Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lélegasti biskupinn

Lélegasti biskupinn Karl Sigurbjörnsson biskup þjóðkirkjunnar var í viðtali hjá Fréttablaðinu um helgina. Viðtalið var áhugavert, fjallað er um samkynhneigð og stöðu biskups en að vanda þá er það áhugaverðast hvað Kalli segir ekki.

Reyndar er kannski best að byrja á að hrósa Fréttablaðinu fyrir að fara ekki eftir hinni gömlu og leiðinlegu hefð að kalla biskup "herra", slíkt snobb á að sjálfssögðu heima í fortíðinni.

Í viðtalinu talar biskup um embætti sitt af virðingu en af "hógværð" um sjálfan sig.

"Vegna hefðarinnar og sögunnar held ég að biskupsembættið hafi alltaf haft mjög sterka stöðu í okkar menningu og samfélagi, hver svo sem hefur gegnt því, og ég er ábyggilega þeirra lélegastur," segir hann af mikilli hógværð.

Ég á erfitt með að trúa að Karl haldi sjálfur að hann sé lélegasti biskup sögunnar, það er nefnilega spurning um lágt sjálfsálit frekar en hógværð. Ætli Karl telji sig verri biskup en Marcellus hinn þýska sem aldrei steig fæti á íslenska jörð? Hver veit. Þetta er nú samt fyrst og fremst móðgun við þá sem buðu sig fram gegn Karli í biskupskjöri árið 1997, hann var nefnilega fjórði til þess að bjóða sig fram í þeim kosningum, Karl hlýtur að hafa talið sjálfan sig betri kost en hina þrjá frambjóðendurna sem þá voru fram komnir. Þeir frambjóðendur hljóta því að vera verri biskupsefni en lélegasti biskup Íslandssögunnar að mati Karls, það hlýtur að vera falleinkunn.

En líklega er áhugaverðasti hluti viðtalsins þegar Karl tjáir sig um kynhegðun:

"Við horfum upp á mjög róttæk viðmiðahvörf í vestrænni menningu. Kynlífshegðun, hvatir, sambúðarform og samlífsmynstur sem áður voru talin óhugsandi, jafnvel óeðli, eru nú talin sjálfsögð og eðlileg og þarna hlýtur að verða að doka við og spyrja hvort við séum á réttri leið." Þegar Karl er spurður hreint út hvort hann telji að gefa eigi samkynhneigða saman í kirkjum landsins segir hann einfaldlega að sín persónulega skoðun skipti ekki öllu heldur að málið sé hugleitt af virðingu fyrir öllum sjónarmiðum.

Mér þykir undirliggjandi tónn ekki benda til þess að biskup sé sáttur við allt þetta frjálsræði sem við búum við en að sjálfssögðu segir hann það ekki beinum orðum þar sem slíkt myndi ergja fólk. Karl virðist ekki þora að styggja neinn, hvorki íhaldið né hina frjálslyndu. Það er fráleitt af Karli að halda því fram að álit hans sjálfs á málefnum samkynhneigðra skipti ekki máli, sem trúarleiðtogi þá hlýtur honum að bera skylda til þess að láta í ljós skoðanir sínar.

Það er reyndar sérstaklega mikilvægt að Karl biskup geri hreint fyrir sínum dyrum þar sem það er sterkur orðrómur um það að það sé biskup sjálfur sem komi í veg fyrir að samkynhneigðir fái að ganga í hjónaband innan þjóðkirkjunnar. Ef biskup er fylgjandi því að það eigi að gefa samkynhneigða saman í kirkjum landsins þá ætti hann að segja það, þögnin mun aðeins styrkja söguna um íhaldssemi hans.

Nú er spurning hvort Karl biskup kjósi vinsældir frekar en heiðarleika, hvort að hann hafi hugrekki til að gangast við skoðunum sínum. Ef biskup þorir að segja hvað honum raunverulega finnst þá mun hann að sjálfssögðu uppskera andúð einhverra hópa en hann væri nú samt meiri maður fyrir vikið.

Óli Gneisti Sóleyjarson 19.10.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 19/10/04 10:40 #

Karl hefur aldrei talað hreint út, skítkast hans er ætíð sett fram undir rós eins og við trúleysingjar þekkjum vel.

Þannig fá jámenn biskups alltaf tækifæri til að túlka orð hans á ótrúlegan máta, þó öllum sé ljóst að hann er íhaldssamur skúrkur sem hefur endalausa fordóma gagnvart þeim er ekki aðhyllast kristna forheimskun.


urta (meðlimur í Vantrú) - 20/10/04 15:46 #

Auðvitað er afstaða Karls biskups í garð samkynhneigðra forkastanleg en ég get ekki að því gert að furða mig á því af hverju samkynhneigðir taka þetta svona nærri sér... Nær væri að gefa endanlega skít í þetta trúarkjaftæði eins og fjölmargir aðrir þótt gagnkynhneigðir séu.


Kalli - 21/10/04 02:36 #

Spurning hvort að þeir samkynhneigðir sem geta ekki hugsað sér að vera án ríkisviðurkennds samfélags við Jesú, ættu þá ekki bara að stofna sína eigin kirkju og gifta sig þar með pompi og pragt?

Ég er nú hvorki kristinn né samkynhneigður, en ég get ekki ímyndað mér að það sé gaman að þola minni réttindi en þeir sem hafa „rétta“ kynhneigð í því samfélagi sem maður kýs sér (já eða fæðist inn í).

Það er þá væntanlega skömminni skárra að fá afstöðu gagnvart manni á hreint en að vera í biðstöðu.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 21/10/04 09:02 #

Ellegar þá að samkynhneigðir gætu bara sagt sig úr þjóðkirkjunni og gefið skít í hana. Hún hefur ekki gert neitt fyrir þá og mun ekki gera, annað en féfletta og glepja. Hvers vegna að halda tryggð við trúfélag sem mismunar manni? Hvers vegna að láta kirkjunni það eftir að láta hana gera mann að fórnarlambi?


Kalli - 21/10/04 16:29 #

Einmitt Vésteinn, þetta er svona það sem ég var að ýja að í og með.


thorvaldurJo - 16/11/04 23:21 #

Hvað meinar þú með mismunun. Þjóðkirkjan er bara að fylgja Orði Guðs sem segir að hjónaband sé aðeins á milli karls og konu eins og Jesús segir í Markúsi 10 kafla. Þetta er ekkert mismunun heldur fylgispekt við orð Krists. Þjóðkirkjan væru hræsnarar að gera eitthvað annað en það sem Drottin Jesús Kristur býður í orði sínu.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 17/11/04 00:01 #

Þessi rök þín hefðu kannski eitthvað gildi ef þjóðkirkjan færi almennt eftir Biblíunni en það er nú bara happaglappa.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 17/11/04 02:36 #

Einmitt. Þannig að Þorvaldur, samkvæmt þér eru þjóðkirkjumenn einmitt hræsnarar. Lögmálið segir að samkynhneigðum skuli mismunað gróflega og eftir því er farið. Þjóðkirkjan mismunar þeim að boði lögmálsins. Er það þá ekki mismunun?


Hallur - 16/07/05 23:23 #

Ég verð nú bara að vitna í þau orð sem standa hér á síðunni þinni "slepptu öllum ærumeiðingum" Þessi fáfræði þín og ykkar og ærumeiðandi ummæli um herra Karl Sigurbjörnsson biskup sýna náttúrulega fyrst og fremst ykkar vanþekkingu. Ég verð að viðurkenna ég er skráður í þjóðkirkjuna og hef mikið álit á herra karli. ég villtist inn á þessa síðu og var nóg boðið. Þvílíkt og annaðeins. Ég skil heldur ekki megnið af því sem þú ert að skrifa og ég held þú vitir það ekki einu sinni sjálfur. En umfram allt. SLAKAÐU AÐEINS Á!! það að setja sig á svona háan stall og þykjast vita allt og halda því fram að það sé auðvelt að vera stjórnandi í stærsta "fyrirtæki" landsins er bull. Hvern er líka þjókirkjan að féfletta? þetta er svo ofboðslega magnað spjall hjá ykkur.

Kv. Hallur


Guðjón - 16/07/05 23:42 #

ég villtist hingað inn. Því miður. Ég hef aðeins eitt að segja, hvernig væri að þið takið mark á þeim orðum sem standa á þessari síðu ykkar "slepptu öllum ærumeiðingum." Þið gerið ekki annað en að drita út ærumeiðandi pistlum um Karl biskup. Þið gerið ekki annað en grafa ykkar eigin gröf því það eina sem þið gerið er að sýna öllum að þið skiljið ekki, eða öllu heldur viljið ekki skilja það sem biskup segir og snúið svo útúr öllu saman.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/07/05 00:04 #

Lesendum til fróðleiks vil ég benda á að athugasemdir Halls og Guðjóns komu frá sömu tölvunni.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/07/05 17:36 #

Ætli þetta sé Kalli sjálfur?

Og hvar er þessar meintu ærumeiðingar að finna? Hér er Kalli bisshoppur gagnrýndur harðlega fyrir eigin ummæli, ekkert annað.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.