Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vér pósitífistar

raun·speki KVK
heimspeki
• kenning (Comte) sem afneitar frumspeki og hugleiðingum um innsta eðli hlutanna og vill aðeins byggja á áþreifanlegum staðreyndum og vísindalegri þekkingu, pósitífismi
(positivismus)

Það hefur sennilega ekki farið fram hjá mörgum sem lesa Vantrú að sumir okkar sem hér skrifum höfum gaman af að skiptast á skoðunum við presta þá og guðfræðinga sem rita á vefsetrið Annáll.is.

Lengi vel var okkur fremur illa tekið þarna, menn vissu ekki alveg hvernig átti að tækla svona dóna sem enga virðingu báru fyrir trúarskoðunum guðfræðinga. Sumir reyndu fyrst að afgreiða innlegg okkar sem kjafthátt, en þegar það gekk ekki upp (af því við vorum svo málefnalegir) hófst gjarna mikil hríð Ad hominem árása og útúrsnúninga.

En svo föttuðu menn hvað gera átti. Þeir áttuðu sig á því fyrir rest að málflutningur okkar hljómaði eitthvað kunnuglega og eftir að hafa litið á ný í bækur sínar var kveðinn upp úrskurður: Þetta eru bara pósitífistar!

Og þá varð allt létt og skemmtilegt á ný. Nú var hægt að afgreiða málflutning okkar sem úrelta leið til að skoða heiminn og okkur vinsamlegast bent á að við værum alveg eins og nítjándu aldar raunhyggjumenn að rífast við sveitaklerka þess tíma.

Við vorum semsagt tímaskekkja.

Sjálfir töldu þessir guðfræðingar sig vera komna langan veg frá sveitaprestum nítjándu aldar, búnir að lifa og hrærast í glænýjum heimspekikerfum, voru póstmódern og allt. Þeir gátu því glaðir stillt upp málum á þann veg að þeir væru hinir nútímalegu, en við aftan úr forneskju.

Þetta er auðvitað viðsnúningur af verstu sort. Fullyrða má með réttu að póstmódern-þankagangurinn sé skref afturábak frá upplýsingunni en ekki framþróun. Þegar menn eru farnir að gefa sér að hvað sem er geti verið rétt á sinn hátt og að margir sannleikar séu á sveimi, allir jafn réttháir, eru menn staddir á hálum ís.

Rök og raunhyggja sú sem upplýsingin ól af sér gengur út frá forsendum sem eiga sér stoð í raunveruleikanum. Slík hyggja er sú eina færa leið sem hefur sýnt sig að skili árangri í þekkingarleitinni. Það er auðvitað hægt að upphugsa hundrað alternatíva möguleika á annarskonar raunveruleika, en ef slíkar fantasíur hafa ekkert með staðreyndir að gera hljóta þær að falla um sjálfar sig.

Sú guðfræði sem nærir sig í kraumandi potti frjórra póstmódern hugmynda kemst ekkert nær því að skýra frá sannleikanum en hvaða annað miðaldarugl sem menn gáfu sér að eigin geðþótta, áður en þeir föttuðu að ganga út frá raunveruleikanum. Því verður sá guðfræðingur sem lítur á sjálfan sig sem nútímalegan í besta falli brjóstumkennanlegur, því villigöturnar eru algerar.

Nei, við pósitífistar erum miklu meira módern en hinir póstmódern guðfræðingar. Þeir eru enn að ákalla guð sinn og halda að töfraþulutuð veiti símsamband yfir í aðra heima. Við sem rýnum í heiminn út frá rökstuddum forsendum hljótum alltaf að sigra þegar upp er staðið.

En það er því miður bara ekki í tísku að vera raunsær, hitt er svo miklu, miklu meira spennó. En þekking snýst því miður ekki um hugmyndatrylling, þótt skemmtilegur sé. Hún hlýtur alfarið að byggja á því sem haldbært er.

Birgir Baldursson 12.05.2004
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


nóri - 15/07/04 22:21 #

Allir sannir trúmenn eru í hjarta sínu pósitívistar, því fyrir þeim er Guð raunverulega áþreifanlegur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/07/04 22:32 #

Þannig að það er nóg að sýna þeim fram á að þessi áþreifanleiki sé ekki raunverulegur og þá muni þeir droppa guðstrúnni?


Össi - 10/09/04 13:00 #

Póstmódernistar gefa sér það að það sé ekki til neitt sem er satt. Þeir virðast ekki átta sig á því að það getur ekki verið satt að ekkert sé satt, sama hversu vel maður útskýrir það fyrir þeim.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.