Ég minnist þessara orðaskipta foreldra minna frá því ég var lítill:
Mamma: Ég mætti [nafnið á þekktum sjarmör úr þjóðlífinu sem ég man ekki hver var] í Austurstræti í dag og hann brosti til mín.
Pabbi: (áhugalaus) Aha.
Ég skildi ekki þetta áhugaleysi föður míns, því í huga mér var móðir mín að draga upp mynd af fögru mannlífi, þar sem fólk brosti hvert til annars á götum úti. Glansmyndin af borgarlífinu var að skjóta rótum. Ég hélt áfram að leika mér en óþreyjan eftir að taka þátt í hinu spennandi og fagra lífi fullorðna fólksins byrjaði að krauma hið innra.
En það var ekki fyrr en ég var kominn á fullorðinsár, og búinn að átta mig á að mannlífið var ekki í neinu samræmi við myndina í höfðinu, að hin undirliggjandi meining varð mér ljós þegar þetta samtal foreldra minna rifjaðist upp fyrir mér:
Mamma: (Ég á enn séns í aðra karla, þú þarna skalt sko bara passa þig).
Pabbi: (Já, góða farðu bara).
Ég hallast að því að mannskepnan sé miklu ófullkomnari, hvatvísari og geðveilli í það heila en glansmyndin af fögru mannlífi í heilbrigðu þjóðfélagi segir okkur. Við erum í raun ekkert annað en talandi kakkalakkar. Drifkrafturinn á bakvið vafstur okkar sá sami, hungur og samfaraþrá. Mannlegt skipulag er hagkvæmniskerfi sem setur hömlur á þetta tvennt og ótalmargt annað, svo samfélagið blómstri frekar, en plantar um leið þessum undurfurðulegu ranghugmyndum í hausinn á okkur.
Það er glansmyndin um fyrirmyndarhjónalíf sem rekur okkur í sambúð. Og ef hegðun makans er ekki í fullkomnum takti við þessa mynd verðum við óhamingjusöm. Glansmyndin hljóðar upp á að þessar tvær mannverur séu samstíga, þótt þannig sé því sjaldnast farið.
Pólitískar glansmyndir eru kannski þær óraunhæfustu af öllum. Vinstri hugmyndir um lýðfrelsi, jafnrétti og bræðralag manna, þar sem enginn líður skort og mannsandanum er lyft á æðra plan gegnum listir og rökræður um aðskildustu málefni - ef til vill er þetta glansmynd sem gersamlega ómögulegt er að hrinda í framkvæmd. Kannski erum við bara ekki svoleiðis skepnur þegar upp er staðið.
Hugsið um það.
Hvað á það að þýða að vera að tala um þetta?, spyrjið þið kannski. Hvað er það eiginlega sem mótíverar mig til að fletta svona glimmerinu af tilveru okkar og háttum? Af hverju get ég ekki bara tekið fullan þátt og hætt að draga endalaust upp ljótar myndir af fólki og umhverfi? Er þetta einhver illgirni og niðurrifsstarfsemi? Er ég að öfundast út í aðra sem lifa lífi sínu í pörfekt harmóní? Get ég ekki séð þetta fólk í friði?
Jú jú. Ætli það sé ekki þrá mín eftir að skilja hlutina í sínu rétta samhengi sem þarna er að verki. Sennilega er þetta vísindamaðurinn hið innra, sá er Desmond Morris vakti kannski upp í mér fyrir tveimur áratugum, sem hamast þarna innan höfuðkúpunnar, fyrst hann fékk ekki að ráða lífi mínu.
En svona tal kemur oft illa við þá sem til heyra. Kannski er það minn draugur að dragnast með. Það getur verið erfitt að hafa röntgenaugu.
Mér finnst þetta nú reyndar frekar vel skrifaður pistill, með þeim bestu hér á vantrú. Ég er sérlega ánægður með fyrri helminginn. Kakkalakkar: gott, kakkalakkar eru mjög áhugaverð kvikindi. Við erum talandi kakkalakkar með bílpróf og kjarnorkusprengjur. Og mér finnst kristallast í þessum pistli sú skoðun mín að bókmenntir (sbr. þessi pistill) veita meiri innsýn í mannshugann (sbr. t.d. observasjónin um samtal foreldranna) heldur en lýsingar á heilaferlum.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Dr. Schnitzel - 25/04/04 19:57 #
Ég held þú sért nú ekki með nein röntgenaugu, þetta er meira Salinger en Sjón. Baráttunni fyrir því að opna augu fólks fyrir sannleikanum um trúarbrögð er varla greiði gerður með því að líkja manninum við talandi kakkalakka og gefa í skyn að heimssýn sem byggir á virðingu og siðferðislegri hugsun og hegðun sé hégómi. En ég get ekki neitað því að sannleikskorn leynist í þessum pistli, maðurinn er gallaður og gengur illa að fela það. Þeir sem eru blindaðir af glýju glansmyndanna hafa eflaust gott af því að yfirborðið sé rispað svolítið.