Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Úlfur í sauðagæru

Í Fréttablaðinu síðasta laugardag var eftirfarandi frétt undir liðnum Fréttir af fólki.




Tom Cruise hefur opnað sérstaka læknastofnun fyrir þá sem lögðu líf sitt í hættu til þess að bjarga fólki undir rústum Tvíburaturnanna eftir hryðjuverkin 11. september 2001. Margir þeirra komust í snertingu við hættuleg efni sem eru enn að skaða heilsu þeirra. Þetta finnst leikaranum hræðilegt og vill að hetjurnar fái þá meðferð sem þeir eiga skilið. Talað er um ,,9/11 sjúkdóminnn'' á meðal þeirra björgunarmanna sem þjást líkamlega vegna efna eftir björgunaraðgerðirnar.

Þetta hljómar ósköp vel, öðlingurinn Tom Cruise ákveður að aðstoða hetjurnar af einskærri góðmennsku. Ef meira væri af svona fólki væri heimurinn betri staður. Eða hvað?

Skoðum málið aðeins betur. Tom Cruise, maðurinn með milljón dollara brosið er nefnilega ekki allur þar sem hann er séður. Það vita það kannski ekki allir en Tom Cruise er félagi í afskaplega vafasömum sértrúarsöfnuði og þegar betur er að gáð er það sértrúarsöfnuðurinn sem stendur á bak við læknastofnunina.

Að sjálfsögðu eiga sér ekki stað neinar hefðbundnar lækningar heldur verður beitt kukli og heilaþvotti til að laða fólk að Vísundarkirkjunni (enska: Church of Scientology). Vísundarkirkjan var stofnuð á sjötta áratug síðustu aldar af Vísindaskáldsöguhöfundinum L. Ron Hubbard. Haft er eftir Hubbard ,,það er út í hött að skrifa fyrir smápening. Besta aðferðin til að græða milljónir er að stofna trúarbrögð''. Hubbard hafði rétt fyrir sér, Vísundarkirkjan hefur á nokkrum áratugum auðgast gríðarlega þrátt fyrir að vera ekkert sérstaklega fjölmenn. Allmargar Hollywood stjörnur og aðrir auðmenn eru félagar og greiða meðlimir safnaðarins ótrúlegar upphæðir fyrir að ganga í gegnum námskeið sem eiga að þroska þau og færa nær fullkomleika.

Vísundarkirkjan er stórvafasamur félagsskapur og hafa þeir beitt svívirðilegum aðferðum við að berjast gegn andstæðingum sínum í gegnum tíðina. Persónunjósnir, upplognar ásakanir og falskar ákærur er meðal þess sem Vísundarkirkjan hefur beitt gegn gagnrýnendum hennar. Þrátt fyrir að komið hafi í ljós að Vísundarkirkjan hafi stolið gögnum skattyfirvalda og mútað starfsmönnum fékk hún fyrir nokkrum árum stöðu sem viðurkennt trúfélag og nýtur skattfríðinda. Þessi viðurstyggilegi sértrúarsöfnuður beitir klassískum aðferðum á meðlimi sína og heilaþvotturinn er gegndarlaus.

Þó vel gangi í Bandaríkjunum hafa nokkur ríki Evrópu sem betur fer séð í gegnum skrumið og beitt aðgerðum til að koma í veg fyrir að glæpasamtökin nái að festa rætur. Í Frakklandi njóta samtökin ekki viðurkenningar og í Þýskalandi er meðlimum bannað að gegna opinberum störfum. Ástæðan er einföld, Vísundarkirkjan reynir allsstaðar að komast yfir opinber gögn til að beita í starfi sínu. Aðgerðir Þjóðverja voru því fullkomlega eðlilegar þrátt fyrir töluverða gagnrýni.

Sem betur fer hefur lítið borið á þessu hyski hér á landi, einhverjir einstaklingar hafa þó haft reynslu af starfinu og eitthvað tjáð sig á spjallþráðum á netinu. Það væri áhugavert að sjá hvort háværustu talsmenn umburðarlyndis hér á landi myndu berjast fyrir rétti þessa lýðs ef þær reyndu að ná fótfestu hér, en ég vona að það gerist aldrei.

Frétt BBC um málið.
Nánari fróðleikur um Vísundarkirkjuna

Matthías Ásgeirsson 15.06.2004
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Hr. Pez - 15/06/04 10:27 #

Mér hefur löngum þótt sem Vísindakirkjan sé rangnefni eða rangþýðing á heiti þessa sértrúarsafnaðar, þar sem starfsemi hans hefur ekkert með vísindi að gera (og það að hafa vísindi og kirkju í einu og sama orðinu er þversögn í sjálfu sér). En þótt það geti verið skondið þá greiðir það ekki úr vandanum til langframa að snúa bara út úr því nafni sem búið er að festa við söfnuðinn. Fyrri liðurinn, Scient-, er kominn af latneska orðinu scientia, fyrir þekkingu, vísdóm (sbr. reyndar vísindi) eða upplýsingu, meðan endingin -speki í íslensku máli ætti kannski ágætlega við ensku endinguna -logy (sbr. stjörnuspeki - astrology). Svo söfnuðurinn ætti kannski frekar að kallast eitthvað í líkingu við Skilningsspekikirkjuna, eða Vísdómsspekisöfnuðinn. Einhverjar betri hugmyndir?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 15/06/04 10:32 #

Fræðimenn í trúarbragðafræðum hafa víst notað orðið vísindaspeki um þennan hóp. Mér finnst það ómögulegt á sömu forsendum og þú nefnir, þetta tengist vísindum ekki á nokkrun hátt og speki er alltof jákvætt orð fyrir svona rugl.

Við veltum þessu fyrir okkur í gærkvöldi og ákváðum að vísundarkirkja væri ágætt, vísar til þess að hér sé um undarleg vísindi að ræða.

Allar uppástungur eru vel þegnar.


Hreinn Hjartahlýr - 15/06/04 11:18 #

Scientology-kenningarnar hljóma eins og vísindi í eyrum þeirra sem vita ekkert um vísindi. En ef einhver efast um að við séum af undarlegu mannkyni þá er bara að kynna sér þessa "speki" og velta því svo fyrir sér hvað í ósköpunum fer fram þar sem á að vera heili í fólki. Einu sinni bjó ég í Kaupmannahöfn og var þar einhvers konar miðstöð í miðbænum, ég veit ekki hvort hún er þar ennþá. Mátti þá stundum sjá stóra flokka af fólki í póló-bolum merktum samtökunum, allir voða ánægðir að vera á námskeiðinu. Eins og hópur af hálfvitum sem héldu að þeir væru að leika, eða öllu heldur ekki leika, í Star-Trek.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/06/04 15:36 #

"...meðan endingin -speki í íslensku máli ætti kannski ágætlega við ensku endinguna -logy (sbr. stjörnuspeki - astrology)."

Þetta er ekki einhlítt. Vísindagreinarnar líffræði og sálfræði eru t.d. ekki speki heldur römmustu vísindagreinar, þrátt fyrir -logy endinguna.


Hr. Pez - 15/06/04 15:45 #

Veit ég það.


rossi - 15/06/04 17:02 #

Það er allt of auðvelt að fordæma hluti sem maður veit hreinlega ekkert um. Í þessari umræðu um Scientology hefur nákvæmlega ekkert komið fram um hvað Scientology er og hvaða hugmyndum er þar haldið a lofti. Ég hef persónulega lesið þúsundir blaðsíðna um efnið og hlustað á yfir 500 fyrirlestra sem Hubbarg gaf -- og ég er enn ekki tilbúinn til að dæma um hvort þetta er allt rétt og satt eða hreint bull.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 15/06/04 17:12 #

Það er allt of auðvelt að fordæma hluti sem maður veit hreinlega ekkert um. Í þessari umræðu um Scientology hefur nákvæmlega ekkert komið fram um hvað Scientology er og hvaða hugmyndum er þar haldið a lofti
Með greininni fylgdi vísun á nánari umfjöllun. Tilgangur færslurnnar var ekki að fjalla ítarlega um Vísundarkirkjuna, það verður líklega gert síðar á þessum vettvangi.
Ég hef persónulega lesið þúsundir blaðsíðna um efnið og hlustað á yfir 500 fyrirlestra sem Hubbarg gaf -- og ég er enn ekki tilbúinn til að dæma um hvort þetta er allt rétt og satt eða hreint bull.
Lestu www.xenu.com og reyndu svo að halda því fram að Scientology sé ekki bölvað kjaftæði. Þetta eru glæpasamtök og spekin sem þau ganga út á er hlægilegt kjaftæði. Held þú ættir að prófa að lesa um þennan sértrúarsöfnuð í stað þess að lesa það sem frá þeim kemur.


Halldór E. - 15/06/04 17:31 #

Held þú ættir að prófa að lesa um þennan sértrúarsöfnuð í stað þess að lesa það sem frá þeim kemur.

Ég hefði haldið að bæði sjónarmiðin væru holl. Enda er www.xenu.com ekki frekar hlutlaus umfjöllun um Scientology en greinar Hubbard sjálfs. Án þess að ég hyggist verja Scientology á einhvern hátt.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 15/06/04 17:35 #

Það er ljóst að þessi náungi hefur lesið nóg af efni frá Scientology, hann ætti núna að prófa að lesa um þennan sértrúarsöfnuð.

Ef hann er ennþá þeirrar skoðunar að þetta sé ekki kjaftæði eftir þann lestur er einfaldlega eitthvað að honum.

www.xenu.net er ekki hlutlaus umfjöllun en hún er rétt. Það er ekki hægt að fjalla um samtök eins og Vísundarkirkjuna á hlutlausan hátt, ekki frekar en önnur glæpasamtök.


rossi - 16/06/04 17:51 #

Það er eitthvað einkennilegt við þessa umræðu. Hvers vegna þessi ofsi? Er ég eitthvað "einkennilegur" vegna þess að ég hef ekki mótað mér endanlega skoðun á Scientology þótt ég hafi lesið mikið um efnið (já, líka xenu.net).

Scientology er mjög líkt búddatrú. Maðurinn endurfæðist stöðugt. Við flökkum frá líkama til líkama en tökum með okkur "tímasporið" -- myndir af öllu sem við höfum upplifað. Við hugsum í myndum (lokaðu augunum og sjáðu húsið sem þú bjót í þegar þú varst 10 ára). Þegar óþægilegar minningar eru upplifaðar þá er farið í gegnum þessar myndir. Á vissu augnabliki byrja myndir frá fyrri lífum að birtast ... og þetta gerist hjá öllum sem fá meðferð (áditeringu) í Scientology. Það er líka auðvelt að láta fólk upplifa fyrri líf í dáleiðslu. Spurningin hér er auðvitað hvort fyrri líf eru staðreynd eða hvort við göngum öll með minningar frá fyrri kynslóðum (byggt inn í genin). Það leikur hins vegar enginn vafi á að margt sem fólk "man" úr fyrri lífum er bæði satt og rétt (þeir sem hafa áhuga á þessu efni eru fljótir að finna traustar heimldir fyrir þessu).

Eins og búddistar þá segir Scientologian að maðurinn sé (1) líkami, (2) hugur og (3) andi. Andinn er ekki efnislegur en dregur með sér allar myndir frá fyrri lífum (samkvæmt tilraun sem gerð var fyrir um 100 árum þá vegur dauður líkami 21 gr. minna en nærri því dauður líkami ... því heitir nýleg bíómynd 21 gramm). Einföld "sönnun" fyrir þessu er að það er frekar auðvelt að láta fólk fara úr líkamanum. En hér er sama vandamálið á ferð: Það er fullvíst að lifandi fólk getur "séð" hluti í fjarlægð ... en þýðir það að dautt fólk geti það líka? Ég talaði persónulega við Ingo Swann, manninn sem þjálfaði yfir 20 bandaríska leyniþónustumenn í að "fara úr líkamanum" í njósnaleiðangra. Hann sagði mér að hann væri ekki viss um hvort hann færi úr líkamanum eða hvort það sem hann var að skoða kæmi til hans!

Ég skil vel að fólk sem ekki hefur pælt í þessum hlutum veit nákvæmlega ekkert hvað ég er að tala um. En að halda því fram að allir sem borga stórfé í Scientology séu bara hálfvitar er einfaldlega út í hött. Ég get ekki dæmt um hvort Scientology ræður yfir tækni til að frelsa andann, en ég veit að fræðin hringsóla í kringum mjög mikilvægar spurningar.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 16/06/04 18:17 #

Ég veit ekki til þess að það sé nokkuð til í hjátrú um fyrri líf. Get ég útilokað það? Nei, það get ég ekki, en ég get komið með einfaldari tilgátur en endurfæðingu til að leitast við að útskýra þessa meintu upplifun, minningar úr fyrra lífi, og um leið sálfarir, vitranir, reimleika og sitthvað fleira. Tilgátur sem koma yfirnáttúru ekki neitt við. Tilgátur sem eru alveg jafn órökstuddar, en sennilegri að því leyti að þær útheimta ekki yfirnáttúru eða dularmögn. Minningar byggðar inn í genin, segirðu. Ég skal með ánægju samþykkja það orðalag ef þú ert að tala um í óeiginlegri merkingu, skáldlega orðaða erfðafræði. Ef þú ert að tala um genetískar minningar í eiginlegri merkingu (eins og "minningar" um húsið sem ég bjó í þegar ég var 10 ára þaráður en ég fæddist), þá fer það í flokk með kenningum Votta Éhóva um að erfðasyndin sé genetísk! Þú segir að það séu til traustar heimildir um minningar á borð við þessar. Hversu traustar skyldu þær vera? Ég spyr ekki í háði heldur af forvitni. Skyldu þetta vera heimildir sem byggja á vísindalegri aðferð og standast gagnrýna skoðun og heimildafræðileg vinnubrögð? Þessi rannsókn sem var gerð fyrir 100 árum um að líkaminn vigtaði 21 grammi minna eftir dauðann, ég mundi fara varlega í að hampa henni. Ég minnist þess að hafa lesið um þessa tilraun að hún hefði verið gerð af óskhyggju og von um tilteknar niðurstöður. Ennfremur veit ég ekki til þess að tekist hafi að endurtaka hana, en það væri að sjálfsögðu gert, t.d. í kennslu í læknisfræði, ef það væri hægt. Ég held ekki að allir sem borga stórfé í Church of Scatology séu hálfvitar. Ég er hins vegar sannfærður um að þeir kaupa köttinn í sekknum, eins og hefur hent margan góðan manninn. Valkvæm hugsun, óskhyggja og trúgirni eru meðal þess sem stýrir fólki sem gengst vafasömum trúflokkum á hönd. Ég sé ekki betur en að Church of Scatology sé ekki undanþegin því.


rossi - 17/06/04 02:46 #

Það er ekki nokkur leið að ræða þetta efni í stuttu máli. Ég skil að trú og hjátrú hafa í aldaraðir verið vopn í höndum óprúttinna manna og því full ástæða til þess að vera á varðbergi þegar eilífðarmálin ber á góma. En það þýðir samt ekki að við verðum að skella í lás þegar þessi mál ber á góma.

Ágætt dæmi um furðuleika tilverunnar kemur t.d. fram í bók Ormond McGill, The Magic and Mystery of India. McGill var einn færasti dáleiðari og töframaður heimsins og hann gerði mikla úttekt á töfrabrögðum á Indlandi. Lengst nær sú list með svokölluðu "Indian rope trick", sem er ekki bara þjóðsaga eins og flestir halda. Ef þú ert svo heppinn að sjá ekta Indina rope trick þá byrjar það þannig að þú sérð mann og lítinn strák undirbúa verkið. Þetta spyrst fljótt út og fólk streymir að. Galdramaðurinn velur um hundrað manna hóp og markar hring í kringum hann í sandinn. Hann byrjar að söngla og vaggar fram og til baka. Þeir sem standa fyrir utan hringinn taka eftir því að fólkið byrjar að vagga í takt við hann. Galdramaðurinn spilar á flautu og reipi liðast eins og slanga upp í loftið. Galdramaðurinn og strákurinn byrja að rífast og strákurinn stekkur að reipinu, klifrar upp og hverfur upp í himininn! Galdramaðurinn reiðist, tekur upp sveðju, klifrar á eftir honum og hverfur! Næst byrja blóðugir limir drengsins að detta niður ... fótur, hönd ... og nokkrar konur falla í yfirlið. Allt í einu standa galdramaðurinn og strákurinn skælbrosandi fyrir framan hópinn og bukka sig.

Öll atburðarásin var búin til í huga galdramannsins og varpað inn í huga þeirra sem stóðu inni í hringnum. Allir sem stóðu fyrir utan sáu ekkert nema galdramanninn vagga fram og til baka í hugleiðslu. Í bókinni lýsir Mcgill því síðan í smáatriðum hvernig menn geta þjálfað sig upp í að geta þetta og líka hvernig maður getur varið sig fyrir hópdáleiðslu af þessu tagi.

Það er ekki allt sem sýnist og ég vara fólk við að vera með sleggjudóma um hluti sem það veit sama og ekkert um.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 17/06/04 12:29 #

rossi, þetta er of mikið. Þú virðist trúa á allar mýtur sem þú kemst nálægt.

Ætlast þú í alvöru til að fólk trúi því að brellur sjónhverfingamanns séu raunverulegir galdrar en ekki brellur? Kommon, þú hlýtur að vera að grínast -- enginn er svona trúgjarn.


rossi - 17/06/04 15:44 #

Ég nenni ekki að þræta við fólk sem ekkert virðist hafa kynnt sér og talar í eintómum fullyrðingum. Hópdáleiðslur eru vel þekkt fyrirbæri sem margir snjallir töframenn hafa líka notað. Rannsóknir á "hópsálum" (hvað nákvæmlega gerist þegar einstaklingar sleppa sér og gerast einn hópur ... ein hópsál) hafa t.d. verið stundaðar af leyniþjónustum nokkra ríkja.

Það er líka skjalföst staðreynd að Ingo Swann þjálfaði yfir 20 starfsmenn bandarísku leyniþjónustunnar í "remote viewing" -- að sjá hluti í öðrum landshluta eða öðru landi. Það er komið inn á þetta í fjölda bóka um þetta efni og um starfsemi spæjara almennt. Ég sá prófið sem leyniþjónustumennirnir þurftu að taka til að útskrifast þegar ég hitti Ingo í New York fyrir 7 árum. Eina sem menn fengu var nákvæmur staðaur á korti og þeir síðan teiknuðu mynd af því sem þar var. Hlaupabraut, kjarnorkuver, fræg bygging o.s. frv. Svörin voru misjafnvela vel teiknuð en yfir höfuð hárrétt. Það geta allir þjálfað sig upp í þetta.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/06/04 17:24 #

Og þá er ekki annað eftir en tileinka sér þessa aðferð og hirða svo milljón dollarana hjá Randi. Takk fyrir tipsið, rossi.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 17/06/04 22:04 #

Í The Skeptic's Dictionary er fjallað um Indian Robe Trick og Remote Viewing. Þar er einmitt minnst á Ingo Swann en hann hefur að eigin sögn beitt þessari fjarsýn m.a. til að skoða sig um á plánetunum Merkúr og Júpíter.

Bæði þessi fyrirbæri eru að öllum líkindum plat og mér finnst það virkilega furðulegt að fólk leggi trú á þau.

Rossi heldur því fram að þeir sem hafa svarað honum séu fáfróðir og hafi ekki kynnt sér málin rækilega. Er það mögulegt að Rossi hafi sjálfur einungis kynnt sér eina hlið málanna?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/06/04 22:36 #

Ef rossi læsi bókarlok Veraldar Soffíu fengi hann að kynnast því hvaða augum margir líta þau rit sem hann liggur yfir. Getur verið að öll "fræðiritin" um dulspekileg efni sem þú kaupir séu bara hugsanaklám og heilasorp?

Carl Sagan lýsir þessu svona (í hráþýðingu minni):

Þegar ég kom út úr flugvélinni beið hann eftir mér með pappaspjald á lofti og hafði klórað á það nafnið mitt. Ég var á leið á ráðstefnu vísindamanna og sjónvarpsstöðva, en hún var helguð því vonlausa verkefni að bæta úr framsetningu vísindaefnis á hinum einkareknu sjónvarpsstöðvum. Þeir sem skipulögðu þetta höfðu verið svo almennilegir að senda mér bílsstjóra.

“Er þér sama þó ég spyrji þig einnar spurningar?” sagði hann meðan við biðum eftir farangrinum.

Já, mér var svosem sama.

“Veldur það ekki ruglingi að heita sama nafni og vísindagaurinn þú veist?”

Ég var smá stund að átta mig. Var hann að stríða mér? Loks rann upp fyrir mér.

“Ég er hann þessi þarna vísindagaur,” svaraði ég. Hann var hljóður um stund en brosti svo. “Fyrirgefðu, þetta er mér eilífðarvandamál. Mér datt í hug að þú ættir við það sama að stríða.”

Hann rétti mér höndina. “Hemmi Gunn hér”. (Auðvitað hét hann ekki Hemmi Gunn en hann hét sama nafni og umdeild sjónvarpsstjarna og hefur sjálfsagt þurft að þola feiknin öll af góðlátlegu gríni.)

Þegar við höfðum komið okkur fyrir í bílnum og hin langa ökuferð hófst, rúðuþurrkurnar í taktföstu ískri, sagði hann mér að það gleddi sig að ég væri “þessi vísindagaur” - hann langaði að spyrja svo margs um þau mál. Væri mér ekki sama?

Jú mér var alveg sama.

Svo hófust samræðurnar. En í ljós kom að þær höfðu ekkert með vísindi að gera. Hann vildi tjá sig um geimverur, sem áttu að vera djúpfrystar í herstöð nálægt San Antonio, “ómkristal” (notaður til að heyra hugsanir látins fólks - hefur reynst árangurslítil aðferð), spádóma Nostradamusar, stjörnuspeki, líkklæðið í Túrin... Hann vék að hverju undraverðu málefninu af öðru með sama glaðbeitta áhuganum. Í hverju einasta tilviki varð ég að valda honum vonbrigðum:

“Sannanir eru ófullnægjandi”, sagði ég hvað eftir annað. “Það er til mun einfaldari skýring.”

Hann var á sinn hátt víðlesinn. Hann kunni náin skil á ýmsum getgátum um t.d. hina sokknu heimsálfur Atlantis og Lemúríu. Hann hafði það á hreinu að neðansjávarleiðangrar voru í þann veginn að finna fallnar súlur og brotna turna af því sem eitt sinn var mikil siðmenning en var nú aðeins heimsótt af lúsíferum og risasjóskrímslum. Nema hvað...þrátt fyrir að úthöfin geymi margan leyndardóminn, þá vissi ég sem var að það er ekki vottur til af neinu í djúpsjávarfræðum né í landfræðilegum skilningi sem rennt getur stoðum undir tilvist Atlantis og Lemúríu. Séð frá sjónarhóli vísindanna getur tilvist þeirra ekki nokkurn tíman hafa átt sér stað. Og þar sem ég var orðinn svo tregur í taumi, lét ég þá vitneskju mína í ljós. Ég gat séð, þar sem við ókum áfram í rigningunni, hvernig vonbrigðin hrönnuðust upp í andlitinu á honum. Enda var ég ekki einungis að hafna einhverjum fræðikenningum, ég var að lýsa frati í heimsmynd þá er var honum svo mikils virði.

En samt er í vísindunum svo ótal margt sem ekki er síður spennandi, jafnvel enn dularfyllra og skorar vitsmunina enn djarfar á hólm - auk þess að vera svo miklu nær sannleikanum. Var honum kunnugt um allt lífræna efnið sem svífur þarna úti í köldu tóminu, í þunnum gasskýjum milli fastastjarnanna? Hafði hann heyrt um fótspor forfeðra okkar sem fundist hafa í fjögurra milljón ára gömlu gosgjalli? Hvað með þá staðreynd að Himalayafjallgarðurinn hefur risið sökum þess að Indland þrýstir sér upp að meginlandi Asíu? Eða það að veirur sem eru í sköpulagi eins og sprautur losa erfðaefni sitt inn fyrir varnir hýsils síns og breyta frumum í þeirra eigin útungunarverksmiðjur, nú eða leitina að vitsmunalífi í alheimi gegnum útvarpssjónauka, hvað þá hina nýuppgötvuðu fornmenningu á Eblu þar sem finna má auglýsingar um gæði Eblubjórsins? Nei, hann hafði ekki heyrt um þetta. Ekki hafði hann heldur minnstu hugmynd um óreiðukenningu skammtafræðinnar og DNA var fyrir honum aðeins skammstöfun sem hann hafði séð mikið notaða.

“Hemmi Gunn” - svo vel að máli farinn, greindur og forvitinn - hafði varla nokkurn nasaþef að nútíma vísindum. Að undrast furður veraldar var honum þó eiginlegt. Það fannst í honum þrá eftir vísindalegri þekkingu. Gallinn var bara sá að öll hin vísindalega vitneskja hafði skolast burt áður en hún barst honum til eyrna. Helstu gildi menningar okkar, menntakerfið og samskiptakerfið höfðu brugðist þegar kom að honum. Og það sem samfélagið þó hafði borið honum á borð var örðugt skilnings og ruglingslegt. Það hafði aldrei kennt honum að greina á milli raunverulegrar vísindaþekkingar og ódýrra eftirlíkinga. Hann vissi ekkert um hvernig starfi vísindanna er háttað.

Það eru til hundruð bóka um Atlantis - þetta dularfulla meginland sem sagt er að hafi átt sér tilvist fyrir um eitthvað 10.000 árum í Atlantshafinu. (Eða einhversstaðar. Nýleg bók tilgreinir það á Suðurskautslandinu.) Fyrstu heimildir eru frá Platóni. Hann greindi frá vitrun sem hann sagði að borist hefði sér aftan úr forneskju. Nýlegar bækur lýsa fjálglega þróaðri tækni Atlantisbúa, siðferði og trú ásamt þeim hörmulega atburði þegar heil heimsálfa sökk í sæ með manni og mús. Svo er það “Nýaldar”- Atlantis sem frægt var af háþróaðri tækni sem aðallega fólst í kristalsvísindum. Í bókaþrennu sem ber nafnið Uppljómun kristallanna og er eftir Katrinu Raphaell - en þessar bækur eru helsti valdur kristallaæðisins í Bandaríkjunum - er fullyrt að Atlantiskristallar nemi hugsanir og útvarpi þeim, auk þess að vera geymslustaður hins forsögulega og upprunalíkan egypsku píramíðanna. Engu því sem líkst gæti sönnunum er varpað fram þessum fullyrðingum til stuðnings. (Endurvakning kristallaæðisins gæti komið í kjölfar nýlegra uppgötvanna raunverulegra vísindamanna í jarðskjálftafræðum sem fundið hafa út að kjarni jarðar er að líkindum mótaður úr einum tröllauknum og nærri fullkomnum kristal - úr járni.)

Fáeinar bækur - ein að nafni Þjóðsögur Jarðar eftir Dorothy Vitaliano svo að dæmi sé tekið - túlka á skilningsríkan hátt þjóðsöguna um Atlantis með heimildum um smáeyju í Miðjarðarhafinu sem gereyddist í miklum eldsumbrotum, eða með forsögulegri borg sem sökk í Korintuflóa eftir jarðskjálfta. Þetta gætu vel verið, hvað snertir vitneskju okkar, orsakir þjóðsögunnar, en þær jafnast í engu á við rústun heillar heimsálfu sem hafði getið af sér óheyrilega þróað samfélag í tæknilegum og andlegum skilningi.

Það sem nær ávalt skortir - þegar kemur að bókasöfnum, tímaritum eða vönduðum sjónvarpsþáttum - eru sannanir af hafsbotni eða í landrekskenningunni, ekki er þær heldur að finna í kortlagningu djúpsjávarbotnsins en hún sýnir á óyggjandi hátt að engin heimsálfa getur hafa verið milli Evrópu og Ameríku innan þeirra tímamarka sem möguleg eru.

Falskar frásagnir sem fanga hinn trúgjarna eru víða fáanlegar. Mun erfiðara er að finna gagnrýna meðhöndlun efnistaka. Efahyggjan er ekki mjög söluvænleg. Hundrað – eða þúsund sinnum líklegra er að skörp og forvitin manneskja, sem aðeins leitar heimilda í lággróðri menningarinnar að málefnum á borð við Atlantis, endi með skáldaðar og ógagnrýnar heimildir í höndunum en raunsæja og yfirvegaða meðhöndlun.

Ef til vill ætti “Hemmi Gunn” að vera gagnrýnni á það sem hent er í hann af vinsældarlistanum. Að því slepptu er þó erfitt að koma auga á sök hans. Hann hefur einungis tekið inn það sem aðgengilegast og auðfáanlegast er af þeim upplýsingum sem haldið er fram að séu sannar. Honum hefur, í barnslegri einlægni sinni, verið kerfisbundið villt sýn og hann ruglaður í ríminu.

Vísindin vekja undrunina í brjóstum okkar. En það gera gervivísindin einnig. Léleg og fátækleg útbreiðsla vísindanna skilur eftir tómarúm sem gervivísindin fylla samviskusamlega upp í. Ef fullur skilningur væri á því að meint þekking útheimtir haldgóðar sannanir áður en hægt er að taka hana til greina þá væri harla lítið rúm fyrir gervivísindi. En í alþýðumenningu okkar ríkir nokkurs konar Greshamslögmál þar sem vond vísindi kaffæra þau góðu.

(úr Demon Haunted World)


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 21/06/04 02:23 #

Þetta er svei mér vel sagt frá.


Hreinn Hjartahlýr - 21/06/04 11:59 #

En nokkuð langt...

Maður getur auðveldlega farið í gegnum tugi þúsunda af blaðsíðum í viðleitni til að botna eitthvað í vísindakirkjunni en þá er illa farið með tímann. Ef maður hættir að lesa þegar maður sér fyrstu setninguna sem segir ekki neitt, er bara orðin tóm (bókstaflega tóm), þá þarf maður ekki nema hálfa síðu til að afgreiða Hubbard kallinn. Og flest annað ef útí það er farið...


rossi - 22/06/04 16:55 #

Ef menn gefa sér í upphafi þá forsendu að það sé ekkert andlegt (sálarlegt) í tilverunni þá þurfa þeir auðvitað ekki að lesa neitt um þau efni. Þeir segja einfaldlega að allt svoleiðis sé bull og lygi.

Hvað varðar "remote viewing" þá er það 100% staðreynd að bandaríska leyniþjónustan þjálfaði fjölda einstaklinga í þeirri list. Það kostaði milljónir dollara og yfirmenn á þeim bæ trúðu á þetta eftir að Ingo Swann gat dregið upp myndir af leynilegum hlutum í eigu hersins sem voru staðsettir víðsvegar um heiminn. ALLIR geta þjálfað sig upp í þetta á nokkrum mánuðum ... finnið námsefnið og reynið.

Hvað varðar "Indian Rope Trick" þá er það algjör fjarstæða að halda að McGill, einn fremsti töframaður og dáleiðari heimsins, hafi verið plataður. Annað hvort er galdurinn raunverulegur eða hann er að ljúga í bók sinni Magic and Mystisism of India (kom líka út undir öðru nafni í Bretlandi). Lesið bókina og kynnið ykkur feril McGill -- og dæmið svo. Bókin fjallar um öll stig töfrabragða á Indlandi og útskýrir þau öll. Þið getið lært ómerkilegustu galdra upp í hópdáðleiðslu frá þessari bók og hvernig menn þjálfa sig upp í að búa til myndir í höfðinu og "varpa" á aðra, en ólíkt "Remote Viewing" þá tekur þessi þjálfun mörg ár.

Varðandi Scientology þá gera gagnrýnendur þess hrikaleg mistök þegar þeir fullyrða að þetta sé allt bull og vitleysa. Þetta er raunverulega helsta ástæða þess að gagnrýnin hefur engin áhrif á Scientológa. Þeir vita betur. Eins og Omar Garrison bendir á í bók sinni, The Hidden Story of Scientology, þá geta menn ekki rætt um Hubbard af neinu viti nema þeir geri sér fyrst grein fyrir að hann var sjení. Það þýðir ekki að að kerfið standist algjörlega, en slóðin er þakin gullkornum sem útskýra mannlega hegðun betur en flestum hefur enn tekist. Ef þið viljið gjörþekkja fólk sem þið umgangist og læra að spá í hvernig það bregst við hlutunum þá lesið Science of Survival. Sá hluti Scientology sem fjallar um andann og endurfæðingu er miklu erfiðara að dæma um og hljómar oft undarlega. Það er varla nokkur leið að dæma um sannleika þess hluta fræðanna nema menn nenni að upplifa það í eigin persónu (sem tekur slatta af námskeiðum).


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/06/04 17:17 #

Er gryfja okkar sú að dæma þetta fyrirfram allt sem bull og vitleysu? Þetta er einfaldlega ekki rétt hjá þér, heldur er þessu algerlega öfugt farið. Við skeptíkerar erum algerlega opnir fyrir öllum þessum hlutum og föllumst á þá um leið og það koma rök og sannanir.

En því er einfaldlega ekki til að dreifa. Enn er t.d. milljónin hans Randi óhreyfð. Hvað ætli valdi því?

Sjáðu þessa ágætu langloku hér, hún gæti skýrt huga efahyggjumannsins betur fyrir þér.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 22/06/04 18:31 #

Þetta er dásamlegt, til þess að mega gagnrýna glæpasamtökin þarf maður ekki einungis að byrja á því að játa að stofnandi þeirra hafi verið sjení heldur þarf maður líka að ganga í gegnum heilaþvottinn.

það liggur beinast við að spyrja rossa. Hvað þarf til að sannfæra þig um að það sem þessi glæpasamtök boða eru rakalaus hindurvitni? Getur ekkert sannfært þig um það? Þá ert það þú sem ert lokaður, ekki við efahyggjumennirnir sem sannfærumst um leið og við sjáum einhverja sönnun.

Vitnisburður einhverra einstaklinga dugar skammt, því jafnvel þó ekki sé fullyrt að fólk ljúgi, þá fullyrði ég að fólk getur haft rangt fyrir sér.

Ótal atriði sanna rækilega að Church of Scientology eru glæpasamtök sem nota heilaþvott til að aðskilja meðlimi sína frá fjármunum þeirra. Þeir sem loka augunum fyrir þessu, neita að trúa þrátt fyrir ótal sannanir, eru þröngsýnni en nokkur orð fá lýst.


rossi - 22/06/04 19:59 #

Ég hef áður tekið fram að ég veit alls ekki hvort Scientology stenst sem kerfi. Ég er ekki hreintrúarmaðurinn í þessari umræðu. Hér hefur engin "gagnrýni" komið fram á Scientology, bara upphrópanir manna sem greinilega vita ekkert um efnið. Hvort einhverjir hafi eytt miklum peningum í Scientology kemur málinu heldur lítið við; ég er að tala um kerfið sjálft.

Í grundvallaratriðum er Scientology mjög líkt búddisma. Maðurinn er andi (thetan) sem tilheyrir ekki efnisheiminum heldur tekur sér bólfestu í nýjum og nýjum líkama. Maðurinn er ekki "með" sál, hann ER sál. Flestir eru inni í hausnum og horfa út í gegnum augun. Við erum föst í endalausum endurfæðingum. Búdda sagðist hafa rofið þennan vítahring ... Hubbard sagðist líka hafa fundið aðferðir til að gera hið sama. Hvernig er þetta "sannað"? (1) Þegar fólk "fer úr líkamanum". Með ákveðnum aðferðum í Scientology (og eins og virðist stundum gerast í hugleiðslu eða á slæmu LSD trippi) þá byrjar einstaklingurinn að fjarlægast líkamann. Þeir sem fullyrða að hafa gert þetta segja umhverfið verða raunverulegra og sjónin sé 360 gráður. (2)Með því að rifja upp atburði "fyrri lífa". Það mundi æra óstöðugan að fjalla um allt það efni og rannsóknir sem hafa farið í "fyrri líf" en í Scientology rifjast þetta upp fyrir fólki þegar það er að muna eftir neikvæðum atburðum sem, samkvæmt fræðunum, hanga saman í "keðju" (þú ert að rifja upp atburði þar sem þú ert með "verk í vinstra auga" ... fyrst timburmenn í gær ... sleginn á það vinstra fyrir framan Röðul 1968 ... sandur í vinstra augað 1958 ... og þá allt í einu flæða inn myndir af spænskum embættismanni sem stingur glóandi járni í vinstra augað -- 1580!!)

Bull og vitleysa, segja þeir á vantrú.net - og það má vel vera rétt - en það er ýmislegt sem styður hugmyndina um "fyrri líf". Hvað ef verkur í vinstra auga sem hefur plagað þig árum saman hverfur þegar atburðurinn frá 1580 er upplifaður? Hvernig má útskýra það þegar sex til 10 ára krakkar muna eftir nöfnum og atburðum úr síðasta lífi, oft lang í burtu eða í öðru landi? En vantrúaðir nenna auðvitað ekki að lesa svoleiðis þvætting þótt til séu menn sem hafa rannsakað þetta hlutlaust í áratugi.

Kerfið í Scientology er sett um mjög skipulega og það fer ekkert á milli mála hvað er verið að tala um, hvert er stefnt og hvernig það er gert. Í ALMENNUM pælingum á eðli manna og samskiptum þá fer það á kostum. ANDLEG hlið málsins getur hins vegar verið algjört bull ... eða ekki.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/06/04 21:22 #

Getur verið að búddismi sé algert bull? Annars er orðið sýrutripp algert lykilorð í þessu hjá þér. Þótt menn upplifi einhverja hluti er ekk þar með sagt að þeir séu að gerast í alvörunni. Í þessu tilviki bendir reyndar ekkert til þess.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/06/04 21:28 #

"Hvað ef verkur í vinstra auga sem hefur plagað þig árum saman hverfur þegar atburðurinn frá 1580 er upplifaður? Hvernig má útskýra það þegar sex til 10 ára krakkar muna eftir nöfnum og atburðum úr síðasta lífi, oft lang í burtu eða í öðru landi? En vantrúaðir nenna auðvitað ekki að lesa svoleiðis þvætting þótt til séu menn sem hafa rannsakað þetta hlutlaust í áratugi."

Lastu tilvitnunina í Carl Sagan hér að ofan? Þetta eru sögusagnir. Ósannaður vitnisburður. Jafnvel lygi. Betra væri að þú kannaðir grundvöllinn fyrir þessum sögnum áður en þú ferð að halda þessu fram sem staðreyndum. Þú ert fastur í klámefninu sem Sagan og Jostein Gaarder tala um. Eða hefur einhver svona frásögn nokkurntíma verið staðfest þannig að hægt sé að ganga út frá henni sem staðreynd?

Hérna, bættu þessu hér í langlokusafnið líka :)


rossi - 22/06/04 22:04 #

Nú er ég hlessa! Ég hef ekki haldið neinu fram hér sem staðreynd, nema því að sú hlið Scientology sem snýr að samskiptum fólks er merkileg. Ég veit ekkert um hvort við erum sálir eða ekki fyrr en ég sannreyni það sjálfur. Ég get þó bætt við einni fullyrðingu: Carl Sagan var fúskari af verstu tegund. Hann spilaði sig upp í fjölmiðlum sem vísindaguð og blaðraði oft um hluti sem hann vissi ekkert um. Ég þekki mann sem þrætti við hann í sjónvarpsþáttum um ákveðið málefni, nokkuð sem Sagan hafði nákvæmlega ekkert stúderað en afgreiddi með því að segja: "Það er innri veröld og ytri veröld." (Þýðing: Þeir sem voru á annarri skoðun en hann voru truflaðir). Þegar honum seinna var boðið að rannsaka fyrirbærið persónulega (þegar það kom upp í Ithica þar sem hann kenndi) þá afþakkaði hann boðið. Hann hefði verið meðal vina á www.vantru.net


Hreinn Hjartahlýr - 22/06/04 22:17 #

Carl Sagan var ágætis carl, ekki vera vondur við látna. Spurðu Þórhall miðil. Láttu frekar Ingo Swann segja þér hvaða leynivopn ég er með í hendinni núna. Já og ég vil endilega fá indverskan töframann með reipi, ég þarf nefnilega að mála húsið. Og rossi, taktu endilega fleiri námskeið í hinum ýmsu dularfræðum, svo lengi sem þú hefur efni á því. Það er að vísu mjög dýrt að öðlast hátt stig í vísindakirkjunni, eiginlega ekki á færi nema milljónamæringa. En hver veit nema að Ingo Swann geti bent þér á einhverjar leiðir.


rossi - 22/06/04 23:54 #

Vísindakirkjan er ekki nákvæm þýðing á Scientology. Réttari þýðing er gagnþekkingarkirkjan (smíðað úr latneska orðinu SCIO sem þýðir að vita eða greina og gríska orðinu LOGOS sem þýðir að gera þekkjanlegt eða draga innri ályktun af ytri raunveruleika).

Ég get skotið því inn hér að lokum að "remote viewing" hefur ekkert að gera með (eins og margir halda fram) að flakka um og njósna eða lesa skjöl langt í öðru landi. Þú verður að fá nákvæma staðsetningu af korti og þú sérð engin smáatriði. Þú sérð t.d. útlínur kafbáts, staðfestir að bygging er ekki bara klettur og getur lýst hlutum í stórum dráttum, en þú greinir ekki andlit einstaklings. Þjálfunin byggist mest á því að kenna mönnum (sem sitja með valda staðsetningu sem markmið mest allan daginn í kyrrð og "tæma hugann") að greina á milli raunverulegra mynda sem heimsækja hugann, þ.e. mynda frá staðsetningunni, og mynda sem þeirra eiginn hugur framleiðir. Eina sem getur staðið í vegi fyrir að þið vantrúaðir getið þjálfað ykkur sjálfa í þessu væri skortur á nógu nákvæmum landabréfum. Eins og ég hef áður sagt þá veit Ingo Swann ekki hvort hann fer á sálarflakk eða hvort myndirnar frá staðsetningunni koma til hans.


Hreinn Hjartahlýr - 23/06/04 00:27 #

Hahaha. En er hægt að greina kynfæri? Sést inn í búningsklefa kvenna ef ég gef upp nákvæma staðsetningu? Og er til nákvæm þýðing á scientology já, það er athyglisvert. Ég stóð í þeirri meiningu að L. Ron Hubbard nokkur hafi búið orðið til. Hvað ef ég stofna nú til metascientology trúarhópsins. Hvað skyldi það nú þýða? Ójá, ég lofa andlegri upplyftingu og áður óþekktu innsæi í raunveruleikann. Aðeins 15000000 kr. Hei, ekki geturðu hafnað þessu fyrirfram. Ég sendi þér bækling. Hann er 8000 bls. með átta punkta letri og einföldu línubili. Ég lofa því að þú verður ekki svikinn. En þú þarft að lesa hvert einasta orð. Þetta er svona blanda af Búddisma, ásatrú og kristni. Ekki bara "remote view" í hárri upplausn heldur líka "remote sex with strangers!".


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 23/06/04 22:15 #

Rossi, hefur þú þjálfað þig í "remote viewing"?


bleh - 08/10/04 13:06 #

Bara fyrir þá sem hafa ekki séð þetta, þá er hérna ágætis yfirgrip yfir Scientology. Ef þetta sannfærir þig ekki um að þetta eru glæpasamtök þá gerir það ekkert:

www.xenu.net/archive/scientology_illustrated/


Viggi - 27/02/06 15:24 #

Ég hef ekkert comment en mér fynnst fáránlegt að fara að segja að geimverur eins og Xena hafi komið til jarðar fyrir um 75 milljónum ára og hafa haft áhrif eða hafi sests að í okkur fólkinu, og að það þurfi að nota einhverskonar vél hvort maður sé hreyn(n) (clean) eða smitaður(uð) (effected). En ég er sammála því að það má skipta um nafn á þessari trú því það er ekki viðeigandi. Ég hef ekki hugmind um hvort geimverur séu til en þetta finnst mér bara fáranlegt að við séum smituð af einhverju geimveru stuffi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.