Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fyrirspurn til annálaritara

Kæru annálaritarar

Ég hef því miður lítið kafað í rit trúarbragða heimsins, þar sem ég hef hingað til ekki þurft að taka sérstaka afstöðu til hvers og eins þeirra. Aftur á móti hafið þið, prestar og guðfræðingar þessa lands, vegna starfs ykkar, án efa kynnt ykkur helstu trúarritin. Því vil ég biðja ykkur um að aðstoða mig lítið eitt.

Í huga mér er nefnilega enginn munur á Kóraninum, Biblíunni, Veduritunum, Bókinni um veginn, já eða Mormónsbók. Ég ætla samt ekki að biðja ykkur, annálaritarar, um að skýra mér frá öllum þessum ritum, ég ætti auðvitað að hunskast til að lesa mér sjálfur til um þau. Ég er hins vegar hræddur um að lestur þeirra breytti litlu um skoðun mína á þeim þar sem ég hef ávallt talið þau lýsa bábiljum, trúarskoðunum sem engan veginn eiga upp á pallborðið í nútímanum. En þar sem þessi sýn mín á ritunum er líklegast allt önnur en ykkar þætti mér vænt um ef þið útskýrðuð muninn á þeim í huga ykkar, til þess að ég fái skilið hvers vegna þið leggið Biblíuna til grundvallar trúar ykkar en ekki eitthvert annað rit. Nú kann reyndar að vera að einhverjir ykkar teljið trú ykkar algjörlega óháða Biblíunni og að Biblían sé óþörf við átrúnað í kristni. Þið getið þá leitt spurningarnar hjá ykkur. En, kæru guðsmenn, þá ykkar sem vitna ótt og títt í Biblíuna, bið ég um að svara þessum tveimur ofureinföldu spurningum:

    1: Hvers vegna trúið þið á Biblíuna?

Eru það leifar barnatrúarinnar? Ykkur hefur sem börnum líklegast verið kennt að trúa á guð og Biblíuna. Sem fullorðnir einstaklingar hafið þið haldið því áfram en ekki velt því fyrir ykkur hvort Biblían hafi eitthvað fram að færa fram yfir önnur trúarrit eða hvort þið séuð yfirhöfuð eitthvað betur settir með átrúnaði á hana.

Viðurkennið þið kannski öll hin trúarritin til jafns við Biblíuna og teljið goðafræði þeirra jafnréttháa goðafræði Biblíunnar?

Eða er það vegna þess að þið hafið að vel íhuguðu máli komist að því að Biblían er eina rétta trúarritið og að hin eru öll kjaftæði, sem ekki skal taka mark á. Guð Biblíunnar sé sá eini sanni og á hann verði að trúa því allir aðrir guðir eru falsguðir.

    2: Ef þið hafið svarað fyrri spurningunni í samræmi við þriðja og síðasta möguleikann, á þann veg að þið teljið Biblíuna vera eina rétta trúarritið og að öll hin séu kjaftæði (sem mig grunar sterklega að þið hafið gert þó það hafi kannski ekki verið jafnsterkt til orða tekið og hjá mér), hvað greinir hana þá nákvæmlega frá öllum hinum?

Nú gæti einhver sagt að hún sé eitt elsta trúarrit heimsins, en elstu hlutar Gamla testamentisins eru jú frá því um 1300 f.Kr. Biblían í heild sinni er nú samt langtum yngri og Veduritin eru t.a.m. mun eldri en Nýja testamentið. En ég væni ykkur, annálaritarar, heldur ekki um það að byggja flókna lífsskoðun ykkar á barnalegum rökum eins og því hvaða trúarbrögð séu elst.

Einhverjum gæti líka dottið í hug að benda á það að kristnin sé fjölmennustu trúarbrögð heimsins og hvernig gæti tveimur milljörðum manna skjátlast? En hvernig gæti þá hinum fjórum milljörðunum, sem búa á jörðinni og ekki aðhyllast kristni, skjátlast? Auk þess kæmumst við, kæru annálaritarar, auðvitað fljótt að því að það er ekki sjálfgefið að álit fjöldans sé það eina sanna. Og eins og nærri má geta efast ég sjálfur stórlega um að þið teljið þetta ástæðuna.

Ef til vill mun einhver geysast hér fram og vekja vinsamlegast athygli á því að fallegur boðskapur Biblíunnar sé hinn eini sanni. Það kann jú vel að vera að hægt sé að finna í hinni heilögu ritningu áminningar um göfugt og réttlátt líferni sem allir heilbrigðir og velþenkjandi menn á jörðinni eru sammála um að teljist réttar. En, kæru kirkjunnar menn, er ekki hægt að finna þannig boðskap í flestum öðrum trúarritum heimsins? Eðlilega teljið þið kristnina ekki vera einu siðferðislega réttu trúarbrögðin í heiminum, eða Biblíuna eina trúarritið í hverju mögulegt er að finna fallegar og mannbætandi setningar. Nei, ég veit að þið eruð víðsýnni en það.

Þá má vera að einhver guðhrædd og auðmjúk sál bendi á það að Biblían fjalli um Jesúm Krist, mannsoninn, sem hafi af miklu hugrekki fórnað sér fyrir mannkynið og hann sé frelsari vor og sáluhjálpari. En, elsku annálaritarar, var Múhammeð spámaður þá ekkert nema lygari og Kóraninn því falsrit frá upphafi til enda? Eru þeir sem tilheyra íslam fastir í vefi lyga og undirferlis? Hvað með öll hin trúarbrögðin? Var Búddha bjáni, Bahaullah bjálfi, Krishna kjáni og Míþras rugludallur?

Hugsanlega, annálaritarar, finnst ykkur ég naífur og einfaldur í hugsun. En ég get lítið að því gert, hef því miður aldrei fengið möguleika á að gera upp á milli trúarritanna. Eini möguleiki minn er að þið fagmennirnir hjálpið mér og sannfærið mig um hvert sé eina rétta trúarritið. Um leið og það er komið á hreint get ég tekið afstöðu til trúarbragða heimsins og mun ég tafarlaust hefja átrúnað á réttu trúarbrögðin með réttu trúarritin enda tel ég að almennileg trúarbrögð verði að byggja á einhverju haldbæru.

Gallinn er auðvitað sá að við það að biðja ykkur um að uppfræða mig hætti ég á að það komi í ljós að hið eina sanna trúarrit heimsins sé í raun og veru ekki til. Að þau séu öll fölsk, lygi frá upphafi til enda. En ég vona svo sannarlega að það verði ekki raunin.

Með þökk og von um góðar undirtektir.

Snæbjörn Guðmundsson 26.05.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 26/05/04 00:32 #

Hverjum var þetta bréf sent?


Snæbjörn Guðmundsson - 26/05/04 00:39 #

Engum, þetta er bara opið bréf. Mætti reyndar alveg senda öllum annálariturunum afrit af því en ég veit svo sem vel að sumir þeirra líta hérna inn við og við. Bréfið var hugsað til þeirra.


Saga - 26/05/04 10:55 #

Flott!


Hrannar T. - 26/05/04 11:33 #

Klénn, barnalegur hæðnistónn í stílnum. Greinarskríbent á erfitt með beygingar, orðalag, er lítt lesinn, spurningar hans eru léttvægar, grunnhyggnar og fyrirlitning hans á trú annarra er illskeytt í versta falli en kjánaleg og upprunnin af persónulegum ósigrum í besta falli. Raunar þykir mér sem þetta eigi við um marga sem skrifa hér inni á þessari síðu; þið berið með ykkur grunnhygni, álappalega hæðni sem virðist rótgróin; trúfíflaháttur ykkar er áberandi meiri en flestir kirkjunnar menn sem ég hef átt samneyti við; að trúa heyrir ekki einungis undir trúarbrögð - heldur hvaða stóra hugmyndafræði sem er, og ykkar er hvorki réttari né rangari en annarra, en í framsetningu er hún þeim mun snauðari af virðingu fyrir hjálpræði annarra og því gildi og þeirri fyllingu sem klassísk trúarbrögð hafa gætt lífi manna í þúsundir ára - þetta er, hjá ykkur, afgreitt með óþokkalegum hroka e.k. skynsemis- eða pragmatistabyrjenda í hugsun. Trúarbrögð munu alltaf standast árásir af þessu tagi og raunar styrkist trú við hverja þá árás sem hún verður fyrir; að afstaðinni Turnaárás hefur peningahyggja og heimsveldastefna Ameríku aldrei verið sterkari. En árásir ykkar eru aldrei afdrifaríkar eða mikilfenglegar, þær eru aulalegt bílalúgurán, þið fáið nammið ykkar í poka, stingið svo af án þess að borga til að uppgötva skömmu síðar hvernig þið skilduð eftir guðsvolað visa-kortið í höndunum á afgreiðslustelpunni, þið eruð móðursýkin hvínandi og eins og slíkra er vant skjótið þið ýmist undir eða yfir markið og teygið gúmmibjarnagreind ykkar of langt og einn daginn slitnar hún - þið deyið og sumir ykkar fara til helvítis.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 26/05/04 11:53 #

Það er aldeilis stuð í Ítalíu!

Skrítið að í athugasemd Hrannars vottar hvergi fyrir nokkru sem tengist efni greinarinnar. Ef Hrannar væri þokkalega greindur gæti hann séð ábendingu hér fyrir neðan þar sem farið er fram á að athugasemdir sem ekki tengjast efni greinarinnar fari á spjallborðið.

þið deyið og sumir ykkar fara til helvítis.
Æjæ, Hrannar er trúarnöttari. Hlaut að vera.

Hrannar. Þú ert ljótur og asnalegur ;-)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/05/04 12:15 #

Innlegg Hrannars er sennilega það ómálefnalegasta hér um langan tíma. Ekkert tekið á því sem rætt er í greininni, en höfundur og aðrir ataðir í Ad hominem saur.


Sævar - 26/05/04 12:42 #

Hrannar segir að spurningarnar séu léttvægar og grunnhyggnar en samt svaraði hann þeim ekki, en setur út á stíl, beygingar og orðalag :). Ég er sammála um að þetta er það ómálefnalegasta sem ég hef lesið hérna og bíð ég spenntur eftir "málefnalegu" svari.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 26/05/04 12:45 #

Hrannar má þetta alveg því hann er svo gáfaður og við hinir erum svo vitlausir :-)


Sævar - 26/05/04 12:45 #

Hrannar segir að spurningarnar séu léttvægar en svarar þeim ekki en setur út á stíl, beygingar og orðalag :). Ég er sammála því að þetta er það ómálefnalegasta sem ég hef lesið hérna og bíð ég spenntur eftir "málefnalegu" svari.


Snæbjörn - 26/05/04 13:02 #

Jah, mér finnst nú erfitt að fá betri meðmæli en svona svar, maður er helvíti ánægður ... ;)


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 26/05/04 14:31 #

Þetta skot Hrannars er stórskemmtilegt, sérstaklega hafði ég gaman af því að hann kallaði Snabba "lítt lesinn".


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 26/05/04 15:09 #

Já, fyrr má nú vera trosausturinn og bægslagangurinn. Ef guð hefði heyrt til þín núna, Hrannar, þá hefði hann sko snúið sér við í gröfinni! :D Eins kjarnyrt og svar Hrannars var, þá er synd og skömm hvað það var innihaldsrýrt.


Björn (Bó) - 26/05/04 17:32 #

Ég held að enginn geti með góðri samvisku kallað góðvin minn Snæbjörn fáfróðan eða illa lesinn. Vissulega er mætti virðing fyrir trúarbrögðum vera meiri og greini ég vissa hæðni í skrifum Snæbjarnar. En að þykjast ætla að dæma aðrar sálir til helvítis er svo fáránlega heimskulegt að svar Hrannars missir algjörlega marks. Það er út af svona fólki sem virðing fyrir trúarbrögðum fer dvínani.


Snær - 26/05/04 18:25 #

Reyndar er það góður punktur hjá honum Hrannari að trúin styrkist oft við árásir á hana.

Fingur í eyrum "Nananana, hlusta ekki á þig! Er ekki að hlusta, hlusta ekkert á þig." fingur í eyrum

Ó svo oft reyna margir okkar trúleysingjanna að ræða við það fólk sem heittrúað er, og álíka oft vísa þeistarnir rökum okkar burt, og kalla þau barnaleg, í stað þess að svara þeim. Svona eins og hann Hrannar gerir.

Erum það við sem sýnum ykkur þeistunum ekki virðingu? Mætti ég biðjast þess að þú lítir í eigin barm? Eða þykir þér sú beiðni mark um vanvirðingu?


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 27/05/04 09:43 #

Oh dear, ég lít svo á að Hrannar hafi í raun svarað spurningum Snæbjörns. Svarið er: "ok, it's a fair cop, I'll come quietly", en hann hefur ekki kjark til að viðurkenna það og því belgir hann sig út með skrautmælgi og fígúruskap þar sem hann dreifir ad hominem mykjunni af miklum móð.

"Gúmmíbjarnagreind" come on.

Snæbjörn 1 - trúarnöttarar 0

93


Skúli - 28/05/04 09:56 #

Kæru vinir, hvað er atarna? Þið megið nú ekki ganga að því sem vísu að við annálaðir séum á stöðugu útkikki hér í á þessum slóðum.

Eitt af því sem ég þykist hafa lært á vetrarlöngu spjalli mínu við vantrúaða er hversu torvelt það getur verið að finna sameiginlegan umræðuvettvang. Er þar að nokkru leyti okkur s.k. "trúmönnum" um að kenna en við erum, svo sem fram kemur í greininni, æði sundurleitur hópur og fjölskrúðugur.

Fátt er því auðveldara en að hæðast að trúmönnum ef menn vilja byggja þar á dæmum því sannarlega er margur kynlegur kvisturinn í meðal trúaðra og illu heilli innan kristinnar trúar einnig.

Mér er í fersku minni ádeilan hjá Dawkins í bókinni Kapellán Kölska þar sem eins og gengur um í stórmarkaði trúarbragðanna og tínir í körfuna það sem hentar hverju sinni, póstmódern textarýni, kosher-matseld, sköpunarhyggju ofl.ofl.ofl.

Jamm - fjölbreytnin er gríðarleg og þá er eðlilegt að reyna að svara þessum spurningum:

  1. Hvers vegna trúið þið á Biblíuna?

Hver segir að við trúum Á Biblíuna? Við trúum ekki á hana - en hún segir okkur sögur af samskiptum dauðlegra manna við Guð sinn, glímuna sístæðu milli mannsins og örlaga sinna og þær birtingarmyndir sem átök þau taka á sig. Í Nýja testamentinu höfum við heimildir okkar um Krist og kristnir menn hljóta að líta á það trúarrit sem grundvallaratriði fyrir lífsskoðun sína. Þar hafa þeir fyrirmynd sína, huggun og kærleiksboðskapinn.

Auk þeirra rita sem finna má í Biblíunni má finna fjöldann allan af apókrýfum ritum og hafa biblíufélög gefið út stóran hluta þeirra - hið íslenska (minnir mig) gaf út apókr.rit G.t. nú fyrir ca. 10 árum í þýðingu sr. Árna Bergs Sigurbjörnssonar.

Ef menn nenna að lesa þá skrifaði ég þetta um þetta í haust!

Trúaðir skiptast náttúrulega í allmarga hópa hvað varðar afstöðuna til annarra trúarhópa. Greinarmunurinn er í senn menningarlegur og tilvistarlegur - þ.e. menn vissulega drekka í sig með móðurmjólkinni ýmis gildi og verðmæti og kann trúin að vera þar á meðal. Að sama skapi snúast þessir hlutir um nokkur af dýpstu spurningum lífsins og verða þá fyrir vikið nátengdir persónunni sem slíkri.

Geta tveir guðir verið til? Slíkt gætu fjölgyðistrúmenn hæglega játað en við hin stöndum ekki undir nafni ef við játum slíkt. Kristin trú er um margt frábrugðin öðrum trúarbrögðum. Nei, aðrir guðir eru ekki til hinn eini Guð.

  1. Nei, ég tek ekki eins sterkt til orða - hin ritin eru ekki "kjaftæði" en hvað hefur kristin trú fram yfir önnur trúarbrögð?

Kannske er það ekki heldur rétt spurning (ekki fremur en að trúa Á Biblíuna).

Ég lít svo á að Guð mæti manninum þar sem hann er staddur. Fyrir því hef ég ótal dæmi úr ritningunni - einkum þar sem varðar samskipti Krists við vantrúaða, "syndara" eða fólki af öðrum trúarbrögðum og kynþáttum en gyðinga.

Guð talar við fólk á þess forsendum. Þetta er kjarni kristninnar. Þetta er raunar kjarninn í kristinni trú - það er ekki okkar að setja Guði reglur um hvern hann frelsar eða hvernig.

Við sjáum þetta svosem í skuggsjá og beygjum okkur fyrir þeirri staðreynd.

Er þetta "fyrirsjáanlegt" svar?

Vonandi.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 28/05/04 12:33 #

Þið megið nú ekki ganga að því sem vísu að við annálaðir séum á stöðugu útkikki hér á þessum slóðum.
Af hverju ekki?

Mér finnst sjálfsagt að gera ráð fyrir því að nettengdir, fróðleiksfúsir og þrasgjarnir ;-) trúmenn kíki hingað inn reglulega.

Annað væri vottur um talsverða rörsýni.


Skúli - 28/05/04 12:42 #

Jú vissulega uppfylli ég öll þessi skilyrði...en þarna leið nú aðeins sólarhringur. Gott ef þið sendið okkur áminningu næst er þið spyrjið. :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/05/04 13:28 #

Skúli, mér finnst þú forðast innihald spurninganna. Þegar Snæbjörn spyr hvers vegna þið "trúið" á Biblíuna segirðu:

Hver segir að við trúum Á Biblíuna? Við trúum ekki á hana - en hún segir okkur sögur af samskiptum dauðlegra manna við Guð sinn, glímuna sístæðu milli mannsins og örlaga sinna og þær birtingarmyndir sem átök þau taka á sig.

Önnur trúarrit segja líka frá samskiptum dauðlegra manna við guð sinn, glímu og átökum. Í spurningunni felst ekki endilega hvort trú ykkar á Biblíunni sé trú á hana, heldur kannski frekar af hverju þið hampið henni, en ekki einhverju öðru trúarriti. Þau eru öll sambærileg, er það ekki?

Gott væri að þú svaraðir líka spurningunum sem á eftir koma:

Eru það leifar barnatrúarinnar? Ykkur hefur sem börnum líklegast verið kennt að trúa á guð og Biblíuna. Sem fullorðnir einstaklingar hafið haldið því áfram en ekki velt því fyrir ykkur hvort Biblían hafi eitthvað fram að færa fram yfir önnur trúarrit eða hvort þið séuð yfirhöfuð eitthvað betur settir með átrúnaði á hana.

Hvað fær ykkur til að trúa á gildi þessa rits, en hunsa önnur sambærileg rit?

Svo segirðu:

Í Nýja testamentinu höfum við heimildir okkar um Krist og kristnir menn hljóta að líta á það trúarrit sem grundvallaratriði fyrir lífsskoðun sína. Þar hafa þeir fyrirmynd sína, huggun og kærleiksboðskapinn.

Hampið þið Nýja testamentinu af því að þið eruð kristnir, eða eruð þið kristnir vegna þess sem þar stendur? Mér sýnist á þessu svari þínu að hið fyrra gildi. Þetta bendir til gagnrýnislausrar fullvissu um það sem búið er að innræta ykkur í bernsku um þennan guð, og svo lesið þið ritið til staðfestingar því.

Ég get ekki séð betur en að ástæðan fyrir því að þið, sprenglærðir í margs konar trúarritum, kjósið að hampa því sem ykkur var fyrst rétt, sé einfaldlega "af því bara".

Skilurðu hvað ég er að fara?


Skúli - 28/05/04 13:46 #

Svarið er á þá leið að ég les og þekki Nt. af því að ég er kristinn. Það er eitt af þvi marga sem hefur mótað mig í lífinu og ræður því hver ég er og hvernig.

Barnatrúin breytist í fullorðinstrú. Uppspretta hennar er lesin og rannsökuð, forsendur hennar eru samþykktar og verða að (sæmilega) heildstæðri sannfæringu.

"Hampið þið Nýja testamentinu af því að þið eruð kristnir, eða eruð þið kristnir vegna þess sem þar stendur?"

Til að gera langa sögu stutta (svo ég tali nú bara fyrir sjálfan mig): Hvort tveggja. Sumir aðhyllast boðskapinn aðrir hafna honum og sumir gera hvort tveggja á ólíkum ævi- og þroskaskeiðum.

Mér finnst ég hafa svarað þessu með önnur trúarbrögð allvel áðan.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/05/04 13:55 #

Örlítil viðbót:

Ef þú hefðir fæðst í Þýskalandi rétt fyrir uppgang nasismans, hefðirðu í æsku þurft að súpa þá hugmyndafræði með móðurmjólkinni og eflaust orðið hluti af Hitlersæskunni. En svo fór sem fór með þetta hugmyndakerfi og heilu kynslóðirnar urðu að endurskoða það sem þær höfðu tekið inn sem sannleik í æsku.

Þetta fólk er allt sennilega á áttræðisaldri í dag og ég er þess fullviss að aðeins örlítið brot þessa fólks hefur varðveitt með sér nasískar hugsjónir allan þennan tíma. Ef heil kynslóð Þjóðverja gat snúið baki við þeim hugmyndum sem það tók inn í æsku finnst mér sæta furðu að menn sem kynna sér kerfisbundið aðra hugmyndafræði en kristni í háskólanámi skuli almennt ekki vera færir um að endurskoða bernskuhugmyndir sínar um heiminn, heldur halda sem fastast í þær, "af því bara".

Þetta segir mér að námsefninu þarna sé pakkað inn í bómull og frekar hlúð að rakalausri trú manna fremur en hitt, þrátt fyrir að sú heimsmynd sé á skjön við allt sem vitað er í dag.

Nei, sú leið er farin að taka augljós ósannindi Biblíunnar, t.d. þar sem fullyrt er að menn geti verið haldnir illum öndum, og snúa þeim upp í táknrænan skilning, því Biblían má náttúrlega aldrei vera röng eða villandi.

Nasisminn var hvorttveggja. Myndir þú, sem hálf-áttræður Þjóðverji, liggja yfir Mein Kampf í dag og reyna að skýra hana táknrænum skýringum? Myndirðu hampa henni á þeim forsendum að hún lýsi hugsunum og verkum Foringjans? Myndirðu afgreiða alla gagnrýni á hana sem ómaklegt og grunnhyggið þvaður, því þeir sem það geri hafi ekki nægilega þekkingu á málefninu?

Ég spyr enn: Af hverju koma menn trúaðir út úr guðfræðideildinni?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/05/04 13:56 #

Þessu tengt:

Trúlausir prestar


Skúli - 28/05/04 14:06 #

Samlíkingin við nazismann er skrýtin. Hún gerir ekki annað en að sýna hversu mjög umhverfið getur mótað fólk til góðs og ills.

Í mínu tilviki leitaðist ég við að sýna hvernig ég hef sjálfur kannað rætur míns uppruna og reynt að taka það besta þar úr. Ég hef líka lagt mig fram við að skoða hugmyndasögu þess kerfis sem ég aðhyllist.

Af hverju koma menn trúaðir úr guðfræðideildinni?

Nú þar túlka menn frásögnina rétt eins og menn læra að draga lærdóm af hverju öðru viðfangsefni og tengja hann líðandi stund.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/05/04 14:29 #

Þessi samlíking er síður en svo fráleit. Heilastærð tegundar okkar hefur í árþúsundir kostað brjálæðislegar hugmyndir sem ala á flokkadráttum og stríðum, enda skipta þær oftar en ekki mannkyni niður í hin góðu "okkur" og þessi vondu "hin".

Að hve miklu leyti getur kristnin flokkast undir slíkt hugmyndakerfi, Skúli? Hefur þeirrar spurningar verið spurt í guðfræðideildinni?


Skúli - 28/05/04 17:12 #

Já, þetta atriði væri dæmi um þá naflaskoðun sem viðgengst í guðfræðideildinni. Afrakstur hennar má m.a. lesa í fyrsta svarinu mínu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/05/04 19:28 #

Já og ég benti þér á að þú forðaðist að svara því sem lagt er upp með. Nú spyr ég aftur: Getur kristnin flokkast undir eitt af þessum hugmyndakerfum sem skipta heiminum upp í "gott" og "illt", "okkur" og "hina"?


Skúli - 29/05/04 00:08 #

Já, hún getur það. Eins og ég sagði líka er kristnin afar margbreytileg og kristnin hans Busa og félaga gerir þetta einmitt.

En, uh, öh, eh...

Á þessi lýsing ekki við einhverja fleiri..?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/05/04 01:45 #

Ekki trúleysi, svo mikið er víst. Trúleysi er ekki hugmyndakerfi, en einhverjir trúleysingjar geta svo sem alveg aðhyllst hugmyndafræði sem skiptir heiminum upp í gott og illt (ég hef reyndar ekki séð til neins slíks enn).

Margir trúleysingjar aðhyllast aftur á móti siðrænan húmanisma, sem hafnar öllum flokkadráttum. Í því hugmyndakerfi er manneskjan sett á stall, burtséð frá lífsskoðunum hennar, eins og þú veist.

Nútímakristnir eru farnir að apa þetta viðhorf upp eftir húmanistunum. íslenska þjóðkirkjan gefur sig t.d. út fyrir að viðurkenna aðrar lífsskoðanir en þær sem hún boðar. Hún gerir þetta í von um að halda vinsældum sínum í samfélagi sem meira og meira einkennist af ólíkum menningarstraumum og lífsviðhorfum.


Kristín - 29/05/04 02:00 #

Ég er nú enginn heili eins og þið flest sýnist mér en mig langar til að spyrja Skúla að svolitlu vegna þess að mér finnst hann kemur með mjög góð svör við erfiðum spurningum eins og þessum fyrir ofan. Oki, ég hef aldrei lesið Biblíuna en hef heyrt að þar komi fram margt sem bendir á fordóma gagnvart til dæmis samkynhneigðum. Þú virkar vel að þér, þannig að þú vitir að samkynhneigð er ekki röng. Eða hvað? Og hvað finnst þér um þessa þætti Biblíunnar?


Skúli - 29/05/04 09:34 #

Takk fyrir Kristín!

Samkynhneigð er mjög í umræðunni innan kirkju og guðfræði - enda er svo komið að farið er að vígja samkynhneigt fólk til æðstu starfa innan kirkjunnar.

Kristín Þórunn Tómasdóttir ritar um þetta góða ritgerð í Ritröð Guðfræðistofnunar, 18. bindi. Þar ritskýrir hún m.a. þessa ritningarstaði sem til grundvallar eru andófi gegn samk.hn. og bendir á að hugtakið "viðurstyggð" sem haft er til að lýsa kynlífi samk.hn. á við um reglurnar um trúarlegan hreinleika (s.s. kosher, húðflúr, föt úr tvenns konar efni ofl.). Samk.hn. var talin ógna sérstöðu Ísarelsmanna.

Jesús leit þessi hreinleikalög gagnrýnum augum og benti á að Guð þekkir hjörtu mannanna og þau geta verið viðurstyggileg ef þau eru uppfull af fordómum. (Lk. 16.15).

En kíktu á þessa grein - hún er ágæt!


Frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 29/05/04 14:38 #

Skúli, var þá Páll Postuli siðblindur í hatri sínu gegn samkynhneigð vegna þess að hann skildi ekki skýr fyrirmæli Jesú samkvæmt Lk. 16.15? Ef satt reynist er Páll postuli ómerkingur sem mælir gegn orðum Jesú eða gæti Skúli verið að rangtúlka sjálfan Guðsoninn. Annar möguleiki sem mér þykir líklegastur að þetta sé gott dæmi um Grænsápuguðfræði:)


Skúli - 29/05/04 18:11 #

Sæll vinur minn og takk fyrir orðin hlýju þarna um daginn.

Eins og Kristín Þórunn segir í pistli sínum verður "ekki með góðu móti hægt að draga neinar ályktanir af afstöðu Páls til samkynhneigðra sérstaklega, þótt einangraðar athafnir rati inn á lastalista pistla hans. Það sem við vitum almennt um aafstöðu hans til kynlífs er sterk vanþóknun á hvers kyns misnotkun og lausung og gildir einu hvort um sé að ræða kynlíf karls og konu, tveggja karla eða tveggja kvenna."

Kannske veitir ekki af smá sápuþvotti hér. Menn hafa farið illa með blessaðan Pál í gegnum tíðina og notað orð hans til þess að réttlæta eigin fordóma. :)


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 30/05/04 11:17 #

Róm1:27og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar ... 32þeir eru menn, sem þekkja réttdæmi Guðs og vita að þeir er slíkt fremja eru dauðasekir.

Skúli, það er ekki af ástæðulausu sem sumir íhaldssamir Prestar Þjóðkirkjunnar vilja ekki gifta né blessa samkynhneigða og Biskupinn er í tómu basli með þetta mál. Samkynhneigð er flokkuð undir allt það versta í NT svo ekki sé talað um lögmálsbækur Móses. Þú bentir á Lk 16:15 og ef þú hefðir lesið aðeins lengra: Lk 16:17En það er auðveldara, að himinn og jörð líði undir lok, en einn stafkrókur lögmálsins falli úr gildi. Getur þetta verið leiðarljós okkar í 21 öldina frá syni Guðs?


Kristín Þórunn - 31/05/04 14:00 #

Vegna vangaveltna um samkynhneigð og Biblíuna.

Stundum virðist umræða um samkynhneigð og kristna trú hjakka í þröngu fari einstakra ritningarversa sem engan veginn eru hjálpleg til að skapa umræðugrundvöll um málið. Það er skaði, því að þetta er alvörumál og á skilið að fólk sem tjáir sig um það setji sig a.m.k. eilítið inn í það samhengi sem um ræðir.

Varðandi síðustu athugsemdina hér á síðunni þá dembir hún saman samkynhneigð eins og hún er skilin á vorum dögum, ritskýringarvandamálum tengdum Rómverjabréfinu, afstöðu Krists til lögmálsins eins og Lúkas greinir frá henni og umræðu um hjónabandið og blessun sambúðar fólks af sama kyni. Ef fjalla á um alla þessa hluti er það flókið og viðamikið. Engan veginn hentar að afgreiða þá á einu bretti og slá fram einhverri alsherjar lausn eins og hér virðist óskað eftir.

En mig langar að taka upp spurninguna sem er varpað upp í lokin, um leiðarljósið inn í 21. öldina. Þar er við hæfi að benda á þá hátíð sem nú er, hvítasunnuna, og þann boðskap sem hún flytur. Frásagan af því þegar heilagur andi kemur yfir lærisveina Jesú á hvítasunnudag, greinir frá því að fólk af ólíkum uppruna, ólíkri trú, frá ólíkum löndum sem talaði ólík tungumál, skildi allt í einu það sem sagt var um huggunarboðskap Jesú frá Nasaret. Það sem greinir fólk að og byggir upp múra í kringum það, fellur niður og missir marks þegar manneskjan stendur frammi fyrir Guði.

Það skyldi þó ekki vera leiðarljós okkar inn í 21. öld fjölmenningar og fjölbreytileika, að við stöndum öll jöfn frammi fyrir Guði og þurfum öll á huggun að halda, hvað sem líður tungumáli, þjóðerni, trú og kynhneigð?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 31/05/04 14:35 #

Varðandi síðustu athugsemdina hér á síðunni þá dembir hún saman samkynhneigð eins og hún er skilin á vorum dögum, ritskýringarvandamálum tengdum Rómverjabréfinu, afstöðu Krists til lögmálsins eins og Lúkas greinir frá henni og umræðu um hjónabandið og blessun sambúðar fólks af sama kyni. Ef fjalla á um alla þessa hluti er það flókið og viðamikið.

Er ekki hér komið fyrirtaksdæmi um grænsápuþvott?


Snær - 01/06/04 19:54 #

[quote]...við stöndum öll jöfn frammi fyrir Guði...[/quote]

Hmm, ekki það að ég sé móðgaður eða neitt, ekki misskilja mig.

En þykir engum þetta vera örlítið... ah, ég veit ekki, virðingarlaust, einhvernmegin?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 08/06/04 14:27 #

Nú er komið svar við greininni á gestaannál.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.