Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þegar byltingin át skapara sinn

Það þarf ekki að fletta mörgum kennslubókum sem ritaðar eru af kristnum höfundum til að sjá að eitt merkasta framlag lúterskrar trúar á Íslandi er lestrarkennsla. Lúter hafði þá hugsjón að færa messur úr latínu yfir á móðurmál kirkjugesta svo að söfnuðurinn skildi orð Guðs. Til að bæta frekar þá þekkingu varð Lúter ljóst að kenna yrði fólki að lesa Biblíuna. Með því að færa hana yfir á móðurmál almennings að viðbættu læsi yrði trúin þannig fest í sessi um aldur og ævi.

Þessi aðferð Lúters kom til framkvæmda í flestum löndum mótmælenda. Þannig var almenningi kennt að lesa með tíð og tíma. Það varð eitt af hlutverkum presta fyrr á öldum að kanna þekkingu fólks á lestri og koma úrbótum af stað þar sem skóinn kreppti að. Auðvitað var einvörðungu ætlast til þess að vannærður lýðurinn læsi ritninguna, bænakver og sálma. En Lúter karlinn sem margsinnis hafnaði skynsemi í ræðum sínum misreiknaði sig illilega. Því með aukinni lestarkunnáttu komst fólk í tæri við nýja þekkingu.

Í stað þess að stíf Lútersk bókstafstrú héldi velli hefur hver kristilega varnarlínan af annarri hopað fyrir trúfrelsi, lýðréttindum, kvenfrelsi o.s.frv. Segja má að nú standi varnarlínan hér á landi við réttindi samkynhneigðra. Auðvitað eiga kirkjuyfirvöld eftir að gefast upp með alla sína bágu fordóma, enda ætla uppfræddir leikmenn sem lærðir innan kirkjunnar ekki að hlýða kalli biskups í þeim málum. Allt vegna þess að læsi færir fólki nýja þekkingu til að hafna aldagömlum trúarfordómum.

Nú blasir við að kristin trú mun halda áfram að hopa með nýjum kynslóðum sem láta ekki lengur mata ofan í sig ævintýrasögur geitahirða sem sannleik. Þannig má segja að lestrarkennsla Lúters sé nú á góðri leið með að kveða niður afturgönguna frá Nasaret. Mikið verður sá dagur gleðilegur þegar fyrsti vígði íslenski presturinn mun opinberlega ganga af trúnni, þökk sé Lúter.

Frelsarinn 09.05.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Skúli - 10/05/04 11:40 #

Ég hef lúmskt gaman af þér "frelsari" og hlakka til þess dags er þú frelsast undan dulnefninu og opinberar þitt rétta nafn.

Eitt og annað ber að gagnrýna í þessum pistli þínum og einhverju má bæta þar við:

  1. Þetta með að hver lesi Biblíuna tengist því að L. leit svo á að skilningur lesandans ætti að vera undir sjálfum honum kominn - andstætt rómv.kirkjunni sem tróð sér þar einatt á milli. Þarna höfum við því einn mikilvægan upptakt að þeirri einstaklingshyggju sem síðar varð drottnandi. Þetta tengist vel efni þínu.

  2. Það er svolítill misskilningur að almúganum hafi bara verið gert að lesa Guðs orð og útleggingu á því. Það er raunar ekki fyrr en með upplýsingunni sem virkt andóf hefst gegn alþýðudundi s.s. rímum og þjóðsögum. Fram að því höfðu kirkjunnar menn lagt á sig mikið erfiði við að halda veraldlegum ritum, s.s. Ísl.sögum, lögum og þjóðlegum fróðleik ýmisskonar til haga. Fræg eru orð Lúthers um alþýðuskemmtanir o.þ.h. sem sumir fylgismanna hans vildu banna með öllu: "Leyfum krökkunum að leika sér".

  3. "Lúther karlinn" var ekki á móti skynseminni - nema það að hann taldi hana ekki hafa hjálpræðisgildi. Fyrir vikið tók hann oft stórt upp í sig er hann tjáði sig um það þegar fólk ætlar að nálgast Guð með skynsemina að vopni. Hann var að sama skapi á móti því að kirkjan væri að grufla í þeim málum sem skynsemin ein ætti að drottna yfir. Þarna er annar upptaktur sleginn - verkaskipting og nútímalegt skipulag.

  4. Lúther var að sama skapi mjög fylgjandi því að kirkjan breyttist frá kynslóð til kynslóðar. Kjörorð siðbreytingarinnar var , eins og allir vita: "Kirkjan á alltaf að siðbætast!". Þetta lýtur ekki bara að gæðastjórnun (!) heldur er þetta ákall til manna um það að festast ekki í hjólförunum og reyna stöðugt að sníða af fúnaða kvisti svo nýir og gróskumiklir fái litið dagsins ljós.


Frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 20/05/04 02:12 #

Sæll Skúli. Ég biðst afsökunar að hafa ekki svarað þessu strax. Ég tók ekki eftir athugasemdinni. Það skal líka fúslega viðkennt að nafnleyndin er frekar aum. Eftir nokkra umhugsun tók ég þá ákvörðun, ekki endilega til að hlífa sjálfum mér, heldur frekar mjög svo trúuðum þjóðkirkju ættingjum :) Maður vill ekki særa nokkra sálu að óþörfu.

Það er alltaf gaman sjá hvað menn vilja gera Lúter óþarflega frjálslyndan. Hann vildi vissulega gera miklar breytingar á kirkjunni og samband hennar við veraldlegt vald. Ég held samt að Lúter karlinn hafi ekki haft hugmynd um afleiðingarnar og um það átti pistillinn að fjalla.

Ég langar til að þakka þér fyrir skemmtileg skrif á netinu jafnt á Annall.is og hérna á Vantru.net

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.