Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Afi Jesú

Ein merkilegustu rök sem ég hef heyrt frá sköpunarsinnum um ungan aldur jarðar eru þessi:

Það er hægt að rekja ættir manna í gegnum Biblíuna allt aftur til Adams, og þar sést að við erum eingöngu að tala um ca. 6000 ár.

Þetta viðhafði Snorri nokkur í Betel á sjónvarpsstöðinni Ómega, hef ég eftir öruggum heimildum.

Bíddu nú við, Snorri. Þú gleymir alveg að rökstyðja hvernig í ósköpunum nokkur maður getur haft Biblíuna að einhverju átoríteti í þessum efnum til að byrja með. Til að hrekja þetta nægir t.d. sú staðreynd að hinar 2 ættartölur Jesú aftur í Davið eru gerólíkar. Jósep, meintur ekki-faðir Jesú, á samkvæmt Biblíunni tvo feður, þá Jakob og Leví, eftir því hvort Mattheus eða Lúkas eru lesnir.

Ef þessi skýrsla aftur í Adam klikkar strax á afa Jesú, af hverju gefa menn sér þá að restin sé í lagi?

Já, það er með ólíkindum að enn skuli viti bornar manneskjur, á 21. öldinni, þegar sannanir fyrir tilurð og þróun lífsins liggja á glámbekk, trúa gamla ævintýrinu um Adam og Evu og notast við jafn afkáralegt rit og Biblíuna til að bakka þá fávisku alla upp. Veik öpp folks!

Birgir Baldursson 08.11.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Siggi Örn (meðlimur í Vantrú) - 08/11/04 16:10 #

Mér skilst að Íslendingar geti auðveldlega rakið ættir sínar til æsanna (í gegnum Íslendingabók aftur um ~1000 ár og svo í gegnum kóngana). Getum við ekki þannig með sömu rökum sannað tilvist þeirra? :)


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 08/11/04 20:51 #

Tja, ekki ætla ég að kalla Snorra Sturluson og Ara fróða lygara, en samkvæmt þeim á ég ættir að rekja til Óðins, Þórs, Freys og fleiri af því kaliberi - og meira að segja Príams Trójukóngs, guðanna Satúrnusar og Júpíters og fleiri. Q.e.d.


Ormurinn - 10/11/04 21:10 #

og ég er er kominn af Atla Húnakonungi :D


Davíð - 12/11/04 11:14 #

Önnur ættartalan, mann ekki hvor er talin vera ættartala Maríu. Gyðningasamfélagið var víst það mikið karlaveldi, að menn settu oft á tíðum tengason inn í stað dóttur. Þetta var þó ekki hægt að stunda þegar aftar var komið í ættartölu. Siggi Æsir í heiðnum sið voru menn, sem síðar voru teknir í guða tölu. Þannig að það bendir allt til þess að þeir hafi verið til. Skemmtilegar kenningar eru uppi um það að Æsir og Vanir hafi tilheyrt sitthvoru samfélaginu, en haft samskipti sín á mill. Ég er einn af þeim sem trúa fastlega á sköpun og það að Guð sé að baki hennar. Ég hef þó aldrei skilið þessi ca 6000 ár sem er oft talað um. Kannski vegna þess að mér hefur aldrei þótt aldur jarðar stærsta gátan í lífinu? Davíð


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 12/11/04 11:23 #

Æsir í heiðnum sið voru menn, sem síðar voru teknir í guða tölu. Þannig að það bendir allt til þess að þeir hafi verið til. Skemmtilegar kenningar eru uppi um það að Æsir og Vanir hafi tilheyrt sitthvoru samfélaginu, en haft samskipti sín á mill.

Rangt. Það eru vissulega til tilgátur um þetta en það er alls engin sátt um þær (hélt Saxo þessu ekki fram?), eiginlega frekar að þær séu jaðarkenningar. Hin augljósi uppruni goðanna er sá að þau séu samstofna eða komin af grísk/rómversku goðunum.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 12/11/04 12:14 #

Önnur ættartalan, mann ekki hvor er talin vera ættartala Maríu.

Hver telur það? Það er fræðilegur möguleiki. Það er líka fræðilegur möguleiki að Jósef hafi verið ættleiddur þegar hann var lítill og þess vegna eru tvær ættartölur. Þú getur búið til alls konar möguleika en þú þarft að sýna fram á að þeir séu líklegir.

Málið er samt að allt bendir til þess að báðar ættartölurnar eigi við Jósef.


Davíð - 12/11/04 18:15 #

Óli: Það bendir þó nokkuð margt til þess að æsirnir voru til og þá sem þjóðflokkur. Veit ekki hvort Saxo hélt þessu fram. Ég las um þetta eftir einhvern innlendan fræðimann (nafnið hef ég ekki í huganum). Mér þykir norræn goðafræði afar áhugaverð og les lítið til beinnar menntunar, er meira til gamans. Norrænu guðirnir (goðar voru nokkurs konar prestar) gætu verið af sama stofni og þeir grískir. Það er mjög margt keimlíkt með þeim sumum. Þó er það sem einna helst bendir til mannlegs uppruna í sögum norrænnar goðafræði, að menn röktu ættir til þeirra. Einnig það að Freyja og Freyr voru Vanir sem áttu að eigast, en það var siður meðal Vana að tvíburar gengu í hjónaband. Þessi regla féll þó ekki að siðum Æsa og var þeim því meinað að eigast.
Ekki ætla ég að segja að norræn goðafræði sé sönn saga, en það er gaman að velta fyrir sér þeim hugmyndum að í þeim lifi einhverskonar sönn forsaga. Er ekki að setja þetta framm sem sönnun enda tók ég framm að um kenningu var að ræða hér áður.


Davíð - 12/11/04 18:34 #

Ættartölur. Með tilliti til stöðu kvenna og þeirrar vissu að menn töldu frekar tengdasyni sína sem verðuga afkomendur (frekar ömurlegt finnst manni)hefur þetta ábiggilega verið lagt fram. Annars er þetta sett fram af mér fróðari mönnum líkt og fyrra atriðið. Þekki ekki alla forsöguna skal reyna að komast að henni.


Doddi Jo - 14/11/04 00:07 #

Það eru til miklu fleiri sannanir fyrir ungum aldri jarðarinnar heldur en þessi milljarða ára aldur hjá þróunarsinna. Answers in genesis Smá innskot: Fyrst þegar Þróunarkenning var sett fram þá var jörðin 20 milljónir ára, síðan fór aldurinn uppí 40 milljónir og síðan koll af kolli. Síðan nú árið 2004 er aldur jarðarinnar orðinn 4,55 milljarða ára. Er raunsætt að trúa kenningu sem hefur 250 faldað aldur jarðar á 150 árum.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 14/11/04 00:47 #

Það var að því að mig minnir árið 1921 sem vísindamenn áætluðu að Jörðin væri allavega milljarða ára gömul, man ekki hvenær það var komist að nákvæmlega þeirri niðurstöðu sem er núna en það er allavega heillangt síðan. Þannig að réttara væri að segja að lengi hafi verið sátt um aldur Jarðar frekar en að rugla eitthvað um eldgamlar kenningar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/11/04 00:54 #

Í greininni „Ertu afvegaleiddur krysslingur?“ stendur þetta:

05 - Þið veigrið ykkur ekki við að verja ævinni í að leita að göllum í traustum vísindakenningum um aldur jarðar (4,55 milljarðar ára), en finnst um leið ekkert athugavert við dagsetningar þær sem fávísir hirðingjar giskuðu á þar sem þeir sátu í tjöldum sínum fyrir þúsundum ára og gáfu þá niðurstöðu að jörðin væri vart eldri en sem nemur nokkrum kynslóðum manna.

Séu þessar tölur sem þú nefnir réttar sýnir það okkur aðeins hve framfarirnar eru miklar í vísindunum þegar kemur að því að meta aldur jarðar. Það liggur í eðli vísinda að nýjar upplýsingar leysi eldri af hólmi og þetta sýnir okkur aðeins að áhöldin sem menn höfðu fyrir 150 árum voru sennilega ekkert sérstök.

Þessi breytilega niðurstaða telst kostur aðferðarinnar en ekki galli. Niðurstaðan verður með tímanum réttari og réttari (og fjarlægist um leið geðþóttaniðurstöðu hirðingjanna sem þú hefur gert að átoríteti þínu sökum barnslegrar trúgirni þinnar).


jogus (meðlimur í Vantrú) - 14/11/04 20:55 #

Það var maður að nafni Clair Patterson sem mældi í fyrsta skipti aldur jarðar nákvæmlega, en það var árið 1953. Mældur aldur var 4,55 milljarðar ára, með skekkjumörkum upp á 70 milljón ár. Þessi mæling stendur óhögguð í dag.

Mæli með bókinni A Short History Of Nearly Everything eftir Bill Bryson vilji menn fá yfirlit yfir það hvaða aðferðir menn hafa notað gegnum tíðina til að mæla aldur jarðar.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 14/11/04 21:43 #

Og hálf öld er langur tími í vísindum.


Doddi Jo - 16/11/04 22:18 #

Þið hafið tröllatrú á vísindum. Smá spurning. Af hverju segiði að vísindi séu eigi trúarbrögð?. Eruði ekki að treysta þessa og trúa með aldur jarðarinnar. Af hvaða leyti hef ég rangt fyrir mér þegar ég segi því að allt sé spurning um trú og traust. Erum við ekki öll að treysta okkar skynfærum á öllum tímum? Er það ekki trú? Maður spyr sig.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/11/04 00:28 #

Þið hafið tröllatrú á vísindum.

Já, við höfum upplýsta sannfæringu um að vísindin séu rétta tækið til að efla þekkingu okkar á veröldinni. En þessi sannfæring hefur ekkert með trú á goð og vættir að gera. Vísindin byggja á traustum rannsóknarniðurstöðum og "leap of faith" kemur þar hvergi nálægt.

Eruði ekki að treysta þessa og trúa með aldur jarðarinnar.

Við erum að treysta rannsóknarniðurstöðum og trúa þeim svo langt sem þær ná (allar niðurstöður eru til bráðabirgða í vísindum), en ekki trúa á þær. Það er stór munur að trúa einhverju og að trúa á eitthvað. Maður trúir á eitthvað sem ekki hægt að sannreyna, en því sem hægt er að sannreyna er hægt að trúa, án þess að það verði nokkurntíma að átrúnaði. Þú ert greinilega ekki nægilega upplýstur um þessa mismunandi merkingu orðsins trú og leggur því ranga merkingu í það í þessu samhengi.

Erum við ekki öll að treysta okkar skynfærum á öllum tímum?

Nei.

Er það ekki trú?

Nei, ekki í merkingunni sem á við í samhenginu átrúnaður/trúleysi. Þetta er annað dæmi um vanskilning þinn á merkingarblæbrigðum hugtaksins.


Jesús lifir - 17/11/04 15:32 #

Það er alveg rétt að það sé munur á að trúa einhverju og trúa á eitthvað. En það breytir því samt ekki að það þarf samt í bæði tilvikum trú. Trúið þið á rétt og rangt?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/11/04 16:22 #

Persónuleg skoðun mín:

Ég tel rétt og rangt vera relatíf hugtök, miðuð út frá manninum og aðstæðum hans. Þessi fyrirbæri eiga sér ekki tilvist utan og ofan við manninn.

Við höfum ofið þessi hugtök innan í siðferðisleg viðmið okkar og siðferðisleg viðmið geta verið breytileg frá einum tíma til annars og milli menningarheilda. Því er fræðigreinin siðfræði svo mikilvæg (að mínu mati) sem grundvöllur þess að ákveða hvort til sé mælikvarði á „rétta“ og „ranga“ hegðun út frá mati okkar á raunveruleikanum. Mín niðurstaða felst í að notast við mælistikuna eymd - velsæld, en ég er reyndar fúskari í siðfræðileum efnum.


Jesús lifir - 17/11/04 20:02 #

Að segja að allt sé relatíft felur í sér algilda setningu. Hér er nokkur dæmi sem mér persónulega tel vera góð rök gegn relatívisma. 1. Ágreiningur og skoðanamunur, t.d eins og á milli okkar sannar að afstæðishyggja er röng. Afstæðishyggja er grundvölluð á því að það sé ekki til algildi á réttu og röngu. Ágreiningur þarf að minnsta kosti tvo andstæðar skoðanir. Báðir halda sínum skoðunum sem hin réttu, annars væru enginn ágreingur. Ágreiningurinn sjálfur ógildir Afstæðishyggjuna vegna þess að ágreiningur krefst þess að einhver hefur rétt fyrir sér. Það myndi aldrei vera ágreingur ef að allt væri afstætt. 2. Afleiðingar afstæðishyggjunnar eru að mínu mati slæmar. Setningar eins og, að drepa fólk að gamni er rangt, að stela frá fólki er synd og að fæða hin hungruðu er rétt, slíkar setningar hafnar afstæðishyggjan sem sannleik. 3. Afstæðishyggjan er þröngsýn og óumbyrðarlynd. Ef að sé ekki siðferiðssannleikur, þá af hverju ætti fólk að vera þolinmæðið og opins hugar.Aðal ástða þess að vera þolinmóð og opinshugar er sú að einhver hafi eitthvað satt að segja. Afstæðishyggjan segir að það sé enginn sannleikur, af hverju ætti fólk þá að vera opinshugar gagnvart skoðunum annarra?


Snær - 17/11/04 20:30 #

Þegar þú skrifar "afstæðishyggja", áttu þá ekki alveg örugglega við "siðferðislega afstæðishyggju"?

Það að einstaklingur sé sammála siðferðislegri afstæðishyggju, gerir það viðkomandi ekki sjálfvirkt að níhilista. A.m.k. er ég það ekki. Ég er meira að segja húmanisti, og hef góða ástæðu til þess að halda Birgi vera það einnig.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 17/11/04 20:43 #

Jesús: Farðu að skrifa undir nafni. Þú heitir ekki "Jesús lifir" í alvörunni.

Það var ekki verið að segja að allt væri relatíft. Það var sagt að hugmyndirnar um 'rétt' og 'rangt' væru það.

Ágreiningurinn sjálfur ógildir Afstæðishyggjuna vegna þess að ágreiningur krefst þess að einhver hefur rétt fyrir sér.

Er það ekki möguleiki að allir málsaðilar hafi rangt fyrir sér? Það eru til sannindi sem eru ekki afstæð. En gildi sem við ljáum hlutum eða gjörðum eru það.

Setningar eins og, að drepa fólk að gamni er rangt, að stela frá fólki er synd og að fæða hin hungruðu er rétt, slíkar setningar hafnar afstæðishyggjan sem sannleik.

Ellegar þá að hún finnur betri skýringar heldur en þessar barnalegu, órökstuddu fullyrðingar sem þú virðist byggja siðferði þitt á.

Afstæðishyggjan er þröngsýn og óumbyrðarlynd.

Trúmenn eru þröngsýnir og óumburðarlyndir. Fólk er þröngsýnt og óumburðarlynt. Kemur afsætðishyggju ekki við.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/11/04 21:12 #

Eitt í upphafi, svona svo það sé á hreinu: Ég legg ekki sömu merkingu í hugtökin rétt og rangt og ég legg í hugtökin satt og ósatt. Fyrra settið á í mínum huga við siðferði, hitt snýst um hvað er raunverulegt í heimi okkar.

Ég sagði ekki að allt væri relatíft, ég var að tala um hugtökin rétt og rangt. Hugtökin sannleikur og raunveruleiki eru t.d. absolút og óháð manninum, að mínu mati. Raunveruleikinn er bara einn.

Hins vegar leitumst við, við okkar aðstæður og útfrá þeirri siðferðiskennd sem ríkir í umhverfi okkar, að meta þessi hugtök á einhverjum skala. Ég met þau á skalanum eymd - velsæld, eins og ég sagði áðan.

Þegar ég deili við þig, er það ekki endilega á grundvelli siðferðishugtakanna rétt og rangt heldur á grundvelli sannleika versus ranghugmyndir/ósannindi. Mér finnst þú, Jesús, nota rétt og rangt eins og þú værir að nota satt og ósatt.

Í frumspekilegu samhengi hef ég ekki fundið nein dæmi þar sem hugtökin rétt og rangt eru absolút, eiga við alltaf, allstaðar og við allar aðstæður. Tökum bara dæmin þín til skoðunar:

1) Að drepa fólk í gamni er rangt. Er það rangt alltaf, við allar aðstæður, á öllum tímum? En ef þetta fólk sem verið er að drepa í gamni væri fólk sem sjálft hefði það eitt að markmiði að limlesta, kvelja og drepa samborgara sína. Segjum sem svo að á legg kæmist költ sem þetta hefði að markmiði sínu. Og þetta yrði óhugnanlega stórt og voldugt költ, svo voldugt að stór hluti löggunnar væri orðin þátttakandi. Þegar menn væru einu sinni búnir að taka hugmyndafræðina upp á arma sína væri engin leið til baka, menn gerðust fullkomlega siðblindir. Upplausn væri í samfélaginu, en ein refaskytta sem alltaf hefði búið ein uppi í sveit í sjálfsþurftarbúskap og þyrfti ekkert á samfélaginu að halda, myndi koma sér fyrir uppi á Hótel Borg og byrja að salla niður þetta fólk að gamni sínu, því honum fyndist það réttdræpt. Hann væri ekkert að bjarga eigin skinni, því sjálfur ætti hann felustað frá þessu, en hann sá þarna upplagt tækifæri til að fara á skytterí.

Eftir mánuð er hann búinn að salla alla niður og költið úr sögunni. Lemstruð restin gæti aftur snúið sér að því að lifa eðlilegu lífi eða því sem næst.

Var rangt hjá þessum manni að drepa af gamni sínu? Hann lágmarkaði eymdina sem skollin var á.

2) Að stela frá fólki er synd. En ef þetta fólk væri búið að eignast öll verðmæti heimsins með lúalegum aðferðum? Og búa svo um hnútana að við hin mættum bara drepast á götunni meðan það partíaði í endalausri gleði bak við luktar dyr?

Ég færi og stæli mat handa okkur frá þessu pakki á hverjum degi (einn vörðurinn þeirra er spilltur og hleypir mér inn) og þú og þínir næðu að draga fram lífið ásamt okkur hinum öreigunum. Væri það sem ég er að aðhafast synd? Ég væri að draga úr eymd samborgaranna án þess að það bitnaði neitt á þeim sem eiga meira en þeir geta í sig troðið.

3) Að fæða hin hungruðu er rétt. En ef hin hungruðu heimta bara mannsbörn og vilja ekkert annað? Eru í költi þar sem aðeins má borða börn og neita allri breytingu? Vilja bara börn. Væri það siðferðislega rangt að fæða þau ekki?

Við allar eðlilegar aðstæður erum við að mestu sammála um hvað er rétt og hvað ekki. Afstæðið er ekki meira en það. Ástæðan er sú að við höfum komið okkur saman um siðferðisskala sem við metum hlutina á. Á skalann minn, eymd - velsæld, myndi ég meta dauða barnanna í dæmi þrjú til fleiri eymdarstiga en volæði mannætanna.

Það er okkar siðferðissannleikur, eins og þú kallar það (ég myndi kalla það siðferðisstandard). Vandinn hérna er að þú gerir aðstæðunum upp False Dilemma, að annað hvort sé algildur siðferðisstandard eða enginn. Hvorugt er rétt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/11/04 21:28 #

Vá Vésteinn, ég bjóst nú hálfpartinn við að þið hinir trúleysingjarnir myndu koma og ráðast á þetta hjá mér, en svo þegar ég birti þetta kemur í ljós færsla þar sem þú ert fullkomlega á sama máli að því er best verður séð. Ætli það geti verið tilviljun?


Jesús lifir - 17/11/04 21:50 #

Fyrirgefið ef það fer fyrir brjóstið á þér Vésteinn minn að ég nota Jesús lifir sem mitt nafn. Eigi sé ég að maður þurfi að skrifa sitt aðal nafn á þessari síðu, ekki það að ég sé feiminn við að gera það. Þó að sumir trúmenn ýmsu trúarbragða sé þröngsýnir þá breytir það samt ekki því að, já siðferðisleg afstæðishyggja er þröngsýn og óumburðalynd. Ég er alls ekki að mótmæla því Vésteinn að ýmsir trúmenn séu hræsnarar og þröngsýnir. Ég tek alveg undir það. Og Birgir, þó að þú hafir ekki séð í frumspekilegu samhengi algildi á réttu og röngu, þá þarf það alls ekki að þýða að það sé eigi til.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 17/11/04 21:58 #

Það væri allavega þægilegt ef þú, Thorvaldur Jo, myndir bara gefa eitt nafn upp hér svo fólk viti hvern það er að rífast við.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/11/04 21:58 #

Rétt er það, Jesús minn góður, en nokkuð ýtarleg eftirgrennslan eftir slíku hefur sannfært mig um að þessi hugtök geti ekki talist algild, ofan og utan við manninn.

Eina sem þú þarft að gera er að finna eitt slíkt dæmi og þá fell ég frá þessari firru.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 18/11/04 00:33 #

Ég er ekki reiðubúinn að samþykkja að siðferðisleg afstæðishyggja sé þröngsýn og óumburðarlynd. Sú staðhæfing hljómar eins og sleggjudómur, kveðinn upp af þeim sem vill að trú hans sé vegin og metin merkilegri vegna þess að hún byggir siðferðisboð ekki á manni heldur ímynduðu goðmagni. Mannlegt siðferði er byggt á mönnum, af mönnum og fyrir menn. Grundvöllurinn er menn. Ef þú hefur áhuga á siðferðismálum hvet ég þig eindregið til að mæta út í Náttúrufræðihús Háskóla Íslands annað kvöld (fimmtudagskvöld) og sjá fyrirlestur á vídeó, sem fjallar einmitt um siðferði og hvers vegna við höfum það. Það verða án efa spennandi umræður á eftir. Sjá nánari upplýsingar hér á Vantrú.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 18/11/04 10:26 #

Sjá hér.


ThorvaldurJo - 18/11/04 19:54 #

,,Religion without science might be blind, but science without religion is lame´´. Albert Einstein.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 18/11/04 20:56 #

„Convictions are more dangerous enemies of truth than lies.“ - Friedrich Wilhelm Nietzsche

„I prayed for twenty years but received no answer until I prayed with my legs.“ - Frederick Douglass, escaped slave

„If god wanted people to believe in him, why'd he invent logic then?“ - David Feherty

„Nothing happens in contradiction to nature; only in contradiction to what we know of it.“ - Dana Scully, The X Files


ThorvaldurJo - 18/11/04 22:50 #

Smá comment frá ýmsu fólki, ( tengist ekki beint því sem talað er um á þessum pistli en allavega). ,, I could prove God statistically; take the human body alone; the chance that all the functions of indvidual would just happen, is a statistical monstrosity´´ - George Gallup, a famous statistician

,, Even if all the data points to an intelligent designer, such an hypothesis is excluded from science because it is not naturalistic´´ - Dr. Scott C.Todd, immunalogist

,, It is not difficult for me to have this faith, for it is incontovertible that where there is a plan there is intelligence, an orderly, unfolding universe testifies to the truth of the most majestic statement ever uttered- In the beginning God´´ - Dr. Arthur H.Compton Nobel Laureate(Physics)


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/11/04 23:45 #

Hvaðan kemur þessi tilvitnun í Einstein, ég finn hana hvergi nema í málflutningi sköpunarsinna. Hún er undarleg þar sem Einstein trúði ekki Guð.

Annars þá er afar leiðinlegt að skiptast á tilvitnunum.

Komstu annars á fyrirlesturinn? Hann hefði örugglega svarað mörgum spurningum þínum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/11/04 00:50 #

, I could prove God statistically; take the human body alone; the chance that all the functions of indvidual would just happen, is a statistical monstrosity´´

Appeal to Authority. Hver segir að séfræðingur í tölfræði og skoðanakönnunum þurfi endilega að hafa eitthvert vit á líffræði? Lestu The blind Watchmaker eftir Richard Dawkins til að sjá að þessi fullyrðing er röng.

,, Even if all the data points to an intelligent designer, such an hypothesis is excluded from science because it is not naturalistic´´

Þetta er nú bara hrein og klár lygi sem þú lepur upp í trúgirni þinni. Rannsóknarniðurstöður okkar benda þvert á móti eindregið til þess að lífið eigi sér náttúrulegar orsakir, eðlis og efnafræðileg lögmál duga til að skýra þetta ásamt þróuninni. Ef svo væri ekki, þá myndi vísindaheimurinn viðurkenna það og fella það inn í myndina.

,, It is not difficult for me to have this faith, for it is incontovertible that where there is a plan there is intelligence, an orderly, unfolding universe testifies to the truth of the most majestic statement ever uttered- In the beginning God´´

Aftur Appeal to Autority. Það er ekkert vitað um orsakir alheimsins og þessi eðlisfræðingur hefur einfaldlega kosið að gefa sér þessa trúarsetningu í stað þess að koma bara heiðarlega fram og segja eins og við hin: „Ég bara veit það ekki.“

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.