Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Nokkrar Biblíuskýringar

Mér er sköpunarsaga Biblíunnar nokkuð hugleikin núna eftir að Örn Bárður tefldi henni fram sem djúpvitrum skáldlegum sannleik í debati sínu við Atla Harðarson heimspeking.

Og því ætla ég að grænsápast aðeins og gera tilraun til að finna þennan sannleik í ljósi þróunarkenningarinnar:

Í blaðinu birtíngi, sem ég skrifa og gef út á Akranesi, birti ég þessa hugleiðingu nýlega:

Heimurinn væri betri ef við hefðum aldrei komið niður úr trjánum.

Sennilega voru það loftslagsbreytingar sem ollu því að forfeður okkar af prímatakyni hundskuðust út á sléttuna eftir árþúsunda þægilegan hippalifnað. Trjávistin hafði orsakað litasjón (fæðan var litrík og kyrr), engar vígtennur voru í munni og líkamsbyggingin rindilsleg í samanburði við varga sléttunnar.

Þessi skepna hefði auðveldlega orðið undir hefði hún þurft að þróa með sér samskonar búnað og rándýrin sem hún keppti við. En hið ótrúlega gerðist. Dýrið hélt líkamlegum aumingjavexti sínum en þróaði í stað þess með sér gáfur til að beita verkfærum, hagnýta sér eld og stunda veiðar í hópum. Þegar fram liðu stundir tók maðurinn svo úlfa í þjónustu sína og þróaði með sér tungumál til að gera veiðarnar auðveldari.

En sjáið nú hvað allar þessar gáfur hafa kallað yfir heiminn. Við erum búin að leggja hann undir okkur, breyta öllu láglendi í bílastæði. Við hrúgum fuglum [og öðrum dýrum] inn í þröng búr þar sem þau húka alla sína stuttu ævi. við útrýmum skógum og heilu dýrategundunum. Koltvísýringsmagnið hækkar ört, ósonlagið þynnist og svo gæti farið að allt líf á jörðinni verði í bráðri hættu innan fárra áratuga.

Svo kostar þessi heilastærð alls konar brjálæðislegar ranghugmyndir. Flokkadrættir og stríð eru fylgifiskur þessa, því hugmyndakerfin sem við aðhyllumst snúast oftar en ekki um þessi góðu "okkur" og þessi vondu "hin"..

Nei, þá væri betra ef við værum bara enn að hippast í trjánum, úðandi í okkur appelsínum, friðsöm og í góðu stuði.

Sjáið hvað þetta ferli er svipað því sem lýst er í sköpunarsögunni. Það mætti næstum halda að þeir sem hana rituðu, fyrr eitthvað 3-4000 árum hafi verið með þróunarferli mannsins á hreinu, eða hvað. Skoðum það betur:

Forveri mannsins hefur það makindalegt í aldingarðinum en verður svo að hrökklast þaðan út, væntanlega sökum loftslagsbreytinga. Þetta verður til þess að hann þarf fljótlega að bíta í eplið af skilningstrénu, þróa með sér greind til að takast á við nýjar aðstæður. Þarna klikkar reyndar Mósebókin, því samkvæmt henni gerðist þetta í öfugri röð, maðurinn fékk fyrst gáfur sínar og þurfti að hundskast út á sléttuna í refsingarskyni fyrir það.

Hinir nýju lifnaðarhættir breyttu líkamsbyggingu mannsins umtalsvert. Hann endaði með að rísa að fullu upp á afturlappirnar og barnsfæðing kvendýrsins varð þarmeð mun þjáningarfyllri, auk þess sem höfuð ungviðisins er mun stærra en áður vegna greindarinnar. Þar hittir sköpunarsagan naglann á höfuðið, erfiðleikar barnsfæðingarinnar eru bein afleiðing eplaátsins.

Í kjölfar greindarinnar kemur svo blygðunin og þörfin fyrir að hylja nekt sína. Engin önnur dýr sjá ástæðu til slíks, það er eins og með greindinni hafi þetta runnið upp fyrir okkur, rétt eins og segir í sköpunarsögunni.

Og eins og sést á hugleiðingu minni hér að ofan, er mannskepnan orðin "syndum hlaðin" af allri þessari greind. Orsök allrar þessarar syndar er augljóslega hátt greindarstig mannsins og maður fer því að skilja boðun kirkjunnar um að hjálpræðið liggi í að hugsa eins og barn. Viska mannanna er heimska á mælikvarða Guðs, og allt það.

En hvað voru þessir Mósebókahöfundar, svo vel sem þeir voru að sér í þróun mannskepnunnar, að blanda einhverjum guði inn í þetta. Ef við grænsápumst aðeins og notum túlkunaraðferðir, er ljóst að þessi guð er aðeins tákngerving fyrir þróunina, eða öllu heldur tímann, eða hreinlega orsök og afleiðingu.

Og þarna klikkar Örn Bárður. Svo vel sem hann getur hugsað sér að túlka þessa sögn í allar áttir gleymir hann algerlega að túlka guðinn. Guð er fyrir honum bara Guð, hvað sem öllu hinu líður. Væri ekki ráð fyrir guðfræðingana að nugga líka smá sápu á þetta hugtak og komast að því hvað liggur þarna að baki?

Sjáið hvað þetta er auðvelt. Í raun er léttur leikur að pikka út allt það sem sameiginlegt er með tveimur ólíkum frásögnum og hampa því eins og algildum sannleika. Það þarf bara smávegis skammt af valkvæmri hugsun, því flest annað í sköpunarsögunni stenst engan veginn neitt það sem nú er vitað um heiminn. Hvað segið þið til dæmis um höggorminn, sem var talandi eðla á löppum eftir að maðurinn kom fram en missti svo fæturna snögglega og fór að borða mold?!

Svona "fræðimennska" gæti sem hægast kallast hundalógík, enda er þessi túlkun mín beinlínis í anda greinanna þriggja sem ég skrifaði hér í vetur. Þar tókst mér að leiða út með grænsápunni minni að Guð væri genin okkar, rökhugsun og geimverur. Núna er ég búinn að heimfæra tímann/þróunina/orsakalögmálið upp á hann. Ekki held ég þó að ég komist nálægt því að hitta á það hvað mönnum gekk til með þessu hugtaki í árdaga, þegar Genesis var í smíðum. Hafi sagan verið skrifuð sem allegoría voru menn ekkert að meina að guð hafi verið vitrænt afl, svo mikið er víst. Örn Bárður hlýtur að geta fallist á það. Og þá stendur eftir spurningin um hvað kirkjunni gengur til að tilbiðja Guð eins og hann sé slíkt afl og kenna mönnum að þekkja hann á þeim forsendum.

En auðvitað eru fimmbókahöfundarnir ekkert að tala í líkingum. Þeir trúðu á þennan sama guð og Örn Bárður og héldu sig vera að lýsa tilurð heimsins á nákvæman og kórréttan hátt. Og þá stendur eftir hið erfiða val Arnar Bárðar og hinna guðfræðinganna að afskrifa guðinn annað hvort sem líkingamál eða forna ranghugmynd hirðingja í árdaga.

Birgir Baldursson 28.06.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


ástþór magg - 28/06/04 23:39 #

Þið eigið ykkur ekkert líf sorglegu ritstjórar og held ég að þið séuð að þessu vegna þess að þið eruð ósáttir við lífið og eigið bátt. Það er allt í lagi að vera á móti guði mín vegna en að stofna vefsíðu. hey johnson


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/06/04 23:51 #

Náði ég að snerta einhverja taug í þér með þessum pistli? Kveikja bál í annars sinnulausu heilabúinu? Gott mál :)


Hafþór Örn Sigurðsson - 29/06/04 10:54 #

Æ hvað lífið væri nú mikið einfaldara ef maður væri enn uppí tré, kannski að kíkja á fallega apastelpu sem sveiflar sér eggjandi á milli greina. Það hlýtur að vera þægilegt að öðlast fullkomna fyllingu og ánægju bara af því að vera saddur. Tilgang dagsins náð.

En í dag dugar ekkert minna en Patrol á 44" dekkjum með kerti og spil.

Gaman samt að sjá að Ástþór Magnússon sé farinn að skrifa hér á vantru.net (ástþór magg). En hafa fleiri tekið eftir því að unglingar og jafnvel margir eldri eru hættir að nota stórann staf í byrjun setningar.

Þetta tel ég vera vegna þess að hið ágæta forrit Word sér um þetta fyrir mann. Fyrirhyggjan í forritinu er farin að gera það að verkum að þegar unglingar skrifa annarstaðar en í Word þá vantar alla stóra stafi á rétta staði.

Kær Kveðja, Gabbler.


ástþór magg - 29/06/04 15:49 #

Ég skora bara á þig að mæta mér Birgir Baldursson og tala um trúmál og annað, aldrei að vita nema að ég komi eithverju viti í þig. :/


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/06/04 16:58 #

Hvenær sem er. Er þessi vettvangur ekki bara fínn?


Sindri Guðjónsson - 30/06/04 20:40 #

Sæll Birgir.

Til gamans langar mér að setja link á slóð sem útskýrir sæmilega þá "grænsápu" túlkun sem ég aðhyllist hvað varðar sköpunarsöguna, ef vera skildi að einhver vildi kynna sér:

http://www.godandscience.org/apologetics/day-age.html

Já ég veit, enn og aftur vísa ég í þessa síðu, (hef copíað af henni á spjall borðið tvisvar), en hún hentar í svona umræður þar sem hún er hjálfgerð anti-vantru.net


Sigurður Ólafsson - 01/07/04 10:08 #

Athyglisverður vefur sem þú bendir á, Sindri. Mér fannst sérstaklega gaman að lesa þessa síðu hér, en hún er beinlínis ætluð trúleysingjum!

Þarna eru áhugaverð atriði nefnd, s.s. meint "fínstilling" náttúrulögmála í heimi hér, sem á að sanna tilvist Guðs. Þarna er annar "vinkill" á ferðinni sem er nokkuð frábrugðinn hinum hefðbundnu rökum bókstafstrúarmanna eða listrænum túlkunum ljóðrænna nýmóðins guðfræðinga á sköpunarsögunni.

Gaman væri að heyra í vísindalega sinnuðum trúmönnum sem aðhyllast þessar hugmyndir.

Það má vera að Birgir og félagar séu búnir að ræða þetta í þaula, en ég er svo nýr í umræðunni hér að ég þekki það ekki. Birgir, þú getur þá kannski bent okkur áhugasömum á þá umræðu :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/07/04 11:19 #

Úff, hér er svo mörgu haldið fram sem þarfnast athugasemda að það væri efni í grein eða greinar. Ætli ég reyni ekki að finna mér tíma til að tækla þetta á næstu dögum.


Sindri Guðjónsson - 01/07/04 13:14 #

Sæll Sigurður. Þú sagðir: "Gaman væri að heyra í vísindalega sinnuðum trúmönnum sem aðhyllast þessar hugmyndir."

Ætli að ég sé ekki einn slíkur, þó að ég sé ekki með háskólagráðu í raunvísindum, eins og þeir sem halda þessari síðu "godandscience.org" úti...

Annars þekki ég nokkra íslenska trúmenn í "sértrúarsöfnuðunum" sem eru t.d. líffræðingur (amk með master gráðu frá Svíþjóð), læknir, ofl.

Það verður gaman að sjá Birgi og vini hans tækla þessi mál.

Ég hef marg reynt að fá einn "frelsaðan" líffræðing sem ég þekki til þess að blanda sér í umræðuna, hef lánað henni bækur ofl, en hún virðist ekki hafa áhuga...


Sindri Guðjónsson - 01/07/04 13:17 #

Annars varðandi "fínstillingu" alheimsins ofl. þyrfti maður helst að vera eðlisfræðingur til þess að fjallað vel um þau mál...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/07/04 13:30 #

Ekki er ég viss um það. Segir það sig ekki sjálft að eðlisfræðilegu lögmálin nægja til að koma á slíkri fínstillingu? Ef þú úðar vatni eða fljótandi málmi út í þyngdarlaust rými geturðu búist við að efnið safnist saman í kúlur sem fara á sporbaug hver um aðra. Það liggur í hlutarins eðli og engin þörf fyrir vitrænt afl til að stilla þeim upp, eða hvað?

Þetta fínstillir sig sjálft.


Sigurður Ólafsson - 01/07/04 15:09 #

Þetta fínstillir sig sjálft.

Það er einmitt kjarni þess sem haldið er fram á umræddum vef, þ.e. að eðlifræðileg lögmál, fastar og hlutföll alheimsins séu með þeim hætti (og svo ótrúlega nákvæmlega fínstillt) að augljóst sé að um hönnun vitræns afls sé að ræða.

Þetta er í raun gamalt vín á nýjum belgjum, þ.e. að reglan í náttúrunni sanni tilvist skapara. Samt sem áður er þetta nokkuð "beittur" áróður þarna (yfirleitt eru þetta vitleysingar sem halda úti slíkum síðum) og augljóst að þessi Richard Deem hefur nokkuð góða þekkingu á vísindum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/07/04 16:36 #

"Það er einmitt kjarni þess sem haldið er fram á umræddum vef, þ.e. að eðlifræðileg lögmál, fastar og hlutföll alheimsins séu með þeim hætti (og svo ótrúlega nákvæmlega fínstillt) að augljóst sé að um hönnun vitræns afls sé að ræða."

En eru þau ekki bara svo fínstillt vegna þess eins að með öðrum hætti geti það ekki verið? Hvaða þörf er á einhverjum vitrænum stillanda þarna. Og ef hann er nauðsynlegur (sem hann er ekki), þá hlýtur hann að vera jafnflókinn og fínstilltur og alheimurinn. Hver stillti stillandann?

Ef til vill er eitthvert eitt einfalt lögmál bakvið öll hin. Því er í það minnsta haldið fram hér. Það er einfaldlega ekkert sem kallar á ad hoc skýringar, þótt við þekkjum ekki svörin út í hörgul sem stendur. Og jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að á bak við allt stæði skapari er ekkert sem segir að sá skapari sé á nokkurn hátt í líkingu við þann sem lýst er í Biblíunni.

En annars ætla ég að taka þessa grein fyrir, bút fyrir bút hér á vefnum á næstunni. Sú fyrsta birtist væntanlega í kvöld eða á morgun.


Sindri Guðjonsson - 01/07/04 19:31 #

Birgir, ef þu ætlar að fjalla um þessa grein, þa þyrftir þu að kynna þer aðeins efni fleiri greina a þessum vef, (þ.e. godandscience.org), farðu aðeins i dalkinn ANSWERS TO ATHEISTS, EVOLUTION VS DESIGN, BIBLICAL CREATION ofl, til þess að vita nokkurnveginn hverju þessi vefur heldur fram, og hvar hann stendur, hverju Richard Deem truir, og hverju hann truir ekki...


Sigurður Ólafsson - 01/07/04 22:20 #

Ég held að þú hafir hitt naglann á höfuðið, Birgir, þegar þú spyrð hvort náttúrulögmálin geti yfirhöfuð verið með öðrum hætti en raun ber vitni. Þetta er lykilspurning þegar umrædd "fínstilling" kemur til álita. Er hægt að leiða að því rök að lögmál og fastar alheimsins geti verið breytileg frá einum alheimi til annars, fræðilega séð? Gengur slík eðlisfræði upp? Aðeins ef ef sá möguleiki er fræðilega fyrir hendi hefur spurningin um fínstillingu náttúrulögmála einhverja merkingu.

Richard Deem hafnar reyndar slíkum pælingum alfarið sjálfur (á vefsíðunni sem er til umræðu hér):

"What scientific evidence exists to support the multiverse model? None! Not only is there no evidence, the physics of our own universe requires that we will never be able to obtain evidence about any other universe (even if it does exist)."

Með þessu sé ég ekki betur en að hann skjóti sjálfan sig í löppina og kenningu sína í kaf um leið.

Ef aðeins einn alheimur er mögulegur, þ.e. sá sem við lifum í núna, og eðlifræðin segir okkur að þau lögmál sem í honum ríkja séu þau einu mögulegu, hvaða nauðsyn er þá að blanda "hönnuði" í málið?

Sé hins vegar fræðilega mögulegt að "teikna upp" óendanlega margar gerðir af heimum með hinar fjölbreytilegustu og ólíklegustu "blöndur" af náttúrulögmálum (ónáttúrulögmál?), þá vandast málið!


Snær - 02/07/04 00:02 #

Hvað varðar þessar fínstillingar, er ekki verið að eiga við það hvernig náttúrulögmál þessa alheims (sem gætu hugsanlega hafa orðið allt öðruvísi, og þá ólífvæn) styðja m.a. möguleika á lífi? En fyrst ekki er hægt að skoða alheim sem er öðruvísi en okkar (og gert væri ráð fyrir að myndi ekki styðja líf), hvernig er þá hægt að gera ráð fyrir því að hann styðji ekki líf af einhverri gerð, mögulega öðruvísi en sú sem við höfum kynni af?

Þessi síða gerir bara ráð fyrir því að líf eins og við þekkjum það sé eina tegundin af lífi, og að þar sem aðóstilltur alheimur myndi ekki styðja það, þá gæti það ekki verið til í neinu formi.

Svo minnist síðan líka á ólíkindin á því að alheimurinn yrði fínstilltur á þennan veg. Annars eru líkindin á liðnum atburðum alltaf 100%, ólíkt óliðnum framtíðarspám sem eru skapaðar með takmörkuðum upplýsingum.

Svo þykir mér alveg frábært hvernig hún heldur því fram að ef komist er að því að 95% eða yfir þeirra staðhæfinga Bibbu sem eru prufanlegar reynist réttar, væri ekkert rökréttara heldur en að gerast kristinn.

Þeir gera sér nefnilega ekki grein fyrir því að það er að öllum líkindum Bibba sem byggist á fólki sem byggir á raunveruleikanum. Og þá ekki að hún byggist hreint og beint á guði.

Endilega komið með einhverjar ábendingar ef ykkur þykir þetta ekki allt rökrétt hjá mér.

Og það er fleira sem væri skemmtilegt að rýna í, en ég hef í augnablikinu meiri áhuga á góðum nætursvefni, og fer þar af leiðandi að stunda það af alvöru. Núna.


Hreinn Hjartahlýr - 02/07/04 01:23 #

I hate to break it to you Sigurður og Sindri líka, þessar greinar hans Deem eru algjört krapp. Hefur ekkert með vísindi að gera og er óhemju heimskulega farið með tölfræði. Brandari nr. 1: Ultimately, if you find that 95% of the testable information in the Bible is true, you should become a believer. - Já, svo ef Biblían segir 95 sinnum að 2+2=4 og 5 sinnum að 2+2=42, þá á ég að trúa.

Brandari nr. 2: Tölfræðileg rök fyrir því að alheimurinn sé rosalega ólíklegur. Með sömu rökum getur þú fullyrt að enginn geti unnið í Lottó fyrir tilviljun. Sama hver það er, það var alltaf alveg ótrúlega ólíklegt að viðkomandi skyldi vinna.

Brandari nr. 3: Þetta fínstillingarbull. Í hvernig heimi væri ekki talað um "fínstillingu". Það er alveg sama í hvernig heimi við byggjum, það væri alltaf hægt að tala um ótrúlega fínstillingu.

Annars heldur maðurinn greinilega að eðlisfræðingar viti miklu meira en þeir gera og að stærðfræðijöfnur hafi miklu meiri merkingu en þær gera. Ahh, þá er nú gott að trúa ekki á eðlisfræði. (EÐLISFRÆÐI ER EKKI KLÖPPUÐ OG KLÁRUÐ, OG HÚN ER LAAAAAAAAAAAANGT FRÁ ÞVÍ)

Og hvers vegna í ósköpunum ætti ég að finna hjá mér þörf til að afsanna guð, ég hef nákvæmlega ENGA ástæðu til að trúa á hann hvortsemer.


Hreinn Hjartahlýr - 02/07/04 01:31 #

Og fyrir utan alltaf þetta skemmtilega atriði: segjum að ég samþykki að einhver skapari hafi hannað heiminn. Hvers vegna ætti það að vera Guð pabbi Jesúsar? Það eru fullkomlega óskyld mál. Er ekki líklegra að hönnuðurinn hafi sent okkur son sinn Bush sér til skemmtunar?

P.S. af hverju þarf Guð ekki að hlýða "náttúrulögmálunum"? Mér finnst það ekki sanngjarnt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/07/04 01:36 #

Jamm, ég ætla einmitt í fyrstu greininni að minnast á þetta einn á móti skrilljón líkindadót. En ég nenni því ekki í kvöld, heldur tek mér Snæ til fyrirmyndar.


Hreinn Hjartahlýr - 02/07/04 01:39 #

Haha, eins og venjulega get ég ekki hætt að hlæja. Tilvist heimsins er semsagt svo ótrúleg að hún gæti ekki verið fyrir tilviljun. Það er LÍKLEGRA að að baki standi yfirnáttúruleg vera. Já líkindareikningur dauðans segi ég, og spurning hverjar líkurnar séu á þessari yfirnáttúrulegu veru, er hún hönnuð eða varð hún til fyrir tilviljun eða hefur hún alltaf verið til eða er hún "fyrir utan tíma" og af hverju ekki þá fyrir utan heilbrigðs geðs eða bara fyrir utan gluggann.

Og ég skal hundur heita ef einhver lætur sannfærast af mér eða nokkrum öðrum hér inni.


Sigurður Ólafsson - 02/07/04 09:39 #

Þú verður að gera betur en þetta, Hreinn, það þjónar engum tilgangi að vera með skæting. Það er fjarri mér að verja hugmyndir Deems, en í þessu tilviki langar mig að gerast málsvari myrkrahöfðingjans, þar sem enginn annar virðist ætla að gera það hér :)

Brandari nr. 1: Ultimately, if you find that 95% of the testable information in the Bible is true, you should become a believer. - Já, svo ef Biblían segir 95 sinnum að 2+2=4 og 5 sinnum að 2+2=42, þá á ég að trúa.

Eins og Richard Deem bendir á, er þessi aðferð notuð víða í vísindum, enda ekki alltaf hægt að vinna út frá 100% vissu, sjá t.d. síðu þessa virta háskóla. Þau 5% sem gætu virst röng, segir Deem að stafi af rangri túlkun og þýðingum.

Brandari nr. 2: Tölfræðileg rök fyrir því að alheimurinn sé rosalega ólíklegur. Með sömu rökum getur þú fullyrt að enginn geti unnið í Lottó fyrir tilviljun. Sama hver það er, það var alltaf alveg ótrúlega ólíklegt að viðkomandi skyldi vinna.

Deem svara þessu líka og bendi á að hér sé um rökvillu að ræða. Undantekning sé tekin og túlkuð sem almenna reglan.

Brandari nr. 3: Þetta fínstillingarbull. Í hvernig heimi væri ekki talað um "fínstillingu". Það er alveg sama í hvernig heimi við byggjum, það væri alltaf hægt að tala um ótrúlega fínstillingu.

Hreinn, aðeins í þessum heimi getur nokkur talað, þar sem líf er ekki mögulegt í öðrum "heimum". Út á það gengur "fínstillingarbullið". Eins og Deem bendir á þarf ekki að aflaga lögmálin nema örlítið til þess að tilvist t.d. efnis verði ómöguleg!

...og spurning hverjar líkurnar séu á þessari yfirnáttúrulegu veru, er hún hönnuð eða varð hún til fyrir tilviljun eða hefur hún alltaf verið til eða er hún "fyrir utan tíma" og af hverju ekki þá fyrir utan heilbrigðs geðs eða bara fyrir utan gluggann.

Deem svarar þessu og bendir á að Biblían segi að Guð rúmist ekki í sköpunarverki sínu. Hann talar um að guð sem þurfi að lúta lögmálum alheimsins (eins og við) sé ólógískur. Frumaflið, Guð, standi því fyrir "utan" alheiminn og hafi alltaf verið til.


Hreinn Hjartahlýr - 02/07/04 11:00 #

Skæting, skæting, skæting... Ég kann nú ekki að ramma inn kvótin en ertu að meina þetta í alvörunni:

Eins og Richard Deem bendir á, er þessi aðferð notuð víða í vísindum, enda ekki alltaf hægt að vinna út frá 100% vissu, sjá t.d. síðu þessa virta háskóla. Þau 5% sem gætu virst röng, segir Deem að stafi af rangri túlkun og þýðingum.

Allt sem Deem segir um prósentur og öryggisbil er þvættingur. Það er ekki skætingur heldur staðreynd. Í vísindum er aldrei unnið út frá 100% vissu, það vita vonandi allir, en kemur málinu ekki við. En að taka texta eins og Biblíuna og segja að ef 95% prófanlegra fullyrðinga í henni reynist sannar þá eigi maður að trúa á guð og frelsarann er bara ekki á nokkurn hátt sambærilegt. Ef ein prófanleg fullyrðing stenst ekki í vísindalegri tilraun er henni HAFNAÐ. Enginn vísindamaður birtir grein þar sem 5% fullyrðinga eru rangar, reyndar dettur engum í hug að telja fullyrðingar á þennan hátt í vísindum. Og það er engin leið að meta líkindi þess að vísindaleg kenning sé rétt. Er afstæðiskenningin 95% sönn, skammtakenningin, þróunarkenningin? Þessar kenningar gefa lýsingar á heiminum sem koma að stórum hluta saman við það sem við sjáum. Ýmsar afleiðingar þeirra hefur ekki verið og er ekki hægt að prófa. ALLAR fullyrðingar sem skipta máli í Biblíunni eru ekki prófanlegar. Hver einasta. Hvað er eftir? Hvaða 95% er maðurinn að tala um? Eitt í viðbót sem vekur ekki bara grunsemdir heldur vissu fyrir því að hann veit ekki hvað hann er að tala um er að notar orðfæri úr tölfræði, eins og öryggisbil: I propose using the same standard that we use in science - the 95% confidence interval. Öryggisbil er bil á talnalínunni þar sem 95% líkindi eru á að rétt gildi tiltekinnar stærðar sé, að gefnum einhverjum mælingum og ákveðnum forsendur um líkindadreifingu mælistærðarinnar. Það sem hann er að tala um hefur álíka mikið að gera með öryggisbil í vísindum og Njála. Af hverju ekki að kalla ruglið rugl?


Hreinn Hjartahlýr - 02/07/04 11:05 #

Viðbrögð við brandara nr. 2 skil ég ekki. Ég er ekki að alhæfa um neitt, bara benda á að allt sem gerist er í einhverjum skilningi "mjög ólíklegt", það er svo margt annað sem gæti hafa gerst. Annars er þetta eiginlega óleyfileg notkun á líkindahugtakinu hjá honum. Það er ekki hægt að stunda líkindareikning án forsendna, eins og að hafa upplýsingar um fjölda mismunandi atburða sem gætu gerst. Þetta eru æfingar útí loftið.


Hreinn Hjartahlýr - 02/07/04 11:18 #

Fínstillingarbull er og verður fínstillingarbull. Hvaða analógía fær menn til að skilja það? Ef "náttúrulögmálin væru öðruvísi" (m.ö.o. ef heimurinn væri öðruvísi), þá væri hann líka "ótrúlega fínstillur". Við værum ekki hér til að tala um hann, kannski einhverjar annarskonar verur af allt öðru tagi úr allt öðru en við, eðlisfræði þess heims gersamlega öðruvísi, ólýsanlegur með öllu fyrir okkar huga. Samt ótrúlega fínstilltur.

Segjum sem svo að menn hefðu vængi. Þá mundum við skoða vængina og segja: þetta er ótrúlegt, hvílík nákvæmni. Líf okkar væri alveg vonlaust án vængja. Sjáið bara fínstillinguna í líkamanum, það má engu skeika, þá væru vængirnir gagnslausir. Og hvernig mundum við eiginlega komast af án vængja?


Sigurður Ólafsson - 02/07/04 11:19 #

Já, nú líkar mér við þig, Hreinn, þetta er allt annað! Þetta með skætinginn var kannski full vel í lagt hjá mér, kaldhæðni er líklega betra orð.

Ég er búinn að gera góðverk dagsins og nenni ekki að "verja" Richard Deem meira, en vonandi vill einhver annar gera það :)


Sindri Guðjonsson - 02/07/04 16:36 #

Snær, Hreinn, og fleiri, lesið nu meira en 1/3 af einni grein aður en þið farið að tja ykkur um Richard Deem eða þessa siðu!

"Finstillingar" eru ekki beinlinis aðal efni siðunar!


Snær - 02/07/04 19:10 #

Ég geri mér vel grein fyrir því, Sindri. Síðan kemur með marga áhugaverða punkta um það hvernig guð gæti hugsanlega komið heim og saman við þrautreynd vísindi, ef hann er þá til.

En þessar pælingar eru samt ekki skotheldar, og taka ekki í reikninginn vísindagreinar og aðrar mögulegar útskýringar á fyrirbrigðum sem eiga að styðja við tilvist guðs. Enginn hefur enn dregið út stórskotaliðið og reynt að skjóta síðuna í sundur, heldur höfum við hingað til einungis gert athugasemdir við örfáar staðhæfingar sem eru áberandi og okkur hefur ekki þótt tilkomumiklar.

Ef þú vilt fara nánar í þetta umræðuefni væri kannski tilvalið að fara að stofna þráð um þessa síðu á spjallinu. Hvernig líst þér á það?


Hreinn Hjartahlýr - 02/07/04 23:35 #

Þeir eru svo ótrúlega dipló hérna sem ráða ferðinni, en það er ég ekki og ætla því ekki að vera langorður eða "fyndinn", svo ég verði ekki settur í straff fyrir skæting.

Ég viðurkenni að hann Deem kom mér í gott skap í gær. Ég brosti og hló eins og þegar ég las Hitchhikers guide í annað skipti. En ekki meir, ekki meir, brandarinn þreytist. Deem á ekki skilið meiri lestur, hann klúðraði tækifærinu. En auðvitað er HÆGT að trúa þótt maður samþykki vísindin, það eru sumir vísindamenn trúaðir og allt í lagi með það. Vestrænir eðlisfræðingar eru sumir kristnir, japanskir fáir og pakistanskir sjálfsagt margir múslimar.

En þessi gervivísindatal eins og í Deem er alveg ómarktækt. Ég skora á Sindra og aðra að hugsa sjálfir um hlutina og trúa eigin augum. Alls ekki að taka mark á mönnum sem slá um sig með frösum úr eðlisfræði og stærðfræði sem maður skilur ekki alveg í botn. Þeir vita ekki sjálfir hvað þeir eru að segja.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.