Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Galdrar og pólitík

Það er bylting í Nepal. Almenningur hefur fengið sig fullsaddan af harðstjórn krúnunnar -- sem núna er borin af Gyanendra konungi -- og þegar maóistar, undir forystu Prachanda formanns, hófu vopnaða byltingu 1996, áttu þeir stuðning vísan. Núna, 8 árum seinna, stendur byltingin enn, og konungdæmið á í vök að verjast í nokkrum stærstu borgum landsins, meðan byltingarherinn ræður ríkjum til sveita.

Vopnuðum byltingum fylgir iðulega mikið ofbeldi, og byltingin í Nepal er engin undantekning. Nepal var eitt sinn vinsælt ferðamannaland, áfangastaður fólks sem langaði að upplifa paradísina í hlíðum Himalayafjalla og einstæða náttúrufegurð. Þetta hefur breyst á undanförnum árum, enda sækjast ferðamenn sjaldan eftir því að vera á átakasvæðum. Þetta er það sem sumir kalla neikvæðar hugsanir.

Skiljanlega hafa yfirvöld í Nepal áhyggjur af því að gjaldeyristekjur fari minnkandi, ofan á allt annað. En hvernig fá þau fólk til að hætta þessum neikvæðu hugsunum? Hvað gera þau? Semja þau um frið? Láta þau undan kröfum byltingarmanna? Hvað gera þau? Margir mundu byrja á að leita orsaka vandans. Hann liggur í augum uppi: Fólk kemur síður til Nepal vegna þess að þar logar allt í ófriði. Jæja, hvað gera menn í því?

Hringja í öndunar-gúrú, auðvitað!

Nepalsstjórn bíður átekta eftir að fá indverska gúrúinn Sri Sri Ravi Shankar í heimsókn. Planið er, að með sérstakri öndunartækni muni hinn vinsæli Ravi Shankar geta bægt burt hinum neikvæðu hugsunum og laðað að ferðamenn, ekki síst pílagríma frá Indlandi, þar sem hann á marga lærisveina.

Í dag, 30. október, kemur Ravi Shankar til Nepal og fræðir fólk um hvernig má, með undursamlegum, andlegum aðferðum, öðlast heimsfrið, hvorki meira né minna. Bætist hann þá í hóp manna á borð við Shankaracharya, Sathya Sai Baba og Bhagwan heitins Rajneesh. Af einhverjum ástæðum hefur þessum fríða flokki ekki tekist að stilla til friðar milli stjórnarhersins og maóistanna.

Er þetta aðferðin til að leysa vandamál heimsins, með göldrum og kukli? Galdur er tilraun til að breyta náttúrulögmálum með vilja sínum, eða sveigja þau undir vilja sinn. Í stað þess að leysa vandamálið (byltinguna) er reynt að afstýra afleiðingunum (hræðslu ferðamannanna).

Ég hugsa að það megi kalla það lögmál, að sá sem drepur saklaust fólk og brennir þorp þess og akra uppsker „neikvæðar hugsanir“. Sá sem ekki vill vera fórnarlamb neikvæðra hugsana ætti heldur ekki að sá þannig að hann uppskeri þær. Hin próaktífa nálgun væri að athuga hvers vegna þessar neikvæðu hugsanir spretta upp til að byrja með. Hin reaktífa er að biðja galdramenn að láta þær hætta.

Vésteinn Valgarðsson 30.10.2004
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.