Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kirkjulegt áreiti

Er það bara ég, eða getur verið að kirkjan sé í extra mikilli PR-herferð þessa dagana?

Síðustu vikur og mánuði hef ég ekki komist hjá að taka eftir því að þjóðkirkjan fær sérdeilis mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Ekki nóg með að þetta troði sér í alla fréttatíma, heldur virðist varla vera hægt að halda úti hálfum viðtalsþætti öðruvísi en leita til kirkjunnar þjóna og leyfa þeim að rambla um Guð sinn. Kringum páskana var mér alveg nóg boðið af öllu þessu leiðindaáreiti, en gekk út frá því að þetta væri allt í tengslum við hátíðina og nóg að þreyja hana af sér.

En það er annað upp á teningnum. Þetta hefur síst minnkað og varla hægt að opna fyrir útvarp, eða fletta dagblaði öðruvísi en einhver presturinn sé gapandi.

Hvað á þetta að þýða? Er svona mikil gúrkutíð í landinu að þetta er það eina sem fjölmiðlafólki dettur í hug að tefla fram? Eða er kirkjan komin með svona góðan PR-mann?

Kannski þetta séu viðbrögð við aukinni andkirkjulegri umfjöllun á borð við þá sem fer fram hér. En sennilega er þetta einhver ásetningur hjá kirkjuliðinu um að gera kirkjuna sýnilegri.

Og sýnileg er hún. Maður gæti haldið að maður byggi við klerkaveldi. Hvenær má búast við Muttawa inn á teppið hjá okkur?

Fjölmiðlafólk: Það er af nógu af taka í þessum dásamlega heimi okkar, fjölmörg undur og stórmerki bíða þess eins að þið gerið þeim skil. Það er engin ástæða til að láta þessa gráðugu miðaldastofnun með sýniþörf vaða svona uppi. Hún á ekkert erindi við nútímann, boðar ekki annað en úrelt skyldusiðferði í bland við hindurvitni.

Út af með kirkjuna!

Birgir Baldursson 29.04.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Sveinn Ó. Kristinn - 30/04/04 00:09 #

Hvað myndir þú gera ef þú starfræktir fyrirtæki og 43% viðskiptavinanna hefðu ekki áhuga á að nota vörunar sem þú seldir þrátt fyrir að hafa greitt fyrir þær? Þrátt fyrir að kennt sé í grunnskólum landsins að vörur þínar séu nauðsynlegar og þær einu sem skipta máli og þrátt fyrir gengdarlausan áróður hvar sem hægt er að koma því við!

Myndir þú ekki reyna að gera eitthvað, t.d. fara í PR-herferð?


Skúli - 30/04/04 18:17 #

Fjölmiðlar eru greinilega búnir að fatta það að engin hreyfing í landinu hefur jafn GRÍÐARLEG áhrif og kirkjan. Ekki verkalýðsfélög, ekki stjórnmálasamtök, ekki klúbbar, ekki starfsgreinar - júneimitt - ekkert státar af jafn gríðarlegu fylgi og kirkjan.

Þessi 43% ber að túlka í réttu ljósi ;). Önnur statistík bendir til þess að stór hluti þeirra leitar til prests á bestu og verstu stundum lífs síns, stór hluti þeirra hefur tekið þátt í barnastarfi.

Svo má ekki gleyma því að ákveðið hlutfall hvers mannlegs samfélags eru réttnefndar sófakartöflur - sem aldrei fara neitt. ;)

Hitt er annað mál að þið vantrúaðir hafið pótentíal til þess að auka enn á trúarlega umræðu og þ.m. vekja áhuga fólks á kirkjunni. Hver veit nema að einhver prósentin - eða prómillin - þarna í könnuninni megi rekja til ykkar skrifa!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/04/04 21:52 #

Jamm, ég ætti því að fá inni í himnaríki, ef eitthvað réttlæti ríkir í þeirri heimsmynd sem fyllir koll þinn.


Sveinn Ó. Kristinn - 02/05/04 12:09 #

Kirkjan er sterk, satt er það. En könnunin bendir samt til þess að stór hluti fólks hafi ekki áhuga á boðskap hennar. Þarna eru því sóknarfæri fyrir okkur, guðleysingjana, og þakkarvert að kirkjan skuli auglýsa veikleika sína með þessum hætti. Það er því ekkert óraunhæft markmið að hægt sé að afdjöfla helming þjóðarinnar á næstu 10-20 árum eða svo!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.