunar?

Þá erum við komin með lífsglatt fólk sem fjölgar sér. Hversu slæmt er það?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 05/12/04 22:51 #

Þú virðist af einhverjum ástæðum halda að ég sé að predika tómhyggju þegar staðreyndin er sú að ég er að predika fyrir mönnum að koma sér yfir tómhyggjuna. Tilgangslaust líf þýðir ekki tómhyggja, það að velta sér uppúr tilgagnsleysinu og syrgja það er tómhyggja.

Þú heldur að það sé til "einhver" æðri tilgangur skapi lífshamingju, ég held að svo sé alls ekki. Fólk er sífellt í vafa um hver þessi tilgangur sé eiginlega og er í raun lítið betur statt heldur en þeir sem velta sér uppúr tómhyggjunni.

Þó að náttúran hafi engan annan tilgang fyrir okkur en það að láta okkur fjölga þá skiptir sá tilgangur engu máli í dag, í raun væri ágætt ef við sem tegund myndum hætta að fjölga okkur svona hratt.

Lestu þér til um gagnsemisrökvilluna.


kristín - 06/12/04 00:23 #

hæ, ætla spurja út í eitt. nunnur og búddar fjölga sér ekki en þetta er fólk sem er augljóslega mjög trúað. nú segir í öllum trúarbrögðum býst ég við að æðsti tilgangurinn sé að fjölga sér en þetta fólk má það ekki. hvernig er þetta þá hugsað? og með þetta sagt, hvað er þá málið með samkynhneigða í trúarbrögðum og að þeir þjóni engum tilgangi? en jæja.

og já, þetta með náttúruna og að það væri gott ef tegundinni hætti að fjölga svona hratt, er fólksfjölgun ekki það sem ógnar okkur hvað mest í dag? eitthvað var líffræðikennarinn minn að tala um það :)


Árni - 06/12/04 02:48 #

Nei, æðsti tilgangur trúarbragðanna er að sameinast guðum þeim sem fólk trúir á. Vera eitt með alheiminum.

Ég las grein um það í íslensku blaði fyrir mörgum árum að þegar músum var séð fyrir meiru en nóg af öllu því sem þeim skorti þá tók að bera frekar á samkynhneigð á meðal þeirra. Verst ég man ekki hvaða blað þetta var, eða hvort það var á rúv. Ætli þetta sé ekki bara náttúran að taka í taumana til að koma á jafnvægi, og þar af leiðandi ósköp eðlilegt.


Snær - 06/12/04 10:29 #

Árni skrifaði: "...þegar músum var séð fyrir meiru en nóg af öllu því sem þeim skorti þá tók að bera frekar á samkynhneigð á meðal þeirra... Ætli þetta sé ekki bara náttúran að taka í taumana til að koma á jafnvægi, og þar af leiðandi ósköp eðlilegt."

Þetta er einkar áhugaverð tilgáta hjá þér. Það er augljóslega þörf fyrir meiri rannsóknir í þessi málefni.


Árni - 06/12/04 14:14 #

Þetta er ekki mín tilgáta, eins og ég segi þá sá ég þátt um þetta eða las þetta einhversstaðar. En já, áhugavert. Held reyndar að það séu til mýmargar rannsóknir sem bendi til þess að náttúran leitist alltaf við að koma jafnvægi á. Get nú samt ekki bent á neina í fljótu bragði.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.