Stjörnuspeki
Ekki ætti að útiloka með öllu þann möguleika, þótt ótrúlegur virðist, að ef leitað væri nógu lengi gæti fundist gullið sannleikskorn í hjátrú stjörnuspekinnar - Jóhannes Kepler
Hefðbundin stjörnuspeki er ein gerð spádóma sem byggir á þeirri kenningu að afstaða og hreyfingar himintunglanna (stjörnur, plánetur, sólin og tunglið) við fæðingu hafi mikil áhrif á líf manna. Sálfræðileg stjörnuspeki er svo ein tegund nýaldarfræða sem notuð er til aukins sjálfsskilnings og sjálfsskoðunar.
Ivan Kelly, sem skrifað hefur margar greinar sem gagnrýna stjörnuspeki, hefur þá skoðun á stjörnuspeki að hún:
hafi enga þýðingu, hvorki til að skilja okkur sjálf, né stöðu okkar í alheiminum. Nútíma talsmenn stjörnuspeki geta ekki útskýrt hver grundvöllurinn er fyrir tengslum stjörnuspekinnar við jarðneskar aðstæður, hafa engar sennilegar skýringar á forsendum hennar og hafa ekkert lagt markvert til málanna á sviðum félagsvísindanna.
Þrátt fyrir það trúa milljónir manna á stjörnuspeki og hún hefur lifað í þúsundir ára. Hinar fornu þjóðir Kaldear og Assyríumenn byrjuðu að spá í stjörnurnar fyrir um 3000 árum. Um 450 fyrir Krist höfðu Babýlóníumenn búið til dýrahringinn með hinum þekktu tólf stjörnumerkjum en það voru Grikkir, allt frá tímum Alexanders mikla til þess er þeir voru hernumdir af Rómverjum, sem komu fram með flesta undirstöðuþættina í nútíma stjörnuspeki. Útbreiðsla stjörnuspekinnar og ástundun hennar var heft með tilkomu kristinnar trúar, sem lagði áherslu á guðlega forsjón og frjálsan vilja. Á endurreisnartímanum öðlaðist stjörnuspekin aftur vinsældir, að hluta til vegna endurvakins áhuga á vísindum og stjörnufræði. Kristnir kennimenn börðust aftur á móti gegn stjörnuspekinni og árið 1585 var hún fordæmd af Sixtusi V. páfa. Um svipað leiti voru verk manna á borð við Kepler farin að grafa undan kenningum stjörnuspekinnar. Vinsældir og langlífi stjörnuspekinnar, í hvaða mynd sem hún birtist, hafa að sjálfsögðu ekkert að gera með sannleiksgildi hennar.
Vinsælasta gerð hefðbundinnar stjörnuspeki á Vesturlöndum er stjörnumerkja stjörnuspekin, sú útfærsla sem hægt er að finna í stjörnuspám á síðum margra dagblaða. Stjörnuspár eru spádómar byggðir á stjörnuspeki. Á enskri tungu er hugtakið (horoscope) einnig notað til að lýsa stöðunni innan dýrahringsins á þeim tíma er menn fæðast með svokölluðum stjörnukortum. Dýrahringnum er skipt upp í tólf svæði á himninum og ber hver sitt nafn af þeim stjörnumerkjum sem falla þar inn í (nautið, ljónið, o.s.frv.) Brautir sólarinnar, tunglsins og helstu reikistjarnanna liggja allar innan dýrahringsins. Vegna snúnings á möndli Jarðar þá hafa bæði vor- og haustjafndægurpunktarnir færst um 30 gráður í vesturátt á síðustu 2000 árum. Þannig að stjörnumerkin í dýrahringum, sem fengu nöfn sín í fornöld, samsvara ekki lengur þeim hluta dýrahringsins sem merki þeirra tilheyrir. Í stuttu máli sagt, ef maður hefði fæðst á sama tíma á sama degi ársins fyrir 2000 árum síðan, þá hefði hann fæðst í öðru stjörnumerki en í dag.
Hægt er að skipta hefðbundinni vestrænni stjörnuspeki annars vegar í árstíðabundna og hins vegar stjörnubundna. (Stjörnuspekingar utan Vesturlanda nota önnur kerfi). Hvarfár eða sólár er mælt með tilliti til afstöðu til sólarinnar og er sá tími sem líður á milli þess að sólin gengur í gegnum vorpunktinn (365 dagar, 5 klst, 48 mín, 46 sek að meðaltali). Stjörnuár er sá tími sem það tekur Jörðina að fara einn hring í kringum sólu með tilliti til afstöðu til stjarnanna (365 dagar, 6 klst, 9 mín, 9.5 sek að meðaltali). Stjörnuárið er lengra en hvarfárið vegna pólveltu jafndægrapunktsins, það er hægfara hreyfingu jafndægrapunktsins meðfram plani sólbaugsins um 50,27 bogasekúndur á ári, sem stafar af hreyfingu á möndli Jarðar.
Stjarnbundin stjörnuspeki notast við það stjörnumerki sem sólin er í raun staðsett í við fæðinguna sem sinn grundvöll en árstíðabundin stjörnuspeki notast við 30 gráðu geira af dýrahringnum sem sinn grundvöll. Árstíðabundin stjörnuspeki er vinsælust og spár hennar miðast við árstíma en taka ekki tillit til innbyrðis stöðu sólarinnar og stjörnumerkjanna hverju sinni. Stjarnbundin stjörnuspeki er notuð af fáum stjörnuspekingum og þeir byggja spár sínar á þeim stjörnumerkjum sem eru nálægt sólu við fæðingu.
Samkvæmt sumum stjörnuspekingum styðja ýmis gögn þá tilgátu að það sé orsakasamband á milli himintunglanna og atburða í lífi manna. Skírskotað er til fylgni á milli stjörnumerkjanna og þátta á borð við getu í íþróttum. Samt sem áður, þrátt fyrir töluverða fylgni á milli x og y er ekki þar með sagt að raunhæft sé að gera ráð fyrir tengslum þar á milli, að x orsaki y. Fylgni sannar ekki orsakasamband, en þrátt fyrir það hefur hún mikið aðdráttarafl fyrir fylgjendur stjörnuspekinnar. Tökum dæmi: "Á meðal 3428 hermanna, er Júpíter annaðhvort rísandi eða hæst á lofti við fæðingu 703 þeirra. Samkvæmt tölfræðilegum líkum ætti það að vera hjá um 572 þeirra. Líkurnar á þessu: ein milljón á móti einum." (Gauquelin 1975). Gerum ráð fyrir því að tölfræðileg gögn sýni mikla fylgni milli þess að pláneturnar rísi, hnígi og séu hæst á lofti, og hinna ýmsu sérkenna hjá einstaklingum. Það kæmi meira á óvart að af öllum þeim milljörðum á milljarða ofan af mögulegum hreyfingum himintunglanna, væru ekki þar á meðal fjölmargar, þar sem hægt væri að finna gott samband við fjöldann allan af viðburðum eða eiginleikum einstaklinga.
Fylgjendur stjörnuspekinnar minnast gjarnan á það að "lengd tíðahrings konunnar er samsvarandi við kvartilaskipti tunglsins" og "þyngdarkraftar sólarinnar og tunglsins eru nægilega sterkir til þess að valda flóðum á jörðinni." Ef tunglið getur valdið flóðum, hlýtur það að geta haft áhrif á einstaklinga. En hverjar eru hliðstæðurnar við flóðin hjá fólki? Við erum minnt á það að menn hefja lífið umluktir vatni líknarbelgsins og að mannslíkaminn er 70 % vatn. Ef ostrur opna og loka skeljum sínum í samræmi við gang flóða, sem aftur verða í samræmi við segul- og þyngdarkrafta sólar og tungls, og menn eru fullir af vatni, er þá ekki augljóst að tunglið hlýtur að hafa einnig áhrif á mennina? Það gæti virst augljóst fyrir einhverjum, en sannanir fyrir þessum áhrifum tunglsins eru ekki til staðar.
Stjörnuspekingar leggja áherslu á mikilvægi stöðu sólar, tungls, plánetanna o.s.frv. við fæðingu. Samt sem áður gerist fæðingin ekki á einu andartaki. Það er ekki á neinni sérstakri stund sem manneskja fæðist. Sú staðreynd að sumstaðar skrá menn stund fæðingar kemur þessu ekki við. Velja þeir stundina þegar konur missa legvatnið? Stundina þegar fyrsta útvíkkun verður? Þegar fyrsta hárið eða tánöglin gægist út? Þegar síðasta tánöglin eða hárið fer út um síðasta millimetra legganganna? Þegar klippt er á naflastrenginn? Þegar fyrsti andardrátturinn er dreginn? Eða á fæðing sér stað á þeirri stundu þegar læknir eða ljósmóðir lítur á klukkuna til að skrá niður tímasetningu fæðingar?
Afhverju eru upphaflegu skilyrðin mikilvægari, frekar en öll þau skilyrði sem verða síðar á lífsleiðinni, fyrir mótun einstaklingsins og eiginleika hans? Afhverju er stund fæðingar valin sem mikilvægasta stundin frekar en stund getnaðar? Afhverju eru ekki önnur upphafleg skilyrði s.s. heilsa móður, aðstæður á fæðingarstað, tengur, skær lýsing, dimmt herbergi, aftursæti í bíl og svo framvegis mikilvægari en hvort Mars sé rísandi, hnígandi, í hæstu hæðum eða lægstu lægðum? Afhverju er plánetan Jörð - sá stóri hlutur sem er næstur okkur í sólkerfinu okkar - ekki talin hafa mikil áhrif á það hver við erum og hvernig við verðum? Að frátalinni sólinni og tunglinu, og einstaka smástirnum og halastjörnum sem koma nálægt jörðu, þá eru flestar reikistjörnunar svo fjarlægar okkur að öll þau áhrif sem þær gætu haft á eitthvað á okkar plánetu eru líkast til þurrkuð út vegna áhrifa frá öðrum hlutum hér á jörðu.
Enginn gæti haldið því fram að til þess að þekkja áhrif tunglsins á flóðin eða kartöflur, þá verði maður einnig að skilja upphaflegu skilyrðin í Sérstöðupunktinum fyrir Miklahvell, eða afstöðu stjarnanna og plánetanna á þeim tíma er kartaflan var tekin upp. Ef þú vilt vita hvernig fjara morgundagsins verður þarft þú ekki að vita hvar tunglið var þegar fyrsta hafið eða áin myndaðist, eða hvort hafið kom á undan tunglinu eða öfugt. Upphaflegar aðstæður eru minna mikilvægar en núverandi aðstæður til að skilja ríkjandi áhrif á ár og kartöflur. Ef þetta á við um flóðin og plönturnar, hversvegna ætti þetta ekki að eiga við um fólk?
Síðan eru það þeir sem verja stjörnuspeki með því að benda á hversu nákvæmar þær stjörnuspár eru sem gerðar eru af fagmönnum. Sagt er að stjörnuspeki "virki", en hvað þýðir það? Að segja að stjörnuspeki virki þýðir í raun að það eru fjöldamargir ánægðir viðskiptavinir og að hægt sé að þröngva svo að segja hvaða atburðum sem er til að passa inn í líkanið. Það þýðir ekki að stjörnuspeki geti spáð nákvæmlega fyrir um mannlega hegðun eða atburði marktækt betur en líkurnar segja til um. Til eru margir ánægðir viðskiptavinir sem trúa því að stjörnuspáin þeirra lýsi þeim rétt og að stjörnuspekingarnir þeirra hafi gefið þeim góð ráð. Þannig vitnisburður færir ekki sönnur á stjörnuspeki heldur sýnir öllu heldur fram á Forer áhrifin og staðfestingartilhneiginguna. Góðir stjörnuspekingar gefa góð ráð, en það sýnir ekki að stjörnuspeki virki. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna fram á að fólk beitir valkvæmri hugsun til að fá hvert það stjörnukort sem þeim er gefið til að passa við þær fyrirfram gefnu hugmyndir sem það hefur um sjálft sig og stjörnukortið. Mikið af þeim fullyrðingum sem settar eru fram um stjörnumerki og persónuleika eru óljósar og gætu passað fyrir margt fólk í mörgum stjörnumerkjum. Jafnvel atvinnustjörnuspekingar, sem margir hverjir fyrirlíta sólmerkjastjörnuspeki, geta ekki valið úr rétta stjörnuspá með betri árangri heldur en líkindi segja til fyrir um. Samt sem áður heldur stjörnuspekin ennþá vinsældum sínum, þrátt fyrir þá staðreynd að það er tæpast til brot af vísindalegum rökum henni í hag. Jafnvel fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna Nancy Reagan og eiginmaður hennar Ronald heitinn, leituðu ráða hjá stjörnuspekingi þegar að hann var forseti Bandaríkjanna, sem sýnir enn og aftur fram á að stjörnuspekingarnir hafa meiri áhrif en stjörnurnar.
Skeptic's Dictionary: astrology
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin )
Á. Ingvarsson - 03/09/04 18:01 #
Mig hefur lengi grunað að það sport að kenna ýmis einkenni í lund og líkam fólks við það stjörnumerki sem það er fætt í, eigi í raun rót sína í því að árstíðasveiflur s.s. í fæðuúrvali og hormónaframleiðslu hafi áhrif á fósturþroska á meðgöngu.
Því megi finna tilhneiginugu til ýmissa geðrænna og líkamlegra einkenna meðal einstaklinga sem fæðast á vissum árstíma enda hafi mæður þeirra á einhverju lykiltímabili á meðgöngu orðið fyrir teljanlegum ytri áhrifum.
Það er vitað að oft þarf ekki mikið til að fósturþroski taki áhugaverðum breytingum. Minnir mig það hafi verið Sigurður H. Richter sem eitt sinn sýndi fræðsluþátt um hvernig hægt var að stjórna kyni krókódílaunga með því einu að geyma krókódílaeggin í kaldara eða heitara umhverfi.
Framleiðsla og innbyrðing líkamans á ýmsum hormónum og vítamínum getur tekið töluverðum sveiflum eftir árstímum og getur munað um minna þegar kemur að þroska og vexti fósturs.
Líkaminn framleiðir d-vítamín þegar húðin er útsett fyrir sólargeislum, og mætti þannig sem dæmi henda því fram að ef d-vítamínskortur á 2. mánuði meðgöngu hefði áhrif á þroska ákveðinnar heilastöðvar, þá mætti finna þess áhrif í börnum sem hefðu verið á 2. mánuði fósturþroska yfir mestu skammdegismánuðina.
Þannig gætu einnig árstíðabundið framboð vissra fæðutegunda, árstíðabundnir streitu- og erfiðisvaldar og jafnvel áhrif veðráttu á hversdags-heilsufar haft töluverð áhrif.
Það að þykjast sjá viss ríkjandi persónueinkenni hjá fólki eftir fæðingardegi sé því ekki endilega svo vitlaust, þó að ekki sé sporbaugum himintunglana að þakka utan þá bara áhrifum sólar á veðurfar.