Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Debatt, móðgunargirni og vörn

Íslendinga vantar debatt-menningu. Þeir taka gagnrýni persónulega. Ef maður er ósammála einhverjum um eitthvað stærra mál, þá upplifir hann það sem árás á sig, sem svo að maður sé að segja að hann sé heimskur að vera ósammála manni. Kannski að það sé vísbending um hvað honum finnst sjálfum um þá sem eru ósammála honum? Sá sem telur sig upplifa árás fer í vörn. Hann verst skeytum árásarmannsins og ef skeytin eru röksemdir er besta vörnin að hlusta ekki – eða skilja ekki.

Allavega er ótrúlega margt fólk sem virðist ekki geta tekið gagnrýni á skoðanir sínar. Kreddufesta háir ótrúlegasta fólki. Skoðanir sem ekki standast gagnrýni, hversu mikinn rétt eiga þær á sér? Hvaða rétt hefur maður til að líta á mál með einhverjum hætti ef það er auðvelt að hrekja allt sem manni finnst en maður vill einfaldlega ekki láta sér segjast? Er nauðsynlegt að virða skoðun sem maður sér að er röng? Samt, það er ekki hægt að lemja menn bara með kylfu. Kylfa röksemdanna er eina kylfan sem alltaf á rétt á sér.

Gagnrýnin hugsun er hverjum hugsandi manni nauðsyn. Óskhyggja og valkvæm hugsun gera það að verkum að menn einblína á rök og vísbendingar sem styðja útkomuna sem þeir vilja fá, en sjá ekki eða meðtaka ekki rök og vísbendingar sem benda til hins gagnstæða. Þeir hlusta, kinka kolli, samþykkja öll manns rök, en segja loks: „En ég trúi nú samt“ -- hvað er málið??

Afstaða sem byggist á rökum er góð afstaða. Hana er hægt að ræða og sá sem rökstyður afstöðu sína með (gildum) rökum ætti að vera móttækilegur fyrir uppbyggilegri/málefnalegri gagnrýni. Málið er bara, fjöldinn allur af fólki byggir afstöðu sína ekki á rökum. Hvernig er hægt að hrekja rökstuðning ef það er enginn rökstuðningur? „Geturðu rökstutt mál þitt?“ „Ég þarf það ekki, þetta er hluti af trúarsannfæringu minni.“ Trúarsannfæringin er dulbúin í misflókna hundalógík og engu skiptir þótt hún sé hrakin, samt er ríghaldið í hana og henni áfram slegið fram. Sá sem trúir því að hann viti Stórasannleik og að málstaðurinn sé réttur getur vel litið á það sem aukaatriði hvort smáatriði í röksemdafærslunni séu röng eða ekki. Í alvöru röksemdafærslu skiptir það auðvitað miklu hvort rökin standast eða ekki. En rök eru ekki grundvöllur þess sem trúir. Rökin eru aukaatriði. Rökin eru engin.

Það er enginn jafn blindur og sá sem vill ekki sjá.

Vésteinn Valgarðsson 28.09.2004
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Gunnar - 28/09/04 14:39 #

Það þarf ekki rök til að trúa en sumir trúa á rök ;)


Lárus Páll Birgisson - 28/09/04 21:49 #

Ég hef nú ekki tekið eftir öðru en að það hafi alltaf verið fín debat menning á Íslandi. Frá því landið var numið hefur verið starfræktur fínn debat-klúbbur sem kallast Alþingi.

Hér er öllum frjálst að segja hug sinn og meiningu, skrifa í blöðin og gefa úr ritlinga.... nema þarna nazistinn sem hræðist útlendinga :)

Morfís og morgron, umræðufundir, blogg að ógleymdum öllum heimasíðunum sem bjóða uppá mis gáfulegar umræður.

Áfram Ísland!


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 28/09/04 22:01 #

Skrítið, ég minnist þess ekki að hafa haldið því fram að hvern einasta Íslendinga vantaði debattmenningu. Ég er vitanlega að tala um Íslendinga almennt séð. Eru þeir verri en annað fólk að þessu leyti? Ég treysti mér ekki til að fullyrða neitt um það, alla vega ekki á þessu stigi málsins, en það er ekki laust við að manni sýnist það. Hér á landi rökræða menn vissulega, en fyrst og fremst rífast þeir og móðgast hverjir út í aðra.


Lárus Páll Birgisson - 28/09/04 22:08 #

Ég held að það sé nú mannlegur þáttur sem er ekkert meiri á Íslandi en hvar annarstaðar. Ég held að við stöndum jafnvel framar öðrum í hæfileikanum til að rífast.... hefur kannski eitthvað um að vopnaeign er ekki eins útbreidd og annarstaðar.

"Íslendinga vantar debatt-menningu." Vésteinn.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 29/09/04 00:26 #

Heldurðu að þetta mannlegur þáttu, já? Veistu, ég held það bara líka. Þetta gæti haft með það að gera hvað við erum innræktuð á Íslandi og allir þekkja alla / skyldir öllum? (Ég er bara að láta hugann reika.) Kannski að fólk fyrtist við þegar vinir og vandamenn segja því til syndanna, og smám saman hafi þetta orðið landlægt vandamál? Kannski að þetta hafi að gera með það, hvað þéttbýlismyndun og menntun eru nýtilkomin fyrirbærti á Íslandi?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 29/09/04 01:06 #

Þetta minnir mig svoltið á að færeyski rithöfundur Jógvan Ísakssen (vona að stafsetningin sé rétt) var að tala um að það að enginn þyrði að gagnrýna bækur í Færeyjum vegna þess hve samfélagið væri lítið.


Lárus Páll Birgisson - 29/09/04 03:40 #

He he, eflaust eitthvað til í því. Annars heyrði ég ágæta kenningu um það af hverju fólk brygðist við með reiði þegar skoðanir þeirra eru gagnrýndar. Kenningin er á þá leið að reiðin komi aðallega fram þegar viðkomandi aðili er kominn í rökþrot...og hefur þannig hugsanlega rangt fyrir sér. Þetta er svona eins og að vera sviptur öllum klæðunum fyrir framan aðra og standa berrassaður með ekkert til að skýla sér.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 29/09/04 10:15 #

Nietzsche sagði að ef þú létir fólk halda að það væri að hugsa þá yrði það ánægt með þig en ef þú kæmir því raunverulega til að hugsa þá færi það að hata þig.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 29/09/04 13:26 #

Nokkuð til í því, býst ég við. Ég held að það hafi verið Bertrand Russell sem sagði "Hægt er að komast í gegn um allt lífið án þess að hugsa. Reyndar gera flestir það."


Ormurinn - 29/09/04 15:57 #

Hefurðu einhver rök til að styðja þessa ályktun um að Islendingar séu aftar öðrum þjóðum þegar kemur að því að debattera? Fæ ekki betur séð en að hér fari almennt fram fínustu rökræður.

Annars tel ég að umræður um trú séu hvað verst til þess fallnar að byggja eingöngu á röksemdafærslu.

Ég hef alltaf álitið að forsenda fyrir trú sé einmitt að trúa á eitthvað þó svo að það vanti röksemdir fyrir því. Þar af leiðandi er ómögulegt fyrir þann trúaða að rökstyðja mál sitt.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 29/09/04 16:13 #

Satt er það. Trú er órökleg í sjálfu sér og þannig illa til þess fallin að rökræða hana - þ.e.a.s. fyrir trúmennina. Hef ég rök? Ja, þetta er nú eiginlega tilfinning mín. Mér finnst sem það hleypi gjarnan illu blóði í Íslendinga þegar skoðanir þeirra eru gagnrýndar. Erum við barnanna verstir? Nei, örugglega ekki. En við hefðum engu að síður gott af betri/sterkari debatt-menningu.


Lárus Páll Birgisson - 29/09/04 16:35 #

Ég er nú á því að við stjórnumst frekar af tilfinningum heldur en rökum...allavega er ég enginn Vúlkani.


Össi - 29/09/04 23:33 #

Ég held að þetta "debat" leysi sé tilkomið vegna skólakerfisins. Aldrei nokkurn tíman í grunnskóla eða menntaskóla var maður látinn færa nokkur rök fyrir sínu máli. Ef Bretar eru skoðaðir, þá virðast þeir allir kunna að rökræða og rífast án þess að fara í fílu hvor út í annan. Þetta læra þeir líka í skólanum.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 30/09/04 01:27 #

Tja, ég hefði feginn viljað hafa meiri analýtíska hugsun á minni stundaskrá þegar ég var krakki. Heimspeki, til dæmis.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.