Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Land vors guðs?

Í tilefni af 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874 var haldin þjóðhátíð með tilheyrandi hátíðahöldum um land allt til að minnast þeirra merku tímamóta. Konungur gaf út árið áður þá tilskipun að halda ætti guðsþjónustu í öllum íslenskum kirkjum þá um sumarið og skyldi biskup Íslands ákveða dagsetningu og ræðutexta. Biskupinn, dr. Pétur Pétursson, ákvað að messudagurinn ætti að vera 2. ágúst og ræðutextinn var tekinn úr 90. Davíðssálmi, versum 1-4 og 12-14. Þann dag voru svo haldnar þrjár messur í Dómkirkjunni í Reykjavík, klukkan 8.00 að morgni, 10.30 og 13.00. Við miðmessuna, sem sjálfur konungurinn Kristján IX sótti, var í fyrsta sinn fluttur sálmurinn sem í dag er íslenski þjóðsöngurinn. Kallaðist hann þá „Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára“ en er, eins og flestum er kunnugt, einfaldlega kallaður Lofsöngur í dag.

Höfundur sálmsins, séra Matthías Jochumsson, samdi hann sérstaklega fyrir þetta tilefni. Fyrsta erindið var samið þegar hann bjó hjá vini sínum og skólabróður, Sveinbirni Sveinbjörnssyni tónskáldi, í Edinborg en síðari tvö samdi hann nokkru seinna þegar hann dvaldist í London. Sveinbjörn samdi síðan lagið við sálminn að beiðni Matthíasar. Kveikjan að inntaki sálmsins kemur úr áðurnefnum ræðutexta hátíðardagsins, 90. Davíðssálmi þar sem m.a. segir:

Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: Hverfið aftur, þér mannanna börn! Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka. (Sálmarnir 90, 1-4)

Sagt er að í fyrstu hafi sálmurinn ekki vakið mikla athygli og Matthíasi sjálfum fannst lítið til hans koma. Á þessum tímum þegar að Ísland var ekki fullvalda ríki var ekkert lag sem gat í raun talist vera þjóðsöngur Íslendinga en við hátíðleg tækifæri var lagið Eldgamla Ísafold oft sungið sem nokkurs konar þjóðsöngur. Það þótti þó ekki viðeigandi að ljóð sem sungið var undir þjóðlagi annarrar þjóðar væri þjóðsöngur, en Eldgamla Ísafold er sungið undir lagi enska þjóðsöngsins.

Lofsöngur öðlaðist smám saman vinsældir meðal almennings og á árunum frá heimastjórn til fullveldis, 1904-1918, komst hefð á þennan sálm sem þjóðsöng. Loks við fullveldistökuna 1918 var hann fluttur sem íslenski þjóðsöngurinn og hefur haft þann sess síðan. Árið 1983 var það endanlega fest í lög að þjóðsöngur Íslendinga er þessi gamli sálmur, upphaflega ortur í allt öðrum tilgangi.

Það er skoðun þess er þetta ritar að Lofsöngur sé einfaldlega ótækur og ónothæfur sem þjóðsöngur. Texti þessa gamla sálms snýst að mestu leyti um tilbeiðslu á hinum kristna guði sem hlýtur að skjóta skökku við í nútímasamfélagi. Hvernig eiga þeir sem eru trúlausir, Búddistar, Ásatrúarmenn eða fólk með önnur trúarbrögð eða lífsskoðanir að geta sameinast um þennan sálm sem þjóðsöng okkar allra? Hvernig getur það samrýmst trúfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar að þetta bænakvak sé sungið við hátíðlegar athafnir á vegum ríkisins, sem allir eiga að geta tekið þátt í? Af hverju þurfum við að hefja okkar landsleiki í fótbolta og öðru á því að kyrja lofsöng til dýrðar guði á himnum?

Það er löngu tímabært að þessi sálmur verði lagður til hliðar og nýr þjóðsöngur verði tekinn upp. Þjóðsöngur sem allir Íslendingar geta sameinast um og sungið án nokkurs óbragðs í munninum. Þjóðsöngur sem hentar betur til söngs, en Lofsöngur er, auk hins vonlausa texta, einstaklega erfitt lag til þess að syngja með. Þjóðsöngur sem gæti staðið undir nafni.

Til upprifjunar fylgir með fyrsta erindi núverandi þjóðsöngs. Spyrjum okkur sjálf, er þetta boðlegt?

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:/: Íslands þúsund ár, :/:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

Heimildir:
Vefur forsætisráðuneytisins, þjóðsöngurinn.
Vefur íslenska þjóðsöngsins.

Lárus Viðar 31.10.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Lárus Páll Birgisson - 31/10/04 02:21 #

Já þetta er hrikalegt. Ég held að það verði að taka ærlega til í íslenskri menningu og tungu svo trúarnöttararnir fái sig hvergi hrært.

Til dæmis er íslenska máltækið "leitið og þér munuð finna" alls ekki íslenskt.... það var Jesú sem sagði þetta, einhver smiðssonur frá Palestínu.... þetta er náttlega ótækt að vera halda þessu uppi á 21. öldinni!!!

Nú svo þyrfti algerlega að banna upphrópunina: "GUÐ MINN GÓÐUR" því hún stenst engann veginn þær væntingar sem við gerum til "guðlauss" samfélags.

Og blessuð jólin..... banna þessa trúarmismunun!!!!

:)


darri (meðlimur í Vantrú) - 31/10/04 02:36 #

Þú og þín(ar) djúpu rök(villur) lalli.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 31/10/04 02:41 #

Að sjálfssögðu er þetta fáránlegur samanburður hjá þér. Réttur samanburður væri að spyrja hvort það sé ekki fáránlegt að hafa lögbundna frídaga á kristnum hátíðsdögum og svarið er "já", það er fáránlegt og sá siður mun hverfa.

Það að segja Guð minn góður er hins vegar það að leggja nafn guðs við hégóma og þar af leiðandi guðlast og guðlast er bannað með lögum (allavega ef maður túlkar lögin strangt).


darri (meðlimur í Vantrú) - 31/10/04 03:28 #

Kannski ósanngjarnt að koma með svona statement án þess að bakka hana soldið upp.

Ég held þetta sé dæmi um Slippery Slope rökvilluna hjá honum lalla.


Lárus Páll Birgisson - 31/10/04 04:16 #

....ohhh... þið getið ekki einu sinni verið sammála mér þegar ég bakka upp málstað ykkar.... :)


darri (meðlimur í Vantrú) - 31/10/04 09:00 #

Ég bakka ekki upp málflutning, sem byggir á rökvillum... sama hvað hann kann að hljóma vel :).


Daníel - 31/10/04 13:23 #

Jólin eru náttúrulega engin trúarmismunun. Þau eru haldin hátíðleg í mörgum trúarbrögðum og eiga ættir sínar að rekja til fornevrópskra trúarbragða í nútímamynd sinni. Ástæðurnar eru náttúrulega misjafnar eftir trúarbrögðum en sú raunverulega er líklega sú að um miðjan vetur verða menn að lyfta sér upp og gleðjast yfri einhverju. Fæðingu frelsarans, endurfæðingu ársins, daginn fer að lengja, einhverjum atburði o.s.frv. Jólin eru því hátíð sem trúleysingjar geti haldið hátíðlega rétt eins og aðrir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 31/10/04 13:53 #

Og það gerum við líka :) Það var bara hann Lárus Páll sem var að gera okkur upp eitthvert jólahatur.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 31/10/04 19:40 #

Það væri fróðlegt að vita hvort Lárus Páll væri sáttur við þjóðsöng sem snerist t.d. um tilbeiðslu á Óðni og Þór.


Davíð - 31/10/04 20:47 #

Hvað er næst spyr ég fær fáninn að fjúka það er jú kross í honum skjaldamerkið er það ekki ótækt landvættir eru nafn sem var notað í fornum sið yfir þær vættir sem menn trúðu að gættu landsins og sjást nú í táknmyndum á fjórum guðspjöllum Matteus, Marskús, Lúkas og Jóhannes. Ég segi að ég vilji halda menningu mína, þau skemmdarverk sem þið viljið vinna á henni eru engu ofstækisminni en þegar Islamskir trúarhópar brjóta niður æfarforn Búddamusteri. Þetta er mín skoðun ég í minni einfeldni hélt að svona trúleysis ofstæki þekktist bara í henni Ameríkunni þar sem þarf orðið að flytja höggmyndir og hylja málverk í opinberum byggingum ef þau benda eitthvað í átt við kristni. En við erum víst "wanna be" kanar. þetta er nokkurn vegin mín skoðun, reyndar afar ílla orðuð :) en held að þetta skiljist.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 31/10/04 21:28 #

Davíð, gleymdirðu nokkuð að lesa um Slippery Slope rökvilluna sem darri vísaði á? Þú varst nefnilega að enda við að beita henni til þess að geta síðan kallað okkur ofstækismenn.

Hér hefur enginn talað um að leggja niður þjóðfánann eða skjaldarmerkið. Hins vegar er heilmikið til í þeim málflutningi Lárusar Viðars að þeir sem ekki eru kristnir Íslendingar þurfi að syngja þennan söng með óbragð í munninum. Myndir þú sætta þig við þjóðsöng þar sem Djöfullinn væri ákallaður í gríð og erg? Ekki það?

Þá veistu hvernig okkur þessum ókristnu líður með þetta.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 31/10/04 21:54 #

Hefðir þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Til þess að geta haldið þeim góðu en hafnað þeim slæmu. Það væri gott ef ríkishugjónir færu fyrir allsherjar endurskoðun og viðeigandi þjóðfáni, ríkismerki, þjóðsöngur og skjaldamerki væru breytt í tákn sem túlkuðu stefnu þjóðarinnar og ríkissins en ekki gamlar leyfar af kirkjulegri menningareinokun.


Gunnar Freyr - 31/10/04 22:10 #

Fyrir rúmu hálfu ári tjáði ég mig einmitt um þetta þjóðsöngsmál. Lofsöngurinn á ekki að vera þjóðsöngur okkar Íslendinga, heldur vildi ég sjá Hver á sér fegra föðurland, sem er mun meira viðeigandi.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 31/10/04 22:34 #

Það er kannski ekki jafngilt því að syngja um djöfulinn heldur frekar jólasveininn.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 31/10/04 22:38 #

Lagið við Hver á sér fegra... er að sönnu fallegt, en ljóðið er þó trúarlegt, eins og Lofsöngur Matta Jokk:

Geym drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Við vorum einmitt að ræða þessa hluti nýlega á einkaspjalli Vantrúarpenna og gátum rúlað út Ísland er land þitt líka. Þar stendur:

Ísland sé falið þér, eilífi faðir.

Land míns föður er á mörkunum, en ætti að sleppa. Fyrir mitt leyti myndi ég vilja sjá Landsýn Steins Steinarr gert að þjóðsöng:

Ísland, minn draumur, mín þjáning, mín þrá
mitt þróttleysi og viðnám í senn.
Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá
hún vakir og lifir þó enn.

Sjá, hér er minn staður, mitt líf og mitt lán,
og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð.
Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán,
mín skömm og mín tár og mitt blóð.

Glæsilegt!


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 31/10/04 23:20 #

Ef þeim sem hafa verið nefnd hlyti "Land míns föður" mitt atkvæði. "Ísland er land þitt" finnst mér óspennandi, bæði lagið og ljóðið. Óspennandi og flatneskjulegt.


Lárus Páll Birgisson - 01/11/04 00:31 #

Sá söngur sem Birgir bíður uppá er engu skárri en allir hinir "guðsþakkar" sálmarnir áður eru nefndir. Tökum til dæmis orðin:

"...og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð."

Nú spyr ég: getur td. asískur nýbúi samsamað sig þessum texta? Er þetta ekki gott dæmi um öfga-þjóðernisstefnu að ætla sér að lúta einhverri ætt eða þjóð?

Annar byggir val mitt á "nýjum" þjóðsöng Íslendinga ekki á textanum heldur hve erfiðlega er að syngja háu nóturnar. Ég legg til að "stál og hnífur" verði nýr þjóðsöngur Íslendinga. Þetta er svona söngur sem allir kunna og allir geta sungið..... svo verða útilegurnar miklu þjóðernislegri fyrir vikið :)

Annars verð ég að viðurkenna að ég skil ekki alveg fóbíu vantrúarmanna fyrir þjóðsöngnum eða öðrum siðum sem tengjast Guði á einhvern hátt.

Með sömu rökum ætti ég að vera þvílíkt á móti þorrablótum..... helvítis heiðingjasamkomur sem þröngvað er uppá lýðinn.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 01:44 #

Stál og hnífur? En hvernig á aristókrasían að geta samsamað sig einhverjum farandverkamannasöng? Er þetta ekki niðráðviðsnobb frá helvíti ;)

Steinn Steinarr er ekki á nokkurn hátt að hylla nazískar kenndir í þessu ljóði, þvert á móti sýna þessar ljóðlínur sem þú nefnir algert varnarleysi ljóðmælanda gagnvart uppruna sínum. Allt annað í ljóðinu styður það, segir: „Ég er Íslendingur og get ekki annað, hvernig sem reyni“.

En það er rétt hjá þér að fyrsta kynslóð innflytjenda gæti átt erfitt með að samsama sig þessu ljóði. En vita máttu að börn þeirra og afkomendur munu ekki eiga í nokkrum erfiðleikum með það.


Lárus Páll Birgisson - 01/11/04 02:40 #

Já, en aristókratarnir verða bara að sætta sig við að Íslendingar hafa alltaf verið lúsugir fiskimenn með hor í nös :) Allavega get ég samsamað mig mun betur við "stál og hníf" heldur en einhverja pínlega viðreynslu til upphafningar þessu skítaskeri sem við búum á í myrkri og kulda 200 daga á ári. ;)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 03:36 #

En ég sé því miður ekki mikið af þessari upphafningu sem þú talar um. Nei, þvert á móti sé ég aðallega harm: Ísland er „mín þjáning“, „mín skömm, mín tár, mitt blóð“.

Þetta er svo fallegt, Lárus Páll. Við losnum ekki undan því hver við erum, alveg burtséð frá því hvort okkur líkar það. Steinn Steinarr hundskammar landið upp úr vonlausum pytti örvæntingarinnar fyrir þjáninguna, blóðböndin og tárin. En líka fyrir að vera svona fallegt :

Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá
hún vakir og lifir þó enn.

Ég ætla að hætta þessu áður en ég verð væmnari. En það er einhver melankólískur tregi í þessu sem ég er algerlega að fíla. Ekkert líkt þessu fer í gang innan í mér við að hlusta á sálminn hans Matta Jokk.

Ég veit að félagar okkar á Annál eru margir hverjir sammála mér hérna.


Lárus Páll Birgisson - 01/11/04 03:45 #

Það er vonlaust fyrir mig að skilja hvað þú ert að tala um.... ég er nefnilega 1/4 Færeyingur :(


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 03:57 #

Hmm, ég er kvartnorsari og 1/8 danskur. Samt ólgar í mér þráin eftir hinni vængjuðu auðn með bláu víðernin og nota ég hvert tækifæri til að komast á fjöll. Þegar ég bjó í Danmörku leið ég fyrir fjallaleysið og fann að það ólgaði í mér Frónbúi umfram allt. Skjaldbreiður og Hengillinn öskruðu á mig yfir hafið.

Ekki það að ég hafi kært mig mikið um þessa ættjarðarást. Hún bara var þarna. Maður ólst upp með þetta land fyrir augunum og það togar, hversu alþjóðasinnaður sem maður annars er.


Lárus Páll Birgisson - 01/11/04 04:11 #

Já ætli það ekki. Það virðist sama hvar maður leitar í heiminum, maður er ekkert að finna samsvarandi fíling og að búa hérna.

Það var þegar ég var staddur í Kosovo þegar ég áttaði mig á að ég vildi hvergi annarstaðar búa.... það er bara eitthvað svo næs við jarðsprengjulaust hálendi :)


urta (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 14:11 #

Þjóðsöngur án lofgjörðar á eitthvað yfirnáttúrulegt er mikil nauðsyn fyrir íslenska þjóð. Ég er þó ekki bjartsýn á að það gerist á næstunni - ekki á meðan kirkjan er í þessu forsæti sem hún hefur komið sér í - að vera yfirlíst þjóðkirkja Íslands - ÞRÁTT FYRIR að hér ríki í orði kveðnu trúfrelsi - og meira að segja frelsi til þess að vera ÁN TRÚAR.


Lárus Páll Birgisson - 01/11/04 15:44 #

Og hvernig skerðir þjóðsöngurinn þitt trúfrelsi?


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 16:15 #

Lalli, ég veit ekki hvort það hefur farið framhjá þér, en þjóðsöngurinn er sálmur. Hvernig fyndist þér ef íslamskur eða híndúískur helgisöngur væri notaður fyrir þjóðsöng? Heldurðu að þú ættir auðvelt með að tileinka þér hann?

Ekki það, að ef þessi þjóðsöngur getur lagt sitt af mörkum til að minnka þjóðernishroka og stærilæti í Íslendingum, þá sýti ég það svosem ekki.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 16:47 #

Og hvernig skerðir þjóðsöngurinn þitt trúfrelsi?

Tja, ef ég ætlaði mér að taka undir þegar hann er fluttur er um leið búið að þröngva mér til að ákalla yfirnáttúrleg öfl.

Eins og staðan er í dag verður maður annað hvort að trúa eða þegja.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 16:52 #

Eða með öðrum orðum (sem þú skilur kannski betur): Það er þarna verið að þröngva manni til að mæla það fram með munni sínum sem maður játast ekki í hjarta sínu. Það er semsagt verið að ætlast til þess að maður hræsni.


urta (meðlimur í Vantrú) - 03/11/04 16:08 #

Lárus Páll spyr:

"Og hvernig skerðir þjóðsöngurinn þitt trúfrelsi?"

Það skal ég segja þér - fyrst þú fattar það ekki. Með því að syngja þjóðsönginn er ég að lofa og prísa einhvern tilbúinn guð og biðja hann að vernda landið mitt. Ég vil syngja þjóðsöng sem lofar landið mitt. Það er síðan mitt og annarra manna að vernda það.


darri (meðlimur í Vantrú) - 03/11/04 16:56 #

Það er síðan mitt og annarra manna að vernda [landið okkar]

Akkúrat!


Kristján - 20/12/04 21:45 #

Ég féll um þetta kvæði í einmitt svona hugleiðingum nýlega.

Hver á sér fegra föðurland, með fjöll og dal og bláan sand, með norðurljósa bjarmaband og björk og lind í hlíð? Með friðsæl býli, ljós og ljóð, svo langt frá heimsins vígaslóð. Geym, drottinn, okkar dýra land er duna jarðarstríð.

Hver á sér meðal þjóða þjóð, er þekkir hvorki sverð né blóð en lifir sæl við ást og óð og auð, sem friðsæld gaf? Við heita brunna, hreinan blæ og hátign jökla, bláan sæ, hún unir grandvör, farsæl, fróð og frjáls - við ysta haf.

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð, um eilífð sé þín gæfa tryggð, öll grimmd frá þinni ströndu styggð og stöðugt allt þitt ráð. Hver dagur líti dáð á ný, hver draumur rætist verkum í svo verði Íslands ástkær byggð ei öðrum þjóðum háð. Svo aldrei framar Íslands byggð sé öðrum þjóðum háð.

Þetta lag var víst samið fyrir þjóðhátiðina 1944. Hentar vel fyrir þjóðrembu okkar, ekki satt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/12/04 21:56 #

Þetta ljóð er úrelt. Þakkaðu það Dabba og Dóra. Svo er guð ákallaður þarna líka. Skítt, því þetta er ágætt lag.


Bjarki Gunnarsson - 12/04/06 12:10 #

Mér finnst texti þjóðsöngsins skerða trúfrelsi íslensku þjóðarinnar! Þér sem eru Ásatrúar, Búddistar, Múhameðstrúar, Hinúar, trúlausir og allt þetta , sem hafa íslenskan ríkisborgara rétt og búa hér, hafa þjóðsöng sem er meira eins og sálmur heldur en þjóðsöngur! Þjóðsöngurinn á að vera meira eins og: "þetta land er frábært" eða eitthvaðð svoleiðis, á Norski heitir t.d. : Já við elsku þetta land!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.