Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hugleiðing um Hvalsnesræðu Karls biskups

Karlbiskup.jpg

Fyrir nokkru skrifaði ég tvær hugvekjur (I,II) um þekkta frasa sem guðfræðingum er tamt að halda á lofti í predikunarstólum. Í stuttu máli má segja að þessir frasar snúist um fortíðardýrkun á mannskemmandi valdatíma kristninnar og nútímamenn í kreppu sökum skorts á trú. Þær eru ófáar ræðurnar hjá Karli biskupi sem snúast um hatur á sjálfsvirðingu og trúleysi nútíma manneskjunnar.

Gott dæmi er nýleg messa Biskups í Hvalsneskirkju: "Við, tuttugustu aldar börn, höfum lært, okkur hefur verið innrætt að trú sé veiklyndi. Við þóttumst hafa sigrast á ofurefli tilverunnar, unnið bug á viðjum náttúruaflanna, sjúkdóma, jafnvel dauðans. Framfaraöld, atómöld, fjarskiptaöld, upplýsingaöld gaf svo fögur fyrirheit, og hefur brugðist þeim flestum. Af því að manneskjan er söm við sig. Maðurinn gat sigrað allt, nema sjálfan sig. Og okkar öld hefur fleytt honum fram með meiri hraða en nokkur öld önnur út í brimgarð tortímingarinnar."

Því miður er fátt gott að segja um þessar upptalningar hjá Karli. Þær vekja frekar upp spurningar hvernig hægt er að eyða fjórum milljörðum í viðhafnalifnað og musteri til að rakka niður íslenskt nútímasamfélag. Ekki er hægt að skilja herra Karl öðruvísi en nóg sé komið af framförum, nú sé tími trúar og bænahalds upprunninn. Við skulum minnast þess að þegar pattaralegir biskupar sátu í Skálholti, með fulla vömb af kræsingum, þá dóu nýskírð smábörn úr vannæringu og plágum hér á landi. Þar sem ofbeldið, óttinn og eymd ríkir þar er trúin sterkust og hatrið mest. Kveiktu á sjónvarpinu herra Karl og gervihnettirnir sýna okkur fólk á bæn áður en haldið er á vit ofbeldis og styrjalda. Auðvitað er þetta ekkert annað en hræsni hjá biskupi.

Biskup ávítar þau sem skópu framfarir með bjartsýni og hugrekki. Hann hermir upp á þetta fólk að það hafi boðað sigur á dauðanum. Slíkar kenningar ganga ekki upp því dauðinn er nauðsynlegur hluti af viðgangi lífs á jörðinni, án hans væri engin þróun og lífið myndi fjara út. Ég hef fáa hitt sem telja dauðann umflúinn, en sem betur fer þekki marga sem vilja koma í veg fyrir ótímabæran dauða með nútíma þekkingu og tæknikunnáttu. Engu síður er til þjóðkirkja sem telur ósýnilegan upprisinn guð hafa sigrað dauðann og boðar fylgjendum sínum eilíft líf. Hvernig getur biskup ávítað fólk fyrir það sem hann boðar sjálfur? Auðvitað er þetta ekkert annað en hræsni hjá Biskup.

Næst setur herra Karl sig í stellingar og gerist kristilegur heimsendaspámaður enda slíkt afar kristilegt samkvæmt ritningunni. Við erum víst aldrei nær tortímingu sökum tæknilegra framfara segir biskup. Ekki er langt síðan byggð lagðist næstum af á Íslandi, þrátt fyrir að allir voru þá kristnir og ástunduðu trú sína af guðsótta með miklu bænahaldi. Aldrei höfum við Íslendingar verið nær tortímingu þjóðar en einmitt á tímum fáfræði og trúar. Vill biskup kannski koma í veg fyrir að við nýtum okkur þekkingu og tækni til að undirbúa okkur fyrir næstu náttúruhamfarir? Vill biskup kannski fórna mannslífum í næstu móðurharðindum í þágu andvísinda og undirgefni? Auðvitað er þetta ekkert annað en hræsni hjá Biskup.

Í þessari útópíu herra Karls verður að ríkja ótti og bleyðimennska svo að trúin fái staðist. Robert G. Ingersoll ritaði fleyg orð um þetta ástand enda hafði hann ríka reynslu af kristinni trú og kirkju:

"Óttinn lamar heilann. Hugrekki skapar framfarir. Bleyðimennskan er trúuð. Hugrekki elur efasemdir. Sá óttaslegni fellur á kné og biðst fyrir. Hinn hugrakki stendur uppréttur og hugsar. Óttinn er ómennska. Hugrekkið menning. Óttinn er trúarsiður. Hugrekkið vísindi".

Frelsarinn 16.09.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.