Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Efnaskiptakúrinn

Á bloggvöllum Netsins rakst ég á uppskrift að öflugum megrunarkúr sem einhver kona flaggar. Hann heitir því fróma nafni Efnaskiptakúr Landspítalans.

Með þessum kúr, sem stendur í 13 daga, á að vera hægt að losna við allt að 20 kíló á einu bretti. Það má vel vera rétt, en þau ættu að koma ansi fljótlega aftur, ef litið er til næringarfræðilegra forsendna.

Því hvernig á þessi kúr mögulega að geta hraðað á efnaskiptunum, eins og gefið er í skyn í lýsingu? Vitað er að allt svelti hægir á þeim. Eina færa leiðin til að hraða efnaskiptunum felst í aukinni hreyfingu.

En þetta heitir nú einu sinni efnaskiptakúr Landspítalans og því ætti þetta að vera í góðu lagi, ekki satt? Ónei, nafnið eitt og sér segir ekki neitt. Þessi kúr tengist reyndar Landspítalanum ekki neitt, en nafngiftin nægir til að fólk fái traust á honum. Þetta er greinilegt dæmi um vísun í yfirvald, með þeim annmörkum þó að þessi yfirvöld sem notast er við gefa sig ekki á nokkurn hátt út fyrir að halda því á lofti sem fullyrt er. Nafn kúrsins er einfaldlega lygi.

Ekki veit ég hver lætur sér detta í hug að setja saman annan eins kúr og kenna hann við Landspítalann. En sá hinn sami hlýtur að fá eitthvert undarlegt kikk út úr því að spila með trúgirni fólks.

En af hverju er ég að tala um þetta hér? Jú, þetta er enn eitt dæmið um yfirburði gagnrýninnar hugsunar framyfir trúgirni. Skeptíkerar eru einfaldlega mun betur í stakk búnir til að sía út alls kyns vitleysu sem að þeim er rétt meðan hinn trúgjarni stekkur á eitthvað svona og byrjar að misþyrma sjálfum sér. Af því að bullið sem hann les er kennt við virðulega stofnun spyr hinn efagjarni sig strax að því hvað það sé nákvæmlega sem geri þessa töfralausn öðruvísi en aðrar svipaðar. Í þessu tilviki: Ekki neitt. Svelti hægir á efnaskiptunum og kaffibolli og buff breyta þar engu um.

En svo eru líka til virðulegar stofnanir sem halda sjálfar bulli og vitleysu að almenningi. Þær hafa hlotið virðuleika sinn í krafti valda og auðæfa gegnum aldirnar, enda íburður mikill og háheilög slepjan á hverju strái. En boðskapurinn þarf ekki að vera neitt sennilegri en næsta órökstudda fullyrðing þótt stofnunin sé gulli prýdd. Hjá slíkri stofnun felst rökvillan í vísun í sjálfa sig, átorítet sem er þó ekkert átorítet.

Nei, kirkjan er ekkert alvöru átorítet heldur aðeins virðulegur frontur eftir aldalanga auðsöfnunina. Hugmyndakerfið á bak við glingrið er einfaldlega fávíslegt moð sem stenst enga gagnrýna hugsun.

Skoðum þetta aðeins. Tökum fjögur af fjölmörgum dæmum um hina samfélagslegu hægingu efnaskipta sem þessi stofnun hefur þröngvað upp á þjóðarlíkamann. Því hvað er þessi stofnun búin að vera að boða gegnum aldirnar? Heftingu og aftur heftingu.

Anti-Ónaní

Sjálfsfróun er ljót og synd og ég veit ekki hvað. Í ljósi Biblíusögunnar um Ónan hafa gegnum aldirnar sprottið alls kyns draugasögur kringum rúnkið, til að fæla fólk frá því að ástunda þetta. Afleiðingarnar áttu að vera blinda og annar ófögnuður eða eins og fram kemur hjá Mormónum, skapar sjálfsfróunin víst falska kennd öryggis og ástar og þar með á að vera hætta á að wankerinn finni ekki nægilega þörf fyrir að koma sér upp fjölskyldu.

Útrás kynhvatarinnar á að leita innan hjónabands, með fjölgun mannkyns að hinu eina markmiði, samkvæmt boðun kristinnar kirkju gegnum aldirnar. Þjóðkirkjan tjáir sig reyndar ekki mikið um rúnk á okkar tímum, enda búið að sýna fram á að öll sáðlosun er körlum til heilsueflingar, hamlar krabbameini í blöðruhálsi og eistum. Og hjá báðum kynjum losnar um spennu, sem aftur leiðir til friðsamlegra samfélags.

Anti-hómó

Gegnum aldirnar hafa hommar verið ofsóttir fyrir kynhneigð sína og enn í dag útilokar Þjóðkirkjan þá frá kristilegu hjónabandi. Ruglsöfnuðirnir til hliðar við hana bjóða afhommun, en skilaboðin hafa alltaf verið þessi: Haldið aftur af þessu því þetta er synd. Kynlíf í trúboðastellingu til fjölgunar mannkyni, takk!

Svona hefur þessi költstofnun verið upptekin af kynhegðun manna. Og hugsið ykkur alla þá sálarangist sem þessi stefna hins trúarlega átorítets er búin að kosta. Að ekki sé talað um það þegar fautarnir koma í kjölfarið og ofsækja þá sem uppvísir verða af því að lifa á svig við Biblíuna. Hommahatur er bein afleiðing kirkju og kristni.

Lífsgleði njóttu - ekki

Vissuð þið að kirkjan bannaði dans og hljóðfæraslátt á Íslandi öldum saman? Afleiðing þessa er meðal annars sú að lítið hefur varðveist af íslenskri tónlistarhefð frá fyrri tímum. Menn fóru ekki að eignast hljóðfæri af einhverju viti fyrr en á ofanverðri nítjándu öld, þegar hið veraldlega ýtti hinu geistlega út af borðinu.

Nei, það mátti ekki vera gaman hjá alþýðunni. Hún átti öllum stundum að vera á bæn að biðja guðinn sinn um að fyrirgefa sér skemmtanaþörfina, kynhneigðina og kynhvötina.

Ekki blóta!

Það er víst hollt að blóta. Sé eitthvað að marka nýlegar niðurstöður rannsókna leiðir bölv og ragn til losunar og afraksturinn er tilfinningalegt stabílítet. En kirkjan hefur ekki verið neitt sérlega hliðholl slíkri útrás en í staðinn boðað sveltikúr tjáningarinnar.

Kannski það eigi sér orsakir í því hve blótsyrði þau sem við notumst mest við eru kristileg. Helvítis djöfulsins andskotans er í augum hennar eins konar særingaþula sem beint er til myrkraaflanna í neðra, antí-bæn og svartur galdur. Hún er gamalgróin sú hjátrú að einhverskonar galdramáttur felist í orðunum. Bænir og bölbænir eru ágæt dæmi um slíkt, en líka sá háttur að sneiða hjá því að nefna hlutina sínum réttu nöfnum af ótta við að með því sé eitthvað illt sært fram. Þannig veigruðu menn sér við því að nefna djöfulinn á nafn og gáfu honum alls konar gælunöfn með minni kyngikraft. Slík skrauthvörf hafa líka verið notuð á dýr sem menn hræddust, refurinn t.d. kallaður lágfóta og þar fram eftir götum. En auðvitað er ekki heil brú í slíku táatipli kringum orð, þetta er hin mesta bábilja.

Nýlega mátti lesa frétt þess efnis að dönskum skólabörnum sé nú bannað að blóta, en munnsöfnuður þeirra þykir frekar kjarnmikill. Þarna eru tepruáhrif kristninnar að verki, hömlur lagðar á sjálfsagða og eðlilega hegðun sem hreinsar taugakerfið.

Já, hinar kristnu hömlur er svo víða að finna og þær eiga sér svo djúp áhrif í menningu okkar að við tökum ekki lengur eftir þeim. En eins og sýnt hefur verið fram á hér er ekkert sem bendir til þess að afraksturinn sé góður, öðru nær.

Hafið þið áhuga á einhverjum þessara efnaskiptakúra Þjóðkirkjunnar? Er ekki kominn tími til að gefa bælandi boðskap hennar frí?

Birgir Baldursson 10.05.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


hanni - 11/05/04 00:36 #

smá gúrkutíð hjá vantru.net?

p.s. hvað er að því banna ljótt orðbragð...þú vilt kannski hafa börnin þín bölvandi hægri vinstri?!?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/05/04 03:04 #

Milljón marglyttur og hundrað hámerar frá Hornafirði! Alveg vissi ég að þessi spurning kæmi. Ekki er ég sjálfur bölvandi hægri vinstri, en stundum þykir mér ágætt að tvinna saman nokkur fökk og sjitt til að létta á spennu. Og ekki mun ég amast við slíku hjá börnum mínum, verði ég svo lánsamur að eignast slík, því betra er að þau fái útrás í nokkrum saklausum helvítis djöfuls en að þau gangi um berjandi.

Rakasta sönnunin fyrir því hve blót getur verið nærandi liggur ljós fyrir hjá sumu Tourette-fólki sem fær útrás fyrir andlega spennu við að tvinna saman blótsyrði í tíma og ótíma. Þetta fólk fengi ekkert út úr því að segja "kærleikans, frelsarans" eða "ansvítans, déskotans" heldur því sem meira bit er í:

One of the main pieces of evidence is people who have Tourette's syndrome [...] Touretters claim saying those powerful words alleviates the pressure of the tics they have, rather than saying milder words."

En hvað áttu við með gúrkutíð? Það er ekki eins og þessi grein sé endurtekið efni, er það?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/05/04 03:23 #

Eða með orðum Eric Cartman: "What's the big deal, it's not hurting anybody. Fuck fuckity fuck fuck fuck." (Bigger, Longer & Uncut)


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 11/05/04 12:41 #

Já, það er góður siður að tvinna og þrinna blótsyrðum, og engin andskotans synd. Það er hins vegar synd að gera það ekki, þá er maður að vanrækja einn skemmtilegasta kima tungunnar, kima sem býður upp á fjölbreytta og skemmtilega möguleika, auk þess að vera útrás þegar maður t.d. lemur með hamri á puttana á sér.

Annað: Flestir hommahatarar sem ég þekki eru ekki kristnir. Hommahatur er ekki afleiðing kristni, heldur er það einfaldlega ein birtingarmynd forheimsku. Á sama hátt og rasismi, kvenfyrirlitning eða hatur á nágranna sínum er þetta bara ein birtingarmynd þess að vera hræddur við það sem maður þekkir ekki, eða standa stuggur af því sem er ekki eins og maður sjálfur eða maður þekkir ekki. Eins og með kærleiksboðskapinn er hommahatrið upprunalega líklega frekar smitað inn í kristni en út úr henni, þótt það hafi auðvitað smitað ansi marga út úr henni eftir það. Reyndar held ég að þeir sem á annað borð eru svo vanþroskaðir að þeir hati annað fólk fyrir eitthvað sem það getur ekkert gert að séu hatursfullir, hvort sem þeir eru kristnir eða heiðnir eða whatever. Þegar hatrið fær hins vegar einhverja forskrift, á borð við rasista'bókmenntir', Biblíu eða karlrembu, beinist það hins vegar meira í þá átt, þannig að með því að boða hommahatur má telja næsta víst að Biblían auki þá það, þótt hún sé ekki ástæða þess í sjálfu sér.


Snær - 11/05/04 12:43 #

Birgir, ég verð nú að segja að ég er ekki algerlega sammála með það að kalla blót "sjálfsagða og eðlilega hegðun sem hreinsar taugakerfið." og er það nú ekki beint rökstutt hvernig blót hefur áhrif á taugakerfið. Eða er ég kannski að aðgreina heilann frá öðrum taugum, þegar ekki er aðgreint þannig í skrifum?

Annars er þetta er nú bara andskotans röfl í mér, enda er þetta fínasta grein, og inniheldur marga góða og gilda punkta.

En hanni, þessi vafasömu samfélagsgildi sem þú ert greinilega uppvís að því að bera boðskap af, hvernig skilgreina þau á milli 'góðs' og 'vonds' orðbragðs?

Og hvað nákvæmlega væri að því að hafa börn blótandi "hægri og vinstri" (sem mér þykir nú ansi ýkt, jafnvel þegar ég tek til greina sum óheftustu börn sem ég hef haft kynni af), ef enginn tæki það til sín sem móðgun? Myndi það þá kannski leiða til ofbeldis, og andlegs vanheilbrigðis?

Ég hef mikinn áhuga fyrir því að heyra þig útskýra þetta betur, enda er engan rökstuðning að sjá í svari þínu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/05/04 13:13 #

Vésteinn, hommahatarar finna sér gjarna átyllu fyrir hatri sínu í Biblíunni. Hún smitar þessu út í samfélagið. Og þá er ég ekki bara að tala um Mósebækurnar, heldur er deginum ljósara að Páll Postuli var uppfullur af stæku hommahatri og telur slíka menn jafnvel réttdræpa (Róm 1:26-28 og 31-32).

Þetta er reyndar víða að finna í bókinni helgu.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 11/05/04 17:50 #

Ég veit vel að margir hommahatarar finna sér átyllu í Biblíunni. En þær væru að öllum líkindum samt hommahatarar, þótt engin væri Biblían. Hún er bara skálkaskjól eða léleg afsökun. Það mætti líkja henni við áburð eða skjól, sem bætir vaxtarskilyrðin fyrir fræ hommahatursins. Fræið sjálft kemur annars staðar að.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/05/04 18:38 #

Heldurðu ekki að það geti (og hafi) gerst að trúað fólk tekur upp á að fordæma samkynhneigð beínlínis vegna þess sem stendur í Biblíunni? Getur ekki verið að í einhverjum tilfellum móti sú bók beinlínis viðhorf manna?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/05/04 23:38 #

Mér dettur í hug, nú þegar ég les þetta yfir aftur, myndin Little Big Man með Dustin Hoffman. Í samfélagi indíánanna, sem litla stórmennið kynnist eftir að hafa lent í höndum þeirra, er ekki litið á samkynhneigð sem neitt óeðlilegt. Þarna er einn slíkur piltur sem einfaldlega verður alltaf eftir heima í tjaldbúðum með konunum þegar karlarnir fara á veiðar eða í stríð. Sjálfsagt og eðlilegt, öfugt við viðhorfin í hinu kristna samfélagi hvíta fólksins. Ég er að velta fyrir mér að hve miklu leyti hommahatur er afleiðing kristilegrar innrætingar og get vel séð fyrir mér að þetta sé samfélagslegt fremur en það sem Vésteinn lýsir.

Annars heyrði ég einu sinni merkilega tilgátu um samkynhneigð: Í gegnum árþúsundin, þar sem tíðkaðist að karlar færu til veiða en konurnar væru eftir í búðunum skapaðist nauðsyn á að eitthvað af sæðisbyrgðum flokksins yrði eftir í búðunum, ef ske kynni að karlarnir ættu ekki afturkvæmt. Því urðu til þessar karl-konur, djæfistar sem hugsuðu og hegðuðu sér á kvenlegan hátt, en höfðu engar kynhvatir til kvennanna. Þetta voru einfaldlega varapabbar. Sama gæti einnig hafa gilt um lesbíur sem karllegar og kraftmiklar gengu til veiða með körlunum, en báru engan hug til þeirra, voru eins konar vara-eggjabyrgðir ef bækistöðvarnar yrðu lagðar í rúst meðan karlarnir væru frá.

Athyglisverð pæling.


majae - 12/09/04 13:11 #

ég er ung stúlka... ekki kona takk fyrir. Og efnaskiptakúrinn virkar... spurning um hvað þú villt bara leggja á þig til þess að vera grannur... eins og allt annað.


Ívar M. - 10/05/05 18:30 #

Hanni, geturðu sagt mér afhverju þú vilt ekki að börnin þín séu bölvandi og ragnandi? Hver er ástæðan? Er það kannski af því að þér var sagt að það sé rangt, hefurðu einhverntíman prófað að setjast niður og hugsa af hverju þér þyki rangt að blóta? Prófaðu það, og segðu mér svo afhverju.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.