Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Reikimeistari til varnar orkuvitundinni

Reikimeistari að vinnuÞann 17. október birtist á vefmiðlinum Vísi grein eftir Berg Björnsson sendibílstjóra og reikimeistara þar sem hann tekur að sér að verja Kane hjónin sem voru með orkuvitundarnámskeið hér á landi fyrir skömmu. Bergur skilur ekkert í því hvað var athugunarvert við starfsemi Kane-hjónanna en það er svo sem ekki skrýtið þar sem hann er sjálfur í sama bransa og þau.

Á vefsvæði Bergs er að finna þessa auglýsingu:

Bergur Björnsson heldur reglulega ofg [sic] eftir þörfum námskeið í : Reiki 1 og 2 (saman) 2ja daga námskeið kr. 20.000 Reikimeistara- námskeið 1 dags námskeið kr. 30.000

Karuna-Reiki 1 og 2 1 dags námskeið kr. 12.000

Karuna-Reiki Meistara námskeið 1 dags námsk. Kr. 20.000

Lífsljós Máttur jákvæðrar hugsunar 3-4 klst. Verð fer eftir fjölda þáttakanda

Ef þú hefur hug á einhverju þessara námskeiða hafðu þá samband: Sími 8980277 bergur@simnet.is

Þegar þessi auglýsing Begs er skoðuð þá skilst hvers vegna honum finnst verðið á námskeiði Kane-hjónanna ekkert sérstakt tiltökumál, hann er nefnilega í sama verðflokki. Það sem vekur kannski mesta athygli (fyrir utan þessi himinháu verð) er að það tekur bara einn dag að verða reikimeistari, nema að "Reiki 1 og 2" séu nauðsynlegir undanfarar, þá tekur það tvo daga. Hvað er að græða á reikimeistaranámskeiði? Má þá byrja að kalla sig reikimeistara?

Reyndar má það hver sem er, ef þú vilt spara þér tugþúsundir króna þá geturðu einfaldlega byrjað að kalla þig reikimeistara nú þegar. Þú mátt líka kalla þig alheimslífsorkualsjáanda og síðan geturðu haldið fram einhverjum ósönnuðum kenningum um eðli heimsins, það er það sama og reikimeistararnir gera. Sendibílstjórinn Bergur Björnsson þarf væntanlega að sýna fram á að hann geti flutt vörur á milli staða á meðan reikimeistarinn Bergur hefur ekkert nema sögusagnir til að sýna fram á virkni reikis.

Bergur notar líka sögur þegar hann er að verja Kane-hjónin:

Ég sótti svona námskeið og hafði af því bæði gagn og gaman. Uppistaða námskeiðsins er kennsla í notkun pendúls sem auðveldar manni að meta gildi næringar og bætiefna og til að finna hvernig orkan í umhverfinu verkar á mann.
... Ég hef fyrir satt að þúsundir franskra lækna noti pendúl við vinnu sína og reikna með að landlækni sé kunnugt um það.

Pendúlar? Það eru væntanlega fjölmargir lesendur sem fá upp í hugann mynd af prófessor Vandráði úr Tinnabókunum. Ég hvet Berg til að benda á læknisfræðilegar rannsóknir sem hafa verið birtar í viðurkenndum tímaritum sem sýna fram á þessa töfra pendúlsins, sögusagnir hafa ekkert gildi í læknisfræði né vísindum almennt. Þeir sem vilja læra um bætiefni og næringarmál er bent á að mennta sig á því sviði og þá ekki hjá kuklurum.

Um sannanir fyrir virkni óhefðbundinna lækninga svo sem heilunar, grasalækninga, homeopati, nálarstungna, hnykkjunar, nudds ofl. bendi ég á að sannanir fyrir því að andi og orka lækni eru mýmargar og mér er til efs að reyndir læknar væru tilbúnir til að bera brigður á að svo sé. Í þessu sambandi mætti nefna að við höfum trúarbrögð og þjóðkirkju en mér vitanlega hefur ekki verið sannað "vísindalega" að Guð sé til.

Þarna bendir Bergur á nokkuð sem við á Vantrú getum alveg tekið undir, þjóðkirkjan byggir á jafn veikum grunni og allar þessar töfralækningar. En varðandi lækningarmátt "anda og orku" þá gæti verið Bergur sé að vísa í svokölluð lyfleysuáhrif. Það gæti líka verið að Bergur eigi við að jákvætt hugarfar hjálpi fólki að komast til heilsu, það er vel þekkt fyrirbæri sem kemur pendúlum og reiki ekkert við.

Staðreyndin er sú að ef allar þessar svokölluðu óhefðbundu lækningar hefðu áhrif þá væri hægt að sýna fram á það í vísindalegum rannsóknum, það er ekkert órannsakanlegt við þessi fyrirbæri. Það er vel hugsanlegt að einhver þau lyf sem eru notað í grasalækningum virki en væntanlega er um 99% af þessum blöndum bara sull sem engum hjálpar. Það neitar enginn að hnykkjun og nudd geta sefað sársauka en í raun þá eru þetta ekki lækningar.

Nú eru í undirbúningi lög um "græðara", það er vonandi að þessi lög verði þannig gerð að þau komi í veg fyrir að svikahrappar einsog Kane-hjónin geti mjólkað peninga úr auðtrúa fólki og verði einnig til þess að "græðarar" þurfi að sýna fram á að meðferð þeirra virki.

Slíkt hlýtur að vera grundvallaratriði í allri neytendavernd.

Óli Gneisti Sóleyjarson 20.10.2004
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 22/10/04 16:35 #

Hvað meinarðu með að nudd "sé í rauninni ekki lækningar"?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 22/10/04 17:22 #

Nudd er fyrst og fremst til þess að lina verki og þar af leiðandi ekki lækningar, svona einsog verkjatafla. Heldurðu annars að það sé kominn tími á að við tökum fyrir Kabalah-ruglið ?


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 23/10/04 15:18 #

Ja,jú ég skil þig þegar ekki er hægt að skilgreina nudd sem beint 'lækningar' en það er bara það að mér vitandi er sjúkranudd notað í heilsugeiranum og læknar vísa m.a fólk í sjúkranudd þegar það er með vöðvaeimsl. Og í sjukranuddsnámi er lagð stund á vöðvalíffræði sem studd eru vísindalegum læknisfræðilegum rannsóknum. Og þar sem líka er kennt hvaða sjúkdóma og miðsl skal höndla hvernig og hvenær það er annað en nudd sem þarf t.d lyfjagjöf eða annað. (En þá er ég hins vegar farin að tala um sjúkranudd. Það á víst að vera munur á nuddara og sjúkranuddara sem ég kann ekki alveg að fara með.)

En hvað varðar Kabalah þa veit ég ekki mikið um það. (Og veit ekki hvað það tengist nuddi, nema hvað ef þeir sem stunda kabalah hafa einhverjar nudd-seremóníur hjá sér.) Þannig að það væri bara ágætt ef einhver á vantrú tæki það fyrir.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 23/10/04 15:19 #

Annars fín grein.


anna k - 10/03/05 20:37 #

virku efnin í lyfjum vesturlanda koma öll frá náttúrunni svo hvernig í ósköpunum er hægt að halda því fram að grasalækningar virki ekki? Það er miklu meira af virkum efnum í jurtalyfjum grasalækna heldur en þessum pillum sem meirihluti fólks gengur fyrir í einhverri mynd. Það er samt þannig að læknisfræði nútímans eru skipulögð vísindi og kannski auðveldara að trúa því fyrir fólk sem er vant þeim að einfaldleiki geti ekki verið betri og réttari en það sem er flókið. í gamla daga getur vel verið að þessi jurtalyf hafi læknað fólk eða líknað mjög vel en lífið var samt harðara þá almennt, allavega hér á landi, verri matur, konur eignuðust tugi barna og dóu yfirleitt ungar og þannig. Það er samt mjög lítið sem bendir til að jurtunum og þeirra virku efnum sé um að kenna þarsem öll læknisfræðileg lyf nútímans koma frá þeim (að því er ég veit og það er mjög lítið)

en varðandi þetta reikimeistaradót þá er maður bara hlæjandi hérna. Þetta er jafn aulalegt og hjá þeim sem læra að verða miðlar. Samt verður maður víst einhvernvegin að umbera það sem færir öðrum hamingju. Skil samt ekki hvernig nokkrum einasta manni dettur í hug að eltast við svona, allir þessir peningar sem fólk getur eytt í hreinlega glæpsamlega heimskulega hluti, en svona er þetta.

Mín skoðun er þó sú að mjög miklu af peningum sé líka sóað í pilludrasl vesturlandalækna, bara útaf innrætingu vanans og almennri óhamingju, það er synd.

allavega hafa góðar grasalækningar staðist tímans tönn(ég er ekki að segja að fúskarar séu óþekktir þar, auðvitað ekki fremur en annarsstaðar í mannheimum), það eru margir leyndardómar enn huldir nútímanum þegar þær eru annars vegar og það er ekkert óvísindalegra en að horfa framhjá því.

mér finnst við eiga að hafa opinn hug gagnvart öllu sem getur hugsanlega læknað. Einnig að vera gagnrýnin á það. Staðreyndin er sú að það hefur nær ekkert verið rannsakað allt sem hefur verið sett undir hatt hins óheðfbundna en það myndi vera allt frá því að kyssa mó og viðhafa galdraþulu til þess að drekka seyði bruggað úr jurtum sem hafa ákveðna læknisfræðilega eiginleika sem síðar eru notaðir í pillur...... ok þetta tvennt sem ég nefndi hefur kannski verið rannsakað dáldið mikið en ekki allt hitt á milli, einsog pendúlar, dásvefn, kristallar, orka, og allskonar drasl sem manni finnst alveg stórfurðulegt. Ef þetta yrði skoðað og kunngjört af ólíkum vísindamönnum myndu eflaust augu fólksins opnast frekar fyrir því hvað er skynsamlegt. afhverju er ekki allt rannsakað af opnum hugum sem hafa hag mannkynsins að leiðarljósi? það stafar kannski af mjög útbreyddri þröngsýni og auk þess er kominn valdastrúktúr utanum þetta í okkar samfélagi og greinilega ekki frjálst að mynda sér skoðun um svona mál (það sem er í boði er annaðhvort reikimeistarinn eða læknavaktin og pillurnar - sama hvað maður sjálfur er til í að prufa). Þú viðurkennir, eða ert bara fordæmdur rugludallur.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 11/03/05 14:35 #

Ég sagði ekki að grasalækningar væru bara rugl, ég er hins vegar sannfærður um að um að stærstur hluti þeirra sé rugl. Það er mikið af þessu grasalækningarusli sem hefur verið rannsakað og komið í ljós að það sé gagnslaust, það stoppar ekki trúnna á það. Það að eitthvað hafi verið notað lengi segir ekkert um gagnsemi þess, það eru til ótal gagnslausar lækningaaðferðir sem hafa verið notaðar í jafnvel árþúsundir.


Hulda Sif - 24/06/05 13:52 #

Var ekki Hvönn rannsökuð hér um árið og þá kom í ljós að hana mátti nota til lækninga á krabbameini, ef ég man rétt? Einnig hefur Garðabrúða róandi áhrif (t.d. góð við kvíða) og má einnig nota sem svefnlyf. Hún er seld í apótekum undir nafninu Baldrian B+ og er þar í töfluformi. Einnig eru ýmsar jurtir sem valdið geta fósturláti og ófrískum konum ráðlagt að halda sig frá þeim. Ég er enginn jurtalæknir, en þetta er eitthvað af því litla sem ég veit.

Ég vinn á spítala og þar segja læknar mér að þeir hafi fulla trú á lækningamátti jurta, enda hafa margar þeirra verið rannsakaðar og gefið góða raun. Þeir vilja að jurtir séu rannsakaðar betur til þess að hægt sé að nýta þær betur, enda eðlilegra að notuð séu náttúruleg efni til að lækna okkur en ónáttúruleg. Það sem þeim finnst hins vegar óþægileg tilhugsun að eitthvað fólk úti í bæ sem ekki er menntað í læknavísindum sé að ávísa jurtalyfjum án þess að hvetja fólk til að leita sér lækninga hjá viðurkenndum aðila. Einn þeirra minntist t.d. á einhvern mann í Hafnarfirði sem ráðlagði einum viðskiptavini sínum að hætta læknismeðferð fyrir einhverja platmeðferð hjá sér. Slíkt er auðvitað með öllu ófyrirgefanlegt, enda hlaut sá maður mikinn skaða fyrir vikið.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.