Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þjóðkirkjan og hvað er að vera trúaður

Það virðist ekki vera á hreinu hvað það er að vera “trúaður” – að vera “kristinn”. Sumir svara: “Ég hef mína barnatrú” þegar eru spurðir á hvað þeir trúa – án þess að vilja eða geta útskýrt það nánar hvað þeir eiga við með “sinni barnatrú”. Er það þessi mynd sem börn sjá fyrir sér af hvítskeggjuðum, góðlegum öldungi sitjandi á skýi? Það er harla ósennilegt að fullorðið fólk hafi þessa mynd af guði. En hvaða mynd hefur það þá? Aðrir útskýra sína trú sem “trú á það góða í hverjum manni”. Fallegt og gott en er þetta að vera kristin manneskja?

Fjölbreytnin er í raun mikil. Sumir trúa því að trú sé að hafa Jesú í hjartanu; Að það geti farið og hitt aðra manneskju sem kemur því í samband við framliðna ættingja; Að guð sé óskilgreindur “andi” sem vaki yfir því, Að það samrýmist kristinni trú að veifa pendúl yfir matnum sínum til þess að vita hvort hann sé hollur o.s.frv. o.s.frv. Allt þetta fólk er í þjóðkirkjunni og telur sig trúað. En er það trúað samkvæmt skilgreiningu hinnar evangelísku lúthersku trúar sem er þjóðkirkja Íslands samkvæmt stjórnarskrá?

Aðrir eru mjög efins í trúmálum og eru samt í þjóðkirkjunni. Þar voru þeir skráðir við fæðingu. Síðan voru þeir skírðir inn í kirkjuna sem ómálga börn og látin “staðfesta” skírnarheit sitt sem óharðnaðir unglingar. Þetta fólk vísar gjarnan til hefðarinnar þegar það er spurt af hverju það sé enn í þjóðkirkjunni. En á það heima þar?

Um aldaraðir hefur kristin kirkja deilt hart um það hvað er hin rétta trú og eru þær deilur raktar ítarlega í bók Einars Sigurbjörnssonar: Kirkjan játar. Þar segir m.a.:

Þegar litið er yfir hinn kristna heim, blasir kirkjuklofningurinn hvarvetna við. Kristnar kirkjudeildir skipta hundruðum og metast oft á tíðum um það, hver sé hin sanna kirkja og hvaða kirkja játi sanna trú.

Það er því úr ýmsu að moða þegar fólk velur að trúa – hverju á að trúa? Íslenskir kirkjumenn hafa komið sér saman um hvað sé “hin sanna trú”. Undir því öllu er að finna grunninn sem kristin trú byggir á. Hér á eftir fylgir stutt samantekt á helstu grunnatriðum kristinnar trúar:

  • Að trúa á þrískiptinguna: Guð föður, hans einkason Jesú Krist og heilagan anda – sem eina einingu.
  • Að trúa því að djöfullinn sé til og afneita honum.
  • Að trúa því að eigin tilvera á jörðinni sé gjöf frá guði og án trúar sé “hið tímanlega líf” einskis virði.

Þetta eru umhugsunarverðar staðhæfingar. Hér er staðhæft að líf okkar sem er án trúar á guð eða guði sé harla tilgangslaust. Og skiptir þá engu hvað við sjálf höfum um það að segja. Næstu atriði eru ekki síður athyglisverð:

  • Að afneita öllu þýlyndi við valdakerfi því Jesú er konungur í lífi og dauða.
  • Að afneita öllum gjám á milli manna og skiptingu á þeim í ríka og fátæka eða að aðgreina kynþætti.

Hvað er átt við hér? Ekki eigum við að hætta að fylgja lögum og reglum sem settar eru af kosnum valdamönnum landsins? Síðasta atriðið er falleg yfirlýsing og vissulega væri heimurinn snöggtum betri ef kristnir menn – eins og þeir eru fjölmennir – færu eftir þessum boðskap. Hvergi nokkurs staðar hér á landi eða annars staðar hefur orðið vart við að allri deildarskiptingu í mannlífinu sé afneitað af þeim kristnu. Ef það hefði verið eða væri gert af heilum hug og með öllum þeim mannafla og fjármunum sem kristin kirkja um allan heim hefur yfir að ráða væri “deildarskipting í mannlífinu” úr sögunni.

  • Að trúa innifelur einnig að trúa því að sá sem ekki varðveitir almenna trú “hreina og ómengaða muni á efa glatast að eilífu.”

Í kirkjum landsins er tilvist helvítis lítið haldið á lofti nú á dögum. Það er þó einn af undirstöðuþáttum kristinnar trúar: “...þeir sem gott hafa gert munu ganga inn til eilífs lífs, en þeir sem illt hafa gert í eilífan eld."

Ég vek athygli á að tvær ofangreindar fullyrðingar kristninnar stangast á. Sú fyrri fullyrðir að það gildi að trúa – sú seinni að vinna góð verk...

Hvað með hina svokölluðu meyjarfæðingu? Trúir einhver því í alvöru að “heilagur andi” hafi barnað stúlkuna Maríu – kærustuna hans Jósefs? Til þess að trúa, samkvæmt grunni kristinnar trúar, verður maður að trúa því. Og fyrir þá sem hafa gaman af því að pæla í endalausum deilum er áhugavert að lesa deilurnar um hvort Jesús sem Guð í eðli sínu gæti verið maður á sama tíma? Eða ef hann væri maður í eðli sínu hvort hann gæti þá einnig verið Guð? Eða hvort María mey gæti borið heitið “Guðs móðir” – fæddi hún aðeins manninn Jesú eða einnig Guð son Jesú?

Ekki megum við gleyma því sem er kallað “erfðasynd“ sem gengur út á það að hvert einasta barn fæðist “syndugt” sem merkir að ef það deyr án þess að vera skírt til kristinnar trúar fer það beina leið til helvítis. Þetta er mjög mikilvægt atriði í grundvelli kristinnar trúar.

Og rennur þessi texti ljúflega niður: “Faðirinn er óskapaður, sonurinn er óskapaður, heilagur andi er óskapaður. Faðirinn er ómælanlegur, sonurinn er ómælanlegur, heilagur andi er ómælanlegur. Faðirinn er eilífur, sonurinn er eilífur, heilagur andi er eilífur og samt sem áður eru ekki þrír eilífir, heldur einn eilífur eins og þeir eru ekki þrír óskapaðir og ekki þrír ómælanlegir, heldur enn óskapaður og einn ómælanlegur. Á sama hátt er faðirinn almáttugur, sonurinn almáttugur, heilar andi almáttugur. Þó eru ekki þrír almáttugir, heldur einn almáttugur. Þannig er faðirinn Guð, sonurinn Guð, heilagur andi Guð og samt eru ekki þrír guðir, heldur einn Guð. Þannig er faðirinn Drottinn, sonurinn Drottinn, heildar andi Drottinn og samt eru ekki þrír drottnar, heldur einn Drottinn”.? (ES 1991 154)

Þessum ströngu kröfum er lítið haldið á lofti af kennimönnum íslensku þjóðkirkjunnar. Þeir láta sér lynda að hafa hálfvolgt fólk innanborðs. Það er enginn rekinn úr þjóðkirkjunni fyrir að segjast bara trúa á “hið góða í manninum”. Ekki heldur er þeim sagt að taka pokann sinn sem segist nú ekki trúa því að óspjölluð meyjan hafi fætt dreng. Hvað þá þeim sem trúa því að hægt sé að ná sambandi við dána einstaklinga. Af hverju ekki?

Svarið blasir við. Það er peningaspursmál. Á meðan kirkjan nýtur þess að fá gjöld af hverjum einasta meðlimi er engin hætta á að hún reki fólk frá sér. Og sú er einnig ástæðan fyrir því að ofangreindum grunni kristinnar trúar er lítið haldið á lofti – fólk myndi flýja kirkjuna.


Heimild: Kirkjan játar eftir Einar Sigurbjörnsson. Undirtitill bókarinnar er: Saga og mótun kristinna trúarjátninga og yfirlit yfir helstu kirkjudeildir kristninnar. Játningarit íslensku þjóðkirkjunnar með skýringum.

Bókin er gefin út í Reykjavík 1991 af Skálholtsútgáfunni og er það 2. útgáfa aukin og endurbætt. Í formála er þess getið að Rannsóknasjóður háskólans hafi styrkt útgáfuna auk kirkjuráðs íslensku þjóðkirkjunnar og guðfræðistofnunar H.Í.

Jórunn Sörensen 17.11.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.