Það hafa gerst söguleg tíðindi.
Snæbjörn lagði hér fyrir fáeinum vikum nokkrar spurningar fyrir þá presta og guðfræðinga sem skrifa á vefsetrið Annáll.is. Ein spurninganna var:
1: Hvers vegna trúið þið á Biblíuna?
Eru það leifar barnatrúarinnar? Ykkur hefur sem börnum líklegast verið kennt að trúa á guð og Biblíuna. Sem fullorðnir einstaklingar hafið haldið því áfram en ekki velt því fyrir ykkur hvort Biblían hafi eitthvað fram að færa fram yfir önnur trúarrit eða hvort þið séuð yfirhöfuð eitthvað betur settir með átrúnaði á hana.
Viðurkennið þið kannski öll hin trúarritin til jafns við Biblíuna og teljið goðafræði þeirra jafnréttháa goðafræði Biblíunnar?
Eða er það vegna þess að þið hafið að vel íhuguðu máli komist að því að Biblían er eina rétta trúarritið og að hin eru öll kjaftæði, sem ekki skal taka mark á. Guð Biblíunnar sé sá eini sanni og á hann verði að trúa því allir aðrir guðir eru falsguðir.
Það var ekki mikið um gagnmerk svör til að byrja með en loks tók glænýr guðfræðingur sig til og reit langt og ítarlegt svar á annálsvefinn. Þar rekur hann rækilega hvernig skilning menn leggja í Biblíuna til að viðhalda hugmyndakerfi því sem þeim var innrætt í æsku, en minna fer fyrir svörum við spurningunni hvers vegna.
Hann kemur þó inn á það með þessu hér:
Þótt Snæbjörn segi það ekki berum orðum má greina þá spurningu í skrifum hans hvernig standi á því að nokkur geti verið kristinn nú á tímum, eða með öðrum orðum hvers vegna menn aðhyllist ein trúarbrögð fremur en önnur. Fyrir því geta verið margar ástæður, m.a. félagslegar enda er enginn ónæmur fyrir umhverfi sínu. Ekki má þó gleyma því að trú manna tekur ávallt breytingum á lífsleiðinni enda kemst enginn hjá því að vega hana og meta að einhverju marki. Í raun er trú manna mótuð af margvíslegum hefðum, uppeldi þeirra, félagsskap og reynslu, en færa má félagsfræðileg rök fyrir því að heimsmynd manna, hver svo sem hún er, verði ávallt trúarleg.
[...]
Það sem skiptir öllu máli þegar menn fjalla um trúarbrögð annarra er að setja sig í spor hinna trúuðu og reyna að átta sig á því hvernig þeir skilja hlutina og vega þá og meta, t.d. með því að lesa sér til um það. Ef menn reyna það ekki, koma þeir tæpast til með að segja neitt af viti um viðkomandi trúarbrögð, sama hvað þeim finnst um þau.
Í þessum tveimur efnisgreinum kemur tvennt fram:
Menn aðhyllast það sem fyrir þeim er haft, enda enginn ónæmur fyrir umhverfi sínu.
Ekki er hægt að skilja trú nema reyna hana sjálfur eða gera sér far um að setja sig í spor þess sem trúir. M.ö.o: Þú hefur barasta ekkert vit á þessu.
Ég benti fljótlega á að svar guðfræðingsins er innihaldsrýrt þegar kemur að svarinu við spurningunni hvers vegna og svarið sé í raun af því bara. Og áfram héldu menn svo að afgreiða mál þannig að trú væri eitthvað sem hinn trúlausi geti ekki skilið.
En niðurstaða er komin í málið. Presturinn Skúli hefur gefið afdráttarlaust svar:
Skýringin er ekki byggð á skýrum rökum - ekki frekar en hvers vegna æskuvinir mínir eru þeir sem þeir eru. - Jú, svo vildi til að við gengum í sama barnaskóla og höldum tengslum enn þann dag í dag.
Biblían er með sama hætti eitt af því sem varð á vegi mínum í æsku - og hef ég bundist boðskap hennar tryggum böndum síðan.
Rétt eins og sumir karakterar hefur hún að geyma æði margt sem ég samsama mig með, felli mig við og skýri heiminn út frá.
Hér hefur íslenskur prestur játað það á sig að telja Biblíuna vera sannari en önnur trúarrit á þeim forsendum einum að hann ólst upp við hana. Á þeim forsendum einum leyfir hann sér svo að halda innihaldi hennar að auðtrúa fólki sem einhverjum stórasannleik og þiggja á einum tíma eða öðrum fyrir það föst laun frá ríkinu.
Engin haldbær rök hefur hann fyrir því að eitthvað sé sérstaklega vitrænt við innihaldið, eitthvað sé þarna að finna sem geri trúarbrögð hans marktækari en önnur eða réttmætara að ríkið reki fokdýra og fjölmenna stofnun til að halda þessu að fólki.
Ekkert. Eina svarið er af því bara.
Það eitt, út af fyrir sig, gerir allt hið kostnaðarsama vafstur þessarar stofnunar óásættanlegt.
Hvað rekur menn til að halda úti Vantrú.is? Skiptir það aðra einhverju máli? Er það kannski af sömu hvötum og menn halda úti trú, kirkju ..eða af því bara? Ég trúi Biblíunni bókstaflega vegna þess að öll gagnrýni á frásögu hennar hefur styrkt frásögn hennar en ekki rýrt. Ég trúi Biblíunni bókstaflega vegna þess að öll frásagan um Jesú Krist stenst gagnrýni. Ég trúi Biblíunni bókstaflega af því ég hef reynt sjálfur sumt af því sem hún greinir frá eins og bænasvör, innri frið sem húnn talar um og sannfæringu um tilganginn með lífinu. Er það ekki einhvar virði? Ég trúi Biblíunni af því að frá henni koma bestu lífgildi og reglur sem mannkyninu stendur til boða. Þar eru uppsprettur lífsins. Jesús er upprisinn. Snorri í Betel
"Ég trúi Biblíunni af því að frá henni koma bestu lífgildi og reglur sem mannkyninu stendur til boða. Þar eru uppsprettur lífsins."
Já svo sem eins og að kynlíf karlmanna hver með öðrum sé dauðasynd, að konur eigi ekki að tjá sig á frjálsum forsendum, að þrælahald sé hið besta mál, að galdrakonur skulu eigi lífi halda og þar fram eftir götum?
Snorri þú gætir haft gott af því að lesa þetta hér. Lestu þetta hægt og vandlega takk. Ekki bara hlaupa yfir það og dæma það síðan sem ógilt af því það rímar ekki við skoðanir þínar.
"Hvað rekur menn til að halda úti Vantrú.is?"
Vonin um að menn fari að ástunda sjálfstæða gagnrýna hugsun.
Birgir minn, ég las nefndan pistil og finnst margt undarlegt. Ég gæti svo sem gert málið langt og flókið en ætla ekki í það núna. Þrælahald er áhugavert atriði. Það er enn stundað. En þar sem Biblíutrú komst á var það aflagt. Segir það ekki eitthvað um áhrif Biblíunnar á lesendur hennar. Páll postuli ritar bréf til manns sem hét Fílemon. Efnið var um þræl sem gerðist kristinn eins og Fílemon og hvaða leið Páll benti þrælahöfðingjanum að fara til að virða þrælinn og gera hann að frjálsum manni. Gyðingarnir í Gamla Testamentinu héldu þræla en Móse gaf þeim reglur um meðferð á þeim og hve lengi þessir menn gætu verið þrælar. Staða verkamannsins eða launþegans í dag er ekki´mjög frábrugðin réttarstöðu þrælsins í Biblíunni. En á öðrum trúarheimum var staðan eins og lýst er í upphafi annarrar Mósebókar um þrælahald í Egyptalandi. Var ekki krafan sú að láta þrælana lausa? Varðandi kynvilluna þá þarf ekki að hafa mörg orð um það. Biblían er mjög skír á því að það telst synd og leiðir til dauða. Blasir það ekki þegar við hverjum sem vill sjá. Það er líka synd að halda framhjá. En hvernig stendur á því að kristinn einstaklingur er talinn hata homman ef hann talar um lífsmáta hans sem syndsamlegan en hann er ekki sagður hata manninn sem heldur grimmt framhjá konu sinni þó hinn kristni tali einnig gegn framhjáhaldinu? Er einhver búinn að koma rangtúlkuninni inn í hugarfarið?
Læt þetta duga núna. kveðja Snorri í Betel.
Ég ætla að leyfa mér að svara þótt spurningunum virðist beint til Birgis.
Þrælahald lagðist ekki af vegna þess að menn hafi tekið upp trú á Biblíuna. Þrælahald lagðist af þegar efnahagslegar aðstæður gerðu það óhagkvæmt að halda þræla. Þegar verkmenning komst á ákveðið stig lagðist eiginlegt þrælahald víðast hvar af og við tók aðalsveldi með bændaánauð. Rússar voru þrælkristnir meðan bændaánauðin þar var í algleymingi og sama má segja um Bandaríkjamenn fyrir þrælastríðið – þrælkristnir. Þrælahald þekktist meira að segja á Íslandi fram á Sturlungaöld.
Biblían segir mönnum hvernig þeir eigi að fara með þrælana sína, en hún gefur ekki fyrirmæli um að þrælahald sé rangt í sjálfu sér, eða hvað? Ef mér skjátlast ekki, þá segir hún að trúbræðrum og –systrum skuli ekki haldið í ánauð. Einn gyðingur skal til að mynda ekki þrælka annan gyðing eða kristinn maður annan kristinn mann.
hvernig stendur á því að kristinn einstaklingur er talinn hata homman ef hann talar um lífsmáta hans sem syndsamlegan ... ?
Málið er bara, að sumir geta ekki þolað öðrum að þeir séu öðruvísi, að þeir aðhyllist önnur trúarbrögð, séu öðruvísi á litinn eða ástundi annan lífsstíl. Það er ekkert annað en fyrirsláttur að barátta gegn samkynhneigð sé vegna fyrirmæla gvuðsa. Barátta gegn samkynhneigð er háð vegna fordóma gagnvart samkynhneigð og gvuðsi er notaður sem átylla eða afsökun fyrir því að koma fordómum sínum í verk. Lóðið er nefnilega að það er ekkert að samkynhneigð í sjálfu sér. Hvað kemur það þér við að hvoru kyninu annar maður laðast? Það bíður enginn tjón af því að vera samkynhneigður.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Skúli - 18/06/04 10:14 #
Hérna. er aðeins meira svona "af því bara".