Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Misheppnað töfrabragð

Stephen Kane reynir að plata Brynju ÞorgeirsdóttirÍ gærköldi var frétt á Stöð 2 um Orkuvitundarnámskeiðið sem við á Vantrú vöruðum við fyrir nokkru, fréttin kom reyndar ekki í kjölfar gagnrýni okkar heldur vegna þess að í fyrradag varaði Landlæknisembættið við námskeiðinu. Fréttin var góð og fréttamaðurinn Brynja Þorgeirsdóttir stóð sig vel (þó að við á Vantrú hefðum í hennar sporum verið harkalegri í gagnrýninni). Meira svona takk. Það vakti hins vegar sérstaka athygli hjá mér er að orkuvitundargúrúinn Stephen Kane reyndi gamalt töfrabragð á fréttamanninum.

Umrætt bragð er mjög einfalt og ég hvet lesendur til að reyna bragðið sjálfir á einhverjum grunlausum (þið verðið samt að útskýra það eftir á, ekki fara yfir til "myrkrahliðarinnar"). Sá sem er plataður er beðinn um að halda út handleggnum og síðan þrýstir brellumeistarinn handleggnum niður. Næst er einhver töfraþula þulin eða eitthvað gert sem á að þjóna þeim tilgangi að auka styrk hins grunlausa. Nú er handleggnum aftur haldið út og þrýst jafn fast niður á hann en styrkur handleggsins hefur aukist. Hvers vegna virkar bragðið? Augljóslega er það mikilvægt að hinn grunlausi vilji trúa og einnig að hann vilji ekki valda brellumeistaranum vonbrigðum. Mikilvægara er hins vegar að í seinna skiptið veit hinn plataði hve fast ýtt er á handlegginn og leggur því meiri styrk í að halda honum uppi. Þetta bragð er til í ótal útgáfum.

Stephen Kane ætlaði að gera þetta bragð en honum mistókst það. Stephen hélt fram þeirri kenningu sinni að loftbitar minnkuðu styrk manna sem stæðu undir þeim (þvílík vitleysa ). Gúrúinn lét Brynju halda úti handleggnum og þrýsti síðan niður á hann, næst færði fréttamaðurinn sig undir loftbita og Stephen þrýsti aftur á handlegginn sem gaf fyrr eftir. Brynja var spurð hvað henni finndist um þetta og þá benti hún á að í seinna skiptið þrýsti Kane fastar. Þið takið vonandi eftir að bragðið var framkvæmt í öfugri röð en gúrúinn virðist ekki hafa áttað sig á því.

Mín kenning er sú að einhvern tímann hafi Kane verið plataður án þess að útskýra bragðið fyrir honum og þar af leiðandi veit hann ekki hvernig á að framkvæma bragðið, ég held að hann trúi sjálfur þessari þvælu. Ég tel líka að þegar gúrúinn þrýsti í seinna skiptið á handlegg Brynju þá hafi hann ekki ýtt fastar viljandi heldur hafi það verið algerlega ósjálfrátt vegna þess hve sterkt hann trúir þessu. Reyndar er einnig mögulegt að hann hafi vitað hann ýtti fastar í seinna skiptið en hafi í huga sér réttlæt það vegna þess að það þjóni þeim tilgangi að hjálpa fólki á rétta braut. Kane er gúrú sem platar fyrst og fremst sjálfan sig. Hvað ætli hann hafi mörg brögð í pokahorninu?

Ég vona að þetta orkuvitundarmál allt sýni fólki hve mikilvægt það er að taka furðusögum af töfralækningum með mikilli varúð og gagnrýni.

Óli Gneisti Sóleyjarson 20.09.2004
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


X - 20/09/04 11:45 #

Ég vill ekki láta nafn míns getis, þar sem mjög náinn ættingi minn fór á þetta námskeið. Á þessu námskeiði var þeim kennt að tenga sig upp við hvort annað, með því að horfa í hægra augað og kreppa fingrunum fimm sinnum. Síðan má ekki gleyma að klappa þrisvar á eftir til að tengja sig niður. Þegar búið er að tengja sig upp, þá notar sá sem fór á námskeiðið pendúl sem "segir" hvað er gott eða slæmt fyrir orku hinna aðilans. Ættingi minn trúir að hann/hún geti séð hvaða meðul séu góð/slæm fyrir mig, þegar hann/hún tengdi sig upp við mig. Þetta er stórhættulegt, sérstaklega ef þetta er gert við aðra sem trúa þessu, eða vita ekki hverju þeir eiga að trúa, eins og börn. Já börn, hvað ef þeir foreldrar sem voru á þessum námskeiðum fara að nota þetta á litlu börnin sín. Þau eru varnarlaus. Ef fólk hættir að nota sína dómgreind, og fer að láta pendul stjórna ákvarðanatöku varðandi líf og heilsu!

Ættingi minn trúir líka að þessi orkuegg hjálpi og vill kaupa eitt fyrir hvern fjölskyldumeðlim.

Hvernig á maður að ná fólki út úr svona? HJÁLP !!! Eru einvherjir aðrir aðstandendur sem eru í sömu sporum ? Látið þá heyra frá ykkur á þessari síðu.


Össi - 21/09/04 21:20 #

Það getur verið erfitt að bjarga fólki út úr svona vitleysu. Það er yfirleitt í vitleysunni vegna þess að það vill vera í henni. Ef of mikið er þrýst á fólkið að láta af þessari trú sinni er líklegra að fólkið fari að forðast þann sem þrýstir heldur en trúnna. Þetta er vandamál sem sértrúarsöfnuðir nýta sér óspart. Ég held að það verði að tala slíkt fólk ofan af hlutunum í rólegheitum. Hlusta á það sem það hefur að segja, og smám saman koma þeirri hugmynd fyrir hjá þeim að það sé að gera einhverja vitleysu. Gæti líka verið gott að sína þeim hvað sé gaman þegar það er ekki að stunda sína trú.(Ég er nú enginn sérfræðingur í að tala fólk til, þannig að kannski er betra að fara eftir ráðum annarra).


Lárus Páll Birgisson - 22/09/04 02:47 #

Það getur verið mjög erfitt og oft ómögulegt að ná fólki út úr svona "hugarfangelsi" því oft er innprentunin á þá vegu að allir sem segi annað eru frá óvininum. Eina ráðið sem ég þekki er að halda fast í sambandið við viðkomandi manneskjur og vera til staðar þegar heimsmynd þeirra fellur. Ef enginn er til að styðja þetta fólk þegar raunveruleikasjokkið kemur er ekki víst að manneskjan nái sér nokkurntíman. En umfram allt trúðu því að manneskjan sjái ljósið einhvern daginn og geti hlegið að vitleysunni.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/09/04 10:35 #

Á þetta sem þú segir hér, lalli, líka við um kristna söfnuði (t.d. Þjóðkirkjuna)? Ef ekki, af hverju?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 22/09/04 15:06 #

Eina ráðið sem ég þekki er að halda fast í sambandið við viðkomandi manneskjur og vera til staðar þegar heimsmynd þeirra fellur.

Ég held að það sé töluvert til í þessu.


Lárus Páll Birgisson - 22/09/04 15:46 #

Já já Birgir, þetta á við um allar tegundir af söfnuðum sem vilja einoka mannsálina á þann hátt að gera einstaklinginn fráhverfan restinni af samfélaginu.


Sigrún - 23/09/04 00:36 #

Vil bara benda á það að því miður er ólíklegt að fólk sem trúir e-u svona fái raunveruleikasjokk eða að heimsmynd þeirra falli. Það er oftast ekki raunin með fólk sem trúir e-u sem stenst illa. Fólk vill almennt ekki hafa rangt fyrir sér og grípur til ýmissa skýringa til að sýna að svo sé ekki. Til dæmis má nefna þegar fólk fjölmennti á Snæfellsjökul til að bjóða geimverurnar, sem þar ætluðu að lenda, velkomnar. Þegar engar geimverur lentu á tilsettum tíma kom sú skýring upp að þær hefðu hætt við vegna veðurs :)

Hinsvegar er alveg eins líklegt að eftir ár verði Íslendingar búnir að gleyma öllu um orkuvitundarnámskeið og vonandi ættingi þinn líka. Það besta sem þú getur gert fyrir ættingja þinn er bara að reyna að koma í veg fyrir að hann smitist af því bulli sem gengur næst.


samviskan - 11/10/04 02:53 #

Lárus Páll Birgisson - 22/09/04 15:46 # Já já Birgir, þetta á við um allar tegundir af söfnuðum sem vilja einoka mannsálina á þann hátt að gera einstaklinginn fráhverfan restinni af samfélaginu.

.... skilgreindu "sálina" sem þú vitnar til hér væni...


anna k - 10/03/05 21:00 #

þetta er bara fyndið. það að einhver skuli trúa svona er fyndið (nema það sé einhver greindarskertur) og það eina fyndnara er frásögn x mannsins um það sem ættinginn lærði á námsskeiðinu. ég held að það séu trúleysingjar sem standi fyrir svona löguðu það getur ekki annað verið ;)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.