Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hugmyndafylliríin

Einhverntíma á góðri stundu yfir kaffibolla lýsti ég því yfir við vini mína og kunningja að í hugmyndafræðilegu tilliti væri ég sóberisti. Ég átti að sjálfsögðu við að ég leitaðist við að taka aðeins upp á arma mína hugmyndir þær sem allsgáðastar væru, hugmyndir sem hægt væri að færa skynsamleg rök fyrir.

Það var ekki fyrr en löngu síðar og eftir að ég var búinn að lesa mig meira til sem ég áttaði mig á því að ég hafði einfaldlega verið að tala um skeptisisma. Skeptíker er einmitt sá sem reiðubúinn er að aðhyllast allt það sem hægt er að færa rök og sannanir fyrir.

Um leið og efahyggjumaðurinn gengur til fylglags við órökstudd trúarkerfi er hann því ekki lengur skeptíker. Því er óhjákvæmilegt að þessi manntegund sé hvort tveggja í senn, skeptíker og trúleysingi.

En svo eru til trúleysingjar sem ekki eru skeptíkerar. Ungabörn, til dæmis, hafa aldrei velt fyrir sér rökum tilverunnar og því er guðleysi þeirra byggt á vanþekkingu en ekki skeptík.

En þessi gamla líking mín við áfengisneyslu kom mér aftur í hug nýlega og ég fæ ekki betur séð en hún eigi fullkomlega við. Efahyggjumaðurinn er að sönnu hugmyndafræðilega edrú, en trúmenn aftur í mismikilli neyslu ranghugmynda.

Þjóðkirkjufólk er nokkurs konar rauðvínssullarar í þessum efnum og fær sér helst í sitt andlega glas um helgar - á sunnudagsmorgnum nánar til tekið. Sértrúarliðð er svo aftur í sterkari drykkjum og vesalingarnir á Ómega ná sumir rónastiginu, eru stöðugt með tæran spíritus á vörunum.

Og ofstopinn er í beinu samræmi við neysluna. Gunnar í Krossinum, með allt sitt hommahatur og þetta gamla „rokk & ról er tónlist djöfulsins“ er illa haldinn af þessari andlegu drykkjusýki. Sama má segja um Betelfólkið í Vestmannaeyjum, sem brenndi á sínum tíma á báli geisladiska og annan meintan ófögnuð sem við hin flokkum undir heilbrigða afþreyingu.

Það dapurlegasta við þetta allt er hve stutt hinar hugmyndafræðilegu áfengisvarnir eru á veg komnar. Það er ekkert SÁÁ eða Vogur til í þessum efnum en nóg af sukkgrenum sértrúarhópa, þar sem búsinu er dælt ofan í menn. Og AA samtök trúarfíkla hafa ekki enn tekið til starfa hérlendis þótt ærin þörf væri á. Í útlöndum er þó farið að bera á slíkum félagsskap og aðeins tímaspursmál hvenær þetta stingur sér niður hér.

Það stendur auðvitað upp á okkur hina aktífu sóberista að koma því í kring. En fyrst þarf að breyta viðhorfum samfélagsins til þessa meins sem kallast trú. Við erum enn sem komið er að vinna forvinnuna í þessum efnum. Í bjartsýni minni spái ég því þó að ekki þurfi að bíða meira en svona hálfa öld eftir því að hvarvetna verði að finna afeitrunarstöðvar fyrir hólí-spíritusfíkla.

Birgir Baldursson 14.11.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 14/11/04 02:02 #

Þessi samlíking er, í einu orði sagt, frábær! Hún setur trúarfíknina í samhengi við aðra fíkn, tengir ésúdjönkarann við alkóhólistann eða aðra djönkara. Þá koma líka upp í hugann atriði á borð við afneitun, breytingar á geðslagi og fleira sem tengist fíkn. Frábært!


Lárus Páll Birgisson - 14/11/04 20:56 #

Þetta er nú með því skemmtilegasta sem ég hef séð hérna inni. Skondnar líkingar og nokkuð fyndin lesning. Eflaust margt satt og rétt. Birgir þú færð prik hjá mér. :)


Cave - 15/11/04 00:49 #

Snilldar samlíking.


Binni - 15/11/04 15:24 #

Nú eru ekki allir sem neyta áfengis alkóhólistar. Neysla áfengra drykkja er með öðrum orðum ekki alltaf sjúkleg. SÁÁ hefur meira að segja reynt að draga þarna einhver mörk til viðmiðunar, hvað teljast beri hófdrykkja og hvað ekki. Mér finnst nú samlíking þín svolítið leka þarna, en hún er vissulega ágætur vitnisburður um fordóma þína í garð trúarbragða eða þeirra sem „neyta“ þeirra. Frægur maður á undan þér sagði einu sinni að trúin væri ópíum fólksins og það á vissulega við rök að styðjast – en eingöngu í sumum tilvikum.

En hvernig er það, þurfa menn ekki að vera nokkuð allsgáðir til þess að sljóvga ekki dómgreindina? Þurfa menn ekki að vera hættir að reykja hass til þess að bera gott skynbragð á skynsamleg rök?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/11/04 15:46 #

Nú eru ekki allir sem neyta áfengis alkóhólistar.

Einmitt. Til hamingju með að vera hófdrykkjumaður. Passaðu bara að missa ekki stjórn á neyslunni. Aldrei meira en tvö glös í einu ;) Best er auðvitað að sleppa þessari dópneyslu alveg.

Þurfa menn ekki að vera hættir að reykja hass til þess að bera gott skynbragð á skynsamleg rök?

Að sjálfsögðu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/11/04 16:01 #

Úr greininni Glansmyndir:

Ég kemst með hverju árinu æ meira á þá skoðun að höfuð okkar séu full af svona glansmyndum. Sú er til dæmis mynd þeirra sem hallir eru undir áfengisneyslu að þar sé á ferðinni notaleg iðja sem gefur lífinu gildi. Menn safna dýrum rauðvínstegundum í kjallara og finnst dýrmætt að geta boðið vinum upp á hið rómaða Chateau Gonelsdohjwgaux, stöðugt horfandi fram hjá þeirri staðreynd að innihald flöskunnar er einungis gerjaður berjasafi þar sem mikið fer fyrir eiturefninu etanóli. Með neyslu þessara dýru tegunda eru menn því eingöngu að koma sér í skammvinnt blizz og níðast um leið á taugakerfi sínu, svo að þeir verða illa upplagðir lengi á eftir, þurfa að búa við pirring, ljósfælni og viðkvæmni fyrir hávaða meðan líkaminn er að jafna sig eftir eitrunina. Það þarf ekki einu sinni mikið til, því einn bjór dugir til að ræna menn hvíld nætursvefnsins, hann veður laus og órólegur. Það sem þarna er á ferðinni, kalt mat, er snobb fyrir fíkniefni. Menn hjúpa þessa dópneyslu sína glansmyndarumbúðum, sem þeim tekst að gera svo girnilegar að ómissandi verður að upplifa þá rómantík sem allra oftast.

Guðstrúin gengur ágætlega upp í þessu.


darri (meðlimur í Vantrú) - 15/11/04 16:30 #

[samlíkingin] er vissulega ágætur vitnisburður um fordóma þína í garð trúarbragða eða þeirra sem „neyta“ þeirra

Binni sýndu nú hvað í þér býr og færðu rök fyrir því að Birgir (og þá eflaust ég líka) sé fordómafullur í garð trúarbragða.

Ef þú getur það ekki, nú þá eru þessi orð þín nákvæmlega einskis virði.


Binni - 15/11/04 22:55 #

Annað sem veldur því að þessi samlíking höfðar lítt til mín er það, að það sem kallast „substance abuse“ á ensku (= misnotkun efna) hefur svolítið önnur áhrif en sú fíkn sem þú kallar trú. Að neyta efna sem hafa áhrif á miðtaugakerfið hefur annars konar afleiðingar en það að trúa á æðri máttarvöld. Eða gerir þú kannski engan greinarmun á trúarfíkli og t.d. amfetamín-neytanda? Það væri svo sem alveg í takt við þá staðreynd, að þú og kollegar þínir hafið glöggan skilning á því hversu bókstafstrúin er háskaleg, en kunnið hins vegar ekki að greina á milli bókstafstrúar og annars konar trúarlífs. Þið virðist ganga út frá því sem gefnu að allt sem trúarbrögðum viðkemur sé á sömu bók lært og skilningur á trúarefnum hafi aldrei raunverulega breyst svo nokkru nemi. Mér finnst þetta t.d. skína í gegn í þessu lesmáli hér að ofan.

Þú segir orðrétt: „Efahyggjumaðurinn er að sönnu hugmyndafræðilega edrú, en trúmenn aftur í mismikilli neyslu ranghugmynda.“

Þetta er auðvitað ágætt dæmi um þann sjálfbirgingshátt sem því miður er viðhengi þessa vefjar, vantru.net (og stendur honum örugglega talsvert fyrir þrifum). Eða hversu líklegt er það til árangurs í samskiptum við fólk (ef maður vill á annað borð koma því til hjálpar) að segja „þú ert blindur, en ekki ég“?

Öllu sæmilega upplýstu fólki er það fullljóst, hvort heldur sem það trúir eða efast, að þið trúleysingjarnir eigið jafnmikið á hættu að vera í „neyslu“ ranghugmynda og trúmenn. Mér sýnist t.d. að trúgirni ykkar liggi hundflöt fyrir flestu því sem nefnir sig vísindi! Satt að segja held ég að það sé ekki erfitt viðfangsefni að færa rök fyrir því að þið fallið sjálfir undir skilgreininguna „trúarfíklar“ eins og trúboðsaðferðir ykkar minna á bókstafshyggjuna. Þú ert einfaldlega í afneitun á þetta atriði, Birgir, eins og hver annar forhertur fíkill, svo við höldum okkur við samlíkinguna þína.

Ég held að alla afneitun af þessu tagi megi lækna lítið eitt með því að hjálpa mönnum að gera sér grein fyrir eðli og takmörkunum þeirrar þekkingar, sem þeir ráða yfir, hvort sem þeir trúa eða efast. Það er bara heilbrigð skynsemi. Flestir efahyggjumenn sem ég þekki (og trúðu mér, þeir eru allmargir!) ganga þess t.d. ekki duldir að efnisvísindin eru ekkert annað en leiðsögutilgátur sem á hverjum tíma þykja hentugar til að útskýra ýmis fyrirbrigði tilverunnar en ganga svo smám saman úr gildi og víkja fyrir öðrum sem betur reynast. Þetta er gangur lífsins. Þeir virðast ekki heldur eiga erfitt með að viðurkenna, að undirstöður náttúruvísinda eru engu síður en guðfræðivísindin byggð á trú en ekki staðreyndum. Enginn vísindamaður þekkir allar staðreyndir og efasamt er að hann skilji eina einustu staðreynd til fulls. Nema þeir sem eru forfallnir dópistar, svo við höldum okkur áfram við samlíkinguna þína.

Ég held að það sé afar hæpið að halda því fram að trú eða trúleysi skeri úr um það hvort menn eru hugmyndafræðilega edrú eða ekki. Þú hlýtur að sjá hvað þetta er holt að innan.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/11/04 23:55 #

Já, en kæri Binni, þetta er svo einfalt!

Að vera hugmyndafræðilega edrú snýst um að taka aldrei órökstuddar fullyrðingar inn í þekkingarmynd sína, heldur aðeins það sem fullnægjandi rök eru færð fyrir.

Sé það gert kemur ýmislegt í ljós, t.d. það að það eru ekki bara trúarhugmyndir manna sem eru hugmyndafyllirí, heldur margt fleira, t.d. allt þetta póstmóderndót sem tröllríður fræðastarfi nú um stundir. Og guðfræðin er náttúrlega á útopnu og í algleymingi í því partíi. Guðfræðingarnir taka póstmódernþvælunni svo opnum örmum að þeir halda sig afskaplega nútímalega og fræði sín fersk.

Þetta er mikil ranghugmynd. Þegar bráir af mönnum póstmódern-nýjabrumið eiga menn eftir að sjá í gegnum þetta. Og í timburmönnunum munu menn koma auga á hvernig fyllirí þetta leystist upp í rugl og iðrandi munu þeir snúa sér aftur til þess haldbæra - gerast rök- og raunhyggjumenn. Það er spádómur minn ;)

Þetta er enginn hroki,heldur bara lífssýn mín tær og ómenguð. Svona sé ég þetta bara. Vopnaður rökum og sönnunum hef ég ásamt félögum mínum, sem svipað er ástatt fyrir, í rúmt ár ráðist að rótum trúarfyllirísruglsins með þeim hætti að ekki stendur steinn yfir steini. Blekking þjóðkirkjumanna, um að væg og efagjörn trú sé normalástand og trúleysi og ofsatrú öfgarnar, hefur verið hrakin, eins og hvert annað blaður drykkjumanna í afneitun. Kristin trú er hindurvitni og skiptir engu hvort þau hindurvitni eru tignuð laust eða fast. Þau verða alltaf hindurvitni.

Þetta er auðvitað ágætt dæmi um þann sjálfbirgingshátt sem því miður er viðhengi þessa vefjar, vantru.net (og stendur honum örugglega talsvert fyrir þrifum). Eða hversu líklegt er það til árangurs í samskiptum við fólk (ef maður vill á annað borð koma því til hjálpar) að segja „þú ert blindur, en ekki ég“?

Ef einhver kæmi til mín og segði við mig „þú ert blindur“ myndi ég strax spyrja mig hvort það væri virkilega svo. Hvernig get ég skorið úr um það? Verð ég ekki að meta rök, með og á móti? Er nokkur önnur leið fær í þeim efnum?

Ástæða þess að ég hef ekki enn fallið frá trúleysi mínu og afgreitt það sem hverja aðra bábilju er sú að þið þarna í trúarliðinu standið ykkur svo helvíti illa í að sýna mér fram á í hverju ranghugmyndir mínar liggja. Takið ykkur á og þá kannski mun ég láta af villuráfi mína. Hint: Það er ekki nóg að segja bara „þú ert blindur“, heldur þarf að færa fyrir því rök. Og rök okkar Vantrúarseggja fyrir blindu ykkar trúmanna finnurðu hér út um allan vef.

En það er auðvitað val þitt og einskis annars að meta þau rök heiðarlega eða vísa þeim fyrirfram á bug. Hinn hughrausti vegur og metur, hugleysinginn fer í fýlu og úthrópar.

Eini sjálfbyrgingshátturinn sem ég sé eru þessi þvermóðskufullu viðbrögð þín og viljaleysið til að taka upp á arma þína nýjar og spennandi hugmyndir að glíma við.

[Efahyggjumenn sem ég þekki] virðast ekki heldur eiga erfitt með að viðurkenna, að undirstöður náttúruvísinda eru engu síður en guðfræðivísindin byggð á trú en ekki staðreyndum.

Þetta er náttúrlega bara þvæla. Ég stórefa það að þessir vinir þínir séu efahyggjumenn ef þeir hafa ekki séð yfirþyrmandi sannanir hins mekaníska á kostnað þess vítalíska. Þú hlýtur eiginlega að vera eitthvað að misskilja þá. Hvernig er eðlisfræðin byggð á trú en ekki staðreyndum, Binni? Efnafræðin? Líffræðin? Hvar liggur trúarsetningin í þessum vísindagreinum. Rök, takk fyrir.


darri (meðlimur í Vantrú) - 16/11/04 00:11 #

Eða hversu líklegt er það til árangurs í samskiptum við fólk (ef maður vill á annað borð koma því til hjálpar) að segja "þú ert blindur, en ekki ég"?

Sumir þurfa gleraugu, aðrir ekki. Enginn hefur talað um blindu.

Um vísindalega þekkingu:

en ganga svo smám saman úr gildi og víkja fyrir öðrum sem betur reynast

Þetta er einmitt kjarninn í vísindalegu aðferðinni, ekkert slæmt um þetta að segja, nema hvað mér finnst þú nota orðið "víkja" í frekar miðaldalegum skilningi. Á miðöldum var algengt að ný þekking tæki algerlega við af þeirri gömlu, enda fullkomlega skiljanlegt. Það er engin tilviljun að þessum grundvallarbreytingum á heimsmynd vísindanna hefur fækkað all verulega undanfarna öld eða svo, það er ekki vegna þess að vísindamenn eru að verða sífellt kreddufastari og lokaðri, heldur vegna þess að þeir eru einfaldlega að komast nær raunveruleikanum, hvort sem þér líkar betur eða ver.


Arnþór Jónsson - 16/11/04 06:32 #

Í þessari kómísku samlíkingu gleymist að litið er á alkóhólisma sem arfgengan sjúkdóm. Samkvæmt því eru sumir alkóhólistar án þess að hafa nokkurntíma smakkað áfengi eða önnur vímuefni. Einnig er litið á alkóhólisma sem ólæknandi vanda sem hægt er að halda niðri með bindindi. Að lokum má geta þess að AA samtökin eru í eðli sínu trúarsamtök eða trúfélag sem álítur að æðri máttur geti gert menn heila. Að þessu leyti er samlíkingin kómísk.

Trúarfíkn er þó staðreynd held ég og kemur stundum í stað neyslu vímuefna.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 16/11/04 08:08 #

Mér sýnist t.d. að trúgirni ykkar liggi hundflöt fyrir flestu því sem nefnir sig vísindi!

Útskýrðu fyrir okkur hvað sé að hinni vísindalegu aðferð. Eða hvað ertu að reyna að segja? Eru ekki fjölmörg dæmi á þessum vef þar sem að við ráðumst á titluðum vísindum sem að við teljum vera röng?

Satt að segja held ég að það sé ekki erfitt viðfangsefni að færa rök fyrir því að þið fallið sjálfir undir skilgreininguna „trúarfíklar“ eins og trúboðsaðferðir ykkar minna á bókstafshyggjuna.

Ég hef nú aldrei hitt neinn bókstafstrúarmann sem að boðar trúnna sína með rökræðum, frekar að þeir ráðist á þá sem að eiga erfitt með að verjast áróðrinum, svo sem fíkla og börn.

Þeir virðast ekki heldur eiga erfitt með að viðurkenna, að undirstöður náttúruvísinda eru engu síður en guðfræðivísindin byggð á trú en ekki staðreyndum.

Útskýrðu fyrir okkur hvernig náttúruvísindin og guð"fræði""vísindin" eru bæði byggð á trú.


S. Sigur - 09/01/05 13:11 #

Það er ljóst að Binni hefur ekki lært að þekkja muninn á staðreyndum og þekkingu sem fengin er með vísindalegum aðferðum og svo aftur órökstuddum staðhæfingum sem teknar eru úr aldagamalli bók sem heitir biblían. Ekkert úr sköpunarsögu biblíunnar á við rök að styðjast og Nóa flóðið er bara brandari þó að hugsanlega sé það sannsögulegur skáldskapur af flóðbylgju líkt og við vorum vitni að í Asíu á dögunum í besta falli. Hin vísindalega aðferð krefst þess að tilgáta sé sönnuð með því að sýna fram á mekanisma sem að má endurtaka þannig að alltaf fáist sama niðurstaðan óháð því hver framkvæmi tilraunina og hvar það sé gert. Líkindi eru reiknuð og einungis þær tilgátur sem hafa mjög litlar líkur á því að stafa af tilviljun (t.d. minna en hálft prósent, 0.5%) Auðvitað er margt sem að skortir í þekkingu okkar mannanna varðandi uppruna lífsins og sjúkdóma en það afsakar ekki leitun í hindurvitni og barnalegar sögur um Adam og Evu, Paradís, höggorma og annað ævintýraefni. Maður gefur ekki upp þekkingarleit og skáldar upp skýringar þó að vísindin hafi ekki svarað öllu strax. Höldum okkur á jörðinni í þeim efnum.


S. Sigur - 09/01/05 13:15 #

Afsakið. Það féll aftanúr setningu hjá mér. Rétt á þetta að vera: Líkindi eru reiknuð og einungis þær tilgátur sem hafa mjög litlar líkur á því að stafa af tilviljun (t.d. minna en hálft prósent, 0.5%) eru teknar gildar.


Óskar - 10/01/05 12:00 #

athugasemd eytt


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/01/05 12:12 #

Óskar, þetta var svo sannarlega ekki málefnalegt innlegg frá þér, heldur eitt rætnasta Ad hominem sem ég hef séð. Það er voða þægilegt að vaða hér uppi, skíta allt út og rífa svo bara kjaft og kalla alla fasista þegar þú ert beðinn um að hlíta einföldum reglum. Haltu þig við málefnin eða stattu úti.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 10/01/05 12:32 #

Það er ég sem hef eytt út athugasemdum þínum.

Bendi þér á spjallborðið ef þú villt ræða ritstjórnarstefnu Vantrúar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.