Þegar maður hefur deilt jafn lengi við trúmenn og ég hef gert þá er fátt sem þeir geta sagt sem gengur fram af manni. Trúmenn hafa margir ótrúlega undarlega og óraunhæfa mynd af heiminum og hlutverki trúar þeirra í honum. Fyrir nokkru lenti ég hins vegar í því að einn aðal kristniboði landsins líkti kristni við lækningu á banvænum sjúkdómi og ég játa að smekkleysi hans hneykslaði mig stórlega.
Í færslu á dagbókarsíðu minni hafði ég verið með einhverjar hugleiðingar um það hve kjánalegt væri að boða kristna trú í Eþíópíu þar sem það land hefur verið meira og minna kristið frá því á fjórðu öld. Nokkuð löngu eftir að ég skrifaði þessa færslu byrjaði kristniboðinn Guðlaugur Gunnarsson að gera athugasemdir við þessi skrif. Rökræður okkar voru ekki merkilegar enda leið langur tími á milli þess sem hann kom með athugasemdir þarna en að lokum kom þetta komment frá honum sem gerði mig ákaflega reiðan.
Peningum er safnað í nafni kristniboðs, og þeir notaðir til að mæta neyð fólks, hvort sem hún er andleg eða líkamleg. Frumskylda kristins manns er breiða ríki Guðs út um þennan heim. Það er líka siðferðisleg skylda. Ef eyðnissjúklingur finndi ókeypis lækningu við eyðni, býstu við að hann myndi ekki reyna að koma því á framfæri við alla í kring um sig?
Það er einfaldlega eitthvað að manni sem dettur í hug að líkja kristni við lækningu á banvænum sjúkdómi. Þegar ég gerði athugasemd við þennan málflutning hjá honum þá bakkaði hann ekkert með þetta og virtist alls ekki skilja hvers vegna ég tók þetta svona nærri mér.
Alnæmi er gríðarlegt vandamál á fjölmörgum svæðum í Afríku, það vantar sárlega fjármagn til þess að berjast við sjúkdóminn. Á sama tíma er peningum sóað í kristniboð sem engum hjálpar, kirkjur eru byggðar fyrir peninga sem hægt væri að nota til að byggja spítala. Því er ekki hægt að neita að kristniboðar reyna að hjálpa fólki með alnæmi en það væri miklu betra ef þeir peningar sem fara í að senda trúmennina til Afríku og borga fyrir uppihald þeirra færu í það að fá lækna og hjúkrunarfræðinga á svæðið.
Kristniboð leysir engann vanda í Afríku, í besta falli verður það til þess að fólk skipti út einum hindurvitnum fyrir önnur. Ég bendi öllum sem vilja aðstoða fólk í neyð að gera það í gegnum samtök sem ekki hafa afskipti af trúmálum, svo sem Rauða Krossinn og Lækna án landamæra.
Vá, hvað ég er sammála þér í þessu máli. Það er ótrúlegt að eyða þessum fjármunum í kristniboð þegar nær væri að eyða þeim í lyf og lækna. Mér finnst það líka lísa mjög undarlegu hugarfari þegar einhver lítur svo á að það að vera ekki kristinn eða trúarnött í einhverjum trúarbrögðum sé hreinlega fötlun eða alvarlegur sjúkdómur sem verði að lækna. Að mínu mati er því þveröfugt farið. Það hefur sýnt sig hvað eftir annað að ef þjóðfélag er gegnsýrt af einhverjum trúarbrögðum reynist trúarleiðtogum afar auðvelt að stjórna hegðun fólksins og beina þeim hvert sem þeir vilja, hvort sem það er í stríð við næstu "trúleysingja" eða ofsóknir á einhverjum minnihlutahópum. Ef maður er laus við þetta þá er líklegra að maður geti myndað sér sjálfstæða skoðun. Þar af leiðandi myndir ég frekar segja að trúin væri fötlunin.
Bara að forvitnast. Í hvað fara peningarnir sem eru notaðir í kristniboð í "þriðja heiminum"? Og hvernig er þeim öðruvísi eytt miða við peningana sem notaðir eru í hjálparstarfi Rauða krossins og lækna án landamæra.
Ef að kristniboð þjónar engum góðum tilgangi hljóta peningastaðreyndir að tala sínu máli. Gaman væri að fá að vita þetta, er einhver sem getur upplýst mig og aðra sem hefðu áhuga á að vita þetta?
Það er soldið gaman af eftirfarandi ummælum greinarhöfundar:
„það væri miklu betra ef þeir peningar sem fara í að senda trúmennina til Afríku og borga fyrir uppihald þeirra færu í það að fá lækna og hjúkrunarfræðinga á svæðið."
Ég fékk strax tvær spurningar í kollinn og langar að athuga hvort að hægt sé að fá svar við þeim?
A: Þarf að borga fyrir uppihald á læknum og hjúkrunarfræðingum á svæðinu eða á það einungis við um trúmenn, og er munur á því að halda uppi lækni og trúmanni.
B: Geta læknar og hjúkrunarfræðingar verið trúmenn?
Síðan datt mér í hug svona bónus spurning
C: Ætli það sé fjárhagslegur munur á því að borga trúmannalækni í kristniboði og/eða lækni í hjálparstarfi? (P.s. auðvitað eru sumir læknar og sumir kristniboðar í sjálfboðavinnu en það bara jafnast út rökræðunnar vegna)
Fyrirgefið þetta spurningaflóð mitt en ég bara næ ekki öllu í greininni, og næ heldur ekki öllu sem Skúli var að segja (sem var skellt á spjallþræðina) Varðandi greinina (svo ég fari ekki út fyrir efnið)
Hvernig geta eftirfarandi ummæli greinarhöfundar staðist í sömu grein?
„Á sama tíma er peningum sóað í kristniboð sem engum hjálpar" *með áherslu á engum hjálpar
og „Því er ekki hægt að neita að kristniboðar reyna að hjálpa fólki með alnæmi"
Í mínum augum getur bæði ekki gengið, og ef fyrrnefnda er lygi má ætla að hér sé um rökvillu að ræða, en ef fyrrnefnda er satt þá mætti ætla að síðarnefnda sé lygi. Ég er einungis að velta þessu fyrir mér svo endilega aðstoðið mig við að skilja þetta. :/
Kristniboð - það að boða kristni
Hjálparstarf - það að hjálpa.
Kristniboðar geta hjálpað en kristniboðið er ekki hjálp.
Vonandi gagnaðist þetta svar Jónas.
Þetta minnir mig nú á eitt umræðuefni sem er hálfgerð bannhelgi á, en það er gagnrýni á móður Teresu. Hún var nefnilega fyrst og fremst kristniboði, eftir því sem ég kemst næst.
Já, móðir teresa, var hún vond manneskja, var það sem hún gerði slæmt? Skv. hvaða siðferðislögmáli eru verk hennar slæm? Skiptir það máli hvað það er sem fær fólk til að hjálpa öðrum?
Mér finnst spurningar þínar bera vott um útúrsnúning en skal svara þeim samt.
A: Þarf að borga fyrir uppihald á læknum og hjúkrunarfræðingum á svæðinu eða á það einungis við um trúmenn, og er munur á því að halda uppi lækni og trúmanni.
Munurinn felst í að læknirinn getur hjálpað mun meira en almennur kristniboði.
B: Geta læknar og hjúkrunarfræðingar verið trúmenn?
Já, það getur verið. En ef læknir er líka kristniboði þá er líklegra að hann sói þeim tíma sem hann hefur þarna í trúboð sem engum hjálpar.
C: Ætli það sé fjárhagslegur munur á því að borga trúmannalækni í kristniboði og/eða lækni í hjálparstarfi? (P.s. auðvitað eru sumir læknar og sumir kristniboðar í sjálfboðavinnu en það bara jafnast út rökræðunnar vegna)
Munurinn felst í því hvaða gagn læknirinn getur gert miðað við kristniboðann, betra væri að borga fyrir einn lækni en tíu gagnslausa kristniboða.
Í mínum augum getur bæði ekki gengið, og ef fyrrnefnda er lygi má ætla að hér sé um rökvillu að ræða, en ef fyrrnefnda er satt þá mætti ætla að síðarnefnda sé lygi. Ég er einungis að velta þessu fyrir mér svo endilega aðstoðið mig við að skilja þetta. :/
Kristniboðið er gagnslaust þó að kristniboðar geti hjálpað fólki á annan hjálp. Þú fellur í sömu gildru og kristniboðarnir, ruglar saman hjálparstarfi og kristniboði. Matti útskýrði muninn hér að ofan.
Ein breyting á spurningunni hér að ofan:
Í stað: „Skv. hvaða siðferðislögmáli eru verk hennar slæm?" Ætlaði ég að spyrja:
„Skv. hvaða siðferðislögmáli GÆTU verk hennar talist slæm?"
Biðst afsökunar á þessu.
Kíktu á grein mína um Móður Teresu, síðan geturðu metið hvort hún var góð eða slæm. Goðsögnin er allavega töluvert öðruvísi en manneskjan.
Jónas R. ruglar saman hugtökunum trúmaður og trúboði. Það er munur þarna á. Læknar geta alveg verið trúmenn án þess að það bitni á störfum þeirra. En séu þeir þarna sem trúboðar er annað upp á teningnum.
Jónas, sagði ég að hún hefði verið slæm manneskja? Sagði ég það eða sagði ég það ekki? Ég sagði það ekki. Ég sagði hins vegar að það væri eins og bannhelgi hvíldi á því að gagnrýna hana -- og mér sýnist þú hafa brugðist vel við og rökstutt mál mitt og ég þakka þér fyrir það. Persónudýrkun er fráleit, eða það, að ekki megi gagnrýna fólk vegna þess að tilbiðjendur þess séu svo einsýnir að heimta tilbeiðslu og æpa niður gagnrýnar raddir?
Ég ætla að prófa að nálgast þetta úr annarri átt líka. Jósef Stalín var vondur maður, ekki satt? Hann var illmenni, ekki satt? Nei, ekki satt. "Vondir" menn eru ekki til og það eru "ill"menni ekki heldur. Jósef Stalín gerði margt sem hann hefði betur sleppt. Hann gerði mistök, hann dró rangar ályktanir, hann var ofsóknaróður, hann fylltist mikilmennskubrjálæði og ýmislegt fleira gerði hann. Allt á þetta sér skýringar, en skýringin er ekki sú að "hann hafi bara verið illmenni". Hins vegar hefur hann verið djöfulgerður af óvinum sínum, bæði á Vesturlöndum og í A-Evrópu, eftir dauða sinn, og það er eins og hálfgerð bannhelgi hvíli á fordómalausri, opinberri umræðu um hann. Er ég að segja að Stalín hafi verið frábær og æðislegur? Nei, auðvitað ekki! Ég þykist hins vegar vita að margir mundu æpa það núna, ef ég hefði ekki haft þennan fyrirvara á. Útskýringa eða sannleika er ekki að leita í djöflum eða dýrlingum. Djöflar eru ekki til og dýrlingar ekki heldur. Það er til fólk og fólk er fólk. Það er mennskt, hvorki algott né alslæmt. Stalín var ekki alslæmur og móðir Teresa var ekki algóð. Og hananú!
Min minnir að Stalín hafi verið prestlærður eða a.m.k. hafi hann á einhverjum tímapunkti ætlað sér að verða prestur, blessaður auminginn.
Já, ef hann var ekki vígður, þá var hann í það minnsta kosti að læra til prests.
Það er ákaflega undurförult, að mínu mati, að koma til fólks í neyð undir því yfirskini að ætla að hjálpa því, en fara jafnfram fram á að það taki (nýja) trú. Það er ekki margt verra.
Stalín var guðfræðingur en hann var aldrei vígður. Ef athugasemd Skúla átti ekki heima í umræðum undir þesari grein þá held ég að athugasemdir um Móðir Theresu og Stalín eigi það ekki heldur!
Jón Ómar, Skúli byrjaði umræðuna á því að copy/paste'a athugasemd sem hann gerði í dagbókina mína hingað yfir þó sú athugasemd fjallaði ekkert um efni greinarinnar. Stalín og Móðir Teresa koma hins vegar inn í umræðuna með eðlilegri þróun sem er allt annars eðlis. Ef þú vilt gera frekari athugasemdir við ritstjórnarstefnu Vantrúar þá máttu endilega gera það á spjallborðinu.
Annars þá minnir mig að Stalín hafi verið rekinn úr guðfræðináminu og því aldrei klárað námið.
Rétt hjá þér Óli, þá er það afgreitt.
"Stalin entered a church school at the age of 9. When he was 14 his father died, and Stalin was sent to the Orthodox Russian seminary at Tiflis to be educated for the priesthood. He was more interested in Communism, however, than in theology, and the seminary expelled him in 1899 as an agitator."
Rétt hjá þér Óli, þá er það afgreitt.
"Stalin entered a church school at the age of 9. When he was 14 his father died, and Stalin was sent to the Orthodox Russian seminary at Tiflis to be educated for the priesthood. He was more interested in Communism, however, than in theology, and the seminary expelled him in 1899 as an agitator."
Skv. Britanicca
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
skúli - 11/11/04 09:43 #
Þessi athugasemd var flutt á spjallborðið þar sem hún fjallaði ekki um efni þessarar greinar.