Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Spennta skólastelpan og miðillinn sem leysir glæpamál (eða ekki)

Það er ákaflega aumkunarvert að fylgjast með því hvernig íslenskir fjölmiðlamenn taka á málefnum miðla og annarra kuklara. Síðasta sunnudagskvöld var hægt að sjá dapurlegt dæmi um gagnrýnisleysi fréttamanna í Kastljósi Ríkissjónvarpsins.

Gestur Kastljóssins var Marion Dampier-Jeans sem var kynnt sem heimsfrægur miðill (þessi heimsfrægð hennar er ákaflega vafasöm). Spyrill kvöldsins var ekki gagnrýninn fréttamaður heldur spennta skólastelpan Eyrún Magnúsdóttir. Eyrúnu datt ekki í hug að efast um fullyrðinar Marion heldur spurði þvert á móti hvort það angraði miðilinn að einhverjir væru með efasemdir um hæfileika hennar.

Marion kom með fullyrðingar um rannsóknir vísindamanna á íslenskum miðlum. Kuklarinn nefndi þar sérstaklega að verkfræðingar hafi komið að þessum rannsóknum, ekki var rökstutt hvaða vit verkfræðingar ættu að hafa á þessum málum. Vissulega er rétt að miðlar hafa náð að plata vísindamenn en það eru engar sannanir þarna, það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að til að prófa miðla þarf sjónhverfingamenn.

Annars virtist frú Dampier-Jeans ekki vita að einn frægasti og hæfileikaríkasti (hæfileikarík=gat platað marga) miðill Íslandssögunnar var afhjúpaður í lögreglurannsókn á fyrrihluta aldarinnar. Þegar Marion fullyrti að hún starfaði með doktorum og prófessorum þá kom engin athugasemd frá Eyrúnu. Ekki var spurt hvaða vísindamenn þetta væru, hvar þeir störfuðu né hvar þeir birtu rannsóknarniðurstöður sínar.

Marion Dampier-Jeans vill væntanlega ekki láta James Randi rannsaka hæfileika hennar þó að þar geti hún fengið milljón dollara verðlaun (kannski er hún að bíða eftir að gengi dollarsins hækki?). Andúð hennar á Randi sést vel á heimasíðu hennar þar sem hún birtir grein um hann sem er lygaþvættingur frá upphafi til enda. Þeir sem vilja geta borið lýsinguna á prófi Randi sem kemur fram á heimasíðu hennar og raunverulegri útlistun á áskoruninni sem er á heimasíðu hans. Það eina sem þarf til að standast próf Randi er að geta framkvæmt það sem þú segist geta gert (samanber þessa grein).

Í umræddri grein á heimasíðu miðilsins er því líka logið að Houdini hafi haldið því fram að hann hefði einhvers konar yfirnáttúrulega hæfileika, þvílík móðgun við snilligáfu töframannsins. Sjónhverfingamenn eru kannski loddarar en þeir eru heiðarlegir loddarar ólíkt miðlum.

Töluvert var rætt um afskipti Marion af lögreglurannsóknum í Bretlandi og Danmörku en Eyrún var ekkert að spyrja nákvæmlega hvernig þessi afskipti hefðu verið. Eyrún virtist halda að það væri bara staðreynd að lögregla talaði við miðla, í raun var Marion varkárari í yfirlýsingum sínum heldur en fréttamaðurinn. Vissulega er rétt að það hefur komið fyrir að ráðvilltir lögreglumenn með slaka dómgreind hafa leitað til miðla en yfirleitt eru miðlar meira til þess að trufla lögreglurannsóknir.

Ég hef aldrei heyrt dæmi um mál þar sem miðill hefur með "hæfileikum" sínum hjálpað við að leysa glæpamál þó að tölfræðilegar líkur bendi til þess að miðlar hljóti að slysast til að giska rétt í einhverjum tilfellum. Miðlar eru bara til vandræða í glæparannsóknum.

Í þættinum kom fram að Marion Dampier-Jeans er miðillinn sem var fenginn til aðstoðar í frægasta glæpamáli síðari tíma og því hefði ég spurt Marion að einfaldri spurningu:

Hvar er Geirfinnur?

Óli Gneisti Sóleyjarson 22.11.2004
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Sævar Helgi Bragason (meðlimur í Vantrú) - 22/11/04 10:15 #

Ó hvað ég er sammála þér. Ertu búinn að senda þetta á Kastljósfólkið?


urta (meðlimur í Vantrú) - 22/11/04 13:53 #

Ég horfði og það var vægast sagt átakanlegt að sjá hvernig þessi svikari vafði þáttastjórnandanum um fingur sér. Talaði og talaði (eins og stjórnmálamaður) án þess að segja nokkurn skapaðan hlut. Eyrún spurði m.a. að þremur spurningum í einu - hvort meintur miðill gæri SÉÐ, SNERT eða SPJALLAÐ við framliðna. "Yes" sagði viðmælandi og þar með var það látið gott heita. Ekkert var gengið eftir hverri af þessum þremur spurningum hún var að jánka. Annað var í svipuðum dúr.


Lárus Páll Birgisson - 23/11/04 04:00 #

Þetta þykir mér nú óvæginn málflutningur hjá honum Gneista. Ekki svo að skilja að ég sé eitthvað hlyntur miðilsstarfsemi, síður en svo.

Hins vegar tel ég Óla Gneista ekki fyllilega skilja hlutverk kastljóssins. Kastljósið er fyrst og fremst þáttur sem fjallar um málefni líðandi stundar, þess sem fólk hefur áhuga á eða vekur athygli.

Kastljósið er ekki útibú James Randi!

Hlutverk Eyrúnar í þessu tiltekna viðtali var að fjalla um störf og hugmyndir tiltekins miðils en ekki að afsanna kenningar hennar og hugmyndir... það er hlutverk Randis.

Annars leiðist mér punkturinn um milljón dollara verlaunin hans Randis, eins og fégræðgi sé einhver mælikvarði á hvort einhver hafi rétt fyrir sér eða ekki. Hefur engum dottið í hug að "yfirnáttúrulegir" hlutir geti einfaldlega ekki gerst á tilraunastofunni hans Randis eða einfaldlega að fólk sem hefur þessa hæfileika sé mun meira andlega þenkjandi en svo að selja þá fyrir peninga?

Svo hefði ég haldið það að það væri bara jákvætt að vera skólastelpa, skólastelpur eru þó allavega að mennta sig.

ps. Eyrún Magnúsdóttir hefur flutt eina mögnuðustu ræðu gegn stjörnuspeki sem ég hef heyrt.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 23/11/04 08:36 #

Það getur nú fleira en fégræðgi kveikt áhuga á milljón dollurum. Það er t.d. hægt að gefa þá til góðs málstaðar eða láta á annan hátt gott af sér leiða með þeim. Kaupa bólusetningar handa börnum í Afríku, skó handa börnum í Afghanistan eða eitthvað. Milljóninni þarf ekki að vera varið af eigingirni, það er ekki skilyrði. Ég held líka að tilraunin þurfi ekkert endilega að fara fram á tilraunastofu Randis. Eftir því sem ég kemst næst þarf fólk sem heldur því fram að það hafi yfirnáttúrulega hæfileika ekki að gera annað en að sanna það. Ef það hefur hæfileikana verður því varla skotaskuld úr því, en skiljanlega flækist málið þegar það hefur hæfileikana ekki í alvörunni..


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 23/11/04 10:17 #

Er hlutverk Kastljóssins að leyfa fólki að koma þangað með vafasamar fullyrðingar án athugasemda? Marion er í því starfi að hirða peninga af fólki sem á bágt, til dæmis fólk sem hefur misst börn. Er til of mikils ætlast að svona fólki þurfi að færa rök fyrir máli sínu í stað þess að fá að þvæla athugasemdalaust?

Annars þá hefur það margkomið fram hér Lalli að það eina sem þarf til að standast próf Randi er að framkvæma það sem þú segist geta gert, ef að hæfileikar eru til staðar þá er hægt að prufa þá. Lestu síðan aðeins um Randi og skoðaðu þau próf sem hann hefur sett upp.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.