Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristnin á réttri leið

Það er athyglisvert að sjá þessa færslu Skúla S. Ólafssonar prests á Annálavefnum góða. Svo virðist sem gagnrýnin guðfræði sé nú öllu að umturna innan hins evangelíska lúterska kristindóms kristindómsins.

Sérstaklega er það grein John Shelby Spong sem er athyglisverð:

"Kristur reis ekki upp frá dauðum í orðsins fyllstu merkingu", segir hann, "heldur var nærvera hans svo sterk að lærisveinarnir fundu hana eftir krossfestinguna."

Það eru fréttir til næsta bæjar ef lúterskir ná að þurrka þarna út megininntak kristindómsins, að Jesús hafi risið upp frá dauðum, en ætla það samt sem áður að trúarbrögð þeirra lifi. Spong gerir það þó með þessum furðulega hætti:

Biblían stendur fyrir sínu [...] ég trúi því að Guð sé raunverulegur og hafi opinberast í Jesú Kristi." Að hans mati snýst kristnin um þetta þrennt: Að hvert mannslíf sé heilagt, að Jesús segi okkur að hvert mannslíf á þessari jörðu sé umvafið kærleik og að hvert mannslíf hafi þá köllun að verða allt sem það getur orðið. Allt sem hamlar gegn þessu er illt.

Merkilegt. Þarna er maðurinn búinn að hafna Jesú sem hinum upprisna, en heldur samt sem áður fram að Guð hljóti að vera til og hafi opinberast í þessum dauðlega manni. Svo koma þrjú atriði sem núna eru allt í einu orðin inntak kristninnar:

  1. Hvert mannslíf er heilagt - mjög húmanískt, en ekki alveg í anda gömlu kristninnar sem drap og brenndi alla þá sem óðu villu að hennar mati.

  2. Hvert mannslíf er umvafið kærleik - hvað á hann við? Guðlegan skilyrðislausan kærleik? Er slík trú ekki til vansa, ef hún reynist vera röng? Væri ekki réttara að hvetja alla menn til að sýna öðrum mönnum kærleiksþel svo að þessi umvafði kærleikur hverrar manneskju verði raunverulega til staðar?

  3. Hvert mannslíf hefur þá köllun að verða allt það sem það getur orðið - er ekki þarna bara verið að lýsa manneðlinu? Erum við ekki flest öll að reyna að þokast í átt að mesta hugsanlega þroska, kannski fyrir utan þá sem búnir eru að festa sig í neti fíkniefna, eða eru siðblindir að upplagi? Af hverju þarf þetta að vera einhver æðri köllun eða yfirnáttúrleg krafa?

  4. Allt sem hamlar gegn þessu er illt - illt á hvaða hátt? Í eðli sínu illt, illt fyrir mannlegt samfélag eða komið frá Djöflinum? En ef þetta er rétt er sú kristni sem fer í stríð við múslima ill. Sú kristni sem brennir fólk á báli er þá ill. Sú kristni sem innrætir hindurvitni á borð við að Jesús hafi stigið upp til himna er þá ill, því hún heldur fram staðlausum stöfum og rænir hinum auðtrúa hugsanafrelsi sínu.

En kristnin er auðvitað í framför. Öflugar guðfræðideildir hafa í seinni tíð náð að þoka þessu ömurlega hindurvitnakerfi í þann farveg að næstum er hægt að kalla lúterska menn húmanista. Um leið og þeir hætta að boða tilvist Guðs og auðmýkt við hann eru þeir útskrifaðir sem háþroskaverur.

Við hlökkum til þeirrar stundar. En þangað til er þess virði að velta fyrir sér öllum þeim breytingum sem orðið hafa á kristindóminum frá upphafi vega. Kristni dagsins í dag á Íslandi er allt önnur en sú kristni sem miðaldaprestar boðuðu. Í ljósi Krists (sem guðfræðingar nútímans hampa) hlýtur því kristnin gegnum aldirnar að hafa verið röng trúarbrögð.

Þá má spyrja: Eru þeir búnir að ná þessu réttu núna? Eða er kannski bara ekkert vit í hugmyndakerfinu hvernig sem snúið er upp á það? Væri ekki bara nærtækast að dömpa þessu ranghugmyndum alveg og taka í stað þess upp siðrænan húmanisma?

Birgir Baldursson 16.06.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 16/06/04 00:29 #

Hmmm .... Spong þessi er reyndar ekki lútherskur heldur í biskupakirkjunni.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/06/04 03:17 #

Úbbs, mín mistök. En skoðanir hans ríma vel við þróun mála í nútímaguðfræði.


Frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 16/06/04 11:36 #

Kirkjan er ekki á rétti leið samanber kenningar hennar: http://www.kirkjan.is/?trumal/kenning

En ég vona að einstaka guðfræðingar innan hennar séu að fóta sig í rétta átt. Því ber að fagna og vonandi mun einhver prestur rísi upp gegn hindurvitnum íslensku kirkjunar.


Helgi - 16/06/04 12:50 #

"en ekki alveg í anda gömlu kristninnar sem drap og brenndi alla þá sem óðu villu að hennar mati."

Það er ekki mjög málefnalegt að fjalla um Kristni útfrá ofbeldi veraldlegrar valdastofnunnar sem kaþólska kirkjan var á miðöldum. Menn sem virkilega voru Kristnir, eins og t.d. Wycliffe, voru ofsóttir af Kaþólsku kirkjunni. Jesús hefði líka verið það, og þá er ekki mikil Kristni eftir.

Má þá ekki líka dæma guðleysi útfrá einu mynd guðleysisstjórnunar sem við þekkjum, kommúnisma? Þegar maðurinn útilokar allt sem heitir Guð og gerir sjálfan sig að Guði fer ekki vel.

Það eru ekki allir Kristnir sem kalla sig Kristna. Ef þú ætlar að tala um Kristni með því að líta til sögunnar verðuru að líta til frumkristninnar til að geta talað um hina "gömlu" Kristni, hina "upprunalegu". Það var ekki mikið um ofbeldi þar.

Ég get ekki séð að fólk sem trúir ekki á Guð sé eitthvað "háþróaðra" en annað fólk, mér finnst ég greina pínu húmanískan tón í skrifum þínum, hefurðu skoðað hversu mikið hjálparstarf er unnið af fólki sem er Kristið og trúir samt á upprisu Jesú Krists? Ekki bara í dag, heldur í gegnum söguna. Eitt af því fyrsta sem trúboðar hafa gert er t.d. að útbúa skóla og spítala. Hversu oft er það gert í nafni guðleysis?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/06/04 16:18 #

Prófaðu að líta á málin eins og ef um sjúkdóm væri að ræða. Trúin sjálf væri þá sjúkdómurinn, trúarástundunin sjúkdómseinkennin og boðunin smitleiðin. Illvirki kirkjunnar hljóta í þessu samhengi að partur af sjúkdómseinkennum þessarar sýki. Auðvitað er það krabbameininu að kenna ef þú missir hárið. Og auðvitað er það kristinni trú að kenna ef menn pynta og brenna þá sem ekki láta "sýkjast".

Þessi viðbjóður átti sér stað vegna kristinnar trúar, en ekki þrátt fyrir hana.

Má þá ekki líka dæma guðleysi útfrá einu mynd guðleysisstjórnunar sem við þekkjum, kommúnisma?

Stjórnartíð Stalíns á reyndar lítið skylt við kommúnisma eins og hann var settur fram. Og þetta stjórnarfar hans gekk engan veginn út á að boða trúleysi þótt starfsemi kirkjunnar hafi verið haldið niðri. Alræði Stalíns var sjúkdómurinn þarna, ekki trúleysið.

Þegar maðurinn útilokar allt sem heitir Guð og gerir sjálfan sig að Guði fer ekki vel.

Þetta verðurðu að rökstyðja. Hver segir að með því að útiloka allt sem heitir Guð geri maður sjálfan sig að slíkum? Þú virðist halda að það sé eðlileg afleiðing af guðleysi en þetta er einfaldlega rangt hjá þér.

...mér finnst ég greina pínu húmanískan tón í skrifum þínum...

Bara pínu? Ég þarf þá að vera berorðari um húmanískar hugsjónir mínar :)

Og gamla hjálparstarfsargúmentið já? Ef þetta fólk nýtti ekki tækifærið og kristnaði alla sem það hjálpar gæti ég borið fulla virðingu fyrir þessu. Þetta eru sálnveiðar.

Ég bendi á Rauða krossinn sem dæmi um hjálparstarf þar sem ekki er reynt að kristna menn. Og lækna án landamæra. Og eflaust eru ótal fleiri. Trúarbrögð er víðsfjarri í starfi þessara stofnana.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 16/06/04 17:59 #

Hmm... ég hef líka verið kallaður húmanisti, í niðrandi merkingu þess orðs. Ætli krysslingar almennt álíti húmanisma vera af hinu illa, eða kannski bara kjánaskap? Annars finnst mér þú ekki hitta alveg í mark, Birgir, ef þú segir að kristni sé um að kenna allt (eða flest) sem hefur verið framkvæmt í nafni hennar. Kristni er ekki nema tæki í höndum valdastéttarinnar og kirkjan hefur þjónað hennar hagsmunum meira og minna frá árinu 312. Þetta er eins og að segja að það sé hamrinum að kenna ef smiðurinn lemur sig á puttana með honum. Ég er ekki að taka upp hanskann fyrir kristni, en við verðum að passa okkur að setja ekki í ógáti upp "strámenn" sem eru síðan tættir í sundur; misgjörðir miðaldakaþólikka eða annarra eru ekki kristninni að kenna, þær eru þeim að kenna sem stóðu að þeim. Kristni var verkfæri, farartæki, leiðarhnoð til ógæfuverka, en ekki völd að þeim sem slík. Ennfremur má segja að kristninni sé ekki 100% um að kenna, þar sem hún er ekki síður afleiðing en orsök vandamála. Ég meina, samfélag sem byggir á efnahagskerfi sem er óréttlátt og firrt í eðli sínu getur af sér fólk sem er óréttlátt, firrt og máttlaust, sem býr við þannig skilyrði að það þarf á því að halda að hafa hönd að halda í, þótt hún sé ímynduð.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/06/04 21:46 #

Þegar menn pynta og brenna galdrakonur er það vegna þess að eitthvað stendur í trúarritinu sem réttlætir það. Ef það stæði ekki þar myndu menn ekki gera þetta. Og það er alfarið þessu sama trúarkerfi um að kenna ef menn byrja að pynta og brenna alla þá sem eru byrjaðir á að afsanna heimsmynd þess. Ef trúin hefði ekki verið fyrir hendi myndu menn ekki hafa framið þessa viðurstyggð. Svo einfalt er það nú bara.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/06/04 21:56 #

Mistökin sem þú gerir, Vésteinn, með því að líkja trúnni við hamar í höndum smiðs, eru þau að ef þetta tvennt væri sambærilegt ertu um leið að segja að trúin sé gagnlegt tæki á einhvern hátt, þótt menn slái á puttana á sér stöku sinnum. Hamar er gagnlegt tæki, trúin ekki.

Sjáðu til, ef ég segði: Hamrinum er um að kenna, ef enginn væri hamarinn myndu menn ekki meiða sig á puttunum, væri ég að fremja heimskupör, því ég væri að leggja til að hömrum yrði varpað fyrir róða. En þar sem ég veit að þú ert sammála mér um að enginn skaði yrði af því að varpa kristninni (og öðrum trúarbrögðum) fyrir róða, hlýturðu að sjá að þessi líking á ekki við.

Hvað finnst mönnum annars um nýyrðið hálmari um straw man?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 17/06/04 16:40 #

Ég er ekki að gera mistök með þessu, kristni og önnur trú GERIR nefnilega gagn í vissum skilningi. Hún auðveldar valdastéttinni að halda völdum. Á sama hátt og ýmis önnur tæki, og ber þar fyrst að nefna ríkisvaldið. Ríkisvaldið er óþarft fyrir þann sem hefur ekki stórfelldra hagsmuna að gæta. Hagsmuna sem hann óttast að verði ógnað. Kirkjan er hagsmunahundur fyrir valdastéttina. Árið 312 sórust þær í fóstbræðralag, rómverska valdastéttin og kirkjan, og það fóstbræðralag hefur varað fram á þennan dag þótt það hafi skipt um svip oftar en einu sinni eins og gerist í hagsmunapoti.

Bænin er stuna í píndu dýri sem er mannskepnan. Öryggisventill fyrir tilfinningar sem mundu reynast auðvaldinu illar viðureignar ef þær fengju sína eðlilegu útrás. Ef þú, aðalsmaðurinn Birgir, kúgar mig, ánauðarbóndann Véstein, hvað á ég þá að gera? Ég hef um tvennt að velja: Ég get tekið mér heygaffal í hönd og stormað kastalann þinn ásamt hinum fórnarlömbum þínum, eða ég get kjökrað í skriftaklefanum hjá skilningsríkum presti, beðið mig í svefn um kvöldið og svo huggað mig við að eftir dauðann fái ég laun fyrir hvað ég er dyggðugur og þú makleg málagjöld fyrir þjösnaskapinn. Það eru tvær leiðir, önnur er djörf, beinskeytt og ræðst að rótum vandans, en einnig stórhættuleg - fyrir okkur báða. Hin leiðin, leiðin sem trúin býður mér, er áhættulaus og hún friðþægir hinn kúgaða í stað þess að leysa úr vandamálunum.

Þetta er gagnið sem trúin gerir. Hún gerir valdastéttinni gagn. Þegar ég líki henni við hamar er það kannski vond líking. Réttara væri að líkja henni við svipu eða lurk. Eftir stendur að sá veldur er á heldur. Guns don't kill people, people kill people, eins og sagt er. Það er ekki við svipuna að sakast þótt hinn píndi fái hana í mjóhrygginn eða iljarnar, er það?

Þetta er ástæðan fyrir því að valdastéttin otar tota trúarbragðanna og lítur á þau með velþóknun. Þau eru hið gagnlegasta tól til að halda okkur hinum í skefjum. Minnstu þess bara þegar hann Jóhannes okkar var að vitna í Pál postula og guð og fleiri snillinga til að sýna fram á að hinn kristni maður ætti að hlýða réttkjörnum yfirvöldum vegna þess að þau væru jú yfirvöldin og þannig. Það er í sjálfu sér alveg það sama og þegar menn eru "dei gratia rex" eða "servus servorum dei" eða þvíumlíkt. Valdið er afsakað með vísunum í Biblíuna.

Hina hliðina á þessu má ekki hjá líða að minnast á: Hvers vegna er fólk móttækilegt fyrir þessu bulli til að byrja með? Svarið er: Mannleg firring er skilgetið afkvæmi hinnar gegndarlausu firringar í efnahagskerfinu, framleiðsluöflunum og framleiðsluafstæðunum. Þegar maðurinn hefur brotið af sér fjötra náttúrunnar með vísindunum og fjötra samfélagsins með öreigabyltingu, þá getur hann komist á það stig að verða fullnægður andlega og losna við alla þörf fyrir goðmögn. Maðurinn getur því aðeins "raungert" sjálfan sig, að hann búi í samfélagi þar sem framleiðsla lífsbjarganna er ekki firrt og samskipti manna eru ekki firrt heldur.

Það er m.ö.o. firringin sem gerir menn móttækilega fyrir kennivaldslegum trúarbrögðum. Hvernig efnisleg firring og andleg firring haldast í hendur og hvernig maðurinn firrir sig eiginleikum sem eru, þegar öllu er á botninn hvolft, ekkert annað en hann sjálfur. Hvernig hann t.a.m. persónugerir hið góða og illa sem eitthvað framandlegt, þegar í rauninni er það hvergi að finna nema í manninum sjálfum. Tilfinningin um "guðlega nærveru" eða "guð kom yfir mig" er ekki tengd neinum guði. Þessi tilfinning á mannleg og á sér mannlegar orsakir. Einu sinni var mér sagt að það væri ekki hægt að útskýra þessa tilfinningu fyrir þeim sem hefði ekki upplifað hana sjálfur, það væri eiginlega eins og að reyna að útskýra fullnægingu fyrir barni, sem er ekki hægt. Sú líking er ekki svo galin: "Guðleg nærvera" er ekki alveg óskyld fullnægingu: Hún er bara tilfinning sem maðurinn getur framkallað. Það, að búa til einhvern karakter (guð) í kring um þessa tilfinningu er jafn fráleitt og að búa til karakter í kring um fullnægingu ("Fullnægingarmóri" eða "fullnægingarálfur" - hljómar skerí, huh? >:D ).....

"Hálmari" finnst mér ágætt orð fyrir okkur sem vitum um hvað er verið að tala, en hrekkur of skammt þegar ókunnugir eru með í spjallinu. Hvers vegna ekki bara "fuglahræða"?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 17/06/04 16:55 #

Því má svo reyndar bæta við, að hvað sem líður tauti eða rauli um hlutverk trúarinnar, um trúna sem verkfæri, um löngun eða hvatir manna til að trúa eða annað, þá stendur þetta eftir: Trú skapast ekki aðeins af firringu, hún veldur firringu og elur á henni. Á þeirri vígstöð sem trúin þykist geta leyst úr vandamálum sem við stöndum frammi fyrir ("Máría! Dreif þú smyrsl á sárin.") - gerir hún einmitt þveröfugt, þar sem hún hlúir að firringunni og eykur hana ef eitthvað er. Engin trú getur nokkru sinni leyst hnút mannlegrar firringar. Það liggur í hlutarins eðli að það er ekki hægt. Ekki frekar en maður getur togað sjálfan sig upp úr kviksandi á hárinu. Trú leiðir af firringu og hún leiðir af sér firringu og hún er firrt. Auk þess gerir hún okkur sem stöndum utan valdastéttarinnar mikið og beint ógagn með því að slá ryki í augu okkar, blekkja okkur og draga úr okkur tennurnar. Napóleon Bónaparte orðaði það ansi vel, þegar hann sagði "Guð er eina ástæðan fyrir því að þeir fátæku drepa ekki þá ríku." Ef trú er ekki frumorsök vandamála heldur rökrétt afleiðing sögulegrar nauðsynjar, hvernig get ég þá verið á móti trú? Hvernig get ég verið á móti einhverju sem er bara fylgikvilli stóra kvillans, sem er óréttlátt efnahagskerfi kapítalismans? Það er ég vegna þess að þrátt fyrir allt er trú ekki óhjákvæmileg, augu manna geta opnast og skilningur manna batnað. Trúin er ekki vélrænni en það. Trú er fölsk lækning við alvöru kvilla. Kvillinn er sá að við erum firrt og óhamingjusöm, okkur finnst eitthvað vanta í okkur og við berum skarðan hlut frá borði í efnahagslífinu. Ekkert af þessu megnar trú eða kirkja að bæta fyrir í alvörunni. Hún getur látið það virðast léttbærara, hún getur friðþægt okkur, hún getur látið okkur sætta okkur við hlutskiptið í stað þess að breyta því. Hún gerir okkur, með öðrum orðum, hið rammasta ógagn og því fyrr sem hún er upprætt úr hausnum á fólki og hent þangað sem hún á heima - á forngripasafn - þess betra!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/06/04 17:49 #

Verkfæri valdastéttarinnar segirðu. Þetta er auðvitað alveg hárrétt mat. En setjum sem svo að þetta verkfæri sé hvorki hamar né lurkur eða svipa, heldur baktería sem látin er smita menn. Þá virkar líking mín alveg, því í krafti þess að veikjast af sjúkdómnum byrja menn að hegða sér afkáralega og jafnvel ófriðlega. Þessi sýki er nefnilega þess eðlis að sjúklingurinn hamlar með öllum ráðum á móti því að hún sé upprætt.

Við skoðum þetta bara frá ólíkum sjónarhóli. Þú notar hið félagslega samhengi, ég skoða þetta út frá einstaklingunum sjálfum.

En báðir erum við á því að með því að uppræta sjúkdóminn (verkfæri valdastéttarinnar) komumst við fyrir einkennin.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 17/06/04 20:32 #

Jæja, ef við notumst við líkinguna við sjúkdóm, þá má segja að þetta sé sjúkdómur sem valdastéttin hafi hagsmuni af að dreifa. Ef við viljum líta þannig á málið. Sýklavopn, kannski. Á einstaklingsbasis, jamm, sjúkdómur er ein líking, en tölvuvírus er kannski betri? Ég meina, trúarbrögð rugla í okkur stýrikerfinu ef svo má segja. Alla vega, með tilliti til þessa er veikleiki í okkar andlega ónæmiskerfi svo þessi sjúkdómur á greiða leið að svona mörgum okkar. Þessi veikleiki í ónæmiskerfinu - svo ég noti þá líkingu - á sína ástæðu, sem er téð firring mannsins í firrtu samfélagi og firrtu efnahagskerfi. Þannig að veikleikinn er áfram til staðar. Það er kannski hægt að lækna marga einstaklinga af þessum sjúkdómi, en alvöru sigur er fólgin í engu minna en því, að þessu gati í virkisveggnum sé lokað. Guðir munu halda áfram að ásækja mannkynið svo lengi sem veikleikinn er fyrir hendi, það er að segja firringin. Firringin verður best leyst með því að bylta samfélagsforminu og efnahagskerfinu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/06/04 21:13 #

Sammála því, en hefur það ekki að einhverju leyti gengiði í gegn nú þegar? Mér finnst skoðanir þínar taka mið af einhverri miðaldaþjóðfélagsskipan þar sem kirkjan réði öllu.

Í dag búum við að einhverri lýðræðisnefnu og öll veraldleg völd eru úr höndum klerkanna. Og eftir stendur því kristindómurinn í hugum manna sem fullkomin tímaskekkja og hægt að losa sig við hann úr hausnum á sér með einfaldri gagnrýninni hugsun (hún er leyfð).


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/06/04 19:27 #

Kirkjan er ekki á rétti leið samanber kenningar hennar: http://www.kirkjan.is/?trumal/kenning

Sé það núna að ég geri þau reginmistök í yfirskrift þessa pistils að rugla saman kirkju og kristni. Breyti titli greinarinnar hér með.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 19/06/04 01:04 #

Ég veit ekki hvort ég er að eigna kirkjunni of mikil áhrif - eiginlega vona ég að ég sé að því. Hvað sem því líður er fjöldi fólks sem er alls ekki reiðubúið að samþykkja, að æðri máttarvöld séu bara bull. Mér finnst það, þér finnst það, en hvað með allan þennan fjölda sem trúir á miðla og framliðna og drauga og marbendla og hvaðeina? Og hvað með allar þessar villuráfandi sálir sem ennþá halda í galdrafuglahræðuna hann Éhóva? Þótt kirkjusókn sé lítil er ég ansi hræddur um að mjög margir séu ennþá illa haldnir af bakteríu valkvæmrar hugsunar, af fordómum og hjátrú - sem oftar en ekki er alið upp í fólki strax í bernsku - og loks er fólk það firrt að það er með þessa "holu í sálinni" sem kirkjan þykist geta fyllt eða leitast við að fylla en getur, eðli málsins samkvæmt, aldrei fyllt - nema hún fyrst fari að boða díalektíska efnishyggju, afneiti gvuðsa og skeri upp herör gegn valdastéttinni!


Sigurður ólafsson - 21/06/04 12:48 #

Kirkjan er hagsmunahundur fyrir valdastéttina.

Á þetta endilega við í nútímanum, Vésteinn? Hér á landi t.d. eru Kirkjunar menn eru of á tíðum upp á kant við valdamenn eins og dæmin sanna :)

En hvað um það, ég vissi ekki að svona stækur kommúnismi væri til lengur, nema þá helst uppstoppaður á söfnum :) Þú hlýtur að vera að grínast, Vésteinn! Margar tilraunir með alræði öreiganna voru gerðar á síðustu öld og ekki þarf að fjölyrða um árangurinn. Kapítalisminn hefur gjörsigrað. Sjáið bara Ísland í dag þar sem pólitíkin einkennist öðru fremur af baráttu milli tveggja fylkinga, gömlu kapítalistanna annars vegar og nýríku kapítalistanna hins vegar. Það er ekkert til lengur sem heitir stéttabarátta.

Annars langaði mig bara að koma því á framfæri að margir hægri menn eru trúleysingjar, t.a.m. sá sem þetta ritar. Og ekki veitti af að rétta þá vinstri slagsíðu sem oft einkennir skrifin á þessum annars ágæta vef :)


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 22/06/04 04:56 #

Hlutverk kirkjunnar í hagsmunabaráttunni er óneitanlega miklu minna núna en það var fyrir ekki svo löngu síðan. Það breytir því ekki að hlutverk hennar er í eðli sínu hið sama, að slæva eldmóðinn í fólki. Þegar það gerist, að kirkjunnar menn séu upp á kant við aðra valdamenn, sem vissulega hendir, er það ekki vegna þess að kirkjan sjálf sé framsækið byltingarafl eða eitthvað. Kirkjunnar menn eru eins misjafnir og þeir eru margir og ekkert óeðlilegt að þeir, eins og aðrir, lendi öðru hvoru upp á kant við fólk. Kirkjan sem slík hefur oft deilt hatrammlega við valdamenn, en það hefur ekki verið annað en hluti af innbyrðis baráttu valdastéttarinnar, þar sem ein samfélagsstofnun tekst á við aðra. Kapítalisminn hefur yfirhöndina sem stendur, en innbyggðar mótsagnir hans gera það að verkum að hann ber eigin feigð í skauti sér. Átök tveggja fylkinga kapítalista á Íslandi samtímans er ein af þessum mótsögnum. Stéttabaráttan hættir ekki að vera til fyrr en hún hefur verið leidd til lykta. Þótt það beri ekki mikið á henni á yfirborðinu er hún til engu að síður og kraumar undir, auk þess sem hún blasir við erlendis.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 22/06/04 10:29 #

Annars langaði mig bara að koma því á framfæri að margir hægri menn eru trúleysingjar, t.a.m. sá sem þetta ritar. Og ekki veitti af að rétta þá vinstri slagsíðu sem oft einkennir skrifin á þessum annars ágæta vef :)
Nokkrir vantrúarpennar, þ.m.t. undirritaður, værum væntanlega skilgreindir sem hægrimenn, hér eru ekki bara kommar ;-) Við höfum aftur á móti hægt um okkur, viljum ekki blanda saman um of umræðu um stjórnmál og trúmál.
Stéttabaráttan hættir ekki að vera til fyrr en hún hefur verið leidd til lykta.
Meö öðrum orðum, hún hættir aldrei að vera til.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.