Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þunglyndi grúfir yfir Biskupsstofu

"Trúin á Jesú, lífið í hans nafni er hulin, en væntir sín. Á meðan heimurinn heldur því fram að það sé ekkert annað en þetta sem dagsins önn snýst um, þessi grátlega tilviljun, þessi kalda gröf og gleymskunnar gráa djúp - og hugsun manns og hjarta verði að venjast tilhugsuninni um guðlausan himinn, vonlausa veröld og tilgangslaust líf. Einmitt þar vinnur trúin sinn stærsta sigur." sagði Karl Sigurbjörnsson biskup í prédikun sem flutt var 6. sunnudag eftir páska við prests- og djáknavígslu í Dómkirkjunni

Mikið óskaplega hlýtur dagsins önn ásamt fögrum sumardegi að sækja á þig, Biskup. Því ef ekki væri fyrir goðsögu um upprisið hold þá væri veröld þín bara grámyglulegt tilgangsleysi. Svo virðist sem þú bíðir í dauðans ofboði eftir að komast til himna. Til að losna undan þungbærum veruleikanum.

Svo sorgleg er afstaða þín til lífsins að aftur og aftur sannast það fyrir mér hvað það er stórkostlegt að vera trúlaus. Það var mikið gæfu spor að kasta Jesú líkneskinu af náttborðinu og horfa á heiminn frá sjónarhorni raunveruleikans. Ég er mannvinur, herra Biskup og mig langar að segja við þig nokkur hughreystandi orð:

Það er stórkostlegt að skilja að heimurinn er náttúrulegur og tilviljanir hans eru tilgangurinn. Að hver dagur búi yfir meiri tilgangi en þúsund upprisur. Að hver dagur sé dýrmætari en nokkur eilífð.

Það er stórkostlegt að vera laus undan goðsögu kirkju og kristni. Að vera laus undan tilgangsleysi þess að hanga í helvíti eða himnaríki.

Það er stórkostlegt að standa uppréttur og guðlaus. Að þurfa ekki lengur að liggja betlandi á hnjánum með spenntar greipar.

Það stórkostlegt að leyfa huganum að starfa óháð löngu látnum sagnariturum, fullum af ranghugmyndum um djöfla og guði. Að geta lifað eftir eigin lífsspeki, draga ályktanir byggðar á þekkingu, skynsemi og rökum.

Það er stórkostlegt að geta upplifað tilgang lífsins í stað þess að bíða þess að dauður bókstafur lifni við. Fagnaðarerindið er ekki upprisa eða ódauðleiki, heldur staður og stund, fjölskylda og vinir, gleði og sorg.

Njóttu þess vinur að vera manneskja en ekki Biskup!

Frelsarinn 30.05.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Snær - 30/05/04 11:27 #

Heyr heyr!

Það eru margir á því að hið stutta líf okkar sé það sem gefur því merkingu. Ef tilveran varir að eilífu, hvaða ástæðu hefði maður til þess að koma sér að því að gera eitthvað í málunum? Ef tilveran varir að eilífu, þá er alltaf morgundagurinn til staðar til þess að koma sér að verki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.