Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hefðarökvillan

Við höfum öll heyrt mótrök kirkjunnar þjóna við hugmyndum um aðskilnað ríkis og kirkju: Stjórnarskráin kveður á um að kirkjan skuli vera undir verndarvæng ríkisins, auk þess sem kirkjan, siðir hennar og boðskapur marki svo djúp spor í menningarsögu þjóðarinnar að glapræði væri að rjúfa þá hefð.

Hvorug rökin halda þegar nánar er skoðað.

Fyrir það fyrsta stangast þetta atriði stjórnarskrárinnar á við önnur þar sem kveðið er á um algert trúfrelsi í landinu. Fyrir þinginu liggur nú þingsályktunartillaga til breytinga á stjórnarskrá þar sem rökin fyrir aðskilnaði eru tíunduð.

Og þau eru góð.

Hin mótrökin eru jafnvel enn verri. Síðan hvenær hefur það flokkast undir gilda röksemdafærslu að segja „þetta hefur alltaf verið svona og því er best að hafa það svona áfram“? Siðlaus hegðun er alveg jafn siðlaus þótt hefð hafi myndast fyrir henni. Umskurður kvenna í múslimalöndum er alveg jafn alvarlegur mannréttindaglæpur hvort sem hann hefur verið stundaður í þúsundir ára, eða er nýr af nálinni. Að ætla að afsaka þann gjörning með hefðarökum nær ekki nokkurri átt.

Sá siður sem kirkjan þykist hafa boðað árhundruðum saman er fráleitt sá sami í dag og var fyrir 300 árum, hvað þá 500, enda hefur siðferðið tekið stakkaskiptum á þessum tíma. Skárra væri það nú. Kirkjan hefur venjulega drattast í kjölfar umbóta, þótt treg sé. Sem betur fer tekur mannlífið framförum. Vegna framfara í heilbrigðismálum, siðferðis og réttlætismálum getum við horft með hryllingi til miðalda og andað léttar við þá vitneskju að sú períóda er að baki í vegferð mannkyns, í það minnsta hér á Vesturlöndum.

Á því er þó ein sorgleg undantekning - hin kristna kirkja er enn miðaldastofnun þegar siðferðismálum sleppir. Hún boðar fullkomlega úrelta heimsmynd. En ekki nóg með það, heldur er hún ekkert minna gráðug í dag en hún var á miðöldum. Það sést best á nýtilkomnu betlibaukastandi í guðsþjónustum og fáránlegum kröfum um greiðslur upp á marga milljarða fyrir kirkjujarðir. Bak við uppgerðarbros góðseminnar og hógværðarinnar dylst skrímsli sem flestum stendur stuggur af en enginn þorir að berjast við.

Og rétt eins og á miðöldum er kirkjan enn að útskúfa þeim sem ekki kaupa þá mygluðu mjólk sem hún afgreiðir af brúsapalli sínum. Það stappar í raun nærri geðbilun að ríkið skuli á 21. öldinni halda úti svona blóðfórnar- og heimsendakölti á kostnað skattborgaranna.

Hér duga engin hefðarök, enda eru þau í eðli sínu rökvilla. Ríkið á einhliða að rjúfa sambandi sitt við kirkjuna, henda henni út í hafsauga og borga ekki krónu meir. Ef Karl Sigurbjörnsson og félagar vilja hafa að lífsstarfi eldgamlar og ógeðfelldar lygar ættu þeir að gera það á eigin kostnað.

Birgir Baldursson 29.10.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 29/10/04 08:45 #

Það eru ein rök enn gegn aðskilnaði ríkis og kirkju. Þau heyrast mjög sjaldan en eru samt þau bestu sem ég hef heyrt: Svo lengi sem kirkjan fær að vera á spenanum er hún værukær og feit. Ef hún þarf að fara að bjarga sér sjálf má búast við miklu aktífari kirkju -- kirkja í fjörbrotum rær lífróður. Það hefur í för með sér að húr yrði miklu fyrirferðarmeiri og þannig, svo sauðirnir tíndust ekki frá henni. Það má því líta þannig á málið að sósíalistalandið Ísland þjóðnýti m.a.s. kirkjuna til þess að stinga upp í hana dúsu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/10/04 09:33 #

Með því að koma á „neikævðu trúfrelsi“ væri búið að bjarga því. En finnst þér kirkjan ekki alveg nógu áberandi nú þegar. Getur hún orðið meira uppáþrengjandi?


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 29/10/04 15:33 #

Fyrirferð hennar í dag er hjóm eitt sem hún væri ef hún bretti upp ermar og kjólfalda og legði til atlögu af fullum þunga. Hún er ekki að beita sér neitt sérstaklega mikið núna miðað við það sem hún gæti gert, og það er kannski eins gott. En ef hún ætti í vök að verjast má telja víst að hún herti róðurinn til muna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.