Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sögufölsun Þjóðkirkjunnar

Drekkingarhylur Íslenska kirkjan á sér mikla sögu. Hins vegar virðast prestar Þjóðkirkjunnar passa sig vel á því að velja bara út það sem henni hentar og þegja þunnu hljóði yfir hinu. Ekki ósvipað og þeir velja bara út úr Biblíunni það sem þeir vilja leggja áherslu á en láta sumt, eins og til dæmis frásagnir Gamla-testamentisins af þjóðarmorðum og hópnauðgunum, liggja milli hluta. Þannig þegja kirkjunnar menn yfir Píetismanum, heittrúarstefnu, sem gekk eins og rauður þráður í trúarlífinu á 17. og 18. öld.

Það er reynt að breiða yfir aðkomu kirkjunnar að refsingum vegna þess sem þá var kallað “hórdómsbrot” og sneri mest að óæskilegum þungunum og barnsfæðingum. En kirkjunnar menn áttu ekki lítinn þátt í því að fæðingar óskilgetinna barna voru refsiverð. Drekkingarhylur á Þingvöllum er ekki síður staður með sögulega þýðingu fyrir kirkjuna en Skálholt og Hólar. Því er hins vegar ekki haldið til haga.

Lengi vel var það skylda að mæta til messu. Bóndinn á hverju heimili bar ábyrgð á því að hans heimilisfólk og skyldulið færu að þessu, en prestar og prófastar fylgdust með og gerðu athugasemdir ef ekki var gert. Fóru þeir þá á bæina í s.k. visitasíu og gerðu bónda grein fyrir að slík “forsómun kristindómsins” yrði ekki þoluð. Að annað hvort tæki bóndinn sig á og fylgdi eftir tilskipun um húsaga eða ætti á hættu að heimilið væri leyst upp vegna “skorts á siðferði”. Engu skipti hvaða skoðun bóndi eða búalið hafði á kristindóminum, ef vikið var frá því sem kennt var í opinberum trúarritum og predikað í kirkjum var viðkomandi kominn á hálann ís í samfélaginu. Menn máttu vera sérlundaðir á ýmsa lund í búskapnum, en í trúmálum var ekki þoluð nein undanbrögð, annars taldist viðkomandi ekki nógu ábyrgur til að hafa forræði fyrir búi.

Enginn gat fermst nema hann sannað kunnáttu í kristinfræði, kynni kverið sem svo var kallað. En kverið var annað nafn á bók sem var kallað Fræðin Lúters minni og gengu út á guðsótta og blinda hlýðni við yfirboðara. Sá sem ekki var fermdur átti í raun ekki möguleika í þeirra tíma þjóðfélagi. Hann gat ekki gengið í hjúskap, hann gat ekki haft forsjá fyrir búi og hann átti ekki möguleika á að gegna trúnaðarstöðu svo sem að vera í hreppsnefnd eða sóknarnefnd.

Börn átti að aga með líkamlegum hegningum. Bölv, guðlast eða að taka nafn Guðs við hégóma kallaði á að menn áttu að slá sjálfan sig á munninn. Ef þeir gerðu það ekki sjálfir þá höfðu prestar og prófastar agavald til að fylgja eftir guðsóttanum með líkamlegum refsingum.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hvernig kirkjan hefur safnað veraldlegum auð, bæði sú kaþólska og sú lúterska. Og trúfrelsinu var ekki fyrir að fara í raun jafnvel eftir að það var sett í lög. Trúboðar mormóna á seinni hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. fengu að kenna á því á sinni tíð að prestar og veraldlegir höfðingjar tóku höndum saman um að reyna að hræða fólk til að það gæti forðast þá. Hundum sigað á þá, hróp gert að þeim og fólk neitaði að svo mikið sem koma út til að tala við þá ef þeir bönkuðu upp á.

Þegar kirkjunnar þjónar eru að reyna að réttlæta kristniboð Þjóðkirkjunnar í grunnskólum landsins nú á dögum tala þeir í upphöfnum málróm um að “saga þjóðarinnar og kirkjunnar sé samofin” og að “íslenskt siðgæði byggi á kristinni trú”. Meira að segja rataði eitthvað svona orðalag inn í ályktanir síðasta flokksþing Framsóknarflokksins þrátt fyrir baráttu undirritaðs gegn þeirri ólánstillögu. En þessi “röksemdafærsla” kristinfræðikennara og kirkjunnar þjóna er hins vegar ekkert annað en belgingur og bull. Kjaftæði og þvættingur í sinni hreinustu og tærustu mynd.

Saga Íslands segir frá mörgu slæmu. Mannfellir af hallærum, drepsóttir, fátækt og barlómur, óréttlæti og misskipting, og lítil virðing fyrir mannslífinu. Og ennþá minni fyrir lífum kvenna, sem var miskunnarlaust drekkt fyrir það að hafa eignast barn utan hjónabands. Og kirkjan var hluti af sögunni, einnig þeirri Íslandssögu sem sumir vilja reyna að fela og gleyma.

En það er skylda okkar sem uppi erum nú um stundir að við gleymum ekki. Að við förum yfir Íslandssöguna eins og hún er og segjum hana eins og hún er og drögum ekkert undan. Að blessuðum fermingarbörnunum sé gerð grein fyrir aðkomu kirkjunnar manna að framkvæmd agavalds hér áður fyrr. Að það sé sagt frá því að kirkjunnar menn drógu ekki af sér þegar þurfti að koma fram aga gagnvart þeim sem frömdu hórdómsbrot. Að það sé viðurkennt sem staðreynd að börn voru barin og hýdd fyrir það sem við nú lítum á sem kerskni og kjánaskap. Þá gætu börn og foreldrar þeirra betur gert sér grein fyrir hvort þau vilja gangast inn á hugmyndafræði Þjóðkirkjunnar með því að staðfesta skírnina með fermingu eða hvort þau sjá í gegnum kristniboðið, tvískinnungsháttinn og sögufölsunina, og hafna þess háttar aðferðafræði.

Jón Einarsson 10.11.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 10/11/04 10:59 #

Vá, frábær grein Jón og vel skrifuð. Takk.

93


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/04 11:30 #

Sammála! Og gott verður að vísa í þessa grein til varnar gegn þessum endalausu hefðarökum kirkjunnar manna, sem þeir nota til að hafa óheftan aðgang að hugum barnanna.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 10/11/04 12:20 #

Gott fólk, það er nú einu sinni hefð fyrir því að valdastéttin gíni yfir gögnum og gæðum vorrar aumu þjóðar með pískinn í annarri en öxina í hinni. Hvað væri valdastéttin ef hún hefði ekki völd? Til hvers eru völd sem aldrei eru notuð? Það er hefð fyrir því að valdastéttin misbeiti valdi sínu og kúgi oss alþýðuna. Hefð. Hefðir skapast ekki nema þær séu góðar -> það bera að ríghalda í allar hefðir, nema auðvitað þær sem henta valdstéttinni ekki lengur, en þær eru líka úreltar. Kúgun á sér langa sögu og langa hefð á Íslandi og Ísland væri án efa ekki svona frábært (bezt í heimi) ef aðhaldssöm valdastéttin hefði ekki barið óáranina úr oss skrílnum í gegn um aldirnar.


urta (meðlimur í Vantrú) - 10/11/04 13:37 #

Alveg frábær grein - en baráttan við kirkjuna er erfið...


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/04 21:58 #

Þetta er góð grein. Það ætti að birta hana í Morgunblaðið sem mótvægi við allar þessar kristnu greinar sem birtast þar mjög ósjaldan.


skúli - 11/11/04 10:03 #

ah, það er fúlltæmdjobb að ritskoða þessa pistla hérna á Vantrúnni!

Meginatriðið við siðbreytinguna var að kirkjan missti dómsvald sitt í sifjamálum og um leið mest allt framkvæmdarvaldið.

Með Stóradómi 1564 tók veraldlegt vald yfir þessa þætti og var þá bundinn endir á átök kirkju og konungs frá miðöldum um ítök á þessu sviði.

Kirkjan hafði eftir sem áður talsverð áhrif en hvað tyftunarvald áhrærir var það einkum í tengslum við sakramentið og iðrunina. Þeir sem ekki stóðust skriftarfyrirmælin og gátu ekki sæst heilum sættum við náunga sinn fengu ekki að ganga til altaris (enda er friðarkveðjan undanfari altarisgöngunnar) og voru því settir út af sakramentinu. Slíkt einangraði menn félagslega en sem dæmi um það hversu flókinn þessi tími er og óheppilegur til alhæfinga má nefna að einstaklingar voru án sakramentisins lungan úr ævi sinni en virtist það ekki há þeim í daglegu lífi! Að sama skapi þjónuðu klerkar söfnuðum í óþökk biskups oft árum saman. Meira um það hér:http://www.annall.is/skuli/2004-09-07/10.21.26

Hér hampa menn söguskoðun pistlahöfundar eins og hún sé eitthvert nýmæli - en herra minn góður - þetta hefur allt komið áður fram í trénuðum skrifum Jónasar frá Hriflu. Nútímasagnfræðingar hafa hver á fætur öðrum unnið að því að brjóta niður þá mynd sem hann dregur upp af kirkjunni.

Úff, hvar skal byrja?

Bent hefur verið á stöðu sveitaklerksisins sem milliðar smábænda og yfirvalds. Hann var í þeirri sjaldgæfu stöðu að vera embættismaður en um leið deildi hann kjörum með fátækustu bændum og hagur þeirra var hagur hans.

Félagsfræðingar hafa fundið rætur norræna velferðarkerfisins í ákvæðum Ordinansíunnar um að ríkið taki yfir hluta kærleiksþjónustu kirkjunnar. Ekkert sameinar Norðurlöndin nema þessi sögulegu tengsl ríkis og kirkju: http://www.annall.is/skuli/2004-09-19/11.14.17

Bent hefur verið á að í krafti hins volduga konungs hafi bændastéttin haft miklu meiri völd heldur en þar sem smákóngar réðu (s.s. í Rússlandi) með tilheyrandi bændaánauð.

Þá er það alkunna að læsi og þar með forsendur framþróunar varð komið á mitt í ömurlegri fátækt á 18. öldinni. Fáir velta því fyrir sér hversu mikið stórvirki það var að halda uppi slíkum menntastandard í þeirri köldu, einangruðu og örfoka eyðimörk sem Ísland var á þeim tíma! Jón Sigurðsson og Jónas Hallgrímsson töldu það og mesta framfaraskref Íslands að fá hingað prestaskóla: http://www.annall.is/skuli/2004-06-17/10.10.49

Æ, hvaða tilgangi þjónar það að punda þessum SJÓNARMIÐUM hingað hinn. Fyrirgefið, haldið áfram að lofa pistlahöfundinn fyrir frumleika og næman söguskilning! ;)


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 11/11/04 10:07 #

Fyrirgefið, haldið áfram að lofa pistlahöfundinn fyrir frumleika og næman söguskilning! ;)
Hvar var pistlahöfundur lofaður fyrir frumleika?


skúli - 12/11/04 18:44 #

Með innleggi mínu vildi ég koma fram þeim sjónarmiðum að pistillinn bæti harla litlu við það sem þegar er vitað um kristni- og kirkjusögu Íslands. Reynsla mín af því að grufla í þeim fræðum er miklu fremur sú að helsta nýsköpunin felst í því að benda á jákvæð áhrif kirkjunnar á samfélagið því menn eru búnir að velta sér upp úr því neikvæða frá öndverðri 20. öld og jafnvel lengur. Ég rakti nokkur dæmi um slíkt.

Rétttrúnaður er nánast skammaryrði og hefur á sér blæ harðneskju og refsihörku - jafnvel þótt kirkjan hafi í verið svipt bæði dómsvaldi og framkvæmdarvaldi í helstu málum á þessum tíma. Píetisminn hefur löngum verið harðlega gagnrýndur af fræðimönnum og ekki síður þeim sem fjalla um tímabilið á öðrum vettvangi. Í því sambandi má nefna þá staðreynd að grimmi 18. aldar klerkurinn er nánast "minni" í íslenskum bíómyndum og leikritum. Frjálslynda guðfræðin tætti í sundur margar af perlum íslenskrar kristnihefðar og má í því sambandi nefna úttekt Arne Möllers bæði á Passíusálmunum og Vídalínspostillu - þar sem hann heldur því fram að Hallgrímur og Jón hafi nánast koppípeistað rit sín úr erlendum skruddum. Svona "föðurmorð" hefur því farið fram með reglulegu millibili í sögunni.

Ég álpaðist til að segja að jámenn þínir hefðu hælt þér fyrir frumleika en Matti benti mér á að svo hefði ekki verið. En var ekki tilgangur þinn að benda á eitthvað nýtt?

Að mínu mati er vantru.net bæði frumleg og gamaldags! Þarna les maður oft krassandi greinar skrifaðar af sannfæringu og andagift, nokkuð sem er alltof sjaldgæft nútildags. Þarna eru menn líka vel heima í helstu poppvísindunum nestaðir af Dawkins, Randi og þeim heitnu Sagan og Douglas, að ógleymdum uppflettiritum og orðabókum á sviði efahyggju og aþeisma. Á sama tíma birtist þarna heimsmynd sem minnir á blómaskeið módernismans á 6. og 7. áratugnum þegar vísindatrúin átti að leysa öll vandamál. Þetta var blómaskeið besserwisseranna þar sem fólki var sagt að enginn hefði áður kunnað að liggja, sitja, ala upp, borða, kenna, byggja hús og Guðmávita hvað!

Síðan hefur rostinn í módernistunum blessunarlega lækkað enda er tilveran flóknari en þeir gengu út frá. Helstu minnisvarðarnir eru þessar ferköntuðu byggingar sem standan innan um eldri hús víða í borgum (hafi þeim ekki tekist að ryðja gamla "draslinu" öllu út) og svo skjóta upp kollinum þessir "nýmódernistar" (eða póstpóstmódernistar!) eins og þeir sem hafa hæst á vantrúnni.

Ég veit ekki, kannske er þetta eitt dæmið af mörgum um það hvernig sagan endurtekur sig?

Hvað um það, takk fyrir sendibréfið og gangi þér vel. Ég tek rispur endrum og eins í svörum á vantrúnni og skyldum vefjum. .


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 12/11/04 21:53 #

Fjandakornið Skúli, þessar fimm mínútur sem ég eyddi í að laga skeytið þitt eru fimm mínútur sem ég fæ aldrei aftur :-P

Frumleiki er afar ofmetið fyrirbæri..


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/11/04 22:15 #

Alltaf kómískt þegar verið er að reyna að klína því á okkur að við séum gamaldags og hugsjónir okkar og skoðanir úreltar. Sérstaklega ef þeir sem það gera halda á lofti hugmyndum og skoðunum sem eru eldri sem nemur þúsundum ára.

Trúleysi er engin bóla sem úreldist og dettur úr tísku. Hins vegar eru öll trúarbrögð veraldar því marki brennd. Sættu þig við það, Skúli, kristindómurinn er tótallí úreltur sem lífsviðhorf og heimsmynd en trúleysið er rétt að halda innreið sína. Mannkynið er loksins að fatta heiminn.

Líka spaugilegt að Skúli líkir okkur núna við módernista, fulltrúa stefnu sem átti blómaskeið um og eftir miðja 20. öld. Áður voru hann og fleiri búnir að afgreiða okkur sem pósitífista, gerðu okkur að 19. aldar spekúlöntum, voða úrelta alveg hreint.

Þetta með módernistana er nýtt tvist hjá Skúla, sennilega sett fram til að geta líkt okkur við fúnkis-kumbaldana. Sú samlíking er auðvitað alger strámaður.


skúli - 13/11/04 09:43 #

Já, afsakið fljótaskriftina á þessu - koppípeist frá tölvupósti sem ég sendi pistlahöfundi en tímaskortur á föstudegi varnaði því að ég næði að laga þetta til! Hefði auðvitað átt að láta eiga sig að senda þetta í þeirri mynd.

Trúleysi er engin bóla sem úreldist og dettur úr tísku. Hins vegar eru öll trúarbrögð veraldar því marki brennd. Sættu þig við það, Skúli, kristindómurinn er tótallí úreltur sem lífsviðhorf og heimsmynd en trúleysið er rétt að halda innreið sína. Mannkynið er loksins að fatta heiminn..
Andófið gegn kristnidómnum á Íslandi a.m.k. var mun meira á 7. og 8. áratugnum þegar menn eins og Sigurbjörn biskup fóru mikinn í deilum við talsmenn vísindahyggju. Síðan hefur lítið heyrst þar til þið birtust fyrir um ári.

Þessi pistill Jóns minnti mig einmitt á klisjurnar sem fram komu á þessum árum gegn kirkjunni. Nú eru menn í óða önn við að endurmeta það sem þá var sagt.

Ætlaði annars að senda skeyti á Matta en þar liggur allt niðri. :I


Davíð - 13/11/04 16:37 #

Friedrich Nietzsche (1844-1900). Sagði víst á sínum tíma að fyrir árið 2000 yrði kristini útdauð og enginn læsi Biblíuna lengur. Kaldhæðnisleg en í dag er fyrrverandi heimili hans, ein stærsta Biblíutgáfan. Tískubóla ég held ekki


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/11/04 18:25 #

Davíð, þú horfir á þetta í of þröngu samhengi. Ef við tölum um hundruðir ára, þá var öll Evrópa undirlögð í kristni á miðöldum, en hefur verið að sekkúlerast síðustu 200 árin eða svo. Og sú sekkúlarvæðing er enn í gangi, hvað sem óskhyggju ykkar kristsmanna líður.

Fyrir rúmum tvö þúsund árum hefði einhver Rómverjinn geta sagt eitthvað svipað um trúarbrögð sín og þú um þín núna, þetta er engin tískubóla. En hvað eru margir sem aðhyllast trúarbrögð forn-Rómverja í dag? Við heilagan Júppa!


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 13/11/04 20:03 #

Nefndi Nietzsche einhvern tímann ártal? Það er allavega afar ólíkt honum.

Kristni er samt að deyja. Það er augljóst, kristni einsog hún var á tímum Nietzsche er svo gott sem dauð. Það væri áhugavert ef maður gæti spurt Nietzsche hvað honum finndist um þjóðkirkjutrúnna, hvort hún væri kristni í hans augum.

Ris bókstafstrúarmanna síðustu áratugi í Bandaríkjunum (og í minna mæli hér) er hægt að túlka annað hvort sem dauðakippi eða endurkomu kristninnar. Bókstafstrúin er allavega svar við frjálslyndu guðfræðinni sem telur Biblíuna vera bara "lýsingu á reynslu fólks af guði" en ekki "orð guðs".

Svo ég noti líkingu Nietzsche þá eigum við núna eftir að hirða burt rotnandi líkamsparta Guðs.

Hvað eru þessar kirkjur nú annað en grafhýsi og bautasteinar Guðs? - Nietzsche


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/11/04 20:17 #

Ris bókstafstrúarinnar er að mínu viti tískubóla, svipuð og þegar ákveðnar áfengis- eða fíkniefnategundir komast í tísku. Þegar skaðsemi trúarinnar verður almennt viðurkennd, mun þetta aftur dala og detta úr tísku. Meira um það í hugvekju morgundagsins.


þórólfur stefánsson - 31/10/10 08:23 #

Kirkjan hefur stolið jörðum og auðæfum frá bændum/íslensku þjóðinni öldum saman og samtímis verið virkur kúgari þjóðarinnar. Það á að skila þessum eignum til þjóðarinnar tafarlaust og aðskilja ríki og kirkju.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.