Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Klerkar á gervihnattaöld

Það eru margir frasar sem guðfræðingar nota til að halda trúnni að landsmönnum. Einn sá lífseigasti gengur út á að ata meintum hraða nútímans auri. Ræðan gengur út á að fórnarlömb hans fari á mis við Jesú Krist og guðdóminn á gervihnattaöld. Prestar vara svo við afleiðingunum sem eru einmannaleiki, tómarúm og lífsglötun. Þannig er gefið í skyn að fyrr á tímum hafi fólk haft tíma fyrir Jesú Krist ólíkt nútímamanninum. Síðan boða klerkarnir lausn sína fyrir lýðinn sem er að doka við, fara með bænir og eiga stund með Jesú. Segja má að þessi aðferðafræði sé skopleg nauðvörn kirkjunnar manna til að vekja löngu sofnaða trúarþörf hjarðarinnar.

En þessi útlegging prestanna er sögð á fölskum forsendum. Þær kynslóðir sem komast nú á legg njóta margfalds frítíma til að hugleiða líf sitt en horfnar kynslóðir. Því á þrælatíma allsráðandi kristni og kirkju mátti fólk vinna frá morgni til kvölds alla daga vikunnar til að lifa af, nema þegar prestar messuðu á sunnudögum. Meira að segja voru börn látin þræla með fullorðnum. Í vonleysi, vannæringu, tímaskorti og þekkingarleysi var auðvelt að halda úti kirkju, klerkum, biskupum og draugum. Með aukinni menntun, frítíma og sjálfræði breyttist þetta allt. Skyndilega hljóma skýringar kirkjunnar á tilgangi lífsins bjánalega. Það er einfaldlega ekkert pláss fyrir goðsagnir hennar um uppdópaða sælu og gervilíf næstu milljarða ára á himni til að losna við fátækt og vonleysi.

Þó er versta tegund þessa tegundar áróðurs presta, þegar reynt er að nýta tímabundin veikindi eða áföll fólks til skammast út í líðandi stund vegna skorts á Jesú Kristi. Hvert einasta mannbarn verður fyrir leiða og vanda einhvern tíma á ævinni. Þökk sé upplýsingu og samfélagsþjónustu af mörgu tagi er hægt að hjálpa fólki í dag. Andlegir erfiðleikar hafa ekkert með skort á Jesú að gera og segja má að slíkar skýringar presta séu ekkert annað en skottulækningar af verstu gerð.

Vissulega er eðlilegt og gott mál að klerkar fjalli um vandamál fólks, en ég frábið mér þessar gömlu lummur um að heimur versnandi fari, að viðbættri kristilegri fortíðardýrkun. Ég ætla vona að prestar hætti að hallmæla frítíma almennings sem sérstöku vandamáli, þó að sama fólk lifi ekki samkvæmt heimsendaspá Jesú Krists og mæti til messu. Það er einfaldlega mikill munaður að geta sofið út á sunnudögum í stað þess að mæta í kirkju, þannig líður tíminn hægt á gervihnattaöld.

Frelsarinn 01.08.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Snær - 01/08/04 00:23 #

"Það er einfaldlega mikill munaður að geta sofið út á sunnudögum í stað þess að mæta í kirkju..."

Heyr heyr! Ætli ég hafi þetta ekki í huga á morgun... eða ekki... verð líklegar of upptekinn við að sofa.

Það væri líklega hægt að halda því fram að heimurinn sé að ná einhverjum suðupunkti að mörgu leiti, en hvað daglegt líf á vesturlöndum er ómögulegt að staðhæfa að líðan fólks sé almennt verri en áður.

En svo er já alltaf hægt að bæta ástandið, og einmitt þess vegna er engin þörf fyrir presta sem auka á almenna svartsýni hjá þeim fáu trúuðu, sem ekki eru algerlega sinnulausir þegar kemur að trúmálum.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 01/08/04 00:43 #

Ég held reyndar að menn séu firrtari nú til dags en nokkurn tímann fyrr, vegna þess hvað iðnvæðing og sérhæfing í framleiðslunni eru langt komin. Velgengni kuklara á þessari firringu velgengni sína að þakka, þegar fólk reynir að bæta sér hana upp með bábiljum.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 01/08/04 05:28 #

Firring eða ekki firring (komminn þinn :) ) þá segi ég bara eins og vitur maður skrifaði eitt sinn: Heimur batnandi fer!


Davíð - 02/08/04 21:02 #

Það hefur margt versnað, en sumt hefur líka batnað Á VESTURLÖNDUM. Við erum kóngarnir við veisluborð nússins hér á vesturlöndum. Fötin sem við klæðumst, húsgögnin okkar jafnvel töluvert magn fæðis er unnið í fátækum ríkjum þar sem greidd laun eru varla fyrir mat ef það er um laun að ræða. Ég er Kristinn og ég er stoltur af því, en ég er ekki stoltur af því að Kirkjan sé ekki enn beittari gegn þessu ranglæti.
Það er margt ritað á þessum vef ykkar trúleysingja eða efahyggjumanna sem ég er ósammála mest svíður mér þó að tilraunir kristinna trúfélaga til þess að bæta heiminn eru dreginn niður í svaðið vegna þess að auk þess að gefa af tekjum okkar til fátækra viljum við veita fólki það dýrmætasta sem við eigum, trúnna á Jesú Krist. Kristinn kirkja er í ykkar augum fáránleg við erum annað hvort ólánsamt blekkt fólk, enfeldningar eða ílla innrættir falspredikar. Þið teljið að það val sem við höfum tekið í lífinu færi okkur ekkert nema "stundargaman" í þessari jarðvist. En þegar þið jafnvel bölvist út í hjálparstarf sem er rekið af kirkjum og trúfélögum eruð þið að ganga lengra en vera ósámmala trúarskoðunum eða lífsviðhorfum. Þið eruð að rífa niður góðverk fólks sem eru unnin í kærleika, með níðskrifum ykkar. Ég er ekki feministi og verð ábiggilega seint sammála þeirra lífspeki í heild, tel þó barátta þeirra gegn naugðunum og klámvæðingu virðingarverða. Aldrei nokkurntíman myndi ég reyna að draga þau verk niður þó ég væri ósammála "femismanum" í heild. Hvatning mín til ykkar sem eru á móti trúboði samhliða hjálparstofnuna er sú að stofna hjálparsamtök, þess vegna í nafni trúleysis gefa þar vinnu sína og fjármuni til þess að stuðla að betri veröld. Þessi skrif eru ekki beint tengt greyninni hér fyrir ofan að öllu leiti, ég bara byrjaði að skrifa það sem mér var á hjarta og hér er það!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/08/04 10:50 #

mest svíður mér þó að tilraunir kristinna trúfélaga til þess að bæta heiminn eru dreginn niður í svaðið vegna þess að auk þess að gefa af tekjum okkar til fátækra viljum við veita fólki það dýrmætasta sem við eigum, trúnna á Jesú Krist.

Hér amast enginn við hjálparstarfi, en ef þið væruð alveg heil í því mynduð þið ekki nota tækifærið til að troða Jesú ofan í kokið á eymingjans fólkinu, því það er greinilega ekki nauðsynlegt að trúa.

Hjálparstarf án boðunar er göfugt, hitt síður.

En þegar þið jafnvel bölvist út í hjálparstarf sem er rekið af kirkjum og trúfélögum eruð þið að ganga lengra en vera ósámmala trúarskoðunum eða lífsviðhorfum. Þið eruð að rífa niður góðverk fólks sem eru unnin í kærleika, með níðskrifum ykkar.

Neibb, við erum ekkert að rífa niður hið góða starf sjálft, heldur benda á annarlegan tilganginn þar að baki. Hættið að boða trú við hjálparstarfið en látið góðverkin tala. Þannig munuð þið uppskera ómælda virðingu okkar.

Hvatning mín til ykkar sem eru á móti trúboði samhliða hjálparstofnuna er sú að stofna hjálparsamtök, þess vegna í nafni trúleysis gefa þar vinnu sína og fjármuni til þess að stuðla að betri veröld.

Þessu hef ég einmitt velt fyrir mér. Hins vegar eru til samtök sem veita hjálp án trúboðs og nægir þar að nefna Rauða krossinn og Lækna án landamæra. Þessar stofnanir eiga í mér hvert bein.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 03/08/04 11:31 #

Ég vona að trúmenn haldi áfram að hjálpa fólki, ég styð alla í því, sama hversu kjánaleg trú þeirra er. En það er að mínu mati ekki réttlætanlegt að nota tækifærið til að fjölga Lútherskum Kirkjum í heiminum.
Vantrú: Kristniboðsdagurinn

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.