Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kirkjukönnun

Í febrúar og mars á þessu ári gerði Gallup könnun á trúarlífi Íslendinga, í maí síðastliðnum kom ég með nokkrar athugasemdir við þær niðurstöður sem birtust þá í greininni: Niðurstaðan var áhugaleysi. Nú eru að birtast í fjölmiðlum fleiri atriði úr þessari könnun og það sést betur núna að áhugaleysi var í raun aðal niðurstaða þessarar könnunar. Skoðum þetta aðeins.

Í Fréttablaðinu þann 13. október þá kemur fram að aðeins 60% þeirra sem spurðir voru hafi svarað spurningum þessarar könnunar, það þýðir einfaldlega að það er nær ekkert að marka niðurstöður hennar, þetta mættu fréttamenn taka fram þegar fjallað er um könnunina. Síðan er annað atriði sem kemur inn í þessar niðurstöður og það er sú staðreynd að þeir sem eru jákvæðir í garð þjóðkirkjunnar voru líklegri til þess að taka þátt í þessari könnun. Þetta þýðir einfaldlega að niðurstöðurnar eru að öllum líkindum mun betri fyrir þjóðkirkjuna en ef allir sem spurðir voru hefðu svarað. Þrátt fyrir allt þetta þá eru niðurstöður þessarar könnunar í raun slæmar fyrir þjóðkirkjuna.

Áhugaverðasta talan sem ég hef séð í þessu sambandi er sú að 29% þeirra sem eru í þjóðkirkjunni telja sig hafa litla eða enga samleið með henni (munið að raunveruleg tala er líklega hærri). Samkvæmt síðustu talningu voru um 85% þjóðarinnar í þjóðkirkjunni, ef þeir sem telja sig hafa litla eða enga samleið með kirkjunni myndu ganga úr henni þá myndi þessi tala hrynja niður í um 60% (raunveruleg tala er líklega lægri). Síðan eru 44,3% þjóðkirkjufólks sem telur sig hafa nokkra samleið með kirkjunni, þessi 44,3 eru talin jákvæð fyrir þjóðkirkjuna en ég get ekki séð hvers vegna, samkvæmt mínum skilningi gefur orðið nokkra aðallega til kynna að einstaklingur sé í raun hálfhlutlaus. Þegar ég er til dæmis að velja mér flokk í kosningum þá kýs ég ekki þann sem ég hef nokkra samleið með heldur finn ég mér flokk sem ég mikla samleið með. Það að 44,3 þjóðkirkjufólks sætti sig við að vera trúfélagi sem það hefur bara nokkra samleið með hlýtur að gefa til kynna að þessu fólki vanti trú- eða lífsskoðunarfélag sem það hafi mikla samleið með.

Í þessari könnun kemur upp sama niðurstaða og venjulega varðandi afstöðu fólks til aðskilnaðar ríkis og kirkju, hvenær mun ríkisvaldið hlusta á fólkið?

Heimildir: Fréttablaðið, Kirkjan styrkir stöðu sína. 13. október 2004, bls 10.

Óli Gneisti Sóleyjarson 13.10.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.