Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Maðurinn sem stóðst prófið

Arthur Lintgen les plötur Sjónhverfingarmaðurinn James Randi er frægur fyrir að hanna próf sem ekki er hægt að svindla á, hann hefur í gegnum tíðina flett ofan af ótal miðlum og öðrum svindlurum. Í dag býður hann hverjum sem getur sýnt fram á yfirnáttúrulega hæfileika eina milljón bandaríkjadala, enginn hefur staðist prófið. Árið 1982 fékk tímaritið Time Randi til að hanna próf þar sem gengið væri úr skugga um að dr. Arthur Lintgen hefði í raun þann ótrúlega hæfileika sem hann sagðist hafa.

Hæfileiki Lintgens var vægast sagt óvenjulegur, hann sagðist geta séð hvaða tónverk væri að finna á hljómplötum með því að skoða þær, hæfileiki hans náði þó aðeins til tónverka á ákveðnu tímabili. Randi efaðist um að Lintgen gæti þetta í raun og hannaði skothellt próf til að ganga úr skugga um þetta.

Prófið var afar einfalt, Randi útbjó þónokkrar plötur þannig að ekki sást á miðann á þeim, framleiðslunúmer né nokkuð annað sem gæfi vísbendingar um hvað væri á þeim. Einnig voru þarna nokkrar plötur sem innihéldu upptökur af hinu og þessu sem ekki féllu undir sérsvið Lintgen. Plötunum var komið fyrir í ómerktum umslögum og síðan var þeim raðað í handahófskennda röð af aðstoðarmanni sem hafði engra hagsmuna að gæta.

Þegar Lintgen fór að skoða fyrstu plötuna þá tók hann af sér gleraugun og skoðaði hana í návægi, hann virtist vera örlítið ringlaður. "Ég held að þetta sé upptaka af sjöttu sinfoníu Beethovens" sagði hann. "En það virðist hins vegar vera aukakafli sem ég skil ekki. Er þetta sérstök upptaka?"

Randi svaraði því að hann myndi ekki gefa neinar vísbendingar. Lintgen skoðaði plötuna og sagði síðan, "Já! Þetta er sjötta sinfonían en þarna er líka aukaforleikur sem ég myndi halda að væri Prometheus forleikurinn"

Og það var rétt.

Næst dró hann plötu sem hann sagði að væri Le Sacre du Printemps eftir Stravinsky. Lintgen dró síðan aðra plötu og sagði, "Þú ert að reyna að plata mig! Þetta er önnur upptaka af sama verki". Hann skoðaði plötuna aðeins betur og lýsti því síðan yfir að á henni væri þýsk sinfoníuhljómsveit að spila. Randi var orðinn vægast sagt hissa enda ljóst að maðurinn hafði þá hæfileika sem hann bjó yfir.

Ein af plötunum fékk þann dóm Lintgens að hún innihéldi óskipulagt rugl, þar var um að ræða tónlist Alice Cooper. Hann hafði síðan rétt fyrir sér að einn platan væri ekki tónlistarupptaka heldur af upplestri.

Eftir að prófinu var lokið þá spurði Randi Lintgen hvernig hann þekkti verkin á plötunum. Bragðið sem Lintgen notaði var ákaflega einfalt en krafðist þó gríðarmikillar þekkingar á tónlist. Hann notaði fyrst og fremst lengd kaflanna í verkunum til að átta sig á hvaða verk væri um að ræða, einnig gat hann oft séð hvort tónlist væri róleg á því hvernig línurnar á plötunni væru. Hvað varðaði þýsku sinfoníuhljómsveitina þá var það afar einfalt, á jaðri plötunnar var brún sem eingöngu var að finna hjá ákveðnu þýsku plötufyrirtæki.

Nú dettur mér í hug Sherlock Holmes sem gat dregið ótrúlega nákvæmar ályktanir af útliti fólks, fatnaði þeirra og öðru þess háttar. Þegar Holmes varpaði fram niðurstöðum sínum vöktu þær jafnan furðu en þegar hann útskýrði hvaða aðferðir hann hefði notað þá fannst fólki ekki mikið til þess koma. Dæmi um þetta er að finna í sögunni Rauðkollafélagið þar sem rauðkollurinn Jabez Wilson sagði, "Þetta finnst mér meira en lítið einkennilegt. Ég hélt að þér hefðuð beitt einhverjum töfrum, en nú sé ég, að þér hafið dregið ályktanir yðar af atriðum, sem bæði eru einföld og hverjum manni augljóst." Eftir að hafa heyrt þetta velti Holmes því fyrir sér hvort hann ætti nú ekki að hætta að útskýra undirstöðuatriði ályktanna sinna og tók sér í munn latneskt orðtak, "Omne ignotum pro magnifico" sem á íslensku gæti útlagst sem allt sem er óþekkt þykir stórmerkilegt

Eftir að greinin um Lintgen kom í Time þá dofnaði áhugi almennings og fjölmiðla á honum, hann hafði nefnilega framið höfuðglæpinn og skýrt rétt frá aðferðum sínum, hver hefur áhuga á að á töfrabragði ef hann veit hvernig það er framkvæmt? Hvað ef Lintgen hefði haldið því fram að aðferðir hans væru yfirnáttúrulegar? Greinar um hann myndu þá væntanlega ennþá birtast í tímaritum nýaldarsinna og hefði hann lært nokkur brögð í viðbót þá hefði hann jafnvel getað slegið í gegn. Miðað við að Uri Geller varð frægur fyrir að beygja skeiðar (með handafli en ekki hugarorku) þá er það ekki ólíklegt.

Meðal annars byggt á:
The Man Who Could Read the Grooves
Reading Records
The Record Reader

Óli Gneisti Sóleyjarson 22.09.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Lárus Páll Birgisson - 22/09/04 02:22 #

Jahérna, ég held að ég hefði nú tekið milljónina! Ég held nú að þessi Lintgen ætti fyllilega skilið milljón dollara heiðarleikaverðlaun.


Helgi Briem - 22/09/04 10:44 #

Ef ég man rétt, þá var Randi ekki farinn að bjóða upp á milljónina þá.

Hins vegar, má deila um hvort hann ætti milljónina skilda hvort eð er, því hún er (væri) veitt þeim sem gæti sýnt fram á yfirskilvitlega hæfileika. Lintgen hélt því aldrei fram að hann hefði neitt slíkt, aðeins yfirburðaþekkingu á klassískri tónlist og gott minni.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 22/09/04 12:19 #

Randi var reyndar farinn að bjóða verðlaun en þá voru þau einungis 10.000$. Í þessu tilfelli var Randi hins vegar fenginn sem óháður aðili sem hefur það sérfræðisvið að koma í veg fyrir svindl, þetta tengdist því ekki verðlaununum á beinan hátt.

Reyndar má láta þann fróðleikspunkt falla að margir sem gagnrýna Randi halda því fram að hann hafi neitað að láta Lintgen hafa verðlaunin þó að það sé full ljóst að verðlaunin voru aldrei í boði.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.