Í nýliðinni viku lenti ég tvisvar í því að ræða um trúmál augliti til auglitis. Það er langt síðan ég hef gert það og satt best að segja þá var það ákaflega hressandi eftir að hafa stundað endalausar netrökræður.
Vantrú hefur markað sér þá sérstöðu meðal hérlendra vefrita að við leyfum athugasemdir á greinar okkar, þetta höfum við gert frá upphafi og við ætlum ekkert að hætta því. Við rekum líka spjallborð þar sem hægt er að ræða um efni sem ekki tengjast greinarskrifum okkar. Athugasemdakerfið er vel nýtt og við höfum fengið um 4000 athugasemdir á greinar okkar frá hundruðum einstaklinga. Sumir koma aftur og aftur en aðrir leggja inn eitt komment og láta ekki sjá sig aftur.
Nokkrir sem nú eru í félaginu Vantrú létu fyrst heyra í sér í athugasemdakerfinu. Athugasemdakerfið hefur líka marga ókosti, oft lætur fólk komment þar sem ekki tengjast greinarskrifum á nokkurn hátt og síðan kemur líka fyrir að fólk póstar hérna inn svívirðingum (við leyfum okkur að eyða óviðeigandi efni úr athugasemdunum).
Netþras er leiðigjarnt til lengdar, umræðan fer oft út í vitleysu og þá getum við trúleysingjar játað að það er stundum okkur að kenna. Minniháttar mál verða meiriháttar mál, aukaatriði aðalatriði og smávægilegur misskilningur getur valdið löngu rifrildi.
Það er auðvelt að misstúlka orð á netinu, til að mynda hefur það oft komið fyrir mig að fólk misskilur eitthvað sem ég skrifa í vefdagbók mína. Stundum verður misskilningurinn vegna þess að fólkið sem les skrif mín þekkir mig ekki og skilur ekki húmor minn (reyndar eru mjög margir sem skilja ekki húmor minn). Það er ákaflega auðvelt að fara framúr sér þegar setið er fyrir framan tölvu.
Ritmál, sérstaklega í jafn knöppu formi og tíðkast á netinu, er almennt auðvelt að mistúlka. Mín skoðun er að það sem veldur þessu sé fyrst og fremst skortur á svipbrigðum og raddblæ. Þegar þú skrifar texta þá geturðu minkað líkurnar á misskilningi með því að skáletra hann, feitletra, láta inn hlekk á vefsíðu og svo framvegis, það er líka hægt að láta inn broskalla þó það tíðkist ekki á vefritum. Þetta er samt ekki nóg.
Annars þá eru broskallar nauðsynlegir netinu, sérstaklega spjallforritum, en það er líka auðvelt að misskilja þá. Kannski þyrfti beinlínis broskallaorðabók þar sem er neglt niður hvað hver kall þýðir.
Í vikunni heyrði ég sögu er varðaði einn náunga sem hefur oft komið með athugasemdir hér, hann var að spjalla við vin sinn sem þekkir okkur Vantrúarpenna. Kommentarinn var að velta fyrir sér hvort hann ætti að þora að mæta á viðburð hjá Vantrú. Honum flaug í hug að við gætum verið hættulegir og jafnvel tekið upp á því að lemja hann.
Sem betur fer ákvað þessi lesandi okkar að mæta og gat þar spjallað við nokkra úr okkar hópi augliti til auglitis. Þetta var víst miklu uppbyggilegra en netþrasið. Við þurfum að rökræða oftar augliti til auglitis, þó að fólk misskilji hvert annað líka undir þeim kringumstæðum þá er betra að geta horft í augu þess sem rökrætt er við.
Vantrú mun vonandi taka þátt í fleiri viðburðum í "kjötheimi" á næstunni og þá hvetjum við lesendur okkar til mæta. Það er gott að sjá manneskjurnar á bak við textann. Við hjá Vantrú getum lofað að við hvorki bítum né berjum andstæðinga okkar, jafnvel þó þeir pirri okkur stundum alla leið til helvítis.
Hvar og hvenær eru viðburður á vegum Vantrúar ? Mig dauðlangar að mæta. ;)
Það var viðburður í vikunni en því miður höfum við væntanlega lítinn tíma fyrir slíkt aftur fyrren eftir áramót.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
lalli - 21/11/04 07:44 #
Þetta er rökvilla hjá þér Óli. Í fyrsta lagi erjkkd.... djók :)