Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Niðurstaðan var áhugaleysi

Um síðustu mánaðarmót voru birtar niðurstöður úr könnun sem Gallup gerði fyrir nokkrar stofnanir þjóðkirkjunnar. Fréttaflutningur af þessari könnun var áhugaverður af þeirri ástæðu að enginn benti á að aðalniðurstaða hennar var sú að Íslendingar eru áhugalausir um málefni kirkjunnar.

Í könnuninni var meðal annars spurt: Hversu oft ferð þú til kirkju til að vera við almenna guðþjónustu? og voru niðurstöðurnar þær að 43,4% þeirra sem svöruðu sögðu aldrei, á hinum enda skalans sögðust 10% svarenda fara í almenna guðsþjónustu einu sinni í mánuði eða oftar.

Hvar er allt þetta fólk sem segist fara í almenna guðsþjónustu að minnsta kosti einu sinni í mánuði? Ég tel að ég þekki ekki eina einustu manneskju sem fer svo oft í kirkju án þess að fá borgað fyrir það, allavega ekki innan þjóðkirkjunnar. Þeir einu sem ég þekki sem fara svona oft í kirkju eru kaþólikkar. Getur verið að stór hluti þeirra sem sögðust fara mánaðarlega eða oftar í almenna guðsþjónustu séu í hinum og þessum kristnu söfnuðum en ekki í þjóðkirkjunni? Ég held það. Þessir smáu kristnu söfnuðir telja um 7-8% þjóðarinnar og mín ágiskun er að meðlimir þeirra séu um helmingur þeirra sem fara svona oft í kirkjur. Það hefði verið nauðsynlegt að brjóta niðurstöður könnunarinnar upp eftir trúfélagi svarenda til þess að hafa þessar tölur á hreinu.

Það sem undirstrikar áhugaleysi þjóðarinnar á málefnum kirkjunnar er ekki endilega þessi 43,4% sem aldrei fara í almenna guðsþjónustu heldur fjöldi þeirra sem vildi ekki taka þátt í þessari skoðanakönnun. Það var nefnilega gerður sá fyrirvari á niðurstöðurnar að svarhlutfallið hafi verið í lægri kantinum og að líkur séu á að það hafi frekar verið þeir sem eru jákvæðir gagnvart trú sem tóku þátt í könnuninni. Af einhverjum ástæðum þá fann ég hvergi nákvæmar tölur um þátttöku í könnuninni, vill þjóðkirkjan ekki að við vitum hve margir (eða réttara sagt, fáir) nenntu að svara?

Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn í Bandaríkjunum sem benti til þess að þær tölur sem koma fram í skoðanakönnunum um kirkjusókn væru stórlega ýktar, raunveruleg aðsókn í kirkjum var jafnvel helmingi minni en kannanir bentu til. Þessi tilhneiging kom ekki einungis fram í Bandaríkjunum heldur líka í Bretlandi og Ástralíu, það ætti því að vera óhætt að gera ráð fyrir að þetta eigi, allavega að einhverju leyti, líka við hér á Íslandi.

Þegar þessi skoðanakönnun hefur verið skoðuð örlítið með gagnrýnum augum þá sést að það er kannski ekkert sérstaklega mikið að marka niðurstöður hennar, þær eru nær örugglega ýktar og framsetningin hefur verið á þann hátt að þjóðkirkjunni er gert of hátt undir höfði. Það eina sem við getum raunverulega séð er að Íslendingar eru ákaflega áhugalausir um málefni kirkjunnar.

Heimildir
Fréttablaðið, Er líf í kirkjunni? 1. maí 2004, bls 28-29.
Setningarræða biskups á Prestastefnu 2004
Did You Really Go To Church This Week? eftir C. Kirk Hadaway og P.L. Marler

Óli Gneisti Sóleyjarson 28.05.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Snær - 30/05/04 11:31 #

Ég: "Trúir þú á guð?"

Svarandi: "Já, svo sem. Ég trúi þessu alveg."

þetta er það svar sem ég fæ í flestum tilfellum þegar ég spyr fólk út í trú þess. Ekki beint merki um mikinn áhuga.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 13/10/04 15:37 #

Hvernig væri að Vantrú léti gera fyrir sína eigin skoðanakönnun? Það gætu verið fróðlegar niðurstöður sem kæmu út úr henni.


Lárus Páll Birgisson - 13/10/04 15:58 #

He he, já það væri nokkuð skondið að sjá hve margir Íslendingar aðhyllast algert trúleysi á allt sem ekki fæst útskýrt.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 13/10/04 16:48 #

Það eina sem er "skondið" er þessi furðulega þörf Lárusar Páls að snúa út úr öllu sem hér er rætt. Og það er eiginleg ekki skondið, heldur sorglegt. Strámaðurinn mikli, Lárus Páll.

Ástæða þess að Vantrú hefur ekki látið gera skoðanakönnun er einfaldlega sú að slíkt kostar pening. Ólíkt Þjóðkirkjunni höfum við ekki botnlausan sjóð að sækja aura úr.

Það var gerð könnun á trúarviðhorfum þjóðarinnar á sínum tíma og niðurstöður hennar, sem komu út í bókinni Trúarlíf íslendinga, voru að íslendingar eru upp til hópa (~50%) einkatrúar og eiga afskaplega fátt sameiginlegt með Þjóðkirkjunni og hennar trúarnötturum í trúmálum, um fjórðungur segist efast eða vera trúlaus. Um 10-30% þjóðarinnar tala um Jesús sem frelsara sinn.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 13/10/04 17:11 #

Það væri nú indælt ef Vantrú ætti peninga til að sóa í skoðanakönnun en við erum bara ekki stórfyrirtæki ólíkt til dæmis þjóðkirkjunni. Það er hins vegar margt sem er ofar á forgangslistanum okkar annað en það að gera skoðanakannanir.

He he, já það væri nokkuð skondið að sjá hve margir Íslendingar aðhyllast algert trúleysi á allt sem ekki fæst útskýrt.

Hvað er það sem fæst ekki útskýrt Lárus? Ég held nefnilega að það sé afar fátt, fólk bara hunsar útskýringarnar. Ég hef oft skilgreint trúleysi mitt einfaldlega þannig að ég trúi ekki á guð, álfa, líf eftir dauðann, jólasveininn né önnur yfirnáttúruleg fyrirbrigði.


Arnþór Jónsson - 13/10/04 22:07 #

Óli Gneisti skrifar: "Ég hef oft skilgreint trúleysi mitt einfaldlega þannig að ég trúi ekki á guð, álfa, líf eftir dauðann, jólasveininn né önnur yfirnáttúruleg fyrirbrigði."

Þú ert dauðatrúar Óli litli og það áttu sameiginlegt með prestum og öðrum jólasveinum ;-)


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 13/10/04 22:12 #

Jamm, dauðann og skattana. Óvenjustutt komment frá þér Arnþór, er kjaftæðisgeneratorinn bilaður?


Arnþór Jónsson - 13/10/04 22:50 #

Óli Gneisti skrifar; "Jamm, dauðann og skattana."

Guttar eins og þú Óli Gneisti, borga enga skatta heldur trúa bara á skattana sem hinir borga ;-)

Dauðinn er ímyndun !


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 14/10/04 00:01 #

Arnþór, það er nú bara hrein lygi að segja að ég borgi ekki mína skatta. Annars þá mana ég til að prufa þessa kenningu þína um dauðann á sjálfum þér.


Arnþór Jónsson - 14/10/04 01:31 #

Óli Gneisti skrifar: "..það er nú bara hrein lygi að segja að ég borgi ekki mína skatta."

Vetu rólegur Óli Gneisti. Þú borgar þína skatta, enginn hefur sagt að þú borgir ekki þína skatta. Það eru bara lygarar sem hafa áhyggjur af lygum ;-)

Óli Gneisti skrifar: "Annars þá mana ég til að prufa þessa kenningu þína um dauðann á sjálfum þér."

Enginn getur dáið, enginn getur drepið og enginn verður drepinn.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 14/10/04 01:59 #

!

Ég held að þú sért einfaldlega ge*ður.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/10/04 02:22 #

Arnþór segir:

Guttar eins og þú Óli Gneisti, borga enga skatta...

Og:

Þú borgar þína skatta, enginn hefur sagt að þú borgir ekki þína skatta.

Hvað ertu eignlega að fara, Arnþór?


Arnþór Jónsson - 14/10/04 02:48 #

Birgir skrifar: "Hvað ertu eignlega að fara, Arnþór?"

Hvað er það sem þú skilur ekki Birgir?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/10/04 03:31 #

Hvernig getur sá sem borgar enga skatta borgað sína skatta? Er ekki einhver mótsögn í þessu?


Arnþór Jónsson - 14/10/04 03:59 #

Birgir skrifar: "Hvernig getur sá sem borgar enga skatta borgað sína skatta? Er ekki einhver mótsögn í þessu?"

Í þessu felst engin mótsögn. Með því að segja að maður borgi enga skatta er ekki verið að segja að hann sé að svíkja undan skatti. Sá sem greiðir enga skatta getur því samt sem áður verið að greiða sína skatta. Sumir fá jafnvel greitt til baka.

Og núna hrökk kjaftæðisgeneratorinn í gang ;-)

Peningar eru í sjálfu sér aðeins skiptitæki og ekki neitt annað. Maður getur því með réttu aðeins notað peninga sem tæki til að greiða sömu verðmætiseiningu fyrir sömu verðmætiseiningu. Hvers konar önnur notkun peninga er til ills. Ef maður nær sér í meira verðmæti fyrir minna með þessu skiptitæki, eru peningarnir í því falli ekki lengur skiptitæki. Þá eru þeir svikameðal. Það getur aldrei við neinar aðstæður verið réttmætt að sölsa undir sig meira verðmæti fyrir minna. Það sem bæst hefur við meira verðmætið í hlutfalli við hið minna, myndar þá verðmætiseiningu, sem maður hefur ekkert goldið fyrir. Það merkir, að hægt er að eigna sér verðmæti án þess að láta neitt af hendi rakna í staðinn. Slík verðmæti geta aðeins að fullu og öllu verið eign einhvers annars manns og hafa orðið til fyrir vinnu hans. Enginn maður getur haft rétt til þess að lifa þannig á verðmætum annarra manna. Eigi að síður lifa milljónir manna um allan heim á vinnu annarra manna án þess að greiða neitt fyrir, sökum misnotkunar peninganna. Þetta ástand skapar myrk örlög. Meira verðmæti fyrir minna getur því aðeins orðið réttmæt eign manns, að sú eign sé skilyrðislaus gjöf frá eiganda hennar.

Í dag sjáum við næstum fullkomna einokun náttúrugæða, sem eru frá kosmísku sjónarmiði, alls ekki ætluð til þess að vera verslunarvara. Ákveðnir flokkar manna hafa fyrir löngu einokað lífsnauðsynleg efni jarðarinnar, svo sem kolin, olíuna, námurnar, málmana og fleira. Einnig engi, skóga og höf og strendur og því um líkt. Öll efnisleg gæði jarðarinnar hafa orðið einkaeign nokkurra hópa manna. Með einkaeign sinni á lífsgæðum náttúrunnar stuðlar ríkjandi hluti mannkynsins að því að öreigar mannkynsins þurfa að heyja ævilanga baráttu eða stríð fyrir tilveru sinni. Og mannkynið á hvern einasta dag í þessari baráttu.

Friður mun aldrei nokkru sinni komast á í heiminum, á meðan þetta kerfi dulbúinna rána er við lýði. Miklu líklegra er að kerfið muni leiða af sér svo mikla reynslu þjáninga og ófriðar, að mennirnir geta ekki komist hjá því að uppgötva þessa röngu lífsstefnu sína.

Tekjuskattur er úreldur og viðheldur óréttlæti og misskiptingu. Í dag keyra forríkir burgeisar um á morðdýrum farartækjum sem keypt eru fyrir peninga sem þeir hafa eignst með því að greiða ekki tekjuskatt. Á sama tíma er fjöldi manns í basli við að ná endum saman vegna skattpíningar hins opinbera. Fyrir þá peninga leggur ríkið vegi undir faratæki burgeisanna, sem hafa þá bæði eignast faratækin og vegina fyrir annarra manna vinnu og peninga. Réttlátara og ábatasamara væri að afnema tekjuskattinn og leggja á neysluskatta og umhverfisskatta. Með því móti þyrftu menn frekar að greiða fyrir neyslu sína með eigin vinnu og peningum. Eigendur stórra jeppabifreiða, spænandi upp malbikið greiddu þá fyrir afnot sín af vegum í réttu hlutfalli við álagið, á meðan maðurinn á reiðhjólinu eða fjórum jafnfljótum greiddi minna eða ekkert. Með niðurlagningu tekjuskatta og álögum neyslu- og umhverfisskatta væri seilst í vasa þeirra efnameiri og tekjur í sameiginlega sjóði myndu aukast verulega.

bestu kveður


Karl Birkir - 09/03/05 13:32 #

Miðað við afkastagetu kjaftæðisgeneratorsins þíns ertu mjög trúaður maður.

:)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.