Stundum er sannarlega hægt að segja að við á Vantrú séum neikvæðir, við lítum á okkar hlutverk að gagnrýna hluti sem yfirleitt eru hunsaðir af hefðbundnum fjölmiðlum. En stundum koma hefðbundnir fjölmiðlar okkur á óvart og þá gerist hið óvænta að Vantrú gerist jákvæð.
Í Fréttablaðinu í dag er fjölmiðlapistill eftir Svanborgu Sigmarsdóttur, þar fjallar hún um dagskrá Rásar 2 á sunnudagsmorgnum:
"Stjörnur" eru teknar tali í Stjörnuspegli og á milli þess sem fólk er að plögga bókina sína, myndina sína eða eitthvað annað fær það að vita hvað stjörnuspekin segir um það. Hversu trist getur efni eiginlega orðið? Annað hvort eru stjörnukortin svona almenns eðlis eða viðmælendur eru svona kurteisir. Að minnsta kosti virðist fólk játa á sig undarlegustu persónulýsingar, bara af því að einhver stjörnufræðingur segir að svona eigi það að vera.
Þetta er alveg fyrirmyndar blaðamennska og það mætti segja að þörfin fyrir vefinn Vantrú væri mun minni ef svona gagnrýni væri algengari í dagblöðum og ljósvakamiðlum.
Þakka þér fyrir Svanborg.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Hreinninn - 07/09/04 12:58 #
Nema að stjörnufræðingar verða alltaf reiðir þegar þeim er ruglað við stjörnuspekinga!