Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Aparnir við

Eitt af því skemmtilega við að vera trúlaus er með hve margvíslegum hætti er hægt að skoða heiminn. Og sé maður fylgjandi þróunarkenningunni rennur upp fyrir manni að maðurinn er ekki aðeins kominn af öpum, hann er bókstaflega api.

Kristnir menn virðast endalaust eiga í vandræðum með þessa einföldu staðreynd, jafnvel þótt þeir séu ekki bókstafstrúaðir sköpunarsinnar. Allt þetta guðadót með mannskepnuna í miðpunkti alheims rænir réttri sýn. Þetta sýnir sig best í nýlegum vangaveltum sem vaknað hafa eftir að beinaleifar „smáfólksins“ á Flores fundust:

Homo floresiensis hlýtur líka að vekja upp guðfræðilegar spurningar með kristnu fólki. Við mennirnir erum samkvæmt Heilagri ritningu skapaðir í mynd guðs og það gerir okkur einstaka í veröldinni. Ritningin segir að við eigum að drottna á jörðinni og gera dýrin okkur undirgefin. Við erum með sál öndvert við sálarlausar skepnurnar og okkur er búin vist á himnum, ef við njótum náðar og höfum iðkað líferni sem Drottni er þóknanlegt.

Hvað með hina nýuppgötvuðu ættingja okkar? Eru þeir kannski nær því að vera dýr en menn? Voru þeir með sál? Hefur Drottinn gert ráð fyrir þeim í himnaríki? Úr því að þeir eru svona líkir manninum eru þeir þá ekki líka svipaðir Drottni sjálfum?

Þetta voðalega dilemma trúaðra er fullkomlega afkáralegt og hlægilegt í augum okkar sem sjá manninn fyrir það sem hann er. Er ekki kominn tími til að gefa þessum ævagömlu hugmyndum um guði og himnaríki frí og snúa sér að raunveruleikanum?

Dýrafræðingur einn er nefndur Desmond Morris. Á seinni hluta sjöunda áratugarins sendi hann frá sér bókina "Nakti apinn" og hleypti með henni öllu í bál og brand meðal kristinna fundamentalista sem og margra annarra. Gefum honum orðið:

Fólk varð reitt af fleiri en einni ástæðu. Meginástæðan var sú að ég hafði leyft mér að rita um manneskjuna eins og hverja aðra skepnu sem rannsaka mátti. Sem dýrafræðingur hafði ég þegar varið tuttugu árum í athuganir á hegðun fjölmargra dýrategunda, jafnt fiska, eðla, fugla og spendýra. Vísindaritgerðir mínar um efni á borð við tilhugalíf fiska, pörun fugla og fæðusöfnun spendýra höfðu verið lesnar af nokkrum sérfræðingum án neinna teljandi deilna. Þegar ég hóf að rita bækur, ætlaðar á almennan markað, um dýr eins og snáka, apa og pandabirni, voru engin hörð viðbrögð heldur sýnd. Þessi rit voru lesin og samþykkt af fremur smáum hópi þeirra er áhuga höfðu á efninu. En þegar ég lét frá mér samskonar rit um óvenjulegan hárlausan prímata breyttist allt.

Allt í einu var allt sem ég hafði ritað að deiluefni. Mannskepnan átti, sýndist mér, enn erfitt með að sættast við líffræðilegan uppruna sinn.

[...]

Í sumum heimshlutum var "Nakti apinn" bannaður og kirkjan lagði hald á ólögleg eintök og brenndi, eða þá að hæðst var af hugmyndinni um þróun mannsins og bókin skoðuð sem lélegur brandari hins argasta smekkleysingja. Yfir mig helltust trúarleg skrif þar sem ég var hvattur til að sjá að mér á villuráfi mínu.

Á tímaritinu The Chicago Tribune létu menn eyða heilu upplagi tölublaðsins sem hafði að geyma ritdóm um bókina. Ástæðan var sú að eigendur tímaritsins höfðu orðið hneykslaðir. Og af hverju? Jú, vegna þess að orðið "getnaðarlimur" kom fyrir í greininni.

Það virtist sem hispursleysi í kynferðismálum væri einn þeirra þátta sem gerðu bókina ómögulega. Þetta sama tímarit birti endalausar fregnir af ofbeldi og morðum. Orðið "byssa" birtist þar aftur og aftur. En eins og ég benti mönnum á þá, þá er það undarlegt að þeir væru svo viljugir til að nefna fyrirbæri sem skyti dauða en ekki fyrirbæri sem skyti lífi. En rökhyggja átti ekki upp á pallborðið hér. Með því að skipta fiskum og fuglum út fyrir konur og menn hafði ég svipt ábreiðunni af sofandi skrímsli mannlegra fordóma.

Nú get menn bent mér á að vísindasamfélagið hafi nú ekkert sérlega mikið álit á Desmond Morris. Það er rétt að í augum mannfræðinga þykja kenningar hans of poppaðar og alhæfingakenndar í samanburði við fræði þeirra sjálfra. En því má til svara að Morris er að sönnu sekur um það að vera full djarfur og alhæfa stundum helst til mikið. Það er með öðrum orðum framsetningin hjá honum sem ekki er beinlínis hávísindaleg. Að öðru leyti byggir hann ritsmíðar sínar á beinhörðum vísindum og því má gera því skóna að heildarmynd sú sem hann ber á borð sé í takt við vísindalega vitneskju.

En Morris gerir meira. Hann er duglegur við að setja fram alls kyns tilgátur er varða hegðun mannfólksins, tilgátur sem lýsa frjóum huga en erfitt getur reynst að rökstyðja. Þannig leggur hann t.d. til að allt þetta kaffi- og gosdrykkjaþamb okkar sé framlenging á hugguninni sem brjóstagjöfin veitti í frumbernsku. Einnig að rassskellingar (sem raunar eru held ég að mestu aflagðar í menningu okkar) séu hugsanlega ævagömul arfleið þess að forystuapinn tekur ungu apana og nauðgar þeim, ef þeir eru að færa sig upp á skaftið, til að sýna hver það er sem ræður. Skellir lófans á berum rassinum sé því táknrænir fyrir samfarahreyfingarnar.

En hvort sem segja má um Morris að hann sé hugdjarfur vísindamaður eða ónákvæmur vitleysingur, þá náði hann á sínum tíma að opna upp fyrir mér augun fyrir því fyrirbæri sem mannskepnan er. Og mér er það endalaust tómstundagaman að virða fyrir mér hegðun fólks í kringum mig með augum dýrafræðingsins.

Svo eru bækur hans bráðskemmtilegar.

En áfram með bókina um nakta apann. Þegar kemur að trúmálum skoðar Morris þau eins og hverja aðra hegðun (hvað annað?):

Nú, þegar ég hef nefnt ráðgátuna um trú, er ef til vill ekki úr vegi að skoða nánar það furðulega ferli í hegðun mannskepnunnar [...] Þetta er ekki auðvelt ferli að skýra en sem dýrafræðingar verðum við að gera okkar besta til að sjá hvað hér er raunverulega á ferðinni, frekar en hlusta á hvað eigi að vera í gangi. Ef við gerum þetta þröngvar það okkur til þeirrar niðurstöðu að, í atferlislegu tilliti, felist trúarleg hegðun í því að fólk kemur saman í stóra hópa til að framkvæma endurtekna og langdregna lítillækkunarhegðun til að friða ráðandi einstakling. Hinn ráðandi einstaklingur sem um ræðir getur tekið á sig mörg form innan mismunandi menningarheilda, en sameiginlegt einkenni er hin algeru yfirráð. Stundum tekur hann á sig mynd dýrs af annarri tegund eða stílfærða mynd slíks. Stundum er dregin upp mynd af gömlum vitrum einstaklingi sömu tegundar. Í öðrum tilvikum er myndin óhlutstæðari og hefur á sér nafngiftir á borð við "ríkið" eða annað slíkt. Hegðun hins undirgefna felst gjarnan í því að loka augum, lækka höfuðið í loftinu, krækja saman höndum í biðjandi stellingu, krjúpa, kyssa jörðina, jafnvel er um að ræða hávaðasama uppgjafarhegðun sem helst í hendur við kveinstafi eða samradda tónun. Skili þessi lítillækkunarhegðun árangri lætur hinn ráðandi einstaklingur friðast. En vegna þess hve völd hans eru mikil þarf að endurtaka slíka athöfn oft og tíðum, í því skyni að koma í veg fyrir að reiði hans nái sér á strik. Þessi ráðandi einstaklingur er venjulega, þó ekki alltaf, kallaður guð."

Það er viðbúið að innan fárra áratuga verði hægt að taka bækur Morris og henda þeim á ruslahaug úreltrar fræðiþekkingar. Þær verði þá fullar af afsönnuðum tilgátum og taldar yfirborðskenndar og ónákvæmar. Ég vona að minnsta kosti að framfarirnar verði slíkar. En harla ólíklegt er að sú heildarmynd sem þær voru nálgun við verði numin úr gildi. Hin vísindalega aðferð er einfaldlega of gott áhald til að hafa getað látið okkur í té heimsmynd sem er úti að skíta.

Birgir Baldursson 12.11.2004
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


nafnlaus gunga - 12/11/04 09:49 #

jesús, þvílíkir hugsuðir hérna inn maður!!!! eruð þið byrjaðir að raka ykkur, finnst ykkur þið vera þroskaðir og gáfaðir hugsandi menn?!? er það kúl að trúa ekki og sýna hvað við erum snjallir apar? Auðvitað er fólk fífl sem trúir bókstaflega eftir biblíunni, kóraninum eða hverju sem er, og auðvitað gera það langfæstir, a.m.k. hér á landi. Hins vegar er sönn trú á meiri dýpt en þið vitið um!!! þið haldið að spurningin sé hvort guð sé til. spurningin hjá YKKUR ætti frekar að vera... ef guð er til, sem er ekkert sjálfgefið.. hvað er þá guð??????????? og ef guð er til.. gætir ÞÚ skilið guð?? guð er speki heimsins.. sem er hver?? hálfvitar.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 12/11/04 09:54 #

Maður þarf fyrst að vita hvað guð er áður en maður getur sagt til um það hvort að það sé til eða ekki.

Dæmi: Ég er að leita að plunki í herberginu mínu.

Hvort er skynsamara?

A. að vita hvað plunk er áður en ég leita að því. B. leita að plunki og síðan reyna að fatta hvað það er.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 12/11/04 11:18 #

Ég rakaði á mér hausinn í gærkvöldi.


Sigurður Ólafsson - 12/11/04 11:39 #

Hinir smáu frændur okkar á Flores hljóta að valda öllu hugsandi kristnu fólki miklu hugarangri. Eru þetta menn eða dýr? Víst er að "smáfólkið" notaði verkfæri og átti sér líklega tungumál, en er það nóg? Homo floresiensis var með mun minni heila en við sem teljum okkur "fullvaxna" menn (en það segir ekki alla söguna, til er mjög smávaxið fólk með ágæta greind).

Gaman væri að sjá guðfræðinga deila um "mennsku" þessara ættingja okkar og hversu verðugir þeir gætu talist til himnaríkisvistar. Hætt er við að kærleikur Guðs nái ekki út fyrir raðir mannkynsins, enda aðeins gert ráð fyrir einni tegund "mannkyns" í hinni helgu bók.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/11/04 13:07 #

Kæra gunga, þú verður svo falleg þegar þú reiðist ;)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/11/04 13:10 #

Sigurður, þetta hugarangur er svo mikill óþarfi. Ef menn væru ekki búnir að láta prestalýðinn ljúga að sér skakkri heimsmynd gætu þeir bara séð þetta fyrir það sem þetta er.

Ég er gríðarlega ánægður með þennan fund og vonast heitt til þess að þessi manntegund leynist enn í myrkviðunum. Hvílíkt ævintýri yrði það ekki ef við kæmumst í samband við hana og reyndum að koma á samskiptum.


urta (meðlimur í Vantrú) - 12/11/04 13:31 #

Alveg frábær grein hjá þér Birgir. Já - þeim sem vilja vera skapaðir í "guðs-mynd" líkar það illa að vera hluti af þróun lífs á jörðinni. Vilja "guðs-ímyndarmennirnir" ekki heldur vita af því að menn og simpansar eru nánast með eins genamengi...


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 13/11/04 15:06 #

Já en það er ekki víst að við séum komnir frá öpum. Aðeins að við komum frá sameiginlegum forfeðri. Þessi forfeður gæti litið út eins og api en við vitum það ekki. Að segja að hann sé api er að stökkva að ályktunum. Það er ekki búið að finna beinan hlekk. Þannig að í skynsemis bænum reynum að hafa þetta í huga.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/11/04 15:44 #

Hvort sem rétt er eða ekki að tala um að sameiginlegur forfaðir manna og annarra apa flokkist undir apa eða bara einhverja óskilgreinda prímatategund, þá breytir það því ekki að við erum apar. Það er minn stærsti punktur í þessari grein.

Það getur verið villandi að tala um að við séum komin af öpum, rétt er það. En þannig hefur þetta lengi verið orðað. Menn fá við þessa orðanotkun kannski þá ranghugmynd í hausinn að t.d. simpansar séu að einhverju leyti styttra á veg komnir frá forföðurnum en við. Því er reyndar öfugt farið, því eins og einhver benti á (man ekki í svipinn hver), þá er víst réttara að tala um að simpansar séu komnir af mönnum, því erfðamengi þeirra er ólíkara öðrum apategundum en erfðamengi manna er, ef ég mar rétt.

Ég skal fletta þessu upp.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 13/11/04 16:06 #

Að segja að hann sé api er að stökkva að ályktunum.

Ég er ekki alveg að skilja. Nánustu skyldmenni okkar eru stóru aparnir og allar DNA rannsóknir benda til þess að það séu einungis um 4,6-5,0 milljón ár síðan ættkvísl manna (Homo) og simpansa (Pan) aðskildust.

Það er nokkuð ljóst að forfaðir okkar var að öllum líkindum api.

Ég leyfi mér að vitna í Futuyma úr bókinni Evolutionary Biology.

Although the common ancestor of humans and chimps need not have closely resembled either, it surely had many of the anatomical features of chimpanzees and gorillas, since these retain so many features of their common ancestor. Thus the common ancestor of humans and chimps was probably a largely arboreal African ape, with an opposable big toe, long arms relative to its legs, lucuriant body hair, and an ape-sized brain. It may well have walked on its knuckles, as do African apes today, but surely not on its hind feet only.

Sindri - 13/11/04 20:32 #

Helsta ástæðan fyrir því að varasamt er að tala um apa sem forföður manna er sú að orðið "api" er í flestra hugum ekki annað en samheiti yfir simpansa, górillur og órangútana. Þeir sömu geta ekki litið á menn sem apa og tengja auk þess hugtakið ekki útdauðum tegundum prímata. Þegar Darwin setti fyrst fram hugmyndir sínar um þróun manna og annarra dýra var hann einmitt gjarnan teiknaður með simpansalíkama til að undirstrika þann fáránleika sem samtíðarmönnum hans fannst einkenna hugmyndir hans.
Á íslensku er málið svo flækt enn frekar, þar sem margir gera ekki greinarmun á apa (ape) og apaketti (monkey). Það er því þrátt fyrir allt réttara að tala um sameiginlegan forföður apa og manna, jafnvel þótt sá forfaðir hafi sannlega verið api.


gávaður - 13/11/04 23:26 #

urta mín svín eru með líkara genamengi en simpasar


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 13/11/04 23:58 #

Nei, það eru þau ekki. Hins vegar er auðveldara að flytja líffæri úr svínum í menn en úr öðrum dýrum.


Ormurinn - 15/11/04 11:31 #

Hef aldrei skilið þessa viðkvæmni yfir því að vera bendlaður við apa. Mér finnst það merkileg og heillandi hugsun að maðurinn Homo sapiens hafi þróast frá apa (eða sameiginlegum forföður) yfir í þá hugsandi veru sem hann er núna. Ég sé ekkert lítillækkandi í því. Þvert á móti. Þetta er flottasta dæmið sem til er um þróun og aðlögun lífvera að mismunandi aðstæðum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/11/04 11:39 #

Hjartanlega sammála.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.